Þjóðhátíðarávarp forsætisráðherra
Góðir Íslendingar.
Þjóðhátíðardagurinn 17. júní skipar sérstakan sess í huga okkar Íslendinga. Þennan dag, þegar sól er hvað hæst á lofti og dagurinn hvað lengstur, safnast Íslendingar saman um allt land og víða erlendis og minnast þeirra sigra sem fámenn þjóð hefur unnið á leið til aukins frelsis og bættra lífshátta. Þennan dag fagna kynslóðirnar saman og ekki síst börnin og unga fólkið, framtíð þjóðar okkar.
Með stofnun lýðveldis á þessum degi fyrir 65 árum var staðfestur sigur Íslands sem fullvalda og sjálfstæðrar þjóðar. Sjálfstæðisbaráttunni var þó ekki lokið þann dag og margir fleiri sigrar, sem eflt hafa sjálfstæði okkar hafa unnist síðan þá. Á þessari leið ber sennilega hæst sigra í deilum um landhelgina, sem lauk með því að við fengum full og óskoruð yfirráðyfir auðlindunum í hafinu og á hafsbotni allt að 200 sjómílur frá landi. Sjálfstæðisbaráttan hefur verið okkur sá aflvaki sem fleytt hefur okkur frá örbirgð til allsnægta. Sú barátta heldur áfram og segja má að í dag, þann 17. júní árið 2009, heyjum við á ný mikla sjálfstæðisbaráttu. Baráttu sem engan hafði órað fyrir að við stæðum andspænis.
Erfiðir tímar í miðri heimskreppu
Fyrir ári höfðu dökk óveðursský hrannast upp á fjármálamörkuðum og í efnahagslífi þjóða heims. Alþjóðleg lánsfjárkreppa var skollin á og rótgrónar alþjóðlegar fjármálastofnanir höfðu lent í miklum erfiðleikum. Lánsfjárkreppan átti eftir að verða ein sú alvarlegasta og dýpsta sem riðið hefur yfir heiminn og afleiðingum hennar má líkja við efnahagslegar hamfarir. Þegar flóðbylgjan skall á af fullum þunga síðastliðið haust í Ameríku og Evrópu brustu stoðir íslenska fjáramálalífsins og viðskiptabankarnir komust í þrot á einni viku.
Á Íslandi varð höggið þyngra en nokkur hafði gert sér í hugarlund. Íslenskir útrásarvíkingar höfðu farið víða um í miklum græðgis- og óhófsham og skilið eftir sig rústir, ekki einungis hér á landi heldur einnig í öðrum löndum. Stjórnvöld og eftirlitsstofnanir okkar sýndu við þessar aðstæður of mikið andvaraleysi.
Afleiðingarnar fyrir atvinnulífið og heimilin í landinu þekkja allir. Á umliðnum mánuðum höfum við staðið í rústunum, sinnt björgunarstörfum og hreinsað til.
Þær ákvarðanir sem nú þarf að taka eru flestar erfiðari og þungbærari en orð fá lýst. Sú ákvörðun að ganga til samninga vegna skuldbindinga sem á okkur hvíla vegna ICESAVE reikninganna er afar erfið en óhjákvæmileg. Nauðsynlegt er að hafa í huga að það er samdóma álit allra ríkja Evrópusambandsins, þar á meðal okkar helstu vinaþjóða, að íslenska ríkið beri ábyrgð á þeim skuldbindingum sem hér um ræðir. Lögfræðilegar álitsgerðir bentu einnig til þess að engin leið væri fær til að útkljá þetta álitaefni fyrir dómi án samþykkis allra aðila. Það gæti því haft mjög alvarlegar afleiðingar að hafna skuldbindingunni einhliða.
Raunveruleg hætta væri á því að Ísland einangraðist á alþjóðavettvangi, markaðir myndu lokast og lánamöguleikar yrðu að engu. Slíkt myndi valda almenningi hér á landi og atvinnulífinu ófyrirsjáanlegum skaða til frambúðar.
Ég vil jafnramt undirstrika að fráleitt er, að þessir samningar skerði fullveldi þjóðarinnar eða umráðarétt íslenska ríkisins yfir auðlindum hennar eins og sumir hafa haldið fram.
Sjálf framtíðin er í húfi
Góðir Íslendingar.
Hin óblíðu náttúruöfl sem við höfum alist upp við í gegnum aldirnar hafa kennt okkur að taka áföllum af æðruleysi og vinna okkur út úr erfiðleikum með bjartsýni og þrautseigju að vopni. Frosthörkur, veðurbyljir og afleiðingar eldgosa, jarðskjálfta og annarra náttúruhamfara hafa í aldanna rás margsinnis valdið óvæntum búsifjum í atvinnulífi og afkomu þjóðarinnar. Nú verðum við sem aldrei fyrr að vera raunsæ og takast á við þá erfiðleika sem við blasa af festu og samhug. Lífskjör þjóðarinnar hafa versnað umtalsvert og þjóðarbúið hefur nú mun minna til ráðstöfunar en áður.
Fjöldi fólks hefur misst vinnuna og margar fjölskyldur eiga um sárt að binda af þeim sökum. Okkur ber skylda til að gæta að velferð okkar minnstu bræðra og systra, koma þeim til hjálpar með því að létta byrðar þeirra. Næsta ár verður okkur erfiðara en mörg ár á undan og við munum öll finna fyrir því með einum eða öðrum hætti. Því miður. Hver og einn hefur hlutverki að gegna í því uppbyggingarstarfi sem framundan er.
Hér er framtíð barna og ungmenna í húfi og þar með framtíð lands okkar og þjóðar og sjálfstæðis okkar. Við verðum að vekja og efla jákvæða sýn á þau tækifæri sem hér bjóðast og við verðum að koma í veg fyrir að við missum frá okkur þann mikla mannauð sem í okkur sjálfum býr og afkomendum okkar. Í aldanna rás höfum við lifað af því sem landið hefur gefið af sér. Á umliðnum áratugum hefur okkur tekist með hugviti, menntun og tækninýjungum að auka afrakstur náttúruauðlinda okkar án þess að ganga of nærri sjálfbærni þeirra.
Drögum lærdóm af fortíðinni
Gleymum því ekki að hátt menntunarstig og skynsamleg uppbygging grunnþátta samfélags okkar hefur gert okkar fámennu þjóð kleift að skapa sér lífsgæði sem óvíða þekkjast sambærileg. Lífsgæði sem við verðum nú að verja svo sem nokkur kostur er.
Við Íslendingar erum nú reynslunni ríkari og miklu skiptir að við drögum lærdóm af því sem gerst hefur þannig að við endurtökum ekki þau mistök sem okkur urðu á.
Ágirnd villti of mörgum sýn um stund og olli blindri trú á meinta snilli okkar í að kaupa og selja verðbréf og eignir víða um heim. Við gengum of hratt fram og við gengum fram af mörgum okkar mestu og bestu vinaþjóðum. Við verðum að endurvinna traust þeirra og virðingu og ég hef þá trú að okkur sé að takast það.
Um leið og þetta er sagt er ljóst, að við verðum að endurskapa traust í okkar eigin samfélagi og gera upp þá atburði sem ollu því að fjármálakerfi landsins hrundi. Stjórnvöldum blandast ekki hugur um að slíkt uppgjör er nauðsynlegt og munu fyrir sitt leyti gera allt til þess að því megi hraða og það megi vinna sem best.
Sjálfstæðið felst í samvinnu
Sjálfstæði Íslands byggist ekki á því að við stöndum einangruð og án samskipta við aðra. Sjálfstæði okkar, eins og allra annarra þjóða, byggist ekki síst á því að við séum í góðum tengslum við alþjóðasamfélagið og tökum virkan þátt í starfi á vettvangi þess.
Við höfum að verulegu leyti byggt framþróun hér á landi á menntun, tækni og þekkingu sem þróuð hefur verið meðal annarra þjóða og við svo hagnýtt. Því megum við ekki gleyma og það megum við ekki vanmeta. Við höfum notið góðs af alþjóðlegri samvinnu og við höfum sótt okkur framhaldsmenntun til annara landa, ekki síst Norðurlandanna lengst af. Við höfum byggt á erlendu fjármagni við margvíslega atvinnuuppbyggingu hér á landi og þannig verður það í framtíðinni, þegar okkur tekst að endurvinna traust alþjóðasamfélagsins í okkar garð.
Í því ljósi byggist sjálfstæðisbarátta okkar í dag ekki einungis á því að við séum sterk hér heima fyrir heldur einnig og ekki síður á því að við treystum góð samskipti við önnur ríki. Undanfarna daga hef ég setið fundi með hinum forsætisráðherrum Norðurlandanna hér á landi, og ég finn sterkt fyrir vilja þeirra til góðs samstarfs í því uppbyggingarstarfi sem framundan er hér á landi. Þessi velvild mun nýtast okkur vel nú sem fyrr og til allrar framtíðar.
Ég ætla því að leyfa mér að halda því fram í ávarpi til ykkar, góðir Íslendingar, á þessum hátíðisdegi, að sú sjálfstæðisbarátta sem við heyjum nú snúist að verulegu leyti bæði um það hvernig við munum þróa samstarf okkar við aðrar þjóðir og hvernig okkur tekst að ná fram samstöðu og sátt um það endurreisnarstarf sem framundan er meðal þjóðarinnar.
Nýir tímar, ný tækifæri
Kæru landsmenn.
Þrátt fyrir allt það sem á okkur hefur dunið höfum við áfram, kæru samlandar, allar forsendur til þess að vera stolt yfir því að vera Íslendingar. Við höfum enga ástæðu til annars en vera stolt af því að tilheyra þessari þjóð sem býr yfir jafn mikilli þrautseigju og krafti og sagan sýnir, þjóð sem hefur alla burði til að halda sér áfram í fremstu röð.
Við höfum í raun einstaka stöðu, einstök tækifæri og auðlindir okkar eru gífurlegar samanborið við margar aðrar þjóðir, en þær verðum við að nýta af skynsemi og sanngirni.
Við skulum byggja endurreisn atvinnulífsins á fjárhagslega traustari stoðum en áður og raunverulegri verðmætasköpun. Nýta þau tæki og tól sem við höfum aðgang að hér heima, fólkið, landið, auðlindirnar og sjóinn. Við skulum nýta frumkvöðlakraftinn, menntunina, tæknina, orkuna og tileinka okkur þann lærdóm sem fyrri kynslóðir hafa fært okkur.
Það uppbyggingarstarf sem nú er hafið mun taka einhvern tíma og kalla á sársaukafullar aðgerðir en til þess skal vanda sem lengi á að standa. En góðir Íslendingar, erfiðleikar geta verið farvegur frjórra hugsana og nýrra hugmynda. Við skulum virkja okkar unga fólk og alla þá sem hafa eitthvað nýtt til málanna að leggja, þá sem færa fram nýja sýn, nýja nálgun og finna þeim farveg fyrir nýsköpun sína og opna þeim leiðir til að sækja fram. Aukin afskipti ríkisins af atvinnulífinu og höft á frjáls viðskipti eru tímabundnar aðgerðir sem nauðsynlegt var að grípa til þannig að það skapist ráðrúm til markvissrar uppbyggingar að nýju.
Þáttur kvenna skiptir miklu
Góðir Íslendingar.
Við skulum einnig minnast þess að barátta fyrir auknum áhrifum kvenna í íslensku þjóðfélagi var veigamikill þáttur í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar . Aukin þátttaka kvenna í atvinnulífinu nú á þessum erfiðu tímum í sögu þjóðarinnar er mikilvægur grundvöllur hagvaxtar, aukinnar menntunar og grunnur að bættum hag landsmanna. Árangursrík uppbygging atvinnulífs og samfélags okkar á næstu árum grundvallast ekki síst á að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Það er vísasta leiðin til aukins hagvaxtar og bættra lífsgæða. Allir einstaklingar skulu eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni. Þannig byggjum við upp heilbrigt og réttsýnt velferðarþjóðfélag.
Framtíðin í okkar höndum
Við erum að hefja nýja sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar á grunni gilda sem skila okkur betra Íslandi og betri heimi. Það er grundvallaratriði að sem flestir skynji og meðtaki í verki að jafnir möguleikar til að njóta og þroska hæfileika sína er allra hagur, hagur einstaklingsins, heimilanna og samfélagsins. Þegar sagan verður skrifuð og þessara óróleikatíma og fjármálakreppu minnst, þá er það von mín að sá kafli verður stuttur. Það er von mín að í þessum kafla verði sagt frá samstæðri þjóð sem lét ekki slá sig út af laginu, lét ekki draga úr sér kjark og féllust ekki hendur.
Í þessum stutta kafla verði ekki dvalið lengi við það sem miður fór, heldur þá staðreynd að þarna fór þjóð sem lærði af reynslunni og byggði upp á rústum glópagullsins, samfélag sem byggðist á sanngirni, heiðarleika, réttsýni og jöfnuði. Þjóð sem tók réttar ákvarðanir og tókst ótrauð á við hlutverk sitt í samfélagi þjóðanna en dró sig ekki inn í skel og hvarf lengra inn á heiðina eins og ein frægasta persóna íslenskra bókmennta. Það er ekki síður von mín að þessi hátíðisdagur þjóðar okkar efli með okkur samstöðu, þor og kjark og síðast en ekki síst bjartsýni á framtíðina. Framtíðin er í okkar höndum.
Ég óska öllum Íslendingum nær og fjær gleðilegrar þjóðhátíðar.