26. þing Sjómannasambands Íslands 4. desember 2008
Ávarp Einars K. Guðfinnssonar,
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,
á 26. þingi Sjómannasambands Íslands
4. desember 2008
Ágætu sjómenn.
Það hefur stundum verið sagt að algengasta umræðuefnið þegar Íslendingar koma saman, að minnsta kosti þeir sem eiga sitt undir veðrum og vindi, sé tíðarfarið og þegar sjómenn eiga í hlut aflabrögðin. Þetta er örugglega rétt. Að minnsta kosti skal ég játa að þetta er ekki óalgengt umræðuefni þegar ég hitti vini mína í sjávarútvegi. Enda eru þetta hlutir sem skipta okkur öll miklu máli þó að margt í samtímanum hafi reyndar breyst með þeim hætti að ýmsir gera sér ekki grein fyrir samspili tíðarfars, aflabragða og þróunar lífskjara hér á landi.
Nú er hins vegar svo komið að þessi mál eru ekki efst á baugi í umræðu dagsins, heldur sú alvarlega þróun sem orðið hefur í efnahagslífi okkar. Þetta rifjar upp fyrir mér litla sögu, þegar ég hitti að máli gamlan vin minn vestur í Bolungarvík í frekar vondu veðri að vetri fyrir nokkrum árum. Ég hafði orð á þessu að það væri leiðinlegt tíðarfarið og þá leit hann til himins og sagði: „Já, en Einar minn, það er við stóran að deila.“
Kannski er það svo þegar við tölum um þann vanda sem nú er við að glíma í efnahagslífi okkar, að þá er við stóran að deila. Meginorsökin er sá mikli vandi sem hefur hellst yfir hinn vestræna heim í formi lausafjárkreppu sem varð svo að víðtækri efnahagskreppu. Þetta lætur engan ósnortinn og hefur komið harkalega við afkomu fyrirtækja og heimila í landinu. Ríkisstjórnin hefur með ýmsum aðgerðum reynt að bregðast við. En auðvitað er ekki hægt að líta framhjá því að þetta efnahagslega áfall veldur nú erfiðleikum í rekstri bæði heimila og fyrirtækja. Enda hlýtur það að hafa alvarleg áhrif á stöðuna þegar verðmætasköpunin minnkar, atvinnuleysi eykst og við þetta bætast svo gegndarlausar lántökur fyrirtækja og heimila á undanförnum árum, sem nú eru sem hinn þyngsti myllusteinn, þegar á móti blæs.
Við þessar aðstæður gera menn sér hins vegar betur grein fyrir því en áður, hvaða þýðingu grundvallar atvinnuvegur eins og sjávarútvegurinn hefur fyrir þjóðarbúið. Ýmsir höfðu gert lítið úr mikilvægi hans fyrir efnahagslífið og kusu að ímynda sér að sjávarútvegurinn yrði hliðarbúgrein í öðru því sem einkenna myndi íslenskt efnahagslíf. Nú þegar harðnar á dalnum gera menn sér hins vegar ljóst betur en nokkru sinni fyrr, hversu mikla þýðingu atvinnugreinin hefur.
Gríðarleg lækkun gengisins hefur í heild sinni haft mjög neikvæð áhrif fyrir þjóðarbúið. Þess vegna er nauðsynlegt að það takist að styrkja gengið að nýju, þótt enginn láti sér detta í hug að það geti verið raunverulegt markmið að gengið verði með svipuðum hætti og það var t.d. fyrri hluta þessa árs. Enda hefur gengi íslensku krónunnar undanfarin ár lengstum verið alltof sterkt sem olli því að lífskjör þeirra sem eiga sitt undir afurðaverði á erlendum mörkuðum voru lakari en efni stóðu til.
Hið háa og sterka gengi skapaði líka falskan kaupmátt og laðaði erlent fé hingað til lands, sem hefur þó reynst kvikt fjármagn og lítið hægt að reiða sig á það. Hið ofursterka gengi sogaði þannig fjármuni frá sjávarútveginum og öðrum útflutningsgreinum og rýrði kjör sjómanna. Hefði ekki notið við jákvæðrar verðþróunar afurða á erlendum mörkuðum, hefði ástandið verið mun alvarlegra, bæði í sjávarútveginum í heild og sérstaklega hvað snertir launakjör sjómanna. Mér finnst ástæða til að rifja þetta upp, meðal annars vegna þess að nú heyrast, sem betur fer, jákvæðar fréttir af góðum tekjum í sjávarútveginum. Auðvitað eru slíkar fréttir góðar. Það er gott fyrir okkur öll þegar tekjumyndunin eykst í þeirri atvinnugrein sem er bakfiskurinn í efnahagslífi okkar. Og það er sannarlega ástæða til að fagna því að tekjustreymið og þar með gjaldeyrissköpunin í landinu sé sem mest og öflugust. Okkur skortir gjaldeyri og við viljum að til staðar séu vel launuð störf fyrir landsmenn. Eftirsóknarverð laun til sjós eru þess vegna jákvæð tíðindi.
En ég get tekið undir það með mörgum sjómönnum að tröllasögur sem nú berast af góðum launum þeirra fá fólk til að gleyma því að svona var þetta alls ekki alltaf. Á tímum hágengisins upplifðum við að góðir sjómenn gengu í land og fengu sér vinnu í þenslugreinunum. Það var ekki góð þróun. Hún var satt að segja alveg afleit. Því að þenslan var knúin áfram af skuldasöfnun fyrirtækja og heimila sem nú hefnir sín. Við þær aðstæður átti sjávarútvegurinn litla samkeppnismöguleika.
En blessuð krónan sveiflast öfganna á milli. Hún hefur verið í eins konar rússibanareið, eins og ég hef orðað það áður. Og þótt sjávarútvegurinn kunni að njóta stundarhags í auknum tekjum vegna hins lága gengis þá vita menn að þetta er ekki heilbrigt ástand. Það eru okkar hagsmunir eins og allra annarra að krónan taki sér stöðu annars staðar á gengiskvarðanum. Styrking krónunnar er því ótvírætt hagsmunamál sjávarútvegsins og þar með talið sjómanna
Ágætu sjómenn.
Sjaldan er ein báran stök. Það á svo sannarlega við um okkar atvinnugrein því á henni skellur ýmislegt óviðráðanlegt. Kannski hafa þessi bitru sannindi aldrei ræst með svo áþreifanlegum hætti sem núna. Þrennt vil ég nefna í þessu sambandi sem birst hefur greininni með einstaklega köldu viðmóti.
Í fyrsta lagi vil ég nefna þá erfiðu og umdeildu ákvörðun frá því í fyrra að draga mjög verulega úr heildarafla í þorski. Þetta var auðvitað umdeilt og er ekkert við því að segja. Þegar horft er um öxl tel ég þó að þessi ákvörðun hafi verið rétt. Hún var gerð til þess að byggja upp til framtíðar og bæta þannig hag okkar – og þá ekki síst ykkar sjómanna – þegar litið væri til lengdar. Þegar áhrif þessarar ákvörðunar er skoðuð er augljóst að hún hefur ekki valdið þeim búsifjum í sjávarútvegi sem margir töldu ástæðu til að óttast. Sjálfur var ég í þeim hópi sem taldi að rösklega 60 þúsund tonna niðurskurður myndi skilja eftir sig mikil sár og valda margvíslegri röskun. Þegar litið er yfir farinn veg er hins vegar ekki hægt að halda því fram með rökum. Ýmislegt kom þar til; hækkandi fiskverð og lægra gengi og almennt talað ástand sem gerði það að verkum að auðvelt var að ná fiskinum. Allt þetta hjálpaði til við þessar aðstæður og gerði ástandið bærilegra en ella hefði orðið. Fjölmargir hafa hins vegar komið að máli við mig upp á síðkastið og óskað eftir því að skoðað verði; hvort unnt sé að fara hægar í sakirnar við uppbyggingu þorskstofnsins en áður hefur verið ætlað. Rökin sækja menn ekki til fortíðarinnar heldur til þess að við siglum nú í gegn um gríðarlega djúpa efnahagskreppu sem kalli á endurmat; einnig á þessu sviði. Við þessar aðstæður tel ég mér skylt að fara yfir þessi mál. Ýmislegt veldur því að svörin hafa dregist, en þeirra er að vænta innan tíðar.
Í annan stað vil ég í þessu samhengi gera þá efnahagsstöðu sem nú er uppi, að umtalsefni. Þeir efnahagserfiðleikar sem við er að etja eru auðvitað að einhverju leyti heimatilbúnir en á margan hátt líka afleiðing af hlutum sem við gátum hvorki séð fyrir né voru okkur viðráðanlegir. Þar var sannarlega við stóra að deila, svo ég vitni enn í minn gamla sveitunga sem ég vék að hér fyrr í máli mínu. Þetta hörmungarástand hefur hins vegar birst með harkalegri hætti hér á landi heldur en víðast hvar annars staðar vegna þeirra aðstæðna sem við búum við – lítið hagkerfi þar sem byggðist upp gríðarlega stór fjármálageiri, sem hrundi með miklu brauki og bramli. Því miður sjáum við ýmis dæmi þess að aðrar þjóðir eigi eftir að feta álíka slóð. Eignahrun, bankavandræði og skuldasöfnun erlendra ríkja eru allt saman einkenni sem við þekkjum svo vel úr okkar eigin efnahagsranni. Þetta er þó engin huggun gegn okkar harmi. Alls ekki. En þetta setur þó þessi mál í það samhengi sem því ber. Þetta breytir heldur engu um að framundan eru mikil verkefni sem fara hvergi. Við eigum ekki annan kost en að bregðast samhent við erfiðleikum okkar og þannig hefur það ávallt verið hvenær sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir miklum erfiðleikum.
Þriðja dæmið um þann vanda sem við glímum við og kom í flasið á okkur með óvæntum hætti, eru hin alvarlegu tíðindi af síldinni. Þetta er þeim mun sárgrætilegra sem við vitum, að síldarstofninn hefur verið byggður upp með mjög markvissum hætti í 40 ár eða frá því að síldin hvarf – sjálft silfur hafsins hvarf út úr þjóðarbúskap okkar. Það er ef til vill táknrænt við þessar aðstæður þegar glímt er við svo mikinn efnahagsvanda að rifja upp að þegar síldin hvarf fyrir 40 árum og miklir erfiðleikar steðjuðu að þorskvinnslu okkar á Bandaríkjamarkað, þá tókust Íslendingar á við einhverja mestu efnahagserfiðleika sem yfir þjóðina höfðu dunið. Sennilega er ekki fráleitt að ætla að stærðargráða þeirra efnahagserfiðleika sem nú er við að etja sé álíka og þeirra sem riðu yfir fyrir 40 árum. Á þeim tíma féll þannig gjaldeyrisverðmæti sjávarútvegsins um 45% á tveimur árum. Ef til vill hefur fennt yfir þá atburði í huga margra og menn gera sér ekki grein fyrir umfanginu, en gleymum því ekki að hagkerfi okkar þá var vanmáttugra en nú og úr færri úrræðum að spila.
Sú uppbyggingarstefna sem fylgt var í síldinni hefur komið okkur mjög til góða undanfarin ár. Aukinn kvóti í íslensku sumargotsíldinni hefur skipt verulegu máli. Með aukinni þekkingu, markvissri markaðsstarfsemi og tæknibyltingu í sjávarútveginum er mun meira af síld unnið til manneldis en áður Þannig hefur tekist að búa til miklu meiri verðmæti úr henni en nokkru sinni fyrr. Það má því segja að við höfum upplifað nýtt síldarævintýri á þennan hátt, þó að hlutfallslegu áhrifin á efnahagslíf okkar séu auðvitað ekki þau sömu og menn kynntust á sjöunda áratug síðustu aldar. Það breytir því ekki að síldin hefur verið gríðarleg búbót, bæði til sjós og lands. Þess vegna er það mjög mikið áfall þegar við stöndum nú frammi fyrir sýkingu í síldinni, sem hefur gert út af við manneldisvinnsluna, að minnsta kosti um stundar sakir, og við vitum ekki enn hver áhrifin verða fyrir vöxt og viðgang síldarstofnsins.
Eitt er auðvitað að standa frammi fyrir mjög umtalsverðu tekjutapi á þessari vertíð, sem virðist vera orðin óhagganleg staðreynd. Hitt er auðvitað miklu alvarlegra ef þessi sýking í síldinni skaðar stofninn sjálfan. Síldarstofninn hefur byggst upp á undanförnum árum. Við höfum fylgt einstaklega varkárri nýtingarstefnu, sem hefur gefið okkur færi á að auka aflaheimildir hin síðari ár. Sá 150 þúsund tonna síldarafli sem við drógum úr sjó á síðustu vertíð og ætlum okkur að veiða á þessari vertíð er til marks um vel heppnaða fiskveiðistjórnun sem byggt hefur á vandaðri ráðgjöf. Þeim mun dapurlegra er að standa nú frammi fyrir þeirri óvissu sem sýking í síldinni hefur skapað.
Þetta færir okkur heim sanninn um að veraldargengið er valt. Enginn mannlegur máttur ræður við óvissuna í íslenskum sjávarútvegi og slík hafa viðfangsefnin verið í gegnum tíðina. Það er ekki síst með skírskotun til þessa sem ég vil undirstrika nauðsyn þess að við stjórnmálamenn reynum að skapa sjávarútveginum og þar með starfsumhverfi sjómanna sem best öryggi, þannig að menn geti tekið sem skynsamlegastar ákvarðanir hverju sinni.
Góðir fundarmenn.
Ég nefndi áðan að gott fiskverð hefði fleytt mönnum yfir erfiðasta hjallann þegar gengi krónunnar var sem sterkast. Ef við bregðum upp mynd af verðþróun slægðs þorsks í beinum viðskiptum á síðasta fiskveiðiári, en þar er um langmesta magnið að ræða, þá hækkaði meðalverð á honum um fimmtung yfir tímabilið samkvæmt upplýsingum frá Verðlagsstofu skiptaverðs. Meðalverð á slægðri ýsu í beinum viðskiptum hækkaði um 5% miðað við sömu forsendur.
Ef við lítum okkur svo enn nær í tíma og til þeirra mánaða sem liðnir eru af núverandi fiskveiðiári sést hve ör þróunin er upp á við. Hér verður þó að hafa fyrirvara á, því tölurnar fyrir síðustu þrjá mánuðina eru til bráðabirgða þar sem endanlegt verð og magn er ekki komið inn í skrár Fiskistofu. Verð á þorski í beinum viðskiptum var 167,50 kr./kg í september í fyrra en viðmiðunarverðið nú í desember er 262 kr./kg eða 56% hærra. Á markaði var verðið 263 kr./kg en viðmiðunarverðið nú, sextán mánuðum síðar, er 350 kr./kg eða þriðjungi hærra.
Þessi þróun er allt önnur en á launamarkaði upp á síðkastið. Enda ræðst fiskverð af öðru en launaþróunin í landinu. Svo er nauðsynlegt að árétta það sem ég sagði áðan. Á velmektardögum þjóðfélagsins, þegar laun og kaupmáttur í landinu stigu sem aldrei fyrr, var afkoman í sjávarútveginum langt frá því að vera viðunandi vegna ofurgengisins. Slíkt hið sama endurspeglaðist í kjaraþróun í sjávarútvegi til sjós og lands.
Fiskverðið getur ekki stigið endalaust, ekki frekar en að krónan falli endalaust. Því skiptir miklu máli að kosta sem fyrr kapps um að auka verðmæti sjávaraflans og nýta í þaula. Það hefur verið markviss stefna mín í ráðuneytinu að ýta undir og hlúa að eins og fjárheimildir leyfa, hvers kyns nýsköpun á þessu sviði. Með þetta fyrir augum hefur auknum krafti verið veitt til tveggja sjóða sem heyra undir ráðuneytið. Annars vegar er það AVS-sjóðurinn, Aukið virði sjávarfangs, og hins vegar samkeppnisdeild Verkefnasjóðs sjávarútvegsins.
Fljótlega eftir að ég tók til starfa í ráðuneytinu kom ég á laggirnar samkeppnisdeild Verkefnasjóðs sjávarútvegsins til að stuðla að fjölbreyttari sjávarrannsóknum um allt land. Með þessu kom ég til móts við þau sjónarmið að ástæða væri til að auka fjölbreytni hafrannsókna og hleypa fleirum að þeim en áður hafði verið, enda mjög í anda þess sem ég hafði áður talað fyrir. Í viðleitni til að ná meiri árangri við fiskveiðiráðgjöf þarf að skoða málin frá sem flestum hliðum. Þetta er ekki sagt til að gera lítið úr því sem hefur verið gert. Öðru nær. Þetta er hins vegar aðferð til að auka umfang rannsókna og það hefur tekist vel.
Vegna fyrirsjáanlegs samdráttar í þorskafla á fiskveiðiárinu 2007–2008 ákvað ég á síðasta ári að tvöfalda framlag til samkeppnisdeildarinnar. Þessari hækkun, úr 25 í 50 milljónir króna var að öðru jöfnu varið til verkefna á sviði þorskrannsókna. Fimmtán verkefni sem fjalla um 9 mismunandi tegundir sjávarlífvera voru styrkt. Þorskur var aðalviðfangsefnið í 6 verkefnum, og til þeirra rann um helmingur styrkfjárins eins og ráð var fyrir gert. Með þessari aukningu var unnt að styrkja um helming þeirra verkefna sem sótt var um til sjóðsins og styrkja flest samþykkt verkefni að fullu miðað við umsókn.
Mörg þessara verkefna eru til lengri tíma, öðrum er lokið og hafa margar merkar niðurstöður litið dagsins ljós. Má þar nefna afar áhugaverðar niðurstöður um landnám nýrrar tegundar við Ísland, þ.e.a.s. ósakola eða ósalúru og niðurstöður sem auka skilning okkar á þeim þáttum sem hafa áhrif á hrygningu, klak og nýliðun þorsks, svo aðeins tvö dæmi séu nefnd.
Á þessu hausti ákvað ég að auka enn framlög til samkeppnisdeildar sjóðsins um 25 milljónir og er þeirri aukningu ætlað að hækka styrki til styttri, hagnýtra verkefna. Sú ákvörðun er ekki síst tekin í ljósi þess að nú ríður á að styðja við hugmyndir eru líklegar til að skila árangri fljótt og geta þannig orðið lóð á vogarskálarnar hvað varðar atvinnusköpun og fjölbreytni í atvinnulífinu.
Samkeppnisdeild sjóðsins hefur því 75 milljónir til ráðstöfunar vegna verkefna ársins 2009, eða þrisvar sinnum hærri upphæð en í byrjun. Gera má ráð fyrir að allt að 12 stærri verkefni verði styrkt um allt að 5 milljónir og um 15 smærri verkefni um allt að 2 milljónir króna. Þar sem reglur samkeppnisdeildarinnar gera ráð fyrir að umsækjendur leggi a.m.k. annað eins framlag á móti hverjum styrk sést að á þessum þrem árum mun sjóðurinn hafa stuðlað að rannsóknum fyrir a.m.k. 300 milljónir króna og væntanlega verður hér um enn hærri upphæð að ræða. Ég bind miklar vonir við að í árslok 2009 sjáum við fjölda gagnmerkra niðurstaðna og afrakstur hagnýtra verkefna sem unnin hafa verið í samstarfi mismunandi aðila um allt land og sem verða til hagsbóta fyrir atvinnu- og efnahagslífið í landinu, ekki síst á sviði sjávarútvegsins, á þessum erfiðu tímum.
Annar og enn öflugri sjóður starfar einnig á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Það er AVS-sjóðurinn. Hann hefur vaxið og dafnað frá stofnun 2003 og úthlutunarfé aukist ár hvert. Fyrsta árið voru 74 milljónir króna til skiptanna en nú hefur sjóðurinn úr liðlega 354 milljónum krónum að spila, sem er rétt um hundrað milljónum meira en í fyrra. Verja á að minnsta kosti 25 milljónum til kynbóta í þorskeldi, a.m.k. 10 mkr. í sérstakt markaðsátak vegna bleikju og rúmum 19 mkr. í eldi sjávardýra.
Hér má sjá hvernig styrkir skiptast eftir tegundum verkefna. Langstærsti hlutinn tengist veiðum og vinnslu. Þá kemur fiskeldi, svo líftækni, kynbætur í þorskeldi, markaðsverkefni og að lokum markaðsátak bleikjuafurða.
Hér getur svo að líta hvernig þróunin hefur verið á þessum sex starfsárum sjóðsins. Þrjátíu og fjögur verkefni fengu styrk á fyrsta ári en eru nú 79. Þetta þýðir að þeim hefur fjölgað um rúm 130% og fjármunirnir aukist um 480%. Það munar um minna.
Samtals hefur AVS-sjóðurinn úthlutað tæpum 1.250 mkr. á sex árum. Þegar við bætist upphæðin sem gert er ráð fyrir að sjóðurinn hafi úr að spila á næsta ári, sem er sú sama og í ár, eru þetta 1.600 milljónir króna. Þar sem styrkþegar verða að leggja a.m.k. annað eins af mörkum sjálfir þýðir þetta að vel á fjórða milljarð króna hafa verið leystir úr læðingi til nýsköpunar í sjávarútvegi fyrir tilstilli AVS. Við lok árs 2009 verður því búið að verja þremur og hálfum milljarði króna – og reyndar að öllum líkindum töluvert meira fé en það – til rannsókna og nýsköpunar í sjávarútvegi fyrir tilstuðlan sjóðanna tveggja – AVS og samkeppnisdeildar Verkefnasjóðsins. Þjóðfélagið allt nýtur góðs af þessu í aukinni verðmætasköpun.
Innan skamms verður auglýst eftir styrkjum í AVS-sjóðinn fyrir næsta ár. Vegna yfirstandandi erfiðleika þjóðarbúsins verður nú, líkt og hjá Verkefnasjóðnum, lögð sérstök áhersla á að styrkja stutt og hnitmiðuð verkefni sem skila fljótt og vel hagnýtum niðurstöðum og skapa verðmæti. Slík verkefni munu að öðru jöfnu njóta forgangs. Ég er ákaflega ánægður með starfsemi AVS. Af þessu stutta yfirliti sést vel hve öflugur sjóðurinn er og mikil lyftistöng. Á næstu misserum mun hann gegna enn þýðingarmeira hlutverki en fyrr. Einmitt þess vegna eru breyttar áherslur lagðar til grundvallar úthlutun næsta árs.
Þessir tveir sjóðir, sem starfa innan vébanda sjávarútvegsins eru afdráttarlaus dæmi um úrræði sem við höfum á okkar vettvangi til þess að auka verðmætin í greininni. Þeir eru til marks um þann sóknarhug sem einkennandi er. Einnig – og raunar alveg sérstaklega á þessum tímum.
Ágætu sjómenn.
Þegar á móti blæs þá er oftast viturlegt að slóa. Menn kölluðu það í gamla daga að rifa seglin. Og það hefur verið gert núna. En við ætlum að sjá til þess að fljótlega verði aftur tekið til við siglinguna. Við ætlum að nýta okkur það að þjóðarskútan er traustbyggt skip sem hefur verið endurbætt á síðustu árum. Hún er mönnuð úrvalsfólki, íslensku þjóðinni, sem ekki mun sætta sig við annað en að ná árangri. Til þess höfum við líka alla heimsins möguleika. Á velmegunarárunum tókst nefnilega að búa í haginn til framtíðarinnar. Greiða niður skuldir ríkissjóðs, fjárfesta í traustum innviðum. Bæta mjög samgöngukerfið og fjarskiptakerfið, stórefla menntun, setja mikið fé í velferðarkerfið og þannig má áfram telja. Og gleymum því ekki að þjóðin býr að eftirsóttum auðlindum, sem geta fært mikinn arð á komandi árum. Það á ekki síst við um sjávarauðlindina sem við þekkjum hvað best sem hér erum saman komin. Við getum því með öflugum hætti tekist á við vandamálin – og sigrast á þeim.
Við viljum koma vitinu í verð fljótt og vel, bæði sjávarútveginum og þjóðarbúinu öllu til heilla. Þannig leggjum við okkar enn frekar að mörkum í uppbyggingu íslensks efnahagslífs, sem nú reiðir sig svo mjög aftur á þennan grundvallaratvinnuveg og ykkur þar með alveg sérstaklega. Nú er sem sé komið að því að spýta rösklega í lófana því við ætlum að ná árangri og rífa okkur upp úr kífinu. Og það skal takast.
Megi störf ykkar á 26. þingi Sjómannasambands Íslands ganga sem best. Gangi ykkur sem öðrum vel að draga björg í bú.