Hoppa yfir valmynd
19. maí 2009 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

UT - dagurinn 2009 - Upplýsingatækni til endurreisnar

Fundarstjóri, ágætu ráðstefnugestir,

Ég býð ykkur öll velkomin á ráðstefnuna: Upplýsingatækni til endurreisnar.

Efnt er til hennar í tilefni af degi upplýsingatækninnar eða UT-deginum sem nú er haldinn í fjórða sinn. Að ráðstefnunni standa auk forsætisráðuneytis, Félag forstöðumanna ríkisstofnana, Samtök upplýsingatæknifyrirtækja og Skýrslutæknifélagið. Vil ég þakka þeim fyrir gott samstarf við ráðuneytið í þessu verkefni.

Þær efnahagslegu þrengingar sem íslenska þjóðin gengur nú í gegnum eiga sér líklega fá fordæmi. Til að bregðast við verður að draga verulega úr útgjöldum ríkisins, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Því þurfum við að leita allra leiða til að ná niður kostnaði í hinu opinbera kerfi og helst án þess að skerða þjónustuna.

Markmið okkar til framtíðar er að þróa með endurskipulagningu og hagræðingu betri þjónustu fyrir minna fé. Slíkur árangur getur náðst á ýmsum sviðum en ekki öllum. En til þess þarf einbeittan vilja, þekkingu og hugvitssemi.

Hagræðing byggð á víðtæku samráði

Ég vil að ríkisstjórnin fari fyrir með góðu fordæmi og hagræði og bæti þjónustuna um leið. Við eigum að endurskipuleggja ráðuneyti og stofnanir þannig að þær þjóni almenningi og fyrirtækjum sem best og veiti sveigjanlega og góða þjónustu fyrir minni fjármuni. Ég vil byggja á víðtæku samráði og samvinnu um hagræðingu í stjórnkerfinu, með þátttöku stjórnenda, starfsfólks og notendum þjónustunnar. Framundan er gríðarlega vandasamt verkefni, jafnvel það erfiðasta sem við höfum nokkru sinni staðið frammi fyrir. Þar er mikilvægt að hlýða á sjónarmið og raddir sem flestra og því er þessi ráðstefna sem skipulögð er í dag mikilvægt skref á þeirri vegferð sem við erum nú að hefja.

Eins og yfirskrift ráðstefnunnar gefur til kynna þá verður í erindunum sem flutt verða hér í dag rætt um upplýsingatækni til endurreisnar - eða með öðrum orðum hvernig við getum nýtt upplýsingatæknina í því erfiða verkefni sem þjóðin öll stendur frammi fyrir í efnahagsmálum.

Upplýsingatæknin er kjörið tæki til að ná þessum árangri. Með henni getum við einfaldað ýmsa þjónustu, minnkað skriffinnsku og lækkað kostnað bæði hjá notendum þjónustunnar og innri kostnað stofnana.

Verkefni opinberra aðila eru að sjálfsögðu afar ólík, en það er rík ástæða til þess að stjórnendur skoði sérstaklega hvort og hvernig ná megi niður kostnaði með því að beita upplýsingatækninni. Starfsmenn og stjórnendur búa yfir sérþekkingu sem byggja þarf á og vil ég því hvetja til þess að ráðstefnugestir taki þátt í umræðunni á sínum starfsvettvangi og komi hugmyndum sínum á framfæri.

Upplýsingatækni mikilvæg við endurskipulagningu stjórnsýslunnar

Ágætu gestir,
Mig langar til að nefna nokkra þætti í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem mér finnst eiga erindi í umræðuna hér í dag.

Fyrst má nefna að ríkisstjórnin mun beita sér fyrir opinni stjórnsýslu, auknu gagnsæi og lýðræðisumbótum. Í öðru lagi hyggst ríkisstjórnin gera umtalsverðar stjórnkerfisbreytingar og umbætur í því skyni að gera þjónustu hins opinbera við almenning og atvinnulíf eins góða og kostur er.

Ég tel að upplýsingatæknin muni nú sem fyrr gegna mikilvægu hlutverki í þessum verkefnum. Eins og þið vitið, hafa stofnanir, sveitarfélög og ráðuneyti unnið að því að bæta þjónustu sína á liðnum árum. Lagt hefur verið kapp á að auka sjálfsafgreiðslu á netinu og gera almenningi og atvinnulífi kleift að reka erindi sín við stjórnsýsluna á eins einfaldan og fljótvirkan hátt og mögulegt er. Þar hefur upplýsingatæknin víða verið notuð með árangursríkum hætti og brýnt að halda áfram á þeirri braut.

Á næstu árum er svo fyrirhugað að gera talsverðar breytingar á ráðuneytum og stofnunum sem ég tel að sé löngu tímabært verkefni. Tilgangur breytinganna er að gera þjónustu hins opinbera við almenning og atvinnulíf eins góða og kostur er með þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru hverju sinni.
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er fyrirhugað að stofna nýtt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti sem tekur til allra atvinnugreina, nýsköpunar og þróunar innan þeirra. Þetta nýja ráðuneyti mun því verða ráðuneyti upplýsingatækniiðnaðarins eins og annarra atvinnugreina í stað  iðnaðarráðuneytisins sem nú heldur utan um þann málaflokk.
Umtalsverðar breytingar verða á forsætisráðuneytinu því efnahagsmálin, Norðurlandaskrifstofa og fleiri verkefni verða færð þaðan. Um leið fær ráðuneytið aukið forystu-, verkstjórnar- og samræmingarhlutverk.

Ennfremur verður settur á fót fastur samstarfsvettvangur stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins og önnur lykilhagsmunasamtök um þróun íslensks samfélags. Forsætisráðuneytið mun stýra stefnumörkun á sviði stjórnsýsluumbóta og –þróunar, þróunar lýðræðis og stjórnskipunar, samkeppnishæfni Íslands og jafnréttis kynjanna.

Ennfremur verður lagasamræming innan Stjórnarráðsins efld undir forystu þess. Til að ofangreindar breytingar verði markvissar verður starfsemi ráðuneytisins endurskipulögð til að halda utan um umbótaverkefni annars vegar og verkefnisstjórn um samfélagsþróun hins vegar.

Ágætu gestir,
Staðan í efnahagasmálunum er erfið og fyrir því munu allir Íslendingar finna. Það mun taka okkur nokkur ár að vinna okkur út úr vandanum – en það mun takast. Við þurfum að hlúa að hugvitssemi og hugviti – nýsköpun og sprotum til að ná árangri og öll þurfum við að hafa það hugfast að oft var þörf en nú er nauðsyn. Við þurfum að finna nýjar lausnir á gömlum vandamálum og horfa á hvernig fjármunum er varið, gera meira fyrir minna fé. Þannig munum við hægt og bítandi vinna okkur út úr vandanum.

Ég læt þetta verða mín lokaorð og óska þess að hér á ráðstefnunni fái þið margar nýjar hugmyndir um hvernig ná megi slíkum árangri.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta