Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2009 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

UNIFEM nær árangri

 

Ávarp Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á 20 ára afmælisfundi UNIFEM á Íslandi

 

Fundarstjóri

Góðir gestir

Mér er heiður sýndur að vera boðið að ávarpa ykkur hér í dag í tilefni af 20 ára afmæli UNIFEM hér á landi og alþjóðlegum degi Sameinuðu þjóðanna sem tileinkaður er baráttunni fyrir afnámi hvers kyns ofbeldis gegn konum. Um leið vil ég óska samtökunum til hamingju með að hafa nú þegar náð markmiðum átaksins Systralag sem hófst í júní síðastliðnum. Það er átak til að fjölga styrktaraðilum UNIFEM hér á landi en fjármunirnir fara til systra okkar víða um heim – í baráttuna gegn ofbeldi, fátækt og misrétti sem þær eru beittar. Ég þakka fyrir að hafa mátt verða hluti af þessu Systralagi.

Núna höfum við fleiru að fagna – Kvennasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er 30 ára á þessu ári og 16 daga átak gegn ofbeldi er nýhafið. Samstaða þeirra fjölmörgu kvenna- og mannréttindasamtaka sem sameinast í 16 daga átakinu er lofsverð. Ég vil fullyrða að þetta átak gegn ofbeldi, sem nú hefur verið árvisst mörg undanfarin ár, hafi gegnt mikilsverðu hlutverki við að greina hvar mestur vandinn liggur á hverjum tíma og hvernig okkar samfélagi beri að bregðast við.

Starf UNIFEM mikilvægt
Til að halda baráttunni áfram þurfum við alltaf að átta okkur á þessari víglínu. Í þessu kemur samfélagslegt mikilvægi félagasamtaka kvenna og baráttufólks fyrir mannréttindum og gegn kynbundnu misrétti í 16 daga átakinu gegn ofbeldi vel fram. Við þurfum fólk sem stendur vaktina og veitir aðhald.

Merkilegt og þakkarvert dæmi um þetta aðhald sem grasrótin beitir – og á að beita - er bók Þórdísar Elfu Þorvaldsdóttur sem kom út núna í september. Þar kryfur hún kynferðisbrotakafla hegningarlaganna og varpar ljósi á misræmi, svarthol og gildishlaðna dómaframkvæmd – og þetta gerir hún á mannamáli. Með þessu vandaða og snjalla verki fellur líka sú goðsögn dauð til jarðar að lög og dómaframkvæmd séu fyrst og fremst á sérsviði lögfræðinganna. Grasrótin á svo sannarlega að láta til sín taka á því sviði – lögin móta samfélagið og líf okkar allra.

Starf og þrautseigja UNIFEM á Íslandi er afar mikilvæg. Jafnvel hér á Íslandi erum við tengd konum heimsins sterkari böndum en flest okkar hafa grunað lengi vel. Okkur hefur orðið ljóst að neyð kvenna í fjarlægum heimshlutum er ekki bara gernýtt af ofbeldismönnum, kúgurum, manseljendum og slíkum myrkraöflum á heimavelli, heldur hefur skapast alþjóðlegur markaður fyrir konur og börn til að svara eftirspurn til dæmis á kynlífsmarkaði og eftir nauðungarvinnu. Eftirspurnin er líka hér á landi, markaðurinn og gerendurnir eru líka hér, eins og við höfum svo átakanlega orðið vör við á síðustu vikum.

Okkar barátta á heimavelli er mikilvæg í alþjóðlegu samhengi. Um leið og við megum ekki slaka á hvað þátttöku okkar í alþjóðlegu starfi gegn kynbundnu ofbeldi varðar, þá þurfum við enn harðar að berjast gegn því sama í okkar eigin samfélagi. Því betur sem við berjumst fyrir afnámi hverskyns ofbeldis gegn konum hér á landi, því meira leggjum við hinni alþjóðlegu baráttu lið.

Margir áfangasigrar
Þegar ég hugsa um hvernig okkur hefur miðað í baráttunni gegn kynbundu ofbeldi núna á skömmum tíma þá sé ég mörg skref sem hvert um sig gætu virst lítil en eru afar mikilvæg. Við erum saman að flytja víglínuna fram – skref fyrir skref – vinna áfangasigra. Okkar markmið er að ekkert form ofbeldis gegn konum verði liðið, alls ekkert.

Meðan konur og börn búa við ofbeldi, hvar sem er í heiminum, eru þau rænd grundvallarmannréttindum. Kona sem býr við ofbeldi er ekki frjáls að því að rækta hæfileika sína, hún býr ekki við tjáningarfrelsi, henni er meinað að taka þátt í samfélaginu á þeim forsendum sem hún kýs. Um leið verður samfélagið af kröftum hennar og þekkingu. Kynbundið ofbeldi er þess vegna ofbeldi gagnvart samfélaginu í heild – því samfélagi lýðræðis, manngildis og þátttöku sem við viljum öll búa í og standa vörð um.

Ég vil minnast nokkurra áfangasigra sem við höfum unnið á okkar heimavelli á stuttu árabili. Þegar ég tók við embætti félags- og tryggingamálaráðherra fyrir nokkrum misserum hafði þá þegar verið samin aðgerðaáætlun gegn kynbundu ofbeldi. Ég beitti mér fyrir því að hraða allri framkvæmd hennar.

Fimm fræðslurit ætluð fagfólki sem vinnur með þolendum kynferðislegs ofbeldis hafa nýlega verið gefin út. Viðamikil rannsókn á kynbundnu ofbeldi, aðferðafræðilega sambærileg við alþjóðlegar kannanir, hefur verið gerð. Þetta eru ekki aðgerðir sem framkalla stórar fyrirsagnir í fréttamiðlum, en þær efla þekkingu og styrkja öll viðbrögð okkar fagstétta. Þarna erum við að styrkja innviði okkar og hæfni til að takast á við ofbeldið – nú og til langframa.

Það kom í minn hlut að hrinda vinnu að aðgerðaáætlun gegn mansali, sem ríkisstjórnin samþykkti í vor, af stað. Við vorum orðin langeyg eftir slíkri áætlun og notuðum tækifærið 2007 til að færa þetta verkefni til félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Íslensk stjórnvöld undirrituðu samning Sameinuðu þjóðanna gegn mansali þegar á árinu 2000, en lengi á eftir gerðist ekkert. Nú er unnið eftir áætluninni og margt hefur gerst.

Varnir gegn ofbeldi
Við höfum bannað kaup á vændi og hyggjumst samþykkja á yfirstandandi þingi frumvarp til að banna nektarstaði. Þá verður hegningarlögum breytt til að færa ákvæði um mansal til samræmis við þá alþjóðasamninga gegn mansali sem við ætlum að fullgilda.

Ýmsum öðrum lögum verður breytt á yfirstandandi þingi til að tryggja úrræði fórnarlömbum til aðstoðar. Nýskipað sérfræði- og samhæfingarteymi gegn mansali hefur tekið til starfa og – og ég get fullyrt að það hefur staðist sína fyrstu eldskírn í tengslum við það hörmulega mansalsmál sem núna er til rannsóknar hjá lögreglu.

Ný jafnréttislög voru samþykkt í minni tíð í félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Í þeim er sú breyting frá eldri lögum að í fyrsta skipti er baráttan gegn kynbundnu ofbeldi eitt af markmiðum laganna og Jafnréttisstofa hefur fengið það hlutverk að vinna að forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi. Það hugtak er skilgreint í lögunum og mun slíka skilgreiningu hvergi annars staðar vera að finna í íslenskum lögum.

Á dagskrá Alþingis er núna frumvarp um lögleiðingu austurrísku leiðarinnar eins og það er kallað. Hún snýst um að veita lögreglu heimild til að fjarlægja ofbeldismenn af heimili í stað þess að fórnarlömb ofbeldisins, konur og börn, neyðist til að yfirgefa heimili sitt og verða þannig tvöföld fórnarlömb.

Ég vil líka segja frá því að Ísland tekur núna þátt í undirbúningi nýs Evrópuráðssamnings um aðgerðir til að berjast gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Jafnréttisnefnd Evrópuráðsins samþykkti að ráðast í gerð þessa samnings í formennskutíð Steingríms J. Sigfússonar. Þetta er eitt dæmi þess hvernig íslensk stjórnvöld reyna núna að beita sér á alþjóðavettvangi í þágu markmiða um jafnrétti og fyrir baráttunni gegn kynbundu ofbeldi. Mér er mikið í mun að Ísland fullgildi samninginn eins fljótt og verða má.

Neyðarmóttakan varin
Góðir gestir.

Nýlega bárust fréttir af því að stjórnendur Landspítalans hygðust mæta fyrirliggjandi hagræðingarkröfum með því m.a. að leggja af sérþjálfað teymi lækna sem sinnir Neyðarmóttöku vegna nauðgana. Eðlilega komu þessar fréttir ílla við fólk enda væri slík breyting mikil öfugþróun, ekki síst ef horft er til stefnumörkunar ríkisstjórnarinnar í mansalsmálum og í baráttunni gegn kynferðislegu ofbeldi almennt.

Starfsemi neyðarmóttökunnar þyrfti þvert á móti að efla þannig að sú mikla þekking sem þar hefur orðið til gæti nýst í þeirri atlögu sem nú stendur yfir gegn kynferðislegu ofbeldi í íslensku samfélagi. Heilbrigðisráðherra hefur þegar kallað eftir tillögum stjórnenda Landsspítalans í þessum efnum – starfsemi neyðarmóttökunnar verður því varin, þrátt fyrir yfirvofandi niðurskurð.

Góðir gestir

Á 20 ára afmæli UNIFEM eru fjölmörg baráttumál samtakanna að fá brautargengi og baráttan gegn kynbundnu ofbeldi er sannarlega komin á dagskrá ríkisstjórnarinnar. Við deilum sömu markmiðum í þessum efnum og saman munum við vinna fleiri sigra. Fyrir því mun ég beita mér – því heiti ég ykkur.

Til hamingju með daginn !

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta