Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2008 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Fundur Félags sauðfjárbænda í Dalasýslu 27. ágúst 2008

SLR08030068/ 1.1.3

Ræða Einars K. Guðfinnssonar,

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

flutt á fundi Félags sauðfjárbænda í Dalasýslu 27. ágúst 2008

 

Ég þakka Félagi sauðfjárbænda í Dalasýslu fyrir að bjóða mér að taka þátt í þessum fundi, sem haldinn er við upphaf sláturtíðar til að ræða stöðu sauðfjárræktar í ljósi markaðsaðstæðna og mikilla kostanaðarhækkana, sem dunið hafa yfir landbúnaðinn á þessu ári.

Það er ætíð gott að hittast til að ræða málin. Markmiðið með svona fundi hlýtur – og ekki síst við þessar aðstæður – að vera það að reyna að leita lausna, eða að minnsta kosti freista þess að skýra myndina svo við getum betur gert okkur grein fyrir því sem við er að etja. Ég vil þó segja strax í upphafi að þau vandamál sem við munum ræða hér í kvöld eru ekki auðveld úrlausnar, né leiðir einhlítar.

Mér finnst rétt í upphafi að rekja helstu markmið samningsins um starfsskilyrði sauðfjárræktar, sem tók gildi um síðustu áramót og gildir til 31. desember 2013. Ég bind miklar vonir við þennan nýja samning og tel hann að mörgu leyti marka framfaraspor fyrir greinina, og við megum ekki tapa sjónar af þessum markmiðum, þótt verðlagsþróunin sé bændum mótdræg nú um stundir.

Helstu markmiðin eru þessi:

  • Að efla sauðfjárrækt sem atvinnugrein og bæta afkomu sauðfjárbænda.
  • Að stuðla að nýliðun í hópi sauðfjárbænda og styrkja búsetu í dreifbýli.
  • Að sauðfjárrækt sé stunduð í samræmi við umhverfisvernd, landkosti og sjálfbæra landnýtingu.
  • Að örva markaðsvitund bænda og afurðastöðva og halda jafnvægi milli framleiðslu og eftirspurnar.
  •  Að stuðla að framþróun í sauðfjárrækt.

Þá er einnig rétt að rifja upp að helstu efnisatriði samningsins:

  • Framlög ríkisins hækkuðu um 300 millj. kr. og eru 3.538 millj. kr. á fyrsta ári samningsins. Framlögin lækka síðan í áföngum á samningstímanum um nær 1% á ári að raunvirði.
  • Samningurinn er nokkuð einfaldaður frá eldri samningi. Greiðsluleiðum til bænda var fækkað, t.d. var jöfnunargreiðslum breytt í beingreiðslur auk þess að undanþága frá útflutningsskyldu er felld niður í áföngum. Útflutningsskylda fellur svo niður frá og með framleiðsluárinu 2009.
  • Nýmæli í samningnum er sérstakt ákvæði um veitingu fjármuna til að efla nýliðun í stétt sauðfjárbænda.
  • Framlög til gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu eru aukin og verða hærra hlutfall af greiðslum til bænda af samningsfé, en samkvæmt eldri samningi.
  • Bændur sem eru orðnir 64 ára eiga áfram kost á að gera samning um búskaparlok án þess að tapa rétti til beingreiðslna.
  • Greiðslur vegna ullarframleiðslu eru óbreyttar.
  • Ákvæði um aðilaskipti að greiðslumarki eru óbreytt.

Óhætt er að segja að bændur hafi almennt verið mjög sáttir við þennan samning, a.m.k. að flestu leyti, og menn voru bjartsýnir á framtíðina. Það sem síðan hefur breyst til verri vegar er hins vegar sú gríðarlega hækkun á aðföngum, sem bændur þurftu að mæta á síðasta vetri og ekki sér fyrir endann á. Þar ber hæst hækkun á áburði, fóðri og olíu, auk feiknalega hárra vaxta, sem forysta bænda metur svo að hafi hækkað framleiðslukostnað dilkakjöts um 90-100 kr. á kíló.

Þessi sömu áhyggjuefni voru efst á baugi á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda sl. vor, en í ávarpi mínu við setningu fundarins komst ég svo að orði:

“Það er engin ástæða til þess að draga fjöður yfir það að þessi þróun er bændum afar erfið, en jafnframt eru úrræðin ekki mjög mörg. Inngrip ríkisins, til dæmis með tímabundnum niðurgreiðslum, er til dæmis ekki alveg einfalt mál og árangurinn yrði væntanlega í besta falli umdeilanlegur. Það hefur því sjaldan verið brýnna en nú, að bændur og ráðunautar þeirra velti við hverjum steini til að ná fram sem hagkvæmastri nýtingu allra aðfanga. Sama gildir að sjálfsögðu um fjárfestingar. Þar geta bændur örugglega náð umtalsverðum árangri með því að vega og meta, betur en margir gera, arðsemi hverrar fjárfestingar áður en í hana er ráðist, hvort heldur er í tækjum, fasteignum eða öðrum framleiðsluþáttum.”

Ég treysti mér ekki til að orða þetta nokkuð öðruvísi í dag.

Það var talsvert rætt um það í vor, hvort ríkið ætti að grípa inn í áburðarverðið með niðurgreiðslum en hvort tveggja var, að ekki var samstaða um það og eins að því var spáð að áburðarverðið mundi ekki lækka í bráð, þannig að einskiptis aðgerð, eins og um var rætt, væri engin lausn til frambúðar. Þar að auki yrði svona aðgerð ómarkviss hvað nýtingu fjármuna varðar. Það sem ég á hér við er það að alls ekki var augljóst að niðurgreiðsla áburðarverðs af hálfu hins opinbera hefði skilað sér í vasa bænda. Við þær aðstæður sem hafa verið og eru til staðar á áburðarmarkaðnum, þar sem verðhækkun er svo mikil, er fráleitt ljóst að þeir fjármunir muni skila sér til bænda. Þess vegna deili ég því sjónarmiði með þeim mörgu sem hafa talið þessa aðferð óskilvirka. Því miður virðist nú liggja fyrir að áburður hækki enn í verði fyrir næsta sumar. Á hinn bóginn hefur fóðurverð lækkað nokkuð aftur og eins olían, þótt enginn reikni með að hækkanir síðasta árs gangi allar til baka. Við gerum ráð fyrir að verðbólga hjaðni hratt á næsta ári  og að sú þróun hefjist fljótlega og þar með að vextir færist smám saman í eðlilegt horf. Hér er ekki um að ræða pólitískt mat mitt, heldur skoðun nær allra þeirra sem ræða efnahagsmálin, meðal annars allra greiningardeilda bankanna. Skýrar vísbendingar eru um þetta í þjóðarbúskapnum, svo sem minni einkaneysla, minni innflutningur ýmissa neysluvara og síðat en ekki síst sú staðreynd að jafnvægi virðist vera að myndast á innflutningi og útflutningi okkar. Hitt vil ég segja alveg skýrt. Við þetta ofurháa vaxtastig getur íslenskt atvinnulíf ekki búið til langframa. Það er því geysimikið í húfi að vextirnir fari að lækka.

En við skulum ekki horfa framhjá því, að enda þótt hinar erlendu hækkanir aðfanga valdi okkur búsifjum, þá er það ekki bundið við Ísland, heldur hefur þessi bylgja gengið yfiir allan heiminn, og í raun er það svo, sérstaklega vegna mikillar lækkunar á gengi krónunnar á fyrri hluta ársins, að samkeppnisstaða innlendrar matvöru gagnvart innflutningi hefur mikið lagast, og samanburðarmyndin sem við okkur blasir í verslunum er allt önnur í dag en hún var fyrir tveim árum. Sú mynd var auðvitað röng, af því að gengið var óraunhæft gagnvart allri samkeppnisstarfsemi hér á landi. Það er því hollt fyrir þá, sem mest hafa básúnað um dýrar íslenskar búvörur að skoða stöðuna í dag, og vonandi draga einhverjir þeirra réttar ályktanir af því.

Ég sagði áðan að almenn sátt hefði ríkt um sauðfjársamninginn, enda tókst að verja í honum framlög ríkisins betur en margir þorðu að vona, og reyndar var bætt verulega í. Það er auðvitað vegna þess að ríkisstjórnin bæði sú sem stóð að gerð sauðfjársamningsins og sú sem nú situr, vill standa vörð um sauðfjárbúskap og gerir sér grein fyrir mikilvægi hans í byggðakeðjunni. Samningurinn fól í sér bæði aukningu á og tilfærslu yfir í framleiðslutengdar greiðslur, sem þýðir styrkingu fyrir þá sem hafa verið að auka framleiðslu og ætla sér að lifa fyrst og fremst af sauðfjárbúskap. Við stöndum hins vegar frammi fyrir því, vegna alþjóðlegra skuldbindinga á vettvangi WTO, Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, að lengra verður varla gengið á þeirri braut; þvert á móti munum við þurfa í framtíðinni að draga fremur úr þeim greiðslum sem beint tengjast framleiðslu og í raun að endurskoða fyrirkomulag opinbers stuðnings við landbúnaðinn. Enda þótt viðræðurnar hjá WTO hafi siglt í strand í sumar, er næsta víst að niðurstaða næst á endanum, þótt það dragist enn á langinn. Ég vil svo leggja áherslu á það, sem ég hef marg oft tekið fram, að breytingarnar þurfa ekki að fela í sér minni stuðning við landbúnaðinn, þótt forminu verði eitthvað breytt, og stjórnvöld ætla sér enn sem fyrr að standa vörð um landbúnaðinn.

Það hlýtur alltaf að vera grundvallarstefna sauðfjárbænda að sækja sem mestan hluta tekna sinna með sölu afurðanna. Þess vegna er það umhugsunarefni, hvort það yrði greininni til framdráttar, til lengri tíma litið, að bæta við opinberan stuðning umfram það sem nú er. Það verður hins vegar  að vera mat bændanna og þeirra sem annast afurðasölu þeirra, hvað þeir treysta sér til að sækja miklar verðhækkanir út á markaðinn. Til þessa fundar mun hafa verið boðað ekki síst vegna þess, að ekki er fullur samhljómur með forystu sauðfjárbænda og þeirra sem veita afurðasölunni forstöðu. Við höfum heyrt mismunandi viðhorf í þessum efnum. Þetta er í sjálfu sér ekki óeðlilegt. Það er varla nýtt að sá sem selur og sá sem kaupir séu ekki alltaf sammála um verðlagningu.  Bændur benda á miklar kostnaðarhækkanir og það með réttu. Afurðasölurnar óttast á hinn bóginn að kröfur bænda geti ofboðið verðþoli markaðarins. Við þessu er auðvitað ekkert einhlítt svar, og við vitum öll að það er ekki til neitt eitt rétt verð.  En ég undirstrika, til að forðast misskilning, að opinber verðlagning sauðfjárafurða var felld niður fyrir meira en áratug, þannig að stjórnvöld koma á engan hátt að ákvörðun um kjötverð.

Það blasir við að ekki bara bændur heldur einnig afurðastöðvar hafa þurft að mæta miklum kostnaðarhækkunum að undanförnu. Síðustu kjarasamningar voru sláturhúsunum dýrir, og háir afurðalánavextir eru mörgum húsunum þungur baggi. Bændasamtökin hafa nú leitað eftir því við mig að geta breytt samningi við sláturleyfishafa um vaxta- og geymslugjöld á þann hátt að greiðslum verði lokið í janúar, þ.e. að flýta til muna greiðslunum frá því sem nú er. Við það háa vaxtastig sem nú er munar þetta þó nokkru fyrir afurðastöðvarnar og ætti að stuðla að því að lækka fjármagnsgjöld.  Þetta mun ég skoða jákvæðum huga og svara fljótlega.

Á undanförnum árum hefur verulegum fjármunum verið varið til hagræðingar í rekstri afurðastöðva, þ.e. með úreldingarframlögum. Forsendan fyrir þessum framlögum var að bæta hlut bænda; árangur hagræðingarinnar skyldi skila sér í hærra afurðaverði. Nú tel ég að nægilega langur tími sé liðinn til að unnt eigi að vera að meta árangur þessara aðgerða og vil hvetja til þess að bændur og afurðastöðvar beiti sér fyrir úttekt á því hverju þær hafa skilað. Sé þess óskað lýsi ég ráðuneyti mitt reiðibúið til þess að leggja slíkri úttekt lið. Með þeirri úttekt yrði jafnframt varpað ljósi á hvernig verðmyndun dilkakjöts hefur þróast á undanförnum árum. Þetta er vitneskja sem nauðsynlegt er fyrir alla aðila að hafa til að geta rætt stöðuna og mótað stefnu á skynsamlegum forsendum.

Landssamtök sauðfjárbænda og ýmis aðildarfélög hafa farið fram á að hætt verði  við að leggja niður útflutningsskylduna frá 1. júní 2009. Ég verð að endurtaka það sem ég sagði við setningu aðalfundar LS í vor, að þetta var helsta ágreiningsefnið milli bænda og ríkisvaldsins við gerð  sauðfjársamningsins.  Ágreiningurinn var leystur með því að ríkisvaldið ákvað að koma með aukið fjármagn inn í samninginn þ.e.a.s. 300 m.kr. og var samningstíminn lengdur um eitt ár frá því sem áður hafði verið rætt um. Um þetta varð samkomulag milli bænda og ríkisins sbr. 5. gr. samningsins, og það er ljóst að erfitt verður að snúa þarna til baka. Þessar 300 milljónir koma fyrst til greiðslu í ár sem aukið álag á dilkakjöt frá bændum sem eru þátttakendur í gæðastýringu, og má ætla að þetta nemi 45-50 kr. á kíló. Þessi hækkun mildar auðvitað þann skell sem kostnaðarhækkanirnar valda í ár, þótt ég geri mér jafnframt grein fyrir því að tilgangurinn var að mæta hugsanlegri lækkun á markaðsverði, eftir að útflutningsskyldan hefur verið afnumin.

En það er sama hvernig við skoðum þessi mál; allt ber að sama brunni. Það varðar mestu að rækta markaðinn. Íslenskir neytendur eru jákvæðir gagnvart íslenskum landbúnaðarafurðum. Það hafa kannanir sýnt; síðast sú sem Bændasamtökin létu gera í upphafi síðasta árs og leiddi í ljós gríðarlega sterka stöðu bænda á innlendum markaði. En ekkert er stöðugt í okkar umhverfi og það kostar stöðuga vinnu og árvekni að viðhalda hinni jákvæðu ímynd. Og síðast en ekki síst; það verður að vera raunveruleg innistæða fyrir henni. Því verða vinnslustöðvar landbúnaðarins að vera stöðugt á verði í þeim tilgangi að þjóna neytendum sem best. Vöruþóun og nýjungar eru lykilatriði í harðnandi samkeppni til þess að halda hlut sínum og helst að sækja á. Íslenskir neytendur vilja kaupa íslenska vöru, og því er mikilvægt að búvöruframleiðendur hér á landi og vinnslustöðvar þeirra gæti vel að „merkingum“ á framleiðsluvörum sínum. Árangur garðyrkjunnar með notkun á fánaröndinni á að vera öðrum greinum landbúnaðarins leiðarvísir á þessu sviði. Þá vil ég hvetja samtök sauðfjárbænda og forystumenn í einstökum félögum til að stofna til og rækta sambönd við verslunaraðila, hafa frumkvæði að kynningu á störfum bóndans og afurðum í samstarfi við verslanir og efla þannig skilning og traust milli sín og þeirra.

Það þætti eflaust undarlegt ef ég lyki máli mínu án þess að minnast á matvælafrumvarpið.

Að undanförnu hefur verið unnið að endurskoðun þessa umrædda frumvarps, með hliðsjón af þeim athugsemdum sem borist hafa frá hagsmunaaðilum. Síðar í mánuðinum er ráðgert að Bændasamtökin skili áliti sínu, sem ég mun fara yfir með opnum huga. Endanlegt ákvörðunarvald er hins vegar vitaskuld í höndum Alþingis. Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þingsins mun á næstunni setjast að nýju yfir þetta mál og ég veit að í nefndinni mun það viðhorf ríkja að vinna sem mest og best í þágu íslensks landbúnaðar. Þær breytingar sem fyrirsjáanlegar eru vegna matvælafrumvarpsins verða því gerðar með hagsmuni íslensks landbúnaðar að leiðarljósi. Við munum gera strangar kröfur um heilbrigði matvæla og öll vitum við að slíkt þjónar hagsmunum landbúnaðarins, enda þótt það sé gert í þágu neytenda. Þetta er enn ein sönnun þess að hagsmunir landbúnaðarins og neytenda fara jafnan saman.

Eins og ég hef margoft lýst yfir stendur vilji minn ekki til að ganga lengra í lagabreytingum, heldur en evrópulöggjöfin krefst. Með öðrum orðum, komi í ljós við yfirferð ráðuneytisins, hagsmunaaðila og Alþingis að frumvarpið gangi á einhverjum sviðum lengra en nauðsynlegt er, þannig að íþyngjandi sé, þá mun ég beita mér fyrir viðeigandi leiðréttingum.

Ég vil leggja mig fram um að vinna þessi mál í sem mestri sátt við bændur og aðra hagsmunaaðila á sviði landbúnaðar. Sjálfur er  ég sannfærður um að slíkt samstarf getur dugað okkur til þess að ná niðurstöðu sem verður viðunandi landbúnaðinum og færir honum ný tækifæri.

Hér á landi er stundaður öflugur og fjölþættur landbúnaður. Á grundvelli hans hafa risið kröftugar afurðastöðvar víða um land, sem gegna miklu hlutverki í atvinnusköpun og framleiðslu á landbúnaðarvörum. Þessi fyrirtæki hafa fyrir löngu tileinkað sér þær reglur sem liggja munu til grundvallar nýjum matvælalögum. Þetta skapar þeim forskot. Þeim verður því ekki skotaskuld úr því að mæta nýjum reglum. Ég er því sannfærður um að við getum gengið þannig frá lagaumhverfinu að það skapi þessum fyrirtækjum viðunandi rekstrarumhverfi og ný tækifæri.

Það er ljóst að stjórnvöld hafa svigrúm til að fylgja því eftir að innflutt matvæli standist kröfur okkar um hreinleika og heilbrigði. Það er ætlun mín að nýta það svigrúm til hins ítrasta. Ég ætla líka að fullyrða að fáir vilja ganga þannig frá löggjöfinni að hagsmunir landbúnaðarins og úrvinnslugreinanna verði fyrir borð bornir. Það er í það minnsta ásetningur stjórnvalda að hagsmuna landbúnaðar okkar sé gætt. Og ég lít meðal annars á það sem mitt hlutverk að tryggja það; verkefni sem ég vil axla af ábyrgð. Ég hlakka því til góðs samstarfs við bændur og samtök þeirra um nánari útfærslu þessara mála.

Góðir fundarmenn.

Ég vil ítreka þakkir mínar fyrir þennan fund. Við sætum núna mótbyr, en það hefur áður nauðað um íslenska bændur og þeir hafa staðið þá storma og él af sér. Þrátt fyrir þennan mótbyr er margt í umhverfinu sem gefur tilefni til bjartsýni og sem færir ný tækifæri. Við skulum ekki missa sjónar af því. Landbúnaðurinn og bændur eiga mikinn stuðning meðal almennings og stjórnmálamenn tel ég í þeirra hópi. Við skulum því snúa okkur samhent að verkefnum framtíðarinnar og leita leiða út úr þeim vanda sem nú steðjar að.

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta