Hoppa yfir valmynd
12. mars 2009 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Ávarp forsætisráðherra á Viðskiptaþingi á Hilton Hotel Nordica fimmtudaginn 12. mars 2009

Ávarp forsætisráðherra á Viðskiptaþingi á Hilton Hotel Nordica

kl. 13.00 fimmtudaginn 12. mars 2009 kl. 13.35.

Ágætu viðskiptaþingsgestir

Ég vil byrja á því þakka fyrir að fá tækifæri til þess að ávarpa þá mikilvægu samkomu í íslensku samfélagi sem viðskiptaþing er. Þing ykkar hafa undanfarin ár skapað sér mikilvægan sess í þjóðfélagslegri umræðu og bera vott um öfluga starfsemi Viðskiptaráðs.

Íslenskt viðskiptalíf og þeir sem standa að Viðskiptaþingi eru og hafa verið meðal mikilvægustu áhrifavalda í þjóðfélagi okkar fyrr og nú. Þið hafið haft umtalsverð áhrif á þróun atvinnulífsins og samfélagsins alls og framgang þess.

Viðskiptalífið er undir öllum eðlilegum kringumstæðum grundvöllur atvinnuuppbyggingar og velferðarkerfis í nútímasamfélögum. Viðskiptalífið er þannig grundvöllur heilbrigðs og öflugs samfélags og mannauðurinn sem í því býr er og hefur verið þjóðfélaginu afar dýrmætur. Um það er ekki deilt.

Ég hef farið yfir dagskrár viðskiptaþinga undanfarin ár og rifjað upp sumar af þeim ræðum sem þar voru fluttar. Í þeim felst mikill fróðleikur og þessi þing endurspegla vissulega þær miklu sveiflur sem við höfum gengið í gegnum og hafa haft víðtæk áhrif á samfélagið allt. Í fyrra var yfirskriftin “Íslenska krónan, byrði eða blóraböggull”.

Í ræðu forvera míns í embætti má sjá að fyrir rúmu ári síðan töldu menn bankana hér á landi afar sterka og að gagnrýni erlendis frá ætti ekki við rök að styðjast. Í ræðunni kom jafnframt fram að engin rök væru fyrir því að sækja um aðild að Evrópusambandinu eða stefna að upptöku Evru.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þessu eina ári. Ég get því ekki látið hjá líða að minnast á þá stöðu sem nú er uppi hér á landi og orsakir hennar.

Ég trúi því að við sem erum stödd hér í dag gerum okkur fulla grein fyrir því að þeir sem teljast til viðskiptalífsins bera ríka ábyrgð á því hvernig komið er.  Ef til vill ríkari ábyrgð en nokkur annar einstakur aðili hér á landi, enda þótt nú verði allir að líta í eigin barm og horfast í augu við hvað betur hefði mátt fara.

Vissulega bera stjórnvöld hér líka ábyrgð. Þau hefðu átt að grípa inní, setja reglur og tryggja að ekki færi allt í óefni. Vissulega brugðust eftirlitsstofnanir og bera mikla ábyrgð á því að svo fór sem fór. Ekkert af þessu réttlætir hins vegar þau vinnubrögð og þær aðferðir sem beitt var af hálfu athafnamanna.

Græðgin varð skynseminni yfirsterkari. Áhættusækni og óhóf varð einkenni alltof margra fyrirtækja og alltof margir forystumenn atvinnulífsins misstu fótanna í þessum takti.

Kannanir sýna að almenningur telur að þeir sem stýrðu bönkunum beri mesta ábyrgð á því hvernig komið er fyrir okkur hér á landi og flestir sérfræðingar sem hafa farið yfir þróun mála eru sömu skoðunar.  

Ég hef haldið því fram og ég ítreka það hér að viðskiptalífið hér á landi,  sleit sig úr siðferðilegu sambandi við þjóðina. Fyrir það blæðir almenningur nú þegar á fjórtánda þúsund manna ganga atvinnulausir og gríðarlegir fjármunir hafa tapast hjá einstaklingum og fyrirtækjum.  

Meðal þeirra sem hafa misst vinnuna eru hundruð fyrrverandi starfsmanna fjármálastofnana sem unnu störf sín af bestu samvisku. Þetta fólk og fjölskyldur þeirra berjast nú fyrir því dag frá degi að lifa mannsæmandi lífi. Það héldum við Íslendingar að heyrði sögunni til.

Ég heiti á alla þá sem telja sig hafa farið óvarlega og sýnt óhóf að leggja nú sitt af mörkum til samfélagsins. Ég trúi því ekki að ungt og öflugt athafnafólk vilji segja sig svo úr lögum við samfélag sitt að það þurfi að sækja fjármuni þeirra í erlend skattaskjól með mikilli fyrirhöfn á kostnað skattborgara.

Því miður virðist staðan sú að við munum þurfa öflugar rannsóknardeildir til að upplýsa um skatta- og eignamál og alþjóðlega ráðgjafa til þess að sækja umtalsverða fjármuni sem samfélagið þarfnast nú.

Aldrei fyrr hefur verið jafn rík þörf á því að viðskiptalífið sýni samfélagslega ábyrgð og leggi sitt af mörkum. Breytt gildismat er sannarlega ein af mikilvægum forsendum endurreisnarinnar.

Aldrei fyrr hefur verið jafn rík þörf fyrir jafnræði og virðingu og afar mikilvægt er að við nýtum þann mikla mannauð sem þjóðin býr yfir. Við eigum að tryggja báðum kynjum aðkomu að stjórnun í viðskiptalífi og þeirri uppbyggingu sem framundan er.

Rannsóknir sýna að fyrirtækjum vegnar betur þegar bæði kynin eru við stjórnvölinn. Ekkert fyrirtæki hefur efni á að horfa framhjá því. Konur hafa því miður ekki sest á valdastóla í íslensku viðskiptalífi eða fjármálakerfinu þrátt fyrir margvíslegar aðgerðir. Því verðum við að breyta.

 

Ágætu þinggestir.

Þetta eru sérstakir tímar sem við göngum nú í gegnum og þau verkefni sem ríkisstjórnin hefur tekið að sér eru ærin. Ég kalla því eftir samstöðu og stuðningi ykkar til allra á næstu vikum, mánuðum og misserum. Tækifærin eru næg og af þeirri ástæðu getum við horft jákvæðum augum til framtíðarinnar enda þótt við glímum nú við tímabundna erfiðleika.

Það er ljóst að sú ríkisstjórn sem nú situr sóttist ekki eftir því að taka að sér svo víðtækt hlutverk í íslensku atvinnulífi sem raun ber vitni. Atburðir undanfarinna mánaða hafa hins vegar orðið til þess að ríkissjóður er nú eigandi þriggja stærstu banka landsins. Auk þess hafa þessir bankar neyðst til þess að taka yfir fjölda fyrirtækja.

Stjórnvöld sóttust ekki eftir þessari stöðu fremur en stjórnvöld í Bandaríkjunum eða Bretlandi sóttust eftir víðtækari hlutverkum í atvinnulífi og fjármálakerfum sinna landa. Þetta er ekki óskastaða fyrir neinn í þróuðu nútímasamfélagi. Það vil ég undirstrika hér. Ef ríkisstjórnin og við stjórnmálamennirnir hefðum haft raunverulegt val væri atvinnulífið hér áfram að mestu í höndum einkaaðila og stjórnvöld einbeittu sér að því að byggja hér upp velferðarþjónustu, menntun og stuðla að  heilbrigðu  viðskiptaumhverfi. 

Hins vegar er ljóst að þegar hagkerfi verður fyrir verulegu áfalli og fjármálakerfi riða til falls þá verður ríkissjóður grípa til aðgerða til þess að koma í veg fyrir að fallið verði enn þyngra og tryggja sem skjótasta endurreisn.

Eitt helsta viðfangsefni stjórnvalda nú er að koma fjármálakerfi landsins í það horf að það geti stutt við heimilin og fyrirtækin í landinu. Þar hefur vel miðað síðustu vikur og ég er bjartsýn á að bankarnir í landinu verði orðnir vel starfhæfir innan einungis fárra vikna.

Það hefur háð starfsemi bankanna að efnahagsreikningur þeirra hefur ekki verið endanlega skilgreindur og bankar sem búa við slíka óvissu eiga vitanlega örðugt með að starfa eðlilega. Við vitum að bankar eins og önnur fyrirtæki þurfa að byggja ákvarðanir sínar á traustum upplýsingum um eigin stöðu.

Mati á eignum nýju bankanna mun ljúka fyrir lok þessa mánaðar og það er vissulega mikilvægur áfangi. Samkvæmt áætlunum verður þetta mat síðan staðfest af óháðum ráðgjöfum um miðjan aprílmánuð og þar með verður skotið traustari stoðum undir starfsemi bankanna.

Það er síðan á grundvelli þessa mats sem ríkisstjórnin mun taka afstöðu til þess hversu miklum fjármunum bönkunum verða lagðir til til þess að skapa þeim svigrúm til að veita þeim sem á þurfa að halda eðlilega fjármálaþjónustu. Samkvæmt áætlunum er stefnt að því að endurfjármögnun bankanna verði lokið síðari hluta næsta mánaðar.

Vinnan undanfarnar vikur og mánuði hefur miðað að því að tryggja að þetta ferli geti gengið eftir og sérstök samræmingarnefnd ráðuneyta og stofnana starfar að því á grundvelli samkomulags íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Mikil vinna er þegar að baki og margt hefur áunnist í því að koma banka- og fjármálalíflinu á réttan kjöl. Liður í heildstæðri endurreisnaráætlun fyrir bankakerfið er að stofnað verði sérstakt félag – svonefnt eignaumsýslufélag – er hafi það hlutverk að tryggja að fyrirtæki sem talin eru vera þjóðhagslega og samfélagslega mikilvæg haldi áfram starfsemi.  

Ég vil leggja áherslu á að með því er verið að búa til úrræði til að bregðast við vanda sem upp kann að koma ef tvísýnt er um rekstur slíkra fyrirtækja, sem eru nauðsynleg til að tryggja að gangverk samfélagsins stöðvist ekki.

Það hefur einnig verið lögð á það áhersla að hér verði um tímabundið úrræði að ræða, félagið starfar í fimm ár og ekki lengur, og ég legg áherslu á að gott samstarf verði á milli bankanna og þessa nýja eignasýslufélags.

Í þessum tilgangi og ekki síður til að tryggja enn frekar en nú,  að þessi mikilvæga starfsemi verði rekin á faglegum forsendum óháð pólitískum afskiptum,  verður stofnað sérstakt eignarhaldsfélag sem muni fara með eignarhald ríkisins í bönkunum þremur og fyrirhuguðu eignasýslufélagi.

Annað verkefni sem ég vil nefna og varðar endurreisn bankanna, er að ríkisstjórnin hefur sett af stað ferli sem miða að því að hægt verði að ganga frá samkomulagi milli lánadrottna gömlu bankanna og hinna nýju banka. Alþjóðlegt ráðgjafafyrirtæki hefur verið fengið til aðstoðar í þeirri samningagerð.

Markmið stjórnvalda í þeirri samningagerð er ekki síst að gæta vel að hagsmunum ríkisins sem eiganda nýju bankanna, en jafnframt að skapa traust meðal alþjóðlegra lánveitenda í garð hinna nýju banka. Við gerum okkur fulla grein fyrir því hversu mikið þjóðin á undir því að helstu fjármálastofnanir í landinu eigi áfram aðgang að lánsfé á alþjóðlegum lánamörkuðum.

Stefnt er að því að samningum þessum verði lokið um miðjan maímánuð og þegar sá áfangi næst má segja að afar mikilvægum áfanga sé náð í að byggja hér upp traustar fjármálastofnanir á ný.  Erlent eignarhald kemur vel til greina í þeirri framtíðarsýn.

 

Ágætu þinggestir.

Mikilvægt er að læra af reynslunni.

Við þurfum að styrkja og efla eftirlitskerfi í viðskiptalífi og fjármálakerfinu verulega til þess að koma í veg fyrir að hildarleikur síðastliðins hausts verði endurtekinn. Öflugt, skilvirkt og faglegt eftirlit mun bæði þjóna viðskiptalífinu og almenningi og draga úr gáleysi og áhættu sem getur reynst öllum skaðleg þegar upp er staðið. 

Traust og trúverðugleiki eru lykilatriði við uppbyggingu fjármálakerfis og verður ekki undir neinum kringumstæðum ofmetið í því starfi sem við vinnum nú að.

Þegar hafa nýir menn verið fengnir í yfirstjórn Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins til þess að skapa þetta traust og ný og öflug peningastefnunefnd hefur verið skipuð. Þá verða á næstu vikum skipaðir framtíðarstjórnendur í Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum og afar mikilvægt er að þar takist vel til. Umsóknarfrestur um stöðu forstjóra Fjármáleftirlitsins rann út í gær og skipað verður í stöður Seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra eftir kosningar.

Þessar breytingar eru í takt við það sem Viðskiptaráð hefur lagt til. Erlendir aðilar á markaði hafa fagnað þessum skrefum sem ég tel mikilvægt á þeirri endurreisn sem nú er hafin.

Vænta má frekari breytinga. Finnski fjármálasérfræðingurinn Kaarlo Jännäri mun skila niðurstöðum rannsóknar sinnar á  lagaumhverfi íslensks fjármálamarkaðar síðar í þessum mánuði. Ég er sannfærð um að hann muni leggja til breytingar sem eru til þess fallnar að styrkja okkur til framtíðar og endurvekja trúverðugleika okkar á alþjóðavettvangi.

Nauðsynlegt verður því fyrir ríkisstjórn og Alþingi að hlusta gaumgæfilega á tillögur hans og tryggja að lagaumhverfi okkar sé með því fremsta sem þekkist í heiminum.

Við stjórnmálamennirnir verðum líka að horfa  gagnrýnum augum á ríkisreksturinn og fara gaumgæfilega yfir það hvar við getum dregið úr útgjöldum. Við eigum að horfa til þess hvort ekki er hægt að fækka ráðuneytum og sameina þau og einfalda stjórnkerfið.

Við eigum að skoða hvort og þá hvernig megi sameina þau ráðuneyti sem koma að efnahagsmálum, stjórnun peningamála, fjármálum og viðskiptum.

Að mínu mati hafa of margir aðilar komið að ákvarðanatöku á þessu sviði og það hefur gert hana ómarkvissari en ella. Með þessu getum við eflt hið efnhagslega umhverfi og styrkt þau ráðuneyti sem komið hafa að efnahags- og fjármálum og aukið samhæfingu og skilvirkni á þessum sviðum.

Ég vil að við skoðum allar leiðir og alla möguleika. Við eigum að sameina stofnanir þvert á ráðuneyti og fækka yfirstjórnum þeirra. Við eigum einnig að horfa til fækkunar á þingmönnum og kæmi mér ekki á óvart að Stjórnlagaþing, kæmist það á, legði slíkt til.

Við eigum að einbeita okkur að því að skattpeningar almennings renni sem allra fyrst aftur til fólksins í formi velferðarþjónustu og samfélagslegrar uppbyggingar.

 

Ágætu viðskiptaþingsgestir.

Atvinnuppbygging hér á landi er eitt mikilvægasta verkefnið framundan.

Ríkisstjórnin hefur þegar gripið til margvíslegra aðgerða til þess að styrkja vinnumarkaðinn og atvinnulífið í landinu. Nýjar tillögur í atvinnumálum ættu að skapa um 6.000 ársverk, þar af munu verða til um 2.000 störf í orkufrekum iðnaði, svo eitthvað sé nefnt.  Ekkert virðist því til fyrirstöðu að hefja framkvæmdir í Straumsvík á 3ja ársfjórðungi þessa árs. Verkefnið í Helguvík er þegar hafið að hluta en niðurstaða varðandi fjármögnun fæst væntanlega í sumar. Þar er lykilatriði að fjárfestar beri traust til íslensks samfélags og vilji fjárfesta hér. Þess þarf vart að geta í þessum félagsskap.

En hér skiptir ekki einungis stóriðnaður og mannaflafrekar framkvæmdir máli. Mikilvægt er að hlúa að þeim atvinnugreinum þar sem við nýtum menntun og þekkingu okkar fólks sem best svo sem í hátækniðnaði og í sérfræðistörfum. Við verðum að líta til þeirra starfa sem eru þjóðhagslega arðbærust til lengri tíma litið. Við verðum að horfa til framtíðar.

Margt smátt gerir eitt stórt. Ég hvet fólk til þess að nýta nú breytingar á lögum um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna viðhaldsverkefna og auka þannig atvinnu, ekki síst hjá verktökum og iðnaðarmönnum. Þá hafa lög sem gera ráð fyrir hlutastörfum samhliða atvinnuleysibótum verið nýtt umtalsvert af hálfu fyrirtækja í vanda og í lok febrúar voru um 20% þeirra sem eru skráðir atvinnulausir í hlutastörfum. 

Ég hvet fyrirtæki og einstaklinga til þess að nýta sér þessi úrræði, sem eru tímabundin, og til þess fallin að tryggja hér atvinnu. Ég tel afar mikilvægt að starfsemi smárra og meðalstórra fyrirtækja haldist gangandi og veit að þessi úrræði geta nýst þeim. 

Ég vil sérstaklega nefna hér nýsköpun, hönnun og smáiðnað sem dafnar nú vel og á þessum sviðum sjáum við jákvæðar hliðar þeirrar stöðu sem við erum nú í. Það er afar athyglisvert að sjá hvernig ýmiss smáiðnaður sprettur nú upp út um allt land þar sem notuð eru íslensk hráefni. Þetta er að mínu mati afar áhugaverð þróun sem ég vonast svo sannarlega til að eflist og dafni sem víðast og í sem fjölbreyttustu formi.

 

Ágætu þingfulltrúar.

 Þrátt fyrir að við séum öll sammála um að best sé að losa um gjaldeyrishöftin sem allra fyrst þá hafa aðstæður enn ekki skapast til þess að slíkt sé mögulegt. Áður en hægt verður að losa um þau – og að aflétta þeim að lokum – verður að draga verulega úr þeirri óvissu sem einkennir íslenskt efnahagslíf. Skýrari sýn verður að liggja fyrir um skuldastöðu þjóðarbúsins.

Ljúka verður við endurfjármögnun bankanna og samninga við erlenda lánveitendur og setja ríkissjóði skýr markmið til næstu ára. Ef höftunum yrði aflétt of snemma gæti krónan fallið hratt, a.m.k. til skemmri tíma, með alvarlegum afleiðingum fyrir skuldsett fyrirtæki og heimili í landinu og þá yrði erfiðara að lækka vexti.

Mikilvægt er að hafa í huga að gengi krónunnar hefur styrktst verulega frá áramótum eða um 15% og er gengið nú svipað og það var fyrir hrunið í haust. Það er þó enn óvissa í efnahagslífinu og við þær aðstæður er ekki ráðlegt að losa um gjaldeyrishöftin. Á vettvangi Seðlabankans er unnið að gerð áætlunar um hvernig við getum losað um þau.

Innganga í Evrópusambandið og upptaka Evru er að mínu mati forsenda langvarandi stöðugleika íslenska hagkerfisins.

Við Íslendingar viljum og eigum að vera öflugir þátttakendur í alþjóðasamfélaginu og sækja styrk í samstarf við sem flestar þjóðir. Ég tel afar mikilvægt að við hlýðum á raddir erlendra sérfræðinga og sækjum til þeirra ráðgjöf á sem flestum sviðum.

Ég tel líka afar mikilvægt að allir stjórnmálaflokkar taki nú í aðdraganda kosninganna og í framhaldi af þeim skýra stefnumótandi afstöðu til þess hvort og þá hvenær skuli hefja viðræður við Evrópusambandið þannig að við fáum raunverulega upp á borðið þá kosti sem það kann að hafa fyrir íslenskt samfélag, viðskiptalífið og almenning í landinu.

 

Ágætu viðskiptaþinggestir.

Ég vil ljúka þessu máli mínu með því að segja að ég tel að endurreisnin sé nú hafin eins og ráða má af vel valinni yfirskrift Viðskiptaþings árið 2009. Íslendingar eru vel menntuð og dugleg þjóð. Við erum þekkt fyrir sveigjanleika ég er sannfærð um að sá sveigjanleiki mun koma okkur Íslendingum fyrr í gegnum efnahagslægðina en öðrum þjóðum sem nú glíma við svipaðan vanda.

Ísland hefur eins og önnur Norðurlönd verið þekkt fyrir öflugt atvinnulíf samhliða velferðarkerfi, sem margir líta til með aðdáun. Nú verðum við að nýta okkur þessa kosti og snúa vörn í sókn. Við höfum notið þess að eiga traust og öflug fjölskyldufyrirtæki og mörg önnur fyrirtæki sem hafa starfað í sátt við samfélagið og sýnt samfélagslega ábyrgð.

Ábyrg fyrirtæki skapa öflugt atvinnulíf sem aftur er forsenda velferðar í okkar samfélagi sem öðrum nútímasamfélögum. Stjórnvöldum ber að styðja við atvinnulífið  með því að tryggja heilbrigt efnhagslegt umhverfi. Að því stefnir mín ríkisstjórn ótrauð.

 

Ágætu viðskiptaþingsgestir.

Það er full ástæða til bjartsýni þrátt fyrir þær tímabundnu þrengingar sem við göngum í nú gegnum því endurreisnin er hafin.

Hægt hefur á hlutfallslegri fjölgun á atvinnuleysiskrá og engar hópuppsagnir voru tilkynntar um síðustu mánaðamót. Gengi krónunnar styrkist dag frá degi og er nú svipað og það var fyrir hrunið í haust. Verðbólgan er á niðurleið og forsendur fyrir vaxtalækkun eru nú til staðar.

Ég heiti ykkur stuðningi mínum sem forsætisráðherra við uppbyggingu frjálslynds velferðarsamfélags, sem er reiðubúið að horfa af fullri alvöru til Evrópusambandsins og upptöku Evru.

Ég óska ykkur góðs gengis í þeim verkefnum sem framundan eru.

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta