Þing Samtök sveitarfélag á Norðurlandi vestra, 19. september 2008
Ávarp Einars Kristins Guðfinnssonar,
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,
á þingi Sambands sveitarfélaga á Norðurlandi vestra
flutt 19. september 2008
Góðir fundarmenn.
Nú er um það bil eitt ár liðið frá því að gildi tók hin umdeilda aflaákvörðun í þorski. Um hana voru vitaskuld skiptar skoðanir enda lítur hver sínum augum á silfrið. Þó að til grundvallar hafi legið álit okkar helstu fræðimanna á þessu sviði þá er það engu að síður þannig, eins og stundum hefur verið sagt, að Ísland er svo lánsamt að eiga 300 þúsund fiskifræðinga.
Það er enginn vafi á því að þessi ákvörðun reyndist mjög mörgum sjávarútvegsfyrirtækjum afar erfið. Það á við hér á Norðurlandi vestra. Fram kom í tölum sem samtök ykkar lögðu fram að áhrifin voru auðvitað mismikil innan svæðisins. Allt frá því að vera mjög mikil ofan í tiltölulega lítil. Það breytir því þó ekki í sjálfu sér, að fyrir þá sem við eiga að búa, þ.e.a.s. útgerðarmenn og sjómenn, þá er aflasamdráttur af þessari stærðargráðu mjög sársaukafullur. En þegar ég lít um öxl og skoða áhrifin á síðastliðnu ári sýnist mér að þau hafi á margan hátt reynst minni en ég hugði. Fyrir því eru örugglega ýmsar ástæður. Hin veigamesta væntanlega sú, að á sama tíma og við urðum að láta okkur nægja 60 þúsund tonna minni þorskafla til þess að moða úr, þá hækkaði mjög verð á þorskafurðum á erlendum mörkuðum. Til viðbótar þessu lækkaði gengi krónunnar mjög í byrjun ársins, sem vitaskuld hafði einnig í för með sér talsverða tekjuaukningu fyrir sjávarútveginn í heild. Það breytir ekki því að verkefnin voru minni og það hefur því örugglega haft áhrif á atvinnusköpunina.
Engu að síður er það athyglisvert að á fyrri helmingi þessa árs, það er frá áramótum og til júní, hefur verðmæti þorsks einvörðungu minnkað um 2,5% sé miðað við sama tíma í fyrra. Þetta gerist þrátt fyrir hinn mikla niðurskurð í þorskafla. Þá er athyglisvert að umtalsverð verðmætaaukning á sér stað í öðrum botnfiskafla, þannig að heildarverðmæti botnfisksins eykst á milli ára þrátt fyrir allt
Einn varnagla verða menn þó að slá, sem miklu máli skiptir. Það er ljóst að þessi tekjuaukning sem hér er vísað til vegna gengislækkunarinnar, mun ekki skila sér að fullu til sjávarútvegsfyrirtækjanna. Af eðlilegum ástæðum hafa menn gripið til gengisvarna sem nú hafa þau áhrif að lækkun á gengi íslensku krónunnar skila sér ekki eins og ella til útflytjenda. Þetta verðum við að hafa í huga þegar við ræðum stöðu og tekjuþróun greinarinnar. Tölur um útflutningsverðmæti segja þess vegna ekki alla söguna fyrir útflytjendur eins og til dæmis sjávarútvegsfyrirtækin.
Margir óttuðust að þessi ákvörðun um mikinn samdrátt heildarafla myndi líka hafa í för með sér aukna samþjöppun veiðiheimilda og flutning veiðiréttar frá einstökum byggðarlögum. Ef við skoðum þetta með sanngirni þá er hvorugt hægt að segja. Það er meira að segja þannig að þegar skoðaðar eru tölur um kvótaeign stærstu fyrirtækjanna, þá virðist í fyrsta skipti í allnokkur ár ekki hafa orðið þróun til frekari samþjöppunar heldur þvert á móti. Þótt ekki sé ráðlegt að draga miklar ályktanir út frá einu ári, þá er þetta engu að síður eftirtektarvert. Við höfum á undanförnum árum, á tímum þar sem afli og kvóti hefur verið meiri heldur en nú, upplifað talsverðan flutning á fiskveiðirétti. Það gerðist sem betur fer ekki í miklum mæli á síðastliðnu ári.
Fyrir þessu eru væntanlega nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi að menn reyna vitaskuld í lengstu lög að halda í veiðirétt sinn þegar niðurskurður hefur átt sér stað. Það er einfaldlega ekki skynsamlegt að selja þegar aflaheimildir eru litlar. Í annan stað hefur staðan á fjármálamörkuðum og lausafjárkreppan gert það að verkum að erfitt er um fjármögnun; einnig til kvótakaupa.
Á þessu ári gerðist það í fyrsta skipti að aðrar atvinnugreinar vógu þyngra en sjávarútvegur í útflutningsverðmætum. Það eru auðvitað heilmikil tíðindi. Við þessu mátti vissulega búast enda hafa Íslendingar fjárfest gríðarlega í nýjum atvinnugreinum sem skapa aukin verðmæti. Hér er ég auðvitað að vísa til hinna miklu fjárfestinga í stóriðju sem er nú farin að skila sér fyrir þjóðarbúið. Þetta er jákvæð þróun bæði frá þjóðhagslegu sjónarmiði og einnig útfrá sjónarhóli sjávarútvegsins, því það er ekki þægilegt fyrir eina atvinnugrein að bera uppi alla verðmætasköpunina. Þetta segir okkur hins vegar það, sem ég hef áður reynt að undirstrika; að sjávarútvegurinn glímir við mikla samkeppni hér innanlands og það verða menn auðvitað bæði að viðurkenna og virða. Sjávarútvegurinn þarf þess vegna á öllu sínu að halda til þess að takast á við þessa samkeppni, bæði um fólk og fjármagn. Þess vegna verður sjávarútvegurinn vitaskuld að hafa svigrúm til þeirrar hagræðingar sem nauðsynleg er.
Á ársfundi ykkar í fyrra vakti ég athygli á þeirri hagræðingu sem orðið hefði í greininni, sem hefði m.a. leitt til þess að mun færri hendur vinna sömu verk. Þessi þróun heldur áfram. 50% framleiðniaukning á einum áratug, líkt og gerst hefur í fiskiðnaðinum, er auðvitað gríðarlegt afrek. Ekkert bendir til annars en að svipuð þróun verði á næstu 10 árum. Við sjáum raunar þegar ákveðin dæmi um þetta. Augljósast sennilega í uppsjávarveiðunum og vinnslunni þar sem nútímatækni hefur gert mönnum kleift að skapa æ meiri verðmæti úr aflanum. Nýlegar fréttir, t.d. úr minni heimabyggð um 140% afkastaaukningu í rækjuverksmiðju án þess að bæta þurfi við mannafla, eru dæmi um hið sama.
Það er óráðlegt fyrir okkur annað en að gera ráð fyrir að þessi þróun haldi áfram og vitaskuld mun þetta hafa áhrif á atvinnusköpun í þeim byggðarlögum þar sem sjávarútvegurinn skiptir mestu. Hitt er ljóst að ef sjávarútvegurinn fylgir þessu ekki eftir þá verður hann ekki samkeppnisfær um fjármagn og ennþá síður um starfsfólk sem leitar þá nýrra tækifæra á öðrum slóðum. Þetta er í sjálfu sér ekki afleiðing fiskveiðistjórnarkerfis, þetta er afleiðing þeirrar hörðu samkeppni sem ríkir á erlendum mörkuðum og hér innanlands. Ekkert okkar getur í sjálfu sér harmað þessa þróun, enda er hún óhjákvæmileg.
Það er hins vegar ljóst mál að slíkar sviptingar hafa áhrif á byggðirnar. Þess vegna eru ákveðin úrræði í fiskveiðistjórnarkerfinu til þess að bregðast hér við, að sönnu ekki alltaf með markvissum hætti en þó vissulega virðingarverðum. Þetta millifærslukerfi hefur verið gagnrýnt harðlega af ýmsum. Mitt svar er einfaldlega þetta: Ég tel að það sé eðlilegt að fiskveiðistjórnarkerfið lúti almennum leikreglum og innan þeirra geti útgerðarmenn og sjómenn athafnað sig, en jafnframt að tekinn sé til hliðar tiltekinn og afmarkaður hluti fiskveiðiréttarins og honum ráðstafað með öðrum hætti. Það hefur verið gert í formi byggðakvóta og línuívilnunar svo dæmi sé tekið. En einnig með þeim rækjubótum og skelbótum sem hefur verið úthlutað sérstaklega undanfarin allmörg ár.
Hið síðarnefnda hefur skipt verulegu máli fyrir sjávarútveg í hinu gamla kjördæmi Norðurlands vestra. Rækjuveiðar innfjarðar voru mjög þýðingarmikill þáttur atvinnulífsins við Húnaflóa og var einnig verðmætainnspýting í samfélagið í Skagafirði á sínum tíma. Ég tók þá ákvörðun í hitteðfyrra og aftur að nýju núna fyrir yfirstandandi fiskveiðiár að skerða ekki rækju- og skelbæturnar eins og tíðkast hafði lengst af. Með þessu vildi ég reyna að treysta forsendur útgerðar á þessum stöðum sem hafa átt undir högg að sækja. Þetta er klárlega byggðaleg aðgerð, til þess fallin að skapa meira öryggi og gefa mönnum frekari kost á að fjárfesta og sækja sér fjármagn til fjárfestingar í sjávarútveginum. Frá fiskveiðiárinu 2001/2002 nema bæturnar samtals 2.890 þorskígildistonnum í byggðarlögum á Norðvesturlandi. Sé Húnaflóinn allur tekinn með í dæmið nema bæturnar 4.670 þorskígildistonnum.
Ef við lítum á tölur um landaðan afla á þessu svæði við Húnaflóa og Skagafjörð undanfarin 10 ár má sjá að hluturinn minnkar aðeins sem hlutfall á landsvísu, en þar ráðast sveiflurnar fyrst og fremst af því hvernig fiskast í uppsjávartegundum. Engu að síður er þetta aðeins í annað skiptið sem hlutfallið er yfir 2%. Í kílóum talið hefur aflinn í verstöðvum á Norðurlandi vestra aukist um tæp 28% á áratug og ef miðað er við árið 2001 þegar minnst veiddist eru þetta rúm 47%.
Á árinu 2006 voru gerðar talsverðar breytingar á úthlutunarreglum og rammanum um byggðakvótann. Sem betur fer tókst um það mjög gott samkomulag allra stjórnmálaafla á Alþingi og hef ég oft sagt að þetta séu talsverð tíðindi; pólitísk samstaða um byggðakvóta er hlutur sem ég gerði satt að segja ekki ráð fyrir að upplifa á minni tíð. Innleiðing þessara regla hefur hins vegar verið á margan hátt örðug. Talsverðar breytingar urðu með nýju lögunum og því ekki að undra að það hafi þurft nokkurn tíma til þess að átta sig á afleiðingum þeirra. Í sem skemmstu máli má segja að breytingarnar hafi falið í sér að meiri kröfur voru gerðar til þeirra sem fengu byggðakvótann en áður. Úthlutun byggðakvótans er gegnsæ og byggð á almennum leikreglum. Sveitarfélög hafa síðan svigrúm til þess að óska eftir sérreglum.
Þetta ferli þarf allt að vera mjög gegnsætt og bjóða upp á kærumöguleika þeirra sem ekki una sínum hlut. Lögin gera kröfur til þeirra sem hljóta kvótann að þeir landi aflanum til vinnslu í byggðalögum sínum og leggi til tvöfalt það magn sem fæst í byggðakvóta af eigin eða leigðum aflaheimildum. Þessar auknu og stífu formkröfur eru líka settar fram í ljósi þess að umboðsmaður Alþingis gagnrýndi á sínum tíma útfærslu þá sem áður hafði viðgengist með lagasetningu og við framkvæmd laganna og í raun og veru krafðist þess að auka alla formfestu við úrvinnslu byggðakvótans. Ég vil vekja athygli á þessu hér. Meðal annars vegna þess að sveitarstjórnarmenn hafa margs konar tækifæri til að taka þátt í að ráðstafa byggðakvótanum. Fyrsta úthlutunarárið samkvæmt nýju reglunum var auðvitað lærdómsríkt fyrir alla. Í langflestum tilvikum tókst að úthluta þessum kvótum í bærilegri sátt. Ég hygg að á síðasta fiskveiðiári og á þessu fiskveiðiári reynist þetta þó auðveldara og betur takist til en áður. Ég vona því að byggðakvótinn geti orðið öflugra byggðatæki heldur en hann hefur verið fram að þessu.
Eins og heyra má eru viðfangsefnin fjölbreytt í sjávarútveginum og eitt það viðamesta sem greinin stendur nú frammi fyrir er að koma sér upp umhverfismerki sem kallað er til að skerpa á sérstöðu íslenskra sjávarafurða. Það er stefna greinarinnar að taka upp íslenskt merki en ekki erlent þar sem við setjum þá leikreglurnar. Jafnframt sé tryggt að þetta sé gert með gegnsæjum og áreiðanlegum hætti sem ekki verði dreginn í efa. Þess vegna þurfi sjálfstæða vottun, tekna út af þar til bærum viðurkenndum erlendum aðila, sem við síðan lútum og undirgöngumst. Öllum verður að vera ljóst að slíkt merki setur mönnum talsverðar skorður. Til dæmis verður ekki hægt að taka ákvarðanir um heildarafla eða nýtingu auðlindarinnar án hliðsjónar af vísindalegum ráðleggingum. Trúverðuleiki íslensks umhverfismerkis færi til að mynda samstundis fyrir lítið ef veitt yrði langtum meira af þorski en fiskifræðingar legðu til. Með því að taka upp slíkt merki öxlum við Íslendingar ákveðna ábyrgð og setjum okkur um leið skorður sem þarf að lúta til að vera trúverðugir.
En svo ég dragi þetta þá saman. Aðalmarkmiðið með því sem nú stendur fyrir dyrum er ósköp einfaldlega þetta: Búa til ramma, sem sannarlega leggur okkur skyldur á herðar, en er jafnframt til þess fallinn að efla íslenskan sjávarútveg. Til þess er leikurinn gerður. Sjávarútvegurinn sjálfur hefur komist að þeirri niðurstöðu, sem ég hygg að sé skynsamleg; að setja á laggirnar trúverðugt íslenskt merki. Vottað af sjálfstæðum og alþjóðlega viðurkenndum aðila og sem kaupendur okkar geta treyst og notað í markaðslegum tilgangi þannig að til framdráttar sé fyrir íslenskar sjávarafurðir. Framkvæmd þess verkefnis er í höndum Fiskifélags Íslands og verður afraksturinn kynntur í tengslum við Íslensku sjávarútvegssýninguna eftir hálfan mánuð.
Og frá einu viðurhlutamesta máli sjávarútvegsins til þess sama í landbúnaðinum – matvælafrumvarpsins margumtalaða.
Þegar afgreiðslu matvælafrumvarpsins var frestað á Alþingi í vor, var það gert í þeim yfirlýsta tilgangi að endurskoða það í ljósi þegar fenginna umsagna og með hliðsjón af frekari sérfræðivinnu sem unnin yrði í sumar. Þær ráðagerðir gengu eftir. Í sumar var unnið að endurskoðun frumvarpsins í ráðuneytinu með hliðsjón af þeim athugasemdum sem lágu fyrir og hafa borist frá hagsmuna- og fagaðilum. Bændasamtök Íslands skiluðu umsögn sinni nú á dögunum, en samtökin fengu Lagastofnun Háskóla Íslands til að skrifa álitsgerð um veigamikla þætti frumvarpsins. Það var ljóst áður en þingið kom saman um daginn, að ekki yrði svigrúm til að útkljá svo veigamikið mál sem þetta á svo fáum dögum. Því var sú stefna tekin að endurflytja frumvarpið við upphaf þings í næsta mánuði. Ég hef lagt mig fram um og mun gera áfram að vinna þessi mál í sem mestri sátt við bændur og aðra hagsmunaaðila í landbúnaðargeiranum. Sjálfur er ég sannfærður um að slíkt samstarf getur dugað okkur til þess að ná niðurstöðu sem verður viðunandi landbúnaðinum og færir honum ný tækifæri.
Eins og ég hef margoft lýst yfir stendur vilji minn ekki til að ganga lengra í lagabreytingum heldur en Evrópulöggjöfin krefst. Unnið hefur verið samkvæmt því við lagfæringar frumvarpsins. Þær breytingar sem fyrirsjáanlegar eru verða gerðar með matvælaöryggi þjóðarinnar og hagsmuni íslensks landbúnaðar að leiðarljósi. Gerðar verða strangar kröfur um heilbrigði matvæla og öll vitum við að slíkt þjónar hagsmunum landbúnaðarins. Þetta er enn ein sönnun þess að hagsmunir landbúnaðarins og neytenda fara jafnan saman.
Fram hefur komið, meðal annars í áliti Lagastofnunar, að við ættum umtalsverða vörn í sjálfum EES samningnum og vegna sérstöðu okkar eigin framleiðslu. Er þetta í samræmi við það sem ég hef haldið fram frá upphafi.
Hér á landi er stundaður öflugur og fjölbreyttur landbúnaður. Á grundvelli hans hafa risið kröftugar afurðastöðvar víða um land, sem gegna miklu hlutverki í atvinnusköpun og framleiðslu á landbúnaðarvörum. Það á ekki síst við hér á Norðurlandi vestra, eins og kunnugt er. Þessi fyrirtæki hafa fyrir löngu tileinkað sér þær reglur sem liggja munu til grundvallar nýjum matvælalögum. Þetta skapar þeim forskot. Þeim verður því ekki skotaskuld úr að mæta nýjum reglum. Ég er sannfærður um að við getum gengið þannig frá lagaumhverfinu að það skapi þessum fyrirtækjum viðunandi rekstrarumhverfi og ný tækifæri.
Það er ljóst að stjórnvöld hafa svigrúm til að fylgja því eftir að innflutt matvæli standist kröfur okkar um hreinleika og heilbrigði. Það er ætlun mín að nýta það svigrúm til hins ítrasta. Ég ætla líka að fullyrða að fáir vilja ganga þannig frá löggjöfinni að hagsmunir landbúnaðarins og úrvinnslugreinanna verði fyrir borð bornir. Það er í það minnsta ásetningur stjórnvalda að hagsmuna landbúnaðar okkar sé gætt. Og ég lít meðal annars á það sem mitt hlutverk að tryggja það; verkefni sem ég vil axla af ábyrgð.
Í fyrra gerði ég grein fyrir því á þessum vettvangi hve stór hlutur Norðvesturlands er í sauðfjárslátrun á landsvísu, þ.e. að nær annar hver dilkur sem slátrað er fær náðarskotið í þessum landshluta. Hlutur sláturhúsanna þriggja hefur aukist aðeins frá því í fyrra, eða um 1,5 prósentustig. Og svo ítrustu nákvæmni sé nú gætt nemur þetta 49,97% á landsvísu.
En þótt dilkarnir séu margir er vandi afurðastöðanna ærinn að mæta miklum kostnaðarhækkunum að undanförnu. Síðustu kjarasamningar voru sláturhúsunum dýrir og háir afurðalánavextir eru mörgum húsunum þungur baggi. Bændasamtökin hafa nú leitað eftir því við mig að geta breytt samningi við sláturleyfishafa um vaxta- og geymslugjöld á þann hátt að greiðslum verði lokið í janúar, þ.e. að flýta til muna greiðslunum frá því sem nú er. Við það háa vaxtastig sem nú er munar þetta þó nokkru fyrir afurðastöðvarnar og ætti að stuðla að því að lækka fjármagnsgjöld. Þetta mun ég skoða með jákvæðum huga og svara fljótlega.
Á undanförnum árum hefur verulegum fjármunum verið varið til hagræðingar í rekstri afurðastöðva, þ.e. með úreldingarframlögum. Forsendan fyrir þessum framlögum var að bæta hlut bænda; árangur hagræðingarinnar skyldi skila sér í hærra afurðaverði. Nú tel ég að nægilega langur tími sé liðinn til að unnt eigi að vera að meta árangur þessara aðgerða og hef hvatt bændur og afurðastöðvar til að beita sér fyrir úttekt á því hverju þær hafa skilað. Ráðuneyti mitt er reiðibúið að leggja slíkri úttekt lið verði þess óskað. Þannig yrði jafnframt varpað ljósi á hvernig verðmyndun dilkakjöts hefur þróast á undanförnum árum. Þetta er vitneskja sem öllum er nauðsynleg til að geta rætt stöðuna og mótað stefnu á skynsamlegum forsendum.
En það er sama hvernig við skoðum þessi mál; allt ber að sama brunni. Það varðar mestu að rækta markaðinn. Íslenskir neytendur vilja kaupa íslenska vöru. Því er mikilvægt að búvöruframleiðendur hér á landi og vinnslustöðvar þeirra gæti vel að „merkingum“ á framleiðsluvörum sínum. Hér ber okkur nánast að sama brunni og í umhverfismerkingum sjávarafurða nema hvað nú horfum við inn á við en ekki út á við. Árangur garðyrkjunnar með notkun á fánaröndinni á að vera öðrum greinum landbúnaðarins leiðarvísir á þessu sviði. Kaupendur þekkja það merki og vita að því má treysta.
Eins og sauðfjársamningurinn sem skrifað var undir í janúar í fyrra ber með sér vildi sú ríkisstjórn sem hann gerði og sú sem nú situr, standa vörð um sauðfjárbúskap í landinu og gerir sér grein fyrir mikilvægi hans í byggðakeðjunni. Samningurinn fól í sér bæði aukningu á og tilfærslu yfir í framleiðslutengdar greiðslur. Það þýðir betri hag þeirra sem hafa aukið framleiðslu sína og ætla sér að lifa fyrst og fremst af sauðfjárbúskap. Við stöndum hins vegar frammi fyrir því, vegna alþjóðlegra skuldbindinga á vettvangi WTO - Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, að lengra verður varla gengið á þeirri braut; þvert á móti munum við þurfa í framtíðinni að draga fremur úr þeim greiðslum sem beint tengjast framleiðslu og í raun að endurskoða fyrirkomulag opinbers stuðnings við landbúnaðinn. Enda þótt viðræðurnar hjá WTO hafi siglt í strand í sumar, er næsta víst að niðurstaða næst á endanum. Ég vil svo leggja áherslu á að breytingarnar þurfa ekki að fela í sér minni stuðning við greinina, þótt forminu verði eitthvað breytt. Stjórnvöld ætla sér enn sem fyrr að standa vörð um landbúnaðinn.
Tæknivæðing og sjálfvirkni sú sem einkennir íslenskan búskap er til marks um hve framsækin greinin er. Nú afkastar venjulegt fjölskyldubú margfalt á við það sem þekktist fyrir aðeins fáeinum áratugum, þótt miklu færri hendur vinni þau störf. Þetta köllum við framfarir og þetta eru framfarir. Heyskap er lokið á viku, mjaltir fara fram í hátæknivæddum fjósum, sauðfjárrækt útheimtir allt annars konar vinnu og auðveldari en áður. Og síðan það sem oft gleymist. Landbúnaður er annað og meira en bara mjólkur- og sauðfjárbúskapur; garðyrkja af margs konar tagi, umsýsla og rekstur frístundabyggða, skógrækt og landgræðsla, ferðaþjónusta af alls konar toga, loðdýrabúskapur, hlunnindanýting, til sjós og lands, í vötnum og ám, alifuglarækt, svínabúskapur, hrossarækt, afþreyingarþjónusta hvers kyns og ekki má á þessum orkunýtingartímum gleyma raforkubændunum. Og þótt þetta sé talsverð romsa er hvergi nærri allt upp talið sem einkennir íslenskan landbúnað.
Landbúnaðurinn í dag er fjölbreytt og skapandi atvinnugrein þar sem hæfileikaríkt og áhugasamt fólk getur fundið kröftum sínum viðspyrnu rétt eins og í sjávarútveginum. Ég held því ákveðið fram að starfstækifærin í landbúnaðinum séu fjölbreyttari núna en nokkru sinni fyrr.
Sjávarútvegur og landbúnaður eru burðarásar atvinnulífsins á landsbyggðinni og þá ekki hvað síst hér á Norðvesturlandi. Við eigum því sérstaklega mikið undir að þessum atvinnugreinum farnist vel og þurfum öll að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að þær vaxi og dafni. Það er ekki einfalt mál. Þar verðum við að hafa í huga að við getum styrkt rekstrarforsendur þessara atvinnugreina og skapað þeim svigrúm til samkeppni, jafnframt því að hafa í huga sérstaka þýðingu þeirra í byggðalegu tilliti.