Sveitasæla, landbúnaðarsýning og bændahátíð á Sauðárkróki 15. ágúst 2008.
Ávarp Einars K. Guðfinnssonar,
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,
flutt við upphaf Sveitasælu, landbúnaðarsýningar og bændahátíðar,
á Sauðárkróki 15. ágúst 2008.
Þegar allt velkist um hratt og fátt verður eins og var er ekki óeðlilegt að við spyrjum, hvort okkur sé ógnað eða hvort við sjáum tækifæri í framtíðinni. Íslenskur landbúnaður hefur verið vettvangur tækifæra. Ekki síst vegna þess að menn hafa mætavel gert sér grein fyrir því að fátt er hættulegra atvinnugrein sem vill vera í fararbroddi, en stöðnunin.
Og mönnunum munar annað hvort afturábak ellegar nokkuð á leið, sagði listaskáldið góða Jónas Hallgrímsson. Hann skynjaði það sem við vitum svo vel, að lífsneista hverrrar tíðar verður ekki haldið lifandi nema menn skynji æðaslátt samtímans og hræðist hann ekki.
Landbúnaðurinn hefur svo sannarlega upplifað miklar breytingar. Við sem höfum heyjað okkur nokkra lífsreynslu vitum það. Ótrúlegar breytingar hafa átt sér stað í sveitum landsins. Framfaranna sér hvarvetna stað. Og eitt vitum við. Ef bændur hefðu óttast breytingar væri hér enginn landbúnaður. Þess vegna er það skylda okkar sem viljum landbúnaðinum allt hið besta að tryggja að hann fái að auðgast með nýjum tækifærum og það jafnvel þótt þau virki ógnandi við fyrstu sýn.
Íslenskir bændur hafa skynjað æðaslátt samtímans og hika ekki við að takast á við breytingar. Sú ótrúlega fjölbreytni sem er einkenni þess starfs sem í sveitunum er unnið er gleggsta merkið um þetta. Hún er til marks um að bændur hafa tekist óhikað á við breytingarnar. Ekki til þess að verða leiksoppur þeirra, heldur til þess að skynja tækifærin og nýta þau til hagsbóta fyrir það fólk sem starfar að landbúnaði.
Á þeim breytingatímum sem við lifum nú skiptir það hins vegar máli að til staðar sé kjölfesta. Landbúnaðurinn er íslensku þjóðfélagi slík kjölfesta. Þess vegna meðal annars, viljum við tryggja hagsmuni hans í hvívetna. Þær breytingar sem fyrirsjáanlegar eru, til dæmis með nýrri matvælalöggjöf, verða gerðar með hagsmuni íslensks landbúnaðar að leiðarljósi. Við munum gera strangar kröfur um heilbrigði matvæla og öll vitum við að slíkt þjónar hagsmunum landbúnaðarins, enda þótt það sé gert í þágu neytenda. Er þetta enn ein sönnun þess að hagsmunir landbúnaðarins og neytenda fara jafnan saman.
Um þessar mundir fer fram þrotlaus vinna á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins varðandi nýja matvælalöggjöf. Við viljum kosta kapps um að vinna þá hluti í sem mestri sátt við bændur og aðra hagsmunaaðila á sviði landbúnaðar. Sjálfur er ég sannfærður um að slíkt samstarf getur dugað okkur til þess að ná niðurstöðu sem verður viðunandi landbúnaðinum og færir honum ný tækifæri.
Á undanförnum árum hefur verið lagt mikið fjármagn í uppbyggingu afurðastöðva landbúnaðarins. Ekki síst hér á Norðurlandi vestra. Þrjú af helstu sláturhúsum landins eru til dæmis starfrækt hér í Skagafirði og í Austur og Vestur Húnavatnssýslum auk annarrar starfsemi við úrvinnslu landbúnaðarafurða. Þessi fyrirtæki eru vel í stakk búin til að mæta þeim skilyrðum sem vænta má. Við höfum nefnilega á undanförnum árum undirbúið okkur vel á margan hátt og gerum nú gríðarlega miklar kröfur til matvælaframleiðslu okkar. Nákvæmlega sömu kröfur – og alls ekki minni - verða gerðar til framleiðslu á öllum matvælum sem hér verða seldar. Slíkt er gert í þágu neytenda og tryggir um leið hina sterku stöðu íslenskrar matvælaframleiðslu, ekki síst framleiðslu á landbúnaðarafurðum.
Það er ljóst að stjórnvöld hafa svigrúm í þá veru að setja skorður við innflutningi á matvælum sem ekki standast ítrustu kröfur. Það er ætlun mín að nýta það svigrúm til hins ítrasta. Ég ætla líka að fullyrða að fáir vilja ganga þannig frá löggjöfinni að hagmunir landbúnaðarins og úrvinnslugreinanna verði fyrir borð bornir. Það er í það minnsta ásetningur stjórnvalda að hagsmuna landbúnaðar okkar sé gætt.
Hér í Skagafirði sjáum við glæsileg dæmi um það hvernig landbúnaðurinn hefur á öllum tímum svarað kalli tímans. Öflugur og fjölþættur búrekstur um allan Skagafjörð, traust menntasetur landbúnaðarins á Hólum, kröftug úrvinnsla landbúnaðarafurða. Allt er þetta til marks um það góða starf sem hér er unnið á landbúnaðarsviðinu. Allt eru þetta dæmi um landbúnað sem við viljum að geti eflst á komandi árum og við vitum að getur eflst enn í framtíðinni.
Þess vegna eigum við ekki að óttast breytingar, heldur takast á við þær. Stjórnvöld hafa þar hlutverki að gegna. Það hlutverk felur í sér varðstöðu um hagsmuni landbúnaðarins. Ekki með því að varðveita kyrrstöðuna, heldur með því að auðvelda okkur að takast á við framtíðina og breytingarnar og nýta okkur þau tækifæri sem í þeim eru falin.
Góðir gestir.
Sveitasæla er réttnefni á landbúnaðarsýningunni og bændahátíðinni sem við erum nú í þann mund að hefja. Og það er líka eitthvað svo skagfirskt við þetta nafn. Sveitasæla dregur strax upp í hugann minningar um Sæluviku, sælu og gleði. Við skulum nú í skagfirskri sveiflu, - skagfirskri sælusveiflu, vinda okkur inn í þessa hátíð og sýningu, kynna okkur það sem hæst ber, njóta afþreyingar, en umfram allt að eiga góðar stundir saman og sanna sem fyrr, að maður er manns gaman.
Sveitasæla, landbúnaðarsýningin og bændahátíðin er sett.