Hoppa yfir valmynd
31. mars 2009 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Ávarp forsætisráðherra í tilefni af aldarafmæli Þjóðmenningarhússins 28. mars 2009

Ágætu afmælisgestir.

Til hamingju með daginn.

Það er mér mikill heiður að fá að ávarpa ykkur hér við þetta tækifæri í þessu fallega húsi, Þjóðmenningarhúsi. Þjóðmenning er eitt af okkar fallegu og innihaldsríku orðum og það merkir andleg og verkleg menning þjóðar. Andleg og verkleg menning þjóðar.

Þetta eru innihaldsrík orð og ég veit að þið getið tekið undir með mér að fátt eða ekkert er jafn mikilvægt og andleg og verkleg menning og sterk sjálfsmynd einnar þjóðar. Þessir þættir eru í senn grundvöllur sjálfstæðis okkar og grundvöllur þátttöku okkar í alþjóðasamfélaginu. Við verðum að hafa sterka sjálfsmynd til þess að viðhalda menningu okkar og sjálfstæði.

Við Íslendingar búum við einstaka náttúru og sögu og sagnahefð sem hefur vakið heimsathygli og aðdáun annarra þjóða.

Það er á tímum sem þessum, tímum erfiðleika og mótlætis, sem við sækjum styrk okkar í þessa grundvallarþætti sem gera þjóð að þjóð og eru grundvöllur samstöðu og samkenndar.

Það hús sem við erum í hér í dag ber vott um stórhug og framsýni þeirra sem ákváðu í upphafi 20. aldar að hefja byggingu þessa mikla og glæsilega húss. Aðrir munu rekja hér ítarlega sögu Þjóðmenningarhússins sem hefur löngum verið talið eitt af fegurstu húsum á Íslandi. Það tók Alþingi nokkuð langan tíma að samþykkja ákvörðun um bygginguna en eftir að hún lá fyrir var verkið unnið af miklum myndarskap. Segja má að bygging hennar hafi verið táknmynd sjálfstæðis okkar í upphafi 20. aldar.

Hvert sem litið er sést hve mikil alúð hefur verið lögð í hönnun þessa húss, innan dyra og utan. Hið sama má segja um smíði hússins. Verkið önnuðust íslenskir iðnaðarmenn að mestu og ber það þeim lofsverðan vitnisburð.

Ég vek sérstaka athygli á þessu núna á þeim erfiðu tímum sem við göngum nú í gegnum. Sjaldan höfum við þurft meira á samstöðu að halda en einmitt nú og við þurfum sem aldrei fyrr að hlúa að íslenskri hönnum, handverki og iðnaði.

Þetta hús hefur í gegnum tíðina hýst mikla dýrgripi og mörg okkar hafa komið hingað í gegnum árin, þegar Landsbókasafnið og Náttúrugripasafnið voru starfrækt hér.

Að mínu mati hefur tekist afar vel til með nýtingu Þjóðmenningarhússins í dag. Hér hafa verið settar upp margar afburða góðar sýningar og öll endurgerð hússins er til mikillar fyrirmyndar. Hingað koma allar kynslóðir á einstakar sýningar og erlendir þjóðhöfðingjar heimsækja húsið, einkum til þess að líta okkar merku handrit augum.

Hér hljómar söngur, hér er sýnd íslensk nútímahönnum, hér koma menn saman á safnanótt og hér eru árleg samfélagsverðlaun og margvíslegar viðurkenningar veittar. Þá var húsið í október síðastliðnum sveipað bleikum ljóma til þess að vekja athygli á alþjóðlegu árveknisátaki gegn brjóstakrabbameini. Ég hef tekið eftir því að hér er mjög margt til fyrirmyndar. Hér er alúð lögð við alla þætti, ekki einungis sýningarnar heldur einnig verslunina hér og veitingasöluna.

Margir velja þennan vettvang fyrir opinberar kynningar og mál hafa þróast með þeim hætti að ég mæti hér vikulega á blaðamannafundi sem ríkisstjórnin heldur og húsið og salarkynnin hér eru góð umgjörð um þá. Hér hefur saga þjóðarinnar speglast og mér hefur fundist vel við hæfi að þessi staður hafi orðið fyrir valinu á þeim umbreytingatímum sem við göngum nú í gegnum. Það er hollt fyrir okkur að minna okkur á þá merku sögu sem við eigum og þá miklu baráttu sem margir stjórnmálamenn háðu fyrir okkar hönd. Þetta eigum við að hafa hugfast, nú sem aldrei fyrr.

Ég sagði hér áður að hér hefðu verið haldnar skáldakynningar en í ljóðum leynast miklar gersemar sem fela í sér dýrmæta sögu. Þannig er það með ljóðið “Í Árnasafni” eftir doktor Jón Helgason, sem lengst af starfaði sem forstöðumaður Árnasafns. Hann starfaði innan um handrit og bækur alla sína tíð sem endurspeglast vel í eftirfarandi ljóðlínum:

„Innan við múrvegginn átti ég löngum mitt sæti,
utan við kvikaði borgin með gný sinn og læti;
hálfvegis vakandi, hálfvegis eins og í draumi
heyrði ég þungann í aldanna sígandi straumi.
Undrandi renndi ég augum með bókanna röðum:
eljuverk þúsunda, varðveitt á skrifuðum blöðum;
hvar sem ég fletti, við eyru mér ólguðu og sungu
uppsprettulindir og niðandi vötn minnar tungu.

Oftsinnis meðan ég þreytti hin fornlegu fræði
fannst mér sem skrifarinn sjálfur hið næsta mér stæði,
hugurinn sá yfir hlykkjóttum stafanna baugum
hendur sem forðum var stjórnað af lifandi taugum.

Ólík er túninu gatan og glerrúðan skjánum,
glymjandi strætisins frábrugðin suðinu í ánum,
lífskjörin önnur, en fýsnin til fróðleiks og skrifta
fannst okkur báðum úr dustinu huganum lyfta.

Senn er þess von að úr sessinum mínum ég víki,
senn skal mér stefnt inn í skugganna fjölmenna ríki,
spyrji þá einhver hvar athafna minna sér staði
er það í fáeinum línum á gulnuðu blaði.“

Við göngum nú í gegnum endurskoðun á gildismati samfélagsins og hugsanlegt er að þeir tímar sem við förum nú í gegnum verði til þess að við hlúum nú sem aldrei fyrr að því sem land okkar og þjóð hefur uppá að bjóða.

Það er von mín að sem flestir, ungir sem aldnir, eigi þess kost að heimsækja Þjóðmenningarhúsið í framtíðinni og njóta þess sem það hefur uppá að bjóða. Framlag hússins og þeirra sem hér starfa er og verður mikilvægt.

Ágætu gestir.

Ég vonast til þess að við eigum hér góða stund saman og endurtek hamingjuóskir í tilefni af aldarafmæli þessa merka húss sem heldur sér einstaklega vel.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta