Einangrun eða endurreisn í sátt við alþjóðasamfélagið
Með lausn Icesave deilunnar er lokið einhverjum erfiðustu og flóknustu samningaviðræðum og deilu sem íslensk stjórnvöld hafa átt í við önnur ríki.
Samkomulagið er mikilvæg forsenda í framgangi efnahagsáætlunar ríkisstjórnarinnar og þess að hægt verði að ganga frá samningum við þær vinaþjóðir sem boðið hafa lánafyrirgreiðslu til að efla gjaldeyrisforða Íslands. Ef ekki hefði samist er hætt við að samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hefði verið í uppnámi, engin leið hefði verið að aflétta gjaldeyrishömlum né byggja upp gjaldeyrisvaraforða með lánum frá öðrum ríkjum. Einangrun Íslands á alþjóðavettvangi hefði blasað við, fótunum verið kippt undan útflutningsatvinnuvegunum og erlendri fjárfestingu í atvinnulífinu hefði verið teflt í tvísýnu.
Með samkomulaginu er eytt gríðarlegri óvissu um ábyrgð Íslands á þeim uþb 1.200 milljörðum sem sparifjáreigendur í Bretlandi og Hollandi höfðu lagt inn á Icesave reikningana. Ekki má gleyma því að sl. haust höfðu innistæður hér á landi verið tryggðar að fullu og því reis spurningin um mismunun á grundvelli þjóðernis ef ekki yrði komið til móts við viðskiptavini útibúa íslensku bankanna. Stærsta hluta þessarar upphæðar hafa bresk og hollensk stjórnvöld þegar greitt út til sparifjáreigenda, en með samkomulaginu fallast þau á þann skilning að ábyrgð Íslands nái aðeins til ríflega helmings upphæðinnar, upp að 20.887 evru lágmarki viðkomandi ESB-tilskipunar sem Ísland hafði innleitt auk umsýslukostnaðar við greiðslu til innstæðueigenda.
Rétt er einnig að undirstrika að í samkomulaginu er kveðið á um endurskoðun þess ef skuldaþol íslenska ríkisins versnar verulega frá því sem var í nóvember 2008. Slíkt ákvæði er afar mikilvægt enda felst í því trygging fyrir því að samkomulagið muni ekki leiða til greiðsluþrots íslenska ríkisins, eins og sumir halda fam að það muni gera. Þvert á móti felur samkomulagið í sér, að greiðsluþroti íslenska ríkissins vegna Icesave málsins er í raun forðað. Þar með er gríðarlegri óvissu eytt um þróun íslensks efnahagslífs á næstu misserum og árum.
Hagstæðir langtímavextir festir og lánstími lengdur
Í samningunum felst að hollensk og bresk stjórnvöld veita Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta lán til 15 ára. Fjárhæð lánsins frá Bretum er um 2.350 milljón pund og frá Hollendum um 1.329 milljón evrur. Vextir reiknast á lánið frá 1. janúar 2009 og er um að ræða fasta ársvexti upp á 5,55% þ.e. 1,25% álag ofan á lágmarksviðmiðunarvexti OECD á langtímalánum sem eru 4,30%. Bæði álagið og viðmiðunarvextirnir eru með því lægsta sem gerist á föstum langtímavöxtum í Evrópu og má í því sambandi benda á að skuldatryggingaálag á 5 ára bréfum íslenska ríkisins er um þessar mundir 6,8%, samanborið við 1,25% í samkomulaginu. Jafnframt er gert ráð fyrir að ef enn betri lánskjör bjóðast á lánstímanum verði hægt að greiða lánið upp án aukakostnaðar. Að mati ríkisstjórnarinnar hefði ekki verið forsvaranlegt að sækjast eftir breytilegum vöxtum við þessar aðstæður jafnvel þótt nú séu þeir mjög lágir. Slíkir vextir geta fyrirvaralítið sveiflast upp á við og reikna flestir með að svo verði á næstu misserum og árum. Ekki væri réttlætanlegt að taka neina áhættu í því efni þegar um slíkar fjárhæðir er að tefla.
Til samanburðar má geta þess að í október síðastliðnum lág fyrir undirrituð viljayfirlýsing gagnvart Hollendingum þar sem gert var ráð fyrir 6,7% vöxtum, láni til 10 ára og gríðarlegum vaxtagreiðslum á næstu árum.
Kyrrsetningu vegna hryðjuverkalaga aflétt og eignir nýttar til fulls
Ekki þarf að greiða af láninu fyrstu sjö árin og á því tímabili og síðar verður hægt að nýta það sem kemur út úr eignum gamla Landsbankans til að greiða skuldina niður. Þessi rúmi tími eykur mjög möguleikana á að hámarka verðmæti eignanna, ekki síst í ljósi þess að samkvæmt samkomulaginu verður frystingu eigna á grundvelli hryðjuverkalaganna aflétt og þær færðar í hendur skilanefndarinnar 15. júní. Þar með losnar t.d. um ríflega 20 milljón pund sem undanfarna mánuði haf legið á vaxtalausum reikningi í Bank of England en verða nú fljótlega greidd til forgangskröfuhafa, m.a. til lækkunar á láninu til Íslands um tugi milljarða króna.
Við samningsgerðina var lagt til grundvallar varfærið mat á eignum Landsbankans og við það miðað að á næstu sjö árum muni 75% af forgangskröfum greiðast. Eftirstöðvarnar í því tilviki, um 170 milljarðar auk vaxta, gætu þá fallið á ríkissjóð næstu átta árin þar á eftir. Breska endurskoðunarstofnunin CIPFA gerir hins vegar ráð fyrir því að eignir Landsbankans geti staðið undir allt að 95 % af andvirði Icesave innistæðutrygginganna. Í því tilviki myndu um 33 milljarðar auk vaxta falla á ríkissjóð, hvorutveggja miðað við núverandi gengi krónunnar. Styrkist gengi krónunnar munu upphæðirnar hinsvegar minnka sem því nemur.
Þegar betur skýrist hversu hátt hlutfall lánsins mun greiðast af eignum Landsbankans mun ríkið að sjálfsögðu velta því fyrir sér hvaða leið sé heppilegust til að brúa bilið. Ekki er sjálfgefið að eftirstöðvarnar lendi á skattgreiðendum enda kæmi t.d. til álita að hækka framlög fjármálastofnana í tryggingasjóðinn en í mörgum löndum er einmitt ráð fyrir því gert að tryggingakerfi af þessu tagi geti verið fjármögnuð eftir á. Árið 2016 verður ábyrgð ríkissjóðs á eftirstöðvunum fyrst virk.
Grunnur lagður að farsælum samskiptum við alþjóðasamfélagið
Það er skiljanlegt að margir fyllist reiði þegar horfst er í augu við þær byrðar sem Icesave reikningarnir munu reynast íslensku þjóðinni. Mönnum svíður eðlilega sú staða sem Íslendingar voru settir í vegna gáleysilegra vinnubragða. En athöfnum fylgir ábyrgð. Íslendingar eru að axla ábyrgð á mistökum sem gerð voru af hálfu íslenskra bankamanna og stjórnvalda sem hefðu átt að grípa mun fyrr í taumana. Þessi lexía er erfið og dýru verði keypt en sú leið að hlaupast undan ábyrgð er ekki fær að mínu mati. Rétt er einnig að undirstrika að viðsemjendur Íslendinga höfnuðu því alfarið að ágreiningur þessi yrði lagður fyrir dóm, en það er meginregla í samskiptum ríkja að ágreiningsmálum milli þeirra verði ekki skotið í dóm nema um það sé samkomulag.
Eftir að hafa farið vandlega yfir málið með samninganefnd íslenska ríkisins sannfærðist ríkisstjórnin um að ekki væri hægt að ná betri samningum án þess að taka enn frekari áhættu með framhald endurreisnarstarfsins sem nú stendur yfir. Lengra yrði ekki komist án harkalegra árekstra við alþjóðasamfélagið eða mikilla tafa á endurreisnastarfinu. Skiptir þar sköpum það 7 ára svigrúm sem gefið er til að nýta sem best eignir Landsbankans til að borga upp skuldina, áður en til ábyrgðar eða útgjalda íslenska ríkisins gæti komið.
Með samningunum er lagður nýr grunnur að farsælu samstarfi við alþjóðasamfélagið um endurreisn íslensks efnahagslífs og erfiðri hindrun rutt úr vegi margra mikilvægra verkefna sem nú eru á lokastigi á vettvangi stjórnvalda. Endanlegt ákvörðunarvald um samkomulagið er hinsvegar í höndum Alþingis, enda ganga þeir fyrst í gildi að fengnu samþykki Alþingis við ríkisábyrgðinni sem þar er kveðið á um.