Hoppa yfir valmynd
25. mars 2009 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Ávarp forsætisráðherra á aukaársfundi ASÍ kl. 9.30 á Hilton Reykjavík Nordica miðvikudaginn 25. mars

Ágætu fundargestir.

Ég vil þakka fyrir að fá tækifæri til þess að vera hér með ykkur í upphafi þessa aukaársfundar ykkar og ávarpa þann mikilvæga hóp sem hér er saman kominn.

Til fundarins er boðað í ljósi sérstakra aðstæðna í samfélaginu. Þið munið hér í dag ræða framtíðarsýn Alþýðusambands Íslands til endurreisnar íslensks efnahags- og atvinnulífs og það er ákaflega brýnt.

Það hefur að mínu mati aldrei verið mikilvægara en einmitt nú að verkalýðshreyfingin láti til sín heyra og til sín taka. Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að stjórnvöld hlýði á raddir hins almenna launamanns sem leggur grunn að framleiðslu og velferð í samfélagi okkar.

Við Íslendingum blasa nú mestu efnhagsþrengingar frá lýðveldisstofnun. Íslenska þjóðin hefur á þessum mánuðum sem liðnir eru orðið fyrir miklum áföllum, fjárhagslegum og félagslegum – sem snert hafa flest heimili í landinu.

Atvinnuleysið hefur risið hátt. Það er hærra en við höfum séð um áratuga skeið og stærsti hluti þjóðarinnar hefur þurft að þola mikið fjárhagslegt tap og hremmingar. Kvíði og ótti fólks varðandi framtíðina hefur verið mikill og er mjög skiljanlegur.

Það er engum vafa undirorpið að trúverðugleiki stjórnvalda og margra mikilvægra stofnana samfélagsins hefur beðið mjög mikinn hnekki. Það kallar á uppstokkun, breyttar leikreglur og raunar á margan hátt líka að ný gildi í samfélaginu verði sett í öndvegi í samfélagi okkar.

Græðgisvæðingin hefur haft hér öll tök og við sjáum nú hvað það hefur verið þjóðinni dýrkeypt. Það er eins og hver hafi verið sjálfum sér næstur og samfélagsleg gildi verið á hröðu undanhaldi.

Nýr sáttmáli þjóðarinnar verður að byggja á jafnræði, samfélagslegri ábyrgð, bættu siðferði og kannski ekki síst hófsemd og náungakærleik. Ég tel að það séu fyrst og fremst þessi gildi sem munu leiða okkur upp úr þeim öldudal sem við erum nú í.

Það eru ekki bara auðjöfrarnir í fjármála- og viðskiptalífi, stjórnvöld og eftirlitsstofnanir sem bera ábyrgð á því hvernig komið er og verða að sýna iðrun og auðmýkt gagnvart þjóðinni.

Allir þeir sem ábyrgð bera í samfélaginu verða að horfa í eigin barm og spyrja: Get ég gert betur og hvernig getum við lagt okkar af mörkum til að við sem þjóð getum saman endurreist ný gildi – nýtt samfélag - sem við erum stolt af - fyrir framtíð okkar þjóðar.

Hér á þessum vettvangi vildi ég leyfa mér að segja að aðilar vinnumarkaðarins geta lagt stóran skerf fram, ekki bara með því að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að styrkja atvinnulífið og velferð fjölskyldna. Það þarf líka að skoða leikreglur í stjórnskipulagi og stjórnarháttum lífeyrissjóðanna, stærstu sjóða launafólks.

Má eitthvað færa þar til betri vegar til að auka lýðræði, draga úr hagsmunaárekstrum og háum sporslum og stjórnunarkostnaði? Allt skiptir þetta máli í endurreisninni framundan þannig að hægt sé að auka tiltrú fólks á mikilvægum samfélagslegum stofnunum.

Við verðum líka að bera gæfu til þess í okkar annars ágæta samfélagi að finna jafnvægi á milli sjónarmiða og stöðu launafólks annars vegar og viðskiptalífsins og fyrirtækjanna í landinu hins vegar.

Við verðum nú á sama hátt og fjölmargar aðrar þjóðir að endurmeta gildi okkar og ráðast gegn því misvægi sem hefur því miður aukist verulega á síðustu árum. Við eigum og verðum að berjast gegn því af alefli að hér verði áfram byggt upp samfélag óréttlætis og sundrungar.

Tímar ofurlauna í íslensku atvinnulífi eru liðnir. Þeir sem haga sér með slíkum hætti í því umhverfi sem við búum við í dag eru í raun að segja sig úr siðferðilegu sambandi við þjóðina. Ég hvet aðila vinnumarkaðarins til að taka til umfjöllunar á sínum vettvangi þróun samsetningar launa, aukagreiðslna, kaupaukasamninga, bónusa og starfslokasamninga.

Ofurlaunakerfin sem áttu sinn þátt í að leiða til þeirra efnahagsþrenginga og misskiptingar auðs sem við erum að reyna að ná okkur út úr hlýtur að þurfa að endurskoða.

Þeir sem stunda atvinnurekstur verða að bera gæfu til þess að finna jafnvægi á milli vinnuframlags hins almenna launafólks annars vegar og hagnaðar eigenda hins vegar.

Aðilar vinnumarkaðarins sýndu mikinn þroska þegar þeir sömdu um framlengingu kjarasamninga fyrir um mánuði síðan. Framlag ykkar var og er lofsvert, en til að sátt sé um það þurfa allir að vera aðilar að slíkri sáttagjörð, meðan við vinnum okkur út úr vandanum. Það gengur ekki að greiða út arð, háa bónusa eða ofurlaun til eigenda og æðstu stjórnenda á meðan krafist er fórna af launafólki.

Ríkið hlýtur nú einnig að skoða mjög alvarlega hvernig fyrirtæki sem þiggja ríkisaðstoð verja hagnaði sínum. Ég tel að þau og reyndar öll fyrirtæki sem skila hagnaði um þessar mundir hljóti að horfa til þess að verja hagnaði sínum til verðmætaaukningar í fyrirtækjum og fjölgunar starfa frekar en að greiða út arð og stuðla þannig að uppbyggingu til framtíðar í þessum fyrirtækjum.

Ágætu gestir.

Við hittumst hér í skugga þeirrar staðreyndar að tala atvinnulausra hefur aldrei verið hærri frá því skráningar hófust hér á landi. Um sautján þúsund manns eru nú á atvinnuleysisskrá og Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að talan hækki umtalsvert þegar námsmenn hefja leit að sumarstörfum.

Atvinnuleysi gæti farið yfir 10% enda þótt það hafi sem betur fer ekki aukist jafn hratt nú og það gerði á tímabili í lok síðasta árs. Það er sárt að horfa framá fjölda fólks sem unnið hefur af heilindum og samviskusemi missa vinnu sína, bæði í fjármálastofnunum og annars staðar, vegna áhættu fárra en áhrifamikilla hópa.

Hvernig á að koma atvinnulausum til hjálpar og skuldsettum heimilum? Samkvæmt greiningu Seðlabanka Íslands er það einmitt atvinnulausa fólkið og láglaunafólkið sem á erfiðast með að greiða af skuldum sínum.
Vandi heimilanna er mikill, ekki síst hjá þeim heimilum þar sem atvinnleysið hefur knúið dyra eða tekjur lækkað umtalsvert af öðrum ástæðum.

Við þurfum ekki að ýkja þennan vanda – hann er raunverulegur og við honum þurfum við að bregaðst.

Staðreyndin er engu að síður sú, að enn hefur 90% af vinnumarkaðnum atvinnu og stærsta verkefnið er að draga úr þessu atvinnuleysi.

Samhvæmt úttekt Seðlabankans eru enn ríflega 80% af heimilum landsins með jákvætt eigið fé í húseign sinni og ríflega 60% með 5 milljónir eða meira í hreina eign.

Úttekt Seðlabankans sýnir einnig að 33% heimila landsins greiða innan við 50 þúsund krónur í afborganir fasteignalána á mánuði og 42% 50 - 100 þúsund krónur. Samtals eru því ríflega 75% þessara skuldsettu heimila að greiða undir 100 þúsund krónur á mánuði vegna fasteignalána, sem er vissulega mjög mikið fyrir mörg heimili í landinu.

Samt sýnir þetta okkur að vandinn er viðráðanlegur þó vissulega sé hann mikill. Við þurfum líka að hafa í huga að atvinnuleysið og sá samdráttur sem við nú horfumst í augu við, er tímabundinn vandi. Við munum á næstu misserum og árum vinna okkur út úr vandanum. Atvinna mun aukast á ný strax á næsta ári. Tekjur heimilana munu vaxa í beinu framhaldi og húsnæðisverð mun smátt og smátt hækka á ný, þó vafalaust eigi það enn eftir að lækka á þessu og næsta ári.

Fyrr en varir mun því birta á ný og sameiginlegt verkefni okkar allra er fyrst og fremst að tryggja að þau heimili sem komast í vanda í öldudalnum miðjum verði aðstoðuð og þau studd eftir þörfum þar til birtir á ný.

Sumum dugar að lækka greiðslubyrðina og lengja í lánum – slík úrræði hafa verið innleidd fyrir verðtryggð lán og sambærileg úrræði er verið að útfæra í samstarfi við allar fjármálastofnanir. Þessi úrræði geta lækkað greiðslubyrði lána um 10-50% miðað við það sem ella hefði orðið.

Einhverjir þurfa á tímabundnum greiðslufrestum að halda, jafnvel í 1-3 ár, vegna atvinnumissis eða annarra tímabundinna aðstæðna. Slík úrræði hafa verið innleidd hjá Íbúðalánasjóði og munu á næstu dögum einnig ná til annarra fjármálastofnana í landinu.

Enn öðrum dugar að brúa bilið með auknum vaxtabótum eða útgreiðslu séreignarsparnaðar. Lög um útborgun séreignarsparnaðr hafa þegar verið samþykkt og geta einstaklingar tekið út allt að 1 milljón og hjón 2 milljónir. Frumvarp um 25% hækkun vaxtabóta bíður nú afgreiðslu á Alþingi, en verði það samþykkt geta vaxtabótagreiðslur hjá hjónum sem hafa 3-8 milljónir í árstekjur hækkað um ríflega 170.000 krónur, fara úr 314 þúsundum í 487 þúsund. Það munar um slíkar fjárhæðir þegar haft er í huga að u.þ.b. 75% af heimilum landsins greiða undir 100 þúsund krónur á mánuði í húsnæðislán.

Ég leyfi mér að fullyrða að ofangreind úrræði munu duga til að bregðast við vanda lang flestra heimila þar sem skuldavandi vegna hefðbundinna húsnæðislána eða skyndilegs tekjufalls knýr dyra. Þar sem vandinn er hinsvegar víðtækari en svo að ofangreind úrræði dugi, hefur ríkisstjórnin lagt á það áherslu að allt verði gert til að bregðast við fjárhagsaðstæðunum án þess að fjölskyldur misstu heimili sitt eða einstaklingar yrðu knúnir í gjaldþrot.

Í þessu skyni bíða nú samþykkis á Alþingi lagafrumvörp um greiðsluaðlögun samningakrafna, greiðsluaðlögun fasteignaveðlána, frestun nauðungaruppboða og aukinn stuðning og bætta stöðu einstaklinga sem nálgast greiðsluþrot.

Allt þetta, ásamt þeim lagabreytingum sem þegar hafa verið samþykktar um lækkun dráttarvaxta og heimilda til Íbúðalánasjóðs um að leigja húsnæði, eru til þess fallnar að verja heimili og búsetuöryggi þeirra fjölskyldna sem lenda í alvarlegum fjárhagsvanda á næstu misserum. Það er þessi hópur sem þarf raunverulega á aðstoð að halda í formi niðurfellingar á skuldum.

Slík niðurfelling gæti verið 10%, 20% eða 50%, 1 milljón króna, 4 milljónir eða 10 milljónir – það fer allt eftir aðstæðum hvers og eins. Það er vegna þessa hóps sem bankar og fjármálastofnanir hafa reiknað með afskriftum lána eins og ýmsum hefur orðið tíðrætt um. Vandi þessa fólks verður ekki leystur með því að lækka skuldir með flatri niðurfellingu á alla, líka skulda þeirra sem sem nóg hafa handa á milli.

Seðlabankinn hefur reyndar reiknað út hvernig þær tvær hugmyndi sem helst hafa verið reifaðar koma út gagnvart heimilum landsins. Þá útreikninga fékk ég í hendur í gær.

Báðar tillögurnar, annars vegar 20% niðurfelling og hins vegar 4 milljóna niðurfelling húsnæðislána myndi kosta um það bil 300 milljarða, eingöngu vegna húsnæðislána. Tillögurnar eru hins vegar því marki brenndar að aðeins innan við helmingur niðurgreiðslunnar myndi renna til þess hóps sem býr við lakasta eiginfjárstöðu. Stærstur hluti ríkisstyrkjarins myndi renna til þeirra sem hafa 5 milljónir eða meira í eigið fé.

Báðar tillögurnar eru því ómarkvissar og mjög kostnaðarsamar fyrir skuldsettan ríkissjóð og það sem verst er að þær binda langan skuldaklafa á börn okkar og barnabörn um langan tíma.

Tillagan um að fella niður 20% af öllum skuldum, bæði heimila og fyrirtækja yrði reyndar einhver mesta eignatilfærsla frá einstaklingum til fyrirtækja sem hér hefði farið fram. Skuldir fyrirtækjanna eru margfaldar á við skuldir einstaklinga og því færu útgjöld ríkisins vegna þessa fyrst og fremst til fyrirtækja. Skatturinn yrði hinsvegar greiddur af launþegum þessa lands.

Mér reiknast til að heildarkostnaður vegna þess yrði milli 800-900 milljarðar króna, ríflega 10 milljónir á hverja 4 manna fjölskyldu í landinu. Til að setja þetta í samhengi þá er reiknað með að skuldir ríkissjóðs, ekki síst vegna hrunsins, verði í lok þessa árs um 1100 milljarðar. Við værum því nánast að tvöfalda þá upphæð með 20% hugmyndinni, sem velt yrði yfir á skattgreiðendur og framtíðina.

Ágætu þingfulltrúar.

Ríkisstjórnin hefur einnig gripið til ýmissa aðgerða til að efla hér atvinnu og kynnt áætlun um að skapa 6.000 störf.

Af þessum 6.000 störfum eru um 2.000 í orkufrekum iðnaði. Þar er ekki aðeins stóriðnaður sem skiptir máli, heldur mannaflsfrekar framkvæmdir og til þeirra lítum við þegar við nefnum þessi 6.000 ársverk. Þá er mikilvægt að hlúa að atvinnugreinum þar sem við nýtum sem best menntun og þekkingu; ég nefni hátækniiðnað og sérfræðistörf.

Þá vil ég nefna endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna viðhaldsframkvæmda úr 60 í 100 prósent tímabundið og auknar útlánaheimildir Íbúðalánasjóðs til viðhaldsframkvæmda. Þetta gæti aukið atvinnu verulega, ekki síst hjá verktökum og iðnaðarmönnum. Ég hvet fólk eindregið til að nýta sér þessar breytingar, en hér er um tímabundin úrræði að ræða. Þá hefur sá möguleiki að gera ráð fyrir hlutastörfum samhliða atvinnuleysisbótum verið nýttur mikið. Um tuttugu prósent þeirra sem eru skráðir atvinnulausir eru nú í hlutastarfi.

Eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar er þó að endurskipuleggja bankakerfið og er sú vinna langt komin. Þá er verið að vinna skipulega að áætlun um að afnema gjaldeyrishöftin og ná niður stýrivöxtum hratt og markvisst, og það ferli er nú hafið. Þetta er undirstaða endurreisnar atvinnulífsins en þó hafði þetta því miður dregist úr hófi í tíð fyrri ríkisstjórnar.

Við sem förum með ríkisfjármálin verðum að taka þau föstum tökum. Við þurfum að horfast í augu við mikinn niðurskurð og forgangsröðun verkefna og þjónustu. Ég vænti þess að í því erfiða verkefni sem framundan er, munum við leita sem kostur er eftir samráði og afstöðu hagsmunaaðila og almennings. Ég vil að við stöndum vörð um velferðarkerfið og grunnþjónustuna. Ég vil hlífa fólki með lágar og meðaltekjur og styrkja öryggisnetið.

Það er þekkt að of mikill niðurskurður á einu sviði getur leitt til kostnaðar og varanlegs skaða á öðrum sviðum.

Ég tel að við ættum að skoða nú sem aldrei fyrr breytingar á stjórnkerfinu og sameiningu ráðuneyta, svo sem efnahagsráðuneyta og atvinnumálaráðuneyta. Það myndi gera stjórnsýsluna mun skilvirkari og ódýrari og það vantar líka meiri stjórnfestu í stjórnsýsluna. Ég vil á sama tíma efla upplýsingagjöf til almennings og gera stjórnsýsluna gagnsærri og opnari fyrir almenningi.

Ég vil líka að við ráðumst gegn skattaundandrætti og lokum skattaskjólum. Fyrir liggja tillögur þess efnis, sem ég vænti að verði nú afgreiddar frá Alþingi. Ég vil líka sjá réttlátara skattkerfi þar sem byrðirnar eru lagðar á þá sem mest hafa, en ekki á þá sem minnst bera úr býtum. Skattkerfið hefur í of miklum mæli verið notað undanfarinn einn og hálfan áratug, til að hækka byrðar á fólki með lágar og meðaltekjur á meðan þeim var hlíft og þeir fengu skattalækkanir sem mest höfðu fyrir.

Ágætu fundarmenn.

Þið ræðið í fundarboði ykkar um endurreisn og er það vel. Mörg jákvæð teikn eru á lofti um að uppbyggingin sé hafin. Verðbólgan fer nú lækkandi mánuð eftir mánuð. Árshækkun síðastliðna þrjá mánuði er nú aðeins 1,9 %. Í febrúar var verðbólgan 10,9%, í janúar 16,4% og í desember 24%. Þessar tölur segja allt sem segja þarf um hina jákvæðu þróun.

Verðlag lækkaði í síðasta mánuði og hefur ekki lækkað meira í einum mánuði frá árinu 1986. Verðhjöðnun nú mun um næstu mánaðamót lækka verðtryggðar skuldir heimila í landinu um sex milljarða króna. Við erum þegar farin að sjá lækkun vaxta og frekari lækkunar er að vænta í byrjun apríl. Þetta er vissulega góðar fréttir og vekja okkur vonir um að við séum nú að snúa vörn í sókn til hagsbóta fyrir atvinnulífið og heimilin í landinu.

Og við verðum að horfa til framtíðar. Reynsla íslenskrar þjóðar af því að viðhalda sjálfstæðum gjaldmiðli er ekki góð. Atvinnulífið hefur að stórum hluta siglt í ólgusjó ótryggs gjaldmiðils eins og þorri almennings. Launafólkið hefur mátt þola það árum saman að tekjur þess hafi verið óvissar og engin trygging hefur verið fyrir því að þær héldu í við fjárhagslegar skuldbindingar heimilanna.

Verðtryggingin hefur verið víðtækari og meiri hér á landi en annars staðar. Reyndar horfir nú svo á næstu mánuðunum að í fyrsta skipti um langa hríð muni skuldarar hagnast á þeirri verðlagsrþróun sem spáð er, en til lengri tíma litið er óþolandi annað en íslenskt launafólk og atvinnulífið búi við hliðstæð kjör og bjóðast í efnahagslífi hjá helstu viðskiptaþjóðum okkar. Meðal annars af þessum ástæðum hljótum við að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Ágætu fundarmenn

Ég óska ykkur góðs gengis í ykkar mikilvægu störfum í dag. Ég veit að slíkur aukaársfundur hefur ekki verið haldinn á vettvangi ASÍ frá lokum sjöunda áratugar. Tilefnið er ærið og það að þið boðið til þessa fundar ber vott um ábyrga afstöðu og sýnir að þið eruð reiðubúin að leggja ykkar af mörkum. Ég met það mikils og fyrir það er ég ykkur þakklát.

Við Íslendingar virðumst nú ganga fyrstir þjóða í gegnum djúpa kreppu sem fjölmargar þjóðir kljást við um heim allan. Það jákvæða er að allt bendir til þess að við verðum í hópi þeirra þjóða sem fyrst munu ná sér á strik aftur. Við höfum sýnt það og sannað að við erum vinnusöm og öflug og að vinnumarkaður okkar og samfélagið í heild er sveigjanlegra en víðast annars staðar. Það eigum við nú að nýta okkur.

Við búum yfir miklum gæðum og mun meiri gæðum en margar aðrar þjóðir. Við búum við náttúruauðlindir til sjávar og sveita og orku sem er og verður dýrmæt. Við erum að ýmsu leyti sjálfum okkur nóg og við eigum nú sem aldrei fyrr að líta til þess sem framleitt er hér á landi með íslenskum vinnandi höndum og úr íslensku hráefni.

Það jákvæða við þá erfiðleika sem við göngum nú í gegnum er að við lítum okkur nær og að um land allt spretta nú upp lífvænlegir sprotar sem ég trúi að eigi eftir að vaxa og dafna. Þetta er sprotar framtíðarinnar byggðir á þeim mikla mannauði sem við búum yfir hér í þessu gjöfula landi.

Nú þurfum við öll að snúa vörn í sókn.

Tími endurreisnar og uppbyggingar er hafinn. Með ný gildi réttlætis og jöfnuðar í öndvegi eru okkur allir vegir færir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta