Hoppa yfir valmynd
30. maí 2008 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Aðalfundur Landssambands fiskeldisstöðva 30. maí 2008

Ávarp Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

á ársfundi Landssambands fiskeldisstöðva

haldinn á Akureyri 30. maí 2008.

 

Ágætu ársfundarfulltrúar!

 

Það er mikið ánægjuefni hitta ykkur fiskeldismenn hér í dag, ekki síst þar sem nú er orðið ljóst að lagafrumvörp sem ég lagði fram á vorþinginu og tengjast fiskeldi hafa verið samþykkt af Alþingi og verða að lögum.

 

Hér er í fyrsta lagi um að ræða ný lög um fiskeldi en með þeim eru sameinuð í ein lög ákvæði sem voru í lögum nr. 57/2006, um eldi vatnafiska og lögum nr. 33/2002, um eldi  nytjastofna sjávar, sem bæði hafa verið felld úr gildi. Einnig er í nýju lögunum gert ráð fyrir að stjórnsýsla og eftirlit með fiskeldi verði að mestu flutt til frá Matvælastofnun til Fiskistofu. Áfram er þó að sjálfsögðu gert ráð fyrir að Matvælastofnun fari með eftirlit með lögum og stjórnvaldsreglum sem lúta að matvælaeftirliti og heilbrigði eldisfiska. Þá er í lögunum gert ráð fyrir að fiskeldisnefnd starfi ekki lengur eftir gildistöku þeirra en fiskeldið heyrði undir tvö ráðuneyti, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti fram að síðustu áramótum og var nefndin eins konar samvinnuvettvangur þessara ráðuneyta. Þar sem atvinnugreinin heyrir nú undir eitt ráðuneyti er ekki er lengur talin þörf á að hafa slíkan samvinnuvettvang. Að öðru leyti er ekki gert ráð fyrir breytingum á framkvæmd eða inntaki stjórnsýslu og eftirlits í þessum málaflokki.

 

Í öðru lagi er hér um að ræða lög um breytingar á ýmsum lögum vegna flutnings stjórnsýslu- og eftirlitsverkefna á sviði lax- og silungsveiði, fiskræktar o.fl. til Fiskistofu. Með þeim er gert ráð fyrir að öll starfsemi samkvæmt lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, lögum nr. 58/2006, um fiskrækt og fleiri verkefni sem varða stjórnsýslu og eftirlit með ferskvatnsfiskum verði flutt frá Matvælastofnun til Fiskistofu þar sem stofnað verði sérstakt starfssvið til að annast þessa málaflokka. Einnig felst í þeim lögum að Veiðimálastofnun verður veitt heimild til að eiga aðild að rannsókna- og þróunarfyrirtækjum sem eru hlutafélög eða önnur félög með takmarkaðri ábyrgð á tilteknum sviðum og áréttuð er tiltekin verkaskipting við söfnun gagna sem viðhöfð hefur verið í framkvæmd milli Veiðimálastofnunar og annarra stofnana sem fara með veiðimál. Þá hefur verið samþykkt frumvarp til nýrra laga Fiskræktarsjóð sem ég lagði einnig fyrir þingið en þau fela í sér nokkrar breytingar á starfsemi sjóðsins.

 

Markmið nýju laganna um fiskeldi er að skapa skilyrði til uppbyggingar eldis vatnafiska og nytjastofna sjávar og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu. Þá er það einnig markmið laganna að einfalda og samræma stjórnsýslu og eftirlit á þeim sviðum sem þau gilda um. Ég vænti þess að að þær ráðstafanir sem felast í lögunum leiði til þess að öll starfsemi sem þau fjalla um verði mun skilvirkari og markvissari og að þau verði þannig til hagsbóta og til að efla og styrkja fiskeldi sem atvinnugrein hér á landi.

 

Verulega sviptingar hafa verið í fiskeldinu að undanförnu. Fiskeldisfyrirtækin hafa að mestu lagt af laxeldið, þar sem samkeppnisaðstaða okkar er lakari en keppinautanna. Fiskeldisfyrirtækin hafa í auknum mæli lagt áherslu á bleikjueldi og tilraunir með þorskeldi. Í bleikjueldinu höfum við náð góðum árangri og þar erum við í forystu að því er varðar framleiðslu og eldistækni. En það er oft þannig að velgengni geta fylgt vandamál. Á árinu 2006 var slátrað um 1400 tonnum af bleikju  Á árinu 2007 var slátrað um 2200 tonnum og á þessu ári er gert ráð fyrir 3000 tonna framleiðslu. Verðmæti hennar er áætlað um 1,5 milljarðar króna. Þótt vel hafi gengið að selja bleikjuna og hún seljist á mun hærra verði en lax, þá hefur ekki tekist að selja alla framleiðsluna ferska.

 

Bleikjan er lítt þekkt á mörkuðum og markaðssetningin krefst mikillar vinnu og fjármuna. Á þessu ári hefur orðið að frysta talsvert af eldisbleikju sem selst svo á lægra verði en fersk.  Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur stutt verulega við markaðssetningu á bleikju. AVS sjóðurinn lagt fram umtalsverða fjármuni til markaðsverkefna fyrir eldisbleikju og hefur úthlutað um 38 m.kr til fimm verkefna á árunum 2007 og 2008. Þá hefur Framleiðnisjóður landbúnaðarins stutt við markaðassetningu bleikjunnar. Vonir standa til að þau markaðsverkefni sem nú er unnið að muni skila sér þannig að fljótlega   skapist jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar.

 

AVS sjóðurinn hefur nýlega lokið við úthlutun í sjötta sinn og aldrei hafa fleiri verkefni fengið jafn öflugan stuðning og á þessu ári. Sjötíu og þrjú verkefni, stór og smá, hafa verið styrkt það sem af er árinu með alls 328 m.kr.

 

AVS sjóðurinn úthlutaði fyrst árið 2003, 74 m.kr til 34 verkefna og síðan þá hefur hann vaxið jafnt og þétt og eflst til muna. Sjóðurinn skiptir miklu máli fyrir rannsóknir, þróun og nýsköpun í íslenskum sjávarútvegi og hafa þeir sem stunda fiskeldi notið góðs af öflugri starfsemi hans. Alls hafa 45 verkefni sem teljast til fiskeldis verið styrkt. Þessi verkefni geta staðið yfir í 1-3 ár, þannig að styrkirnir eru umtalsvert fleiri eða um 80 talsins.

 

AVS sjóðurinn hefur lagt tæplega 370 m.kr til rannsókan á sviði fiskeldis og ekki er óvarlega áætlað að unnin hafa verið verkefni sem efla greinina fyrir um 800 m.kr á síðastliðum árum, þar sem sjóðurinn fjármagnar að hámarki helming hvers verkefnis.

 

Tilraunir með þorskeldi hafa gengið vel á undanförnum árum. Áætlað er að framleiðslan verði um 1500 tonn á þessu ári. Eins og við vitum þá byggjast tilraunir með þorskeldi á úthlutun kvóta og söfnun á seiðum og ungfiski. Mikilvægt er að hægt verði að framleiða kynbætt eldisseiði sem þorskeldisfyrirtækin byggi framleiðslu sína á. Nefnd sem skipuð var af mér í november sl. og ætlað er að koma með tillögur um aðgerði til eflingar þorskeldis á Íslandi er enn að störfum, en mun skila niðurstöðu sinni fljótlega. Mikilvægt er að stórefla seiðaframleiðslu í þorski og veit ég að tillögur nefndarinnar munu fjalla um hvernig það verði best framkvæmt.

 

Einnig er starfandi nefnd um kræklingaeldi og lýkur hún brátt störfum.

 

Að lokum vil ég vil ég segja við ykkur ágætu aðalfundarfulltrúar að ég bind miklar vonir við fiskeldið og óska fundinum alls hins besta í störfum sínum

 

 

 

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta