Hoppa yfir valmynd
15. október 2008 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Haustfundur Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga (HES) með Matvælastofnun (MAST), Umhverfisstofnun (UST) og ráðuneytum, 14. og 15. október 2008

Ávarp Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

á haustfundi Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga (HES) með

Matvælastofnun (MAST), Umhverfisstofnun (UST) og ráðuneytum,

haldinn 14. og 15. október 2008

 

 

Fundarstjóri, góðir fundarmenn.

 

Ég vil byrja á að þakka fyrir að fá tækifæri til að ávarpa starfsfólk heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og þeirra ríkisstofnana - Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar - sem fara með yfirumsjón þeirra málaflokka sem heilbrigðiseftirlitið hefur daglegt eftirlit með. Með flutningi matvælamálefna frá umhverfisráðuneyti yfir í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti fer ráðuneytið með yfirstjórn matvælalöggjafar í allri fæðukeðjunni og þar með þeirrar löggjafar sem heilbrigðiseftirlitið starfar eftir. Umhverfisráðuneytið fer eftir sem áður með yfirstjórn annarra mikilvægra málaflokka á verksviði heilbrigðiseftirlitsins. Fagleg málefni eftirlitsins heyra því undir þessi tvö ráðuneyti sem munu vissulega hafa samráð um ýmis sameiginleg hagsmunamál á sviði heilbrigðiseftirlits. Haustfundur stofnana og ráðuneyta með eftirlitinu er dæmi um slíkt samstarfsverkefni, þar sem fjallað er um stefnumótun og um samvinnu fulltrúa Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga, Matvælastofnunar, og Umhverfisstofnunar um úrlausn verkefna.

 

Stjórn og skipan mála, svo og starfsréttindi og skyldur  heilbrigðisfulltrúa heyra eftir sem áður undir lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.  Þá skal umhverfisráðherra, eins og hingað til, gefa út leiðbeinandi reglur um uppbyggingu gjaldskráa sveitarfélaga vegna heilbrigðiseftirlits. Ráðuneytin eru staðráðin í að hafa náið samráð um þessi mál og það sama á að sjálfsögðu við um önnur verkefni sem tengjast starfsemi heilbrigðiseftirlitsins og framtíðarskipan eftirlits í landinu. Ég get fullvissað ykkur um að þessi mál öll eru öruggum höndum í ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðar. Sú þekking, yfirsýn og reynsla sem er til staðar hjá heilbrigðiseftirlitinu tengir saman málaflokka ráðuneytanna tveggja því hollustuhættir, ómengað umhverfi og varleg notkun efna eru meðal þeirra grunnskilyrða sem þurfa að vera til staðar til að tryggja heilnæm og örugg matvæli.

 

Hvað matvælamál varðar erum við stödd á miklum tímamótum. Matvælastofnun sem hóf störf um síðustu áramót, hefur fengið fjölmörg verkefni með sameiningu ríkisstofnana og eitt þeirra er að hafa yfirumsjón með matvælaeftirliti á vegum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Stofnunin sinnir bæði stjórnsýslu og eftirliti undir yfirstjórn ráðuneytisins og verður því helsti tengiliður þess og Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga varðandi matvælalöggjöf og matvælaeftirlit. Í ráðuneytinu hefur í sumar verið unnið að endurskoðun á frumvarpi því sem ég flutti síðastliðið vor vegna upptöku okkar á 1. kafla 1. viðauka við EES samninginn, sem varðar búfjárafurðir, og innleiðingar á matvælalöggjöf ESB. Það frumvarp verður lagt fram á næstu dögum og verður vonandi lögleitt fyrir áramót.

 

Þó svo að iðulega sé talað um matvælafrumvarpið í þessu samhengi, þá liggur fyrir að fjallað er um breytingar sem ekki aðeins verða gerðar á matvælalögum, heldur einnig lögum um eftirlit með sjávarafurðum, lögum um dýrasjúkdóma og um dýralækna, kjötlögum og fóðurlögum. Í beinu framhaldi þarf að innleiða í íslenskan rétt fjölda Evrópugerða á matvælasviði og þá þarf að gæta þess að eftirlitsaðilar hér á landi sinni þeim skyldum sem á þá eru lagðar og að verkaskipting milli eftirlitsaðila sé í samræmi við íslensk lög. Hér er átt við eftirlit á vegum Matvælastofnunar, Heilbrigðiseftirlitsins og sjálfstætt starfandi skoðunarstofa. Ég legg í þessu sambandi mikla áherslu á náið og gott samstarf Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlitsins við nauðsynlega áætlanagerð, fræðslustarfsemi, skilgreiningar á verklagi sem beitt verður og línum sem draga verður um skiptingu verkefna milli þeirra sem fara með matvælaeftirlit. Samstarf eftirlitsaðila verður að vera árangursríkt og á jafnframt að stuðla að góðum samskiptum við hagsmunaaðila eða eftirlitsþola, því sameiginlegt markmið allra er að stuðla að matvælaöryggi og neytendavernd.  

 

Það er stefna mín og þar með ráðuneytisins að á næstu tveimur árum takist að lögfesta og hrinda í framkvæmd hér á landi nýrri matvælalöggjöf sem verði í samræmi við þá löggjöf og þá framkvæmd sem gilda mun hjá öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Markmiðið er að tryggja heilbrigði dýra og plantna, öryggi afurða og síðast en ekki síst hagsmuni neytenda. Einnig er haft að leiðarljósi að auka veg og virðingu íslenskra matvælafyrirtækja með því að byggja á góðri matvælalöggjöf og öflugu eftirliti sem er viðurkennt af öðrum ríkjum. Eins og þið vitið eru sjávarafurðir í frjálsu flæði á innri markaði Evrópusambandsins. Það er mikið hagsmunamál fyrir Ísland að þjóðin geti flutt út sjávarafurðir inn á EES svæðið með sama hætti og aðildarlönd Evrópusambandsins og Noregur. Í mínum huga er upptaka nýrrar matvælalöggjafar forsenda fyrir því að þetta fyrirkomulag haldist óbreytt. Landbúnaðarafurðir munu eftir þessa lagabreytingu vera í frjálsu flæði á EES-svæðinu, hvað heilbrigðisreglur varðar. Það þýðir að aðildarlönd Evrópusambandsins og önnur EES lönd geta flutt þessar vörur til Íslands ef heilbrigðiskröfur löggjafarinnar eru uppfylltar, án þess þó að það hafi áhrif á tollaumhverfi þessa innflutnings.

 

Á Íslandi eru framleidd matvæli sem má treysta og ég  vil leggja áherslu á að hvergi verður slakað á kröfum um markaðssetningu öruggra matvæla við þessa breytingu.  Það er hlutverk okkar í ráðuneytinu og ykkar eftirlitsaðilanna að  tryggja að svo verði. Við sjáum fram á aukið eftirlit með matvælum á markaði sem verður á verkssviði heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna og því þarf gott og náið samstarf ráðuneytis, Matvælastofnunar og viðkomandi heilbrigðisnefnda  til að ná þessu markmiði. Mér er ljóst að frá því breytingar á stofnanaumhverfi á þessu sviði hófust fyrir tæpum þremur árum, með Landbúnaðarstofnun og nú Matvælastofnun, þá hafa orðið miklar og hraðar breytingar sem enn er ekki lokið. Breytingar reyna á starfsfólk og þá starfsemi sem þær varða, en það er mitt mat að við séum á réttri leið. Nú er yfirstjórn matvælamála í einu ráðuneyti og ein ríkisstofnun fer með stjórnsýslu, þó svo að eftirlit sé í höndum fleiri aðila. En þrátt fyrir að endurskoðun löggjafar sé hafin og að sumu leyti vel á veg komin, þá liggja þar fleiri verkefni og bíða.

 

Það er skoðun mín að með innleiðingu á nýrri matvælalöggjöf hér á landi, sem byggð er á nýlegri Evrópulöggjöf á þessu sviði, þá sé ekki lengur þörf á öllum þeim lögum sem Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlitið þurfa að framfylgja við eftirlit í fæðukeðjunni. Því mun ég láta skoða hvort ekki megi byggja á einum grundvallar lögum, sem nái yfir eftirlit með heilbrigði dýra og öryggi matvæla og fóðurs, í stað þess að hafa almenn matvælalög, auk sérlaga um þætti eins og fóður, kjöt, sjávarafurðir og dýraheilbrigði. Einföldun laga mun jafnframt draga úr hættu á tvíverknaði og skörun eftirlitsverkefna. Frekari endurskoðun og einföldun lagaumhverfis getur því orðið eitt af mikilvægum stefnumálum ráðuneytisins.

 

Að lokum vil ég óska ykkur góðs gengis og árangurs í þeim störfum sem liggja fyrir á þessum sameiginlega fundi eftirlits- og stjórnsýsluaðila, þar sem m.a. verður rætt um hvernig samstarfi Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlitsins verður hagað þegar ný matvælalöggjöf tekur gildi hér á landi innan skamms. Ráðuneytið mun veita ykkur stuðning í þeirri vinnu og er ljóst að verkefnin eru mörg, en með samstilltu átaki mun okkar án efa takast að ná settum markmiðum og stuðla að heilnæmi matvæla og með því að heilbrigði fólksins í landinu.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta