Hoppa yfir valmynd
26. september 2008 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva, 26. september 2008

Ávarp Einars K. Guðfinnssonar,

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva

flutt 26. september 2008

 

Það hefur aldrei verið heiglum hent að stjórna íslensku sjávarútvegsfyrirtæki. Margs konar ógnir hafa steðjað að og stjórnendur í sjávarútvegi þurfa sennilega að hafa hliðsjón af fleiri áhættuþáttum og búa við meiri óvissu, heldur en stjórnendur í flestum öðrum atvinnugreinum. Sjávaraflinn er svipull, auðlindanýtingin er vandasöm, við berjumst á erfiðum alþjóðlegum mörkuðum og etjum kappi við keppinauta sem njóta ríkulegra ríkisstyrkja úr vösum skattborgaranna.

 

Gangur efnahagslífsins er misjafn og hinar ytri aðstæður sem og hin almennu efnahagslegu rekstrarskilyrði hafa sveiflast í gegnum tíðina.  Þrátt fyrir þetta hefur sjávarútvegurinn haldið sinni siglingu, að sönnu oft á tíðum í krappri brælu, og skilað þjóðarbúinu og þeim sem í greininni starfa tekjum sem hafa staðið undir mestu lífskjarasókn sem þjóðin hefur nokkru sinni tekið þátt í.  Hvað sem öllu öðru líður þá er ljóst að sjávarútvegurinn hefur verið hryggjarstykkið í okkar efnahagslífi og dregið okkur fram á veginn. Því er þó ekki að neita að undanfarin ár hafa á margan hátt verið stormasöm í íslenskum sjávarútvegi og ýmislegt bjátað á sem við hefðum gjarnan kosið að vera án. 

 

Í fyrra vorum við hér saman komin í skugga þeirrar erfiðu ákvörðunar sem ég tók með fulltingi ríkisstjórnarinnar að færa niður þorskaflann um þriðjung. Það var öllum ljóst að þetta myndi skapa mikla erfiðleika í rekstri sjávarútvegsfyrirtækjanna, enda skiptir þorskurinn þar mestu máli. Þorskurinn vegur þyngst allra tegunda í útflutningi og löngum hefur framlegðin verið drýgst af honum, þótt vissulega hafi það verið mismunandi milli ára. Við skulum því gera okkur í hugarlund þann vanda sem menn stóðu andspænis fyrir rösku ári.  Stjórnendur fyrirtækjanna urðu að hugsa sín mál upp á nýtt, endurskipuleggja reksturinn með hliðsjón af minnkandi tekjum og því að með færri tonnum yrði atvinnusköpunin minni en áður og möguleikar til að halda úti rekstri árið um kring sem því nemur skemmri, einkanlega í þeim fyrirtækjum sem háðust voru þorskinum.

 

Nú liggur fyrir að það sama er upp á teningunum á þessu fiskveiðiári. Ákvörðunin sem var tekin í fyrra hvað þorskinn áhrærði, fól í sér að þorskaflinn á þessu fiskveiðiári yrði ekki minni en 130 þúsund tonn. Veit ég vel að mörgum fannst þetta ekki stórmannlegt; að tryggja einungis 130 þúsund tonna lágmarksafla. En í ljósi þeirra upplýsinga sem fyrir lágu í fyrra mátti allt eins búast við að ef farin yrði önnur leið en sú sem varð ofan á, mætti reikna með tillögum um ennþá frekari niðurskurð sem þá hefði þurft að taka afstöðu til. Ég er því sannfærður um að það var rétt að festa niður lágmarks aflaheimildir í þorski til tveggja ára, en ekki eins árs, eins og jafnan hefur verið gert og skapa þannig einhvern stöðugleika og lágmarks vissu um framtíðina. 

 

Auðvitað voru það vonbrigði að ekki komu fram vísbendingar í rannsóknum Hafrannsóknastofnunarinnar sem gáfu tilefni til að auka aflaheimildirnar frá því sem ákveðið hafði verið. Það væri hins vegar ósanngjarnt að segja - og hreinlega rangt - að tillögurnar fyrir nýhafið fiskveiðiár hefðu komið á óvart.  Segja má að þetta hafi blasað við í þeim gögnum sem fyrir lágu fyrir rúmu ári. Því miður verður yfirstandandi fiskveiðiár því líka magurt.

 

Enginn vafi er á að þessar aðstæður hafa valdið margs konar vanda. Bæði af því tagi sem ég hef þegar nefnt og sannarlega líka á mörkuðunum. Þetta varð til þess að ýmsir framleiðendur urðu að taka erfiðar ákvarðanir, velja og hafna hvaða mörkuðum þeir gætu sinnt og hvaða markaði þeir yrðu að láta framhjá sér fara. Til þessa er auðvitað erfitt að vita þegar eftirspurn eftir þorskafurðum er sérlega góð og auðveldlega hefði mátt selja meiri fisk á fleiri markaði. Engu að síður er það svo að ákvörðunin sem tekin var á síðasta ári skapaði líka ný færi á mörkuðunum. Það er óumdeilt og hefur marg oft komið fram í samtölum mínum við fiskkaupendur víða í Evrópu, ekki síst í Bretlandi okkar helsta markaðslandi.

 

Verðþrýstingurinn hefur fram undir þetta verið uppávið, sem betur fer, og Íslendingar hafa notið þess undanfarin misseri. Ekki er þó við því að búast að sú þróun haldi endalaust áfram. Þrengingar í efnahagslífi markaðslanda okkar mun hafa áhrif á kaupmátt fólks og þar með markaðaðsaðstæður.

 

Sú staðreynd að við vorum trú því sem við höfum lagt áherslu á – að vera ábyrg auðlindanýtingarþjóð – skapaði á hinn bóginn ný færi á mörkuðunum. Enginn vafi er á því að þetta er sannarlega markaðslegt tækifæri sem við megum ekki að láta framhjá okkur fara. Þessi erfiða ákvörðun endurspeglar viljann til að standa vel að nýtingu auðlindarinnar og umgangast af gætni, eins og vaxandi krafa er um. Sú hækkun sem varð á útflutningsverðmæti íslenskra sjávarafurða á síðasta fiskveiðiári létti vitaskuld róðurinn. Að hluta má væntanlega rekja hana til minna framboðs af þorski frá Íslandi. Síðan bætist það við að hin mikla gengislækkun sem varð í upphafi þessa árs, hefur líka fært sjávarútveginum, eins og öðrum útflutningsgreinum, auknar tekjur. 

 

Á þessari stundu liggja ekki fyrir endanlegar upplýsingar um hvert útflutningsverðmæti þorsks eða annarra fiskafurða verður á nýliðnu fiskveiðiári og sá samanburður sem við getum því gripið til, nær einungis til fyrstu ellefu mánaða fiskveiðiársins. Sá samanburður er hins vegar skýr vísbending um hvernig greininni reiddi af í heild þegar reyndi á hinn mikla niðurskurð þorskaflans.  Það er athyglivert að útflutningsverðmæti þorsks fyrstu ellefu mánuði síðasta fiskveiðiárs varð heldur meira en á sama tíma árið á undan. Útflutningsverðmæti þessara ellefu mánaða var nær 51 milljarður króna en var rúmlega 47,5 milljarðar króna á sama tíma árið áður. Jafnvel þótt ágúst 2007 sé tekinn með í dæmið þá eru útflutningsverðmæti þorsks fyrstu ellefu mánuði nýliðins fiskveiðárs þegar orðin meiri en á því fyrra. Það er því ljóst að þrátt fyrir hinn mikla samdrátt í þorskafla verður verðmæti útflutts þorsks heldur meira á síðastliðnu fiskveiðiári en árið á undan. Ástæður þessa eru tvenns konar. Annars vegar hefur verð á þorski hækkað á erlendum mörkuðum og hins vegar gengislækkunin.

 

Veit ég vel að þetta eru ekki allt krónur í vasann. Samhliða hafa útgjöld í sjávarútvegi aukist. Hækkandi olíuverð vegur hvað þyngst og er víða farið að valda miklum vanda. Auknar skuldir greinarinnar sem fylgja lækkun gengisins eru sömuleiðis alvarlegar og bíta sársaukafullt í efnahagsreikningi fyrirtækjanna. Þegar við bætast síðan svimandi háir vextir, er ástæða til að hafa áhyggjur. Okkur er öllum ljóst að þetta háa vaxtastig getur einfaldlega ekki gengið til nokkurrar lengdar.

 

Svo er ástæða til þess að vekja athygli á því að á þessum umrótstímum hafa mörg sjávarútvegsfyrirtæki gripið til gengisvarna sem gera það að verkum að lækkun á gengi krónunnar skilar sér ekki að fullu í þeirra vasa. Því má ætla að verðmætisþróun einstakra fyrirtækja, vegna útflutnings á þorski, geti verið mismunandi og sé ekki endilega í samræmi við tölur um heildar aflaverðmæti, sem ég vísa hér til. 

 

Margir hafa sagt við mig að fiskveiðiárið sem nú er nýhafið verði mun erfiðara en það síðasta vegna þess að aflamark sem fært var á milli fiskveiðiáranna 2007-2008 hafi verið mun meira á milli fiskveiðiáranna 2008-2009.  Þetta er í sjálfu sér rétt.  Þó er ástæða til þess að vekja athygli á því að þarna munar ekki jafn miklu og ég og margir höfðum talið. Þegar við skoðum til dæmis fært aflamark í þorski á milli fiskveiðiáranna 2007 og 2008 þá nemur það um 9.300 tonnum en rétt rúmum 6.000 tonnum við síðustu fiskveiðiáramót.  Þarna munar ekki mjög miklu. Í sögulegu samhengi er talsvert mikið magn fært á milli fiskveiðiára. Á því eru örugglega margs konar skýringar sem ég ætla í sjálfu sér ekki að fjölyrða um.  Ég vek einungis athygli á þessum staðreyndum sem eru kannski ekki öllum ljósar. Svipaða sögu er að segja af ýmsum öðrum tegundum. Fært aflamark í ýsu dregst nokkuð saman en er samt með því mesta sem við höfum séð á síðasta áratug og tölurnar um ufsa og karfa tala sínu máli. 

 

Ég er ekki að segja þetta til að gera lítið úr þeim vanda sem við er að glíma.  Þvert á móti. Mér er hann ljós. Ég vil þó fullyrða að þetta tiltekna atriði verður ekki ráðandi um þróunina í sjávarútveginum á yfirstandandi fiskveiðiári. Rétt eins og ég gerði grein fyrir þegar aflaákvörðunin var tekin í sumar, hef ég í hyggju að flytja frumvarp sem eykur möguleika á geymslu aflaheimilda yfir fiskveiðiáramót. Fyrir því eru margs konar rök og vil ég í því sambandi sérstaklega nefna að það eykur sveigjanleika í sjávarútveginum sem þörf er á við svo þröngar aðstæður.

 

Það er enginn vafi á því að íslenskur fiskur nýtur sterkrar stöðu og verðskuldaðrar viðurkenningar á mörkuðum sínum. Bæði vegna vandaðrar vöru og áreiðanleika við afhendingu, en einnig vegna þeirrar vöruþróunar sem einkennt hefur sjávarútveginn. Þá er það þekkt að íslenskir framleiðendur hafa ævinlega notið sannmælis fyrir afhendingaröryggi og getu til að uppfylla breytilegar kröfur markaðarins. Hér þarf ekki að hafa mörg orð um, en staða íslenskra sjávarafurða á mörkuðunum að þessu leyti helgast líka af því að við njótum sannmælis fyrir auðlindanýtingu okkar og ábyrga afstöðu til sjávarútvegsins í heild. 

 

Ekki fer á milli mála - og það þekkjum við öll, - að sú krafa hefur farið mjög vaxandi að menn geti framvísað upprunavottorðum vegna vöru sinnar. Markaðurinn krefst í meira mæli staðfestingar á uppruna vörunnar; vottaðra umhverfismerkinga sem mark er á takandi. Kannski ekki kerlingin eða karlinn sem fer út í búð til að gera helgarinnkaupin sín. En það er hins vegar mat þeirra sem annast innkaupin fyrir hinar stóru verslunarkeðjur að til þess að þeir geti með góðri samvisku boðið fisk í búðum sínum, þá þurfi þeir einhvers konar staðfestingu á því að fiskurinn sé veiddur úr sjálfbærum stofnum, að löggjöfin um veiðarnar sé ábyrg, sjávarútvegurinn lúti reglunum og nálgist auðlindanýtinguna af varúð en ekki af kæruleysi. Þetta hefur varla farið framhjá nokkrum þeim sem starfar í sjávarútvegi og eftir því sem menn eiga nánara samstarf við markaðinn eru þessar kröfur ljósari. Fjölmargir seljendur og framleiðendur á íslenskum fiski hafa komið að máli við mig og hvatt mjög til þess að við gætum framvísað upprunamerki. Ýmsar verslunarkeðjur hafa einfaldlega lýst því yfir að þær munu ekki selja og þar með ekki kaupa fisk sem ekki sé með viðurkennda umhverfisvottun. Mér vitanlega hafa þær ekki gert almennt kröfu um tiltekna vottun, en vottun skuli það vera. Þessar kröfur verður að taka alvarlega og það hefur sannarlega verið gert. Ég veit að marga hefur lengt eftir því að fá niðurstöðu í þetta mál. Umræðan hefur hins vegar þurft að þróast og myndin að skýrast. Ein varðan á þessari leið er umhverfisyfirlýsing sú um fiskveiðar sem ég undirritaði þann 7. ágúst í fyrra ásamt forstjóra Hafrannsóknastofnunarinnar, Fiskistofu og formanns Fiskifélags Íslands í nafni sjávarútvegsins. Þetta er stefnumarkandi yfirlýsing sem unnið hafði verið að á vettvangi Fiskifélagsins og með þátttöku okkar annarra sem að henni stóðum. 

 

Nú er komið að þáttaskilum. Okkur er ekkert að vanbúnaði. Við höfum sterka stöðu og getum þess vegna unnið áfram á þessari braut á leið til vottaðs íslensks umhverfismerkis. Þetta er ekki pólitísk ákvörðun. Þetta er ekki ákvörðun sem stjórnvöld troða ofaní kok hagsmunaaðila eða forsvarsmanna í sjávarútvegi með góðu eða illu. Þetta er ákvörðun sem greinin tekur sjálf. En það mega menn vita að það er gert með stuðningi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og þess sem hér stendur.  Ég tel að með þessari ákvörðun öxlum við mikla ábyrgð. Við vitum að þetta setur ákveðnar skorður við því hvernig staðið verður að auðlindanýtingunni, en þetta skapar líka tækifæri. Að minnsta kosti er það ljóst að ef við virtum að vettugi þau skýru boð sem komið hafa frá markaðnum, þá kynnum við að lenda í vanda með hluta af okkar framleiðsluvörum.  Ég held þess vegna að sjávarútvegurinn sem nú ætlar að kynna hið nýja merki og undirbúning þess á sjávarútvegssýningunni í byrjun október sé að taka rétta ákvörðun. Aðalmarkmiðið með því sem nú stendur fyrir dyrum er ósköp einfaldlega þetta:  Búa til ramma, sem sannarlega leggur okkur skyldur á herðar, en er jafnframt til þess fallinn að efla íslenskan sjávarútveg.

 

Góðir fundarmenn.

Þótt mér hafi orðið tíðrætt um hina erfiðu aflaákvörðun í þorski á síðastliðnu ári, þá hygg ég að enn ofar í sinni flestra sjávarútvegsmanna séu þær miklu sveiflur sem hafa orðið á gengi íslensku krónunnar. Það hefði einhvern tímann þótt talsverð tíðindi að eitthvað það væri til í rekstrarumhverfinu sem skyggði á ákvörðun um þriðjungs samdrátt aflaheimilda í okkar mikilvægustu nytjategund. En þannig er þetta þó núna.

 

Oftar en ekki höfum við staðið í þessum sporum og haft miklar áhyggjur af hinni sterku stöðu íslensku krónunnar sem sannarlega hefur komið illa við kaunin á rekstri sjávarútvegsfyrirtækja eins og annarra útflutningsgreina. Á þessum vettvangi í fyrra ræddum við þessi mál að vonum, í ljósi hinnar ofursterku stöðu íslensku krónunnar. Of hátt gengi færir fjármuni frá útflutningsgreinum. Það má kannski segja að í því felist harkalegasta auðlindagjaldið sem sjávarútvegurinn hefur lengi þurft að greiða.

 

En skjótt skipast veður í lofti. Sú þróun sem orðið hefur á genginu - og enginn kann að spá um framtíðina í þeim efnum, - hefur valdið mikilli undrun og gert mönnum erfiðara fyrir að taka skynsamlegar ákvarðanir. Þær miklu sviptingar sem orðið hafa í alþjóðlegum fjármálaheimi hafa ekki látið okkur ósnortin, enda erum við í vaxandi mæli hluti af hinu alþjóðavædda samfélagi. Sjávarútvegurinn hefur auðvitað ævinlega starfað berskjaldaður á harðsóttum erlendum mörkuðum. En þjóðfélag okkar í heild er nú viðkvæmara fyrir því sem gerist á alþjóðlegum vettvangi en nokkru sinni áður. 

 

Það sem einu sinni þótti óhugsandi er nú orðið óumflýjanlegt, án þess að hafa nokkru sinni orðið ósennilegt. Þannig var komist að orði í erlendu blaði sem ég las fyrir skömmu, þar sem verið var að lýsa þeim sviptingum sem hafa orðið á alþjóðlegum mörkuðum. Öflugustu fjármálastofnanir heims hafa riðað til falls. Ríkisstjórnir sem hingað til hafa haft þá afstöðu að grípa ekki inn í þróun markaða, hafa orðið að ráðstafa umtalsverðum hluta ríkistekna sinna til þess að hlaupa undir bagga og koma í veg fyrir fjármálalegt öngþveiti. Enginn veit enn hvernig þessi mál öll skipast. Hitt vitum við að þetta hefur áhrif á stöðu okkar. Sú mikla veiking íslensku krónunnar sem orðið hefur upp á síðkastið er auðvitað alvarlegt mál. Og þótt oft hafi verið kallað eftir veikingu krónunnar úr sölum sjávarútvegsins, þá er það ekki svo nú. Þessi staða krónunnar er of veik og er ekki að mati nokkurs þeirra sem um fjallar; jafnvægisgengi. Hagsmunir íslensks sjávarútvegs liggja þess vegna í því að gengi krónunnar verði sterkara en nú og ró skapist í fjármálaumhverfinu sem hefur svo mikil áhrif á stöðu mála í efnahagslífinu hér á landi.  Svona veikt gengi er því fremur ógn en tækifæri.

 

Fjölmargt hefur verið gert af hálfu íslenskra stjórnvalda til þess að reyna að tryggja stöðugleika í efnahagslífinu. Það er rangt sem reynt hefur verið að halda fram, að ríkisstjórnin hafi setið aðgerðarlítil hjá. Því fer raunar alveg víðsfjarri. Þær efnahagsaðgerðir sem gripið hefur verið til með skattalækkunum gagnvart fyrirtækjum, verulegum inngripum til þess að styrkja gjaldeyrisstöðuna, aðgerðum sem auðvelda lánafyrirtækjum aðgang að lánsfé og ýmislegt fleira í þeim dúr, eru til marks um það að stjórnvöld hafa tekið þessi mál alvarlega. Það breytir hins vegar ekki því að við siglum í ólgusjó þar sem við ráðum hvorki veðri né vindum.  Okkar eina svar er þá að búa þjóðarskútuna eins vel úr garði og unnt er þannig að hún þoli þessi áföll.  Nýlegt álit hins alþjóðlega matsfyrirtækis Moody´s gefur til kynna að efnahagslífið hér standi ótrúlega sterkt þrátt fyrir þau áföll sem við höfum orðið fyrir eins og aðrar vestrænar þjóðir. Í raun og veru má segja að það sé visst afrek að okkur, lítilli þjóð, hafi tekist að standa af okkur þessa storma og fá það mat viðurkenndra erlendra aðila, að horfur efnahagslífsins séu stöðugar. Enginn skyldi gera lítið úr þessum árangri. 

 

Það þarf ekki að orðlengja þetta mikið frekar. Ofursterka krónan var okkur hið versta fótakefli í fyrra. Núna kallar sjávarútvegurinn eins og annað atvinnulíf eftir stöðugleika og sterkara gengi.

 

Góðir fiskvinnslumenn og aðrir fundargestir.

 

Það er ansi margt sem hefur verið okkur mótdrægt. En mitt í þessum miklu erfiðleikum hefur það orðið æ ljósara hversu sjávarútvegur er mikið hryggjarstykki í hagkerfi okkar. Leiðin út úr þeim vanda sem við glímum við er þess vegna ekki síst í því fólgin að leita allra leiða til að styrkja rekstrarskilyrði sjávarútvegsins. Það er það verkefni sem við þurfum að glíma við núna í nánustu framtíð.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta