Hoppa yfir valmynd
01. september 2008 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Málþingi um haf- og strandsvæðastjórnun í tilefni setningar meistaranáms við Háskólasetur Vestfjarða 31. ágúst 2008.

Ávarp Einars K. Guðfinnssonar,

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

á málþingi um haf- og strandsvæðastjórnun

í tilefni setningar meistaranáms við Háskólasetur Vestfjarða

31. ágúst 2008

 

 

Góðir fundarmenn – Ladies and gentlemen; honoured guests.

 

Því sem manni er trúað fyrir, því er manni trúað fyrir. Þessara fleygu orða, sem eru úr einni af bókum Halldórs Laxness, hef ég oft vitnað til í ræðum mínum, jafnt hér innanlands sem utan, þegar ég fjalla um nýtingu okkar á auðlindum hafsins. Mér finnst að þetta sé í hnotskurn það viðhorf sem við þurfum að tileinka okkur þegar ákvarðanir eru teknar um hvernig nýta skuli þessar takmörkuðu auðlindir, þessar guðsgjafir. Því þótt þær séu sannarlega gjöfular og hafi vitaskuld verið undirstaða lífskjarasóknar Íslendinga á síðustu og þessari öld eru þær engu að síður takmarkaðar. Í raun og veru eru þessi fáu orð skilmerkileg lýsing á því hve miklar skyldur við höfum á þessu sviði. 

 

Okkur er trúað fyrir mikilvægum auðlindum og öllum er ljóst að þær þarf að nýta þannig að hámarks afrakstur náist, bæði fyrir þær kynslóðir sem nú eru uppi og afkomendur okkar. Þetta er afar þýðingarmikið verk sem ekki má afgreiða með neinni léttúð og um leið er það ákaflega vandasamt. Ekkert okkar skilur þessa hluti til fulls og allra síst við stjórnmálamenn. Enda er því auðvitað ekki að leyna að ákvarðanir á þessu sviði hljóta í eðli sínu að vera erfiðar og umdeildar - og það eru þær - ekki síst í landi þar sem nálægðin er mikil, ákvarðanirnar snerta stundarhag samtímans og varða framtíðina gríðarlega miklu. 

 

Það er því ekki óeðlilegt að um þessa hluti séu skiptar skoðanir. Sínum augum lítur hver á silfrið, segir íslenskt máltæki, og ætli það eigi ekki einkar vel við þegar við ræðum þessi mál. En hvert er þá okkar svar? Í mínum huga getur svarið bara verið eitt. Aukum þekkinguna, rannsökum meira og ræðum saman.  Reynum að varpa sem fjölbreyttustu ljósi á viðfangsefnið í því skyni að gera okkur grein fyrir hvert það er og hvaða úrræði bjóðast.

 

Þegar ég tók við sem sjávarútvegsráðherra haustið 2005 hugleiddi ég þessa hluti mjög og hef gert æ síðan. Þær erfiðu ákvarðanir sem ég hef staðið frammi fyrir og tekið, hafa sannfært mig um það að við eigum enga aðra kosti en þá en að efla þekkingu okkar. Þess vegna hef ég litið á það sem einn af grundvallarþáttum starfs míns að stuðla að því, eftir því sem ég haft völd og áhrif til, að auka þessa þekkingu. Þess vegna hefur meira fé verið varið til hafrannsókna á síðustu árum en áður. Bæði með því að stækka fjárhagsramma Hafrannsóknastofnunarinnar og leggja svo til sérstaklega aukið fjármagn í hafrannsóknir vegna þeirra óvenjulegu aðstæðna sem nú eru varðandi þorskstofninn. Hafrannsóknastofnunin hefur verið efld m.a. með sérstökum fjármunum til að treysta undirstöður þorskrannsókna og styrkja forsendur hins umrædda togararalls. Þá hefur meira fé verið veitt til annarra hafrannsókna og á því verður framhald. Það er mín trú að á þessu ári verði meiri fjármunum varið til hafrannsókna við landið heldur en nokkru sinni áður. En það þarf líka fleira að koma til. 

 

Á undanförnum árum hefur orðið hrein menntasókn á Íslandi og þjóðin er nú  betur menntuð en nokkru sinni fyrr. Þar af leiðandi og sem betur fer, þekkir nú fjöldi fólks víða í samfélaginu vel til í þessum geira og getur aukið þekkingu okkar og varpað skýrara ljósi á það viðfangsefni sem við glímum við. Því hef ég ennfremur beitt mér fyrir því að setja á laggirnar sérstakan sjóð sem þeir sem stunda hafrannsóknir og aðrar líffræðilegar rannsóknir á sjávarauðlindinni geta sótt í. Sjóðurinn fór rólega af stað, fjármunir hans voru svo  tvöfaldaðir á þessu ári og enn er það ætlun mín að auka verulega fjármagn til þessa. Þannig er  meðal annars brugðist við þeirri nauðsyn að varpa nýju ljósi og frá fleiri sjónarhornum á viðfangsefnið.  Þetta held ég að sé eina ráðið sem við höfum til þess að komast að skynsamlegri niðurstöðu, þ.e. að auka þekkinguna og afla hennar sem víðast. 

 

Viðfangsefni hafrannsókna á Íslandi eru gríðarlega fjölbreytt, þau eru flókin og krefjast mikillar þekkingar og vinnu. Meðal annars skoða menn staðbundna fiskistofna sem næst ströndum landsins, á grunnslóðinni. Hafrannsóknastofnun leggur fram tillögur um heildarafla 27 fiskistofna. Halda menn að það sé áhlaupsverk, sem ekki krefjist stöðugrar, samfelldrar og gríðarlegra víðtækra rannsókna? Auðvitað. Vitaskuld þurfum við að vanda okkur og leggja til þess verkefnis mikla fjármuni. Við þurfum að skilja hið flókna samhengi lífríkisins þar sem ein tegundin lifir á annarri og við þurfum að rannsaka allt hafsvæðið í kringum landið og allt norður í Íslandshaf. Þetta er ekki lítið viðfangsefni og þess vegna er ljóst mál að flóknum spurningum um þetta samspil verður ekki svarað með einföldum hætti. Enn er svarið það sama – auknar rannsóknir, aukin þekking og samræður vísindamanna, sjómanna og útvegsmanna og annarra þeirra sem geta lagt til þessarar vinnu. 

 

Sama á við þegar við veltum fyrir okkur þeim breytingum sem nú eru að verða á atvinnuháttum okkar í tengslum við nýtingu auðlindarinnar, m.a. hér á Vestfjörðum og er viðfangsefni þeirrar ráðstefnu sem nú er að hefjast. Við sjáum sem betur fer að sjávarútvegurinn er sífelld uppspretta nýrra hugmynda, nýrra tækifæra og að forsvarsmenn sjávarútvegsins leita stöðugt nýrra leiða til að efla greinina. 

 

Þorskeldi hefur farið vaxandi undanfarin ár og er gott dæmi um þetta. Það er mjög ánægjulegt að vagga þess er hér á Vestfjörðum, ekki síst hér við Ísafjarðardjúp. Þar hygg ég að spili saman framsýni, atorka og framtak þeirra manna sem starfa í atvinnugreininni. Þeir komu auga á tækifæri og hafa verið reiðubúnir til að hætta sínu eigin fé til að byggja upp þessa nýju atvinnugrein.  En einnig á hér mikilvægan hlut að máli sú meðvitaða ákvörðun stjórnvalda að byggja upp aukna þekkingu á þorskeldi hér á þessu svæði, jafnt hjá Hafrannsóknastofnuninni sem og MATÍS.  Enginn vafi er á að þetta samspil atvinnulífsins og þekkingarsamfélagsins hér á Ísafirði, á mestan þátt í því að örva þessa starfsemi.  Nú starfar á mínum vegum sérstök nefnd sem á að leggja fram tillögur um framtíðarfyrirkomulag í uppbyggingu þorskeldisins. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar úr atvinnulífinu, fræðimenn og fulltrúar ráðuneytisins. Ég bind miklar vonir við starf þessarar nefndar og er þess fullviss að vinna hennar mun hafa mikil áhrif á framhaldið.

 

Kræklingaeldi er sömuleiðis atvinnugrein sem á framtíð fyrir sér. Sérstök nefnd sem ég skipaði undir forystu Hauks Oddssonar frá Ísafirði hefur komist að þeirri niðurstöðu. Ég trúi því að á næstunni eigum við eftir að sjá frekari vöxt þeirrar atvinnustarfsemi enda hef ég ákveðið að verða að öllu, við þeim tillögum sem nefndin lagði til fyrr í sumar.

 

Þá er þess að geta að á undanförnum fáeinum árum hefur orðið gríðarleg uppbyggingu í sjóstangaveiði sem sömuleiðis hefur einkanlega eflst hér á Vestfjörðum, eins og flestum mun ábyggilega vera kunnugt. Það er enginn vafi á því að í henni felast mikil tækifæri sem framtíðin ein getur skorið úr um hve mikinn ávöxt ber. En ekki er að ætla annað en að hann geti orðið ríkulegur.

 

Þetta kemur til viðbótar þeirri hefðbundnu atvinnustarfsemi á sviði sjávarútvegs og auðlindanýtingar sem við þekkjum og ekki þarf að orðlengja.

 

Þessar miklu breytingar geta auðvitað haft heilmikið í för með sér – fyrst og fremst jákvæð áhrif fyrir byggðina og fyrir atvinnulífið á þeim svæðum þar sem starfsemin festir rætur. En við þurfum þá væntanlega líka að bregðast við og smíða ramma utan um þessa starfsemi alla með öðrum hætti heldur en áður hefur verið gert, með það að markmiði að öll þessi nýja starfsemi geti eflst í sátt og samlyndi og árekstralaust við umhverfið þar sem hún fer fram.  Og hvernig gerum við það? Enn er svarið hið sama.  Aukin þekking á fjölþættu sviði. 

 

Sú ráðstefna sem nú er að hefjast er einmitt skýrt dæmi um þetta. Hér koma saman erlendir og innlendir sérfræðingar með fjölbreyttan bakgrunn og leggja á ráðin og fjalla um þessar breytingar sem ég hef rakið. Það fer afar vel á því að einmitt Háskólasetrið okkar hér á Vestfjörðum skuli efna til þessa málþings í tilefni af setningu meistaranáms í haf og strandsvæðastjórnun, sem hefst með formlegum hætti nú síðar í dag. Þetta er glæsilegt afsprengi þeirrar vinnu sem unnin hefur verið að uppbyggingu háskólanáms hér á Vestfjörðum og við vitum öll að mun vaxa hratt á komandi árum. Það eru einmitt þessi tengsl hins nýja háskólasamfélags og atvinnulífsins sem geta orðið öllum til góðs, háskólasamfélaginu, atvinnulífinu og samfélaginu.  Ég fagna því þess vegna að þetta málþing sé nú að hefjast og finnst það einkar viðeigandi í tengslum við upphaf meistaranámsins, sem ég gat fyrr. 

 

Góðir fundarmenn.

Vestfirðir hafa breyst hratt á undanförnum árum. Við höfum fengið okkar skerf af áföllum og mótlæti, en í því höfum við líka fundið ný tækifæri. Þau tækifæri nýta framsýnir menn hér á Vestfjörðum sér með margvíslegum hætti. Ég trúi því að það háskólanám sem er um það bil að leggja úr vör eigi eftir að verða bæði Vestfjörðum til framdráttar og þjóðfélaginu í heild. Hér er enn eitt dæmi um það hvernig við reynum að bæta samfélag okkar með aukinni þekkingu sem sótt er víða. Með þessum orðum vil ég leyfa mér að segja málþingið sett og óska ykkur öllum til hamingju.

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta