Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2010 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Ávarp forsætisráðherra á fundi 20/20 Sóknaráætlunar á Selfossi 21. janúar 2010

Ágætu fundarmenn!

Ég vil þakka ykkur fyrir að fjölmenna hingað á Selfoss í dag. Þið eruð lykilfólk í þeirri vinnu sem mun í fyllingu tímans skila okkur Sóknaráætlun 20/20.

Samhliða vinnu ríkisstjórnarinnar að efnahagslegri endurreisn hefur hún ákveðið að hefja sókn í íslensku atvinnulífi og móta framtíðarsýn um betra samfélag. Samfélag sem mun skipa sér í fremstu röð í verðmætasköpun, velferð og sönnum lífsgæðum.

Í tillögu til þingsályktunar sem lögð hefur verið fram segir að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að undirbúa sóknaráætlun til að efla atvinnulíf og samfélag um allt land. Markmiðið er að Ísland verði í fararbroddi í verðmætasköpun, menntun, velferð og lífsgæðum. Til þess að svo megi verða þurfi að huga sérstaklega að hvernig hægt er að tryggja samkeppnishæfni landsins til lengri tíma.

Sóknaráætlun felur í sér áform um fjárfestingar í mannauði og nauðsynlegum innviðum efnahagslífsins og stefnu um hvernig megi styrkja menntun og menningu, nýsköpun og þróun, umhverfismál og samfélagslega innviði. Grundvöllur atvinnustefnunnar skal vera fjölbreytni, jafnræði, heilbrigðir viðskiptahættir, jafnrétti og græn atvinnuuppbygging í samræmi við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.

Heildstæð sýn og sameiginleg markmið eiga að tryggja markvissari og öflugri áætlanagerð. Með sóknaráætlun mun ríkisstjórnin samþætta opinberar áætlanir sem miða að því að efla atvinnu, menntun og endurskipulagningu opinberrar þjónustu. Þannig er stuðlað að betri nýtingu fjármuna og öflugu samstarfi stjórnsýslustiga og stofnana, þvert á ráðuneyti.

Við stefnumótunina ber sérstaklega að huga að hópum sem hætt er við atvinnuleysi til langs tíma í kjölfar efnahagshrunsins, gera áætlanir sem miða að samfélagslegri þátttöku og virkni allra auk þess að styrkja samfélagslega innviði velferðarþjónustu, menntakerfis og menningarlífs. Kynjasjónarmið verða fléttuð inn í alla áætlanagerð og tryggt að uppbygging samfélags og atvinnulífs taki mið af báðum kynjum.

Verkefninu 20/20 Sóknaráætlun er ætlað að draga fram styrkleika og sóknarfæri lands og þjóðar og gera tillögur og áætlanir á grunni þeirra. Í stuttu máli er ætlunin að skapa breiða samstöðu um lykilákvarðanir og framtíðarsýn sem skilar samfélaginu á móts við betri tíma eins hratt og örugglega og kostur er.

Stundum er því haldið fram að þegar staðið er í varnarbaráttu eins og þeirri sem Íslendingar heyja nú vegna skuldavanda ríkissjóðs og yfirstandandi efnahagserfiðleika, sé ekki rétti tíminn til þess að breyta eða sækja fram. Þetta sjónarmið stenst ekki nánari skoðun.

Í fyrsta lagi þurfum við að breyta mörgu ef við ætlum að koma í veg fyrir nýja bankakollsteypu og tryggja heilbrigt fjármála- og efnahagslíf og það erum við svo sannarlega að gera.

Í öðru lagi getur sókn verið hluti af stjórnlist varnarbaráttunnar.

Við þurfum ekki annað en að fylgjast með landsliði Íslands í handbolta til þess að átta okkur á því síðarnefnda. Þessir drengir eru þrautþjálfaðir og hafa tæknina á valdi sínu, enda samkeppnishæfir í bestu handboltaliðum heims. Sem lið hafa þeir leyst mörg verkefni saman, unnið glæsta sigra en einnig beðið ósigra. Þeir hafa glöggan skilning á því að rétt hugarfar, vilji til þess að sigra og raunhæft mat á stöðunni, þarf að vera fyrir hendi. Og þeir þurfa í hverjum leik að finna leiðir til þess að sigra erfiða andstæðinga.

Standi þeir vörnina vel skapast oft góð skilyrði fyrir skyndisóknir. Stundum er þó betra að fara sér hægar í sóknina og byggja hana vel upp í stað þess að skjóta á markið í bráðræði úr þröngum færum. Þeir sýna okkur betur en margt annað að sókn getur verið góð taktík sem varnarleikur. Það er aldrei nóg að pakka bara í vörn.

Í stórum dráttum eru það sömu viðhorf, sami skilningur og samskonar mat sem þarf að liggja til grundvallar þegar við sem þjóð metum stöðu okkar til þess að verjast og sækja fram við erfiðar aðstæður.

Markmiðið með sóknaráætlun er að tryggja að Ísland verið eitt af 10 samkeppnishæfustu löndum heims árið 2020. Þegar talað er um samkeppnishæfni er ekki eingöngu um það að ræða að selja vöru og þjónustu á góðu verði og sigra í slíkri samkeppni.

Þegar rætt er um samkeppnishæfni þjóða þá erum við að tala um það hvernig velferðarþjónustu, heilbrigðiskerfi, mennta- og menningarumhverfi þær bjóða íbúum landa sinna.

Við erum að tala um mat á því hvort stefnumótun þjóða byggir á sjálfbærni í víðum skilningi. Og þegar við tölum um sjálfbærni þá er ekki aðeins verið að ræða um að staðið sé að verndun og nýtingu náttúruauðlinda með ábyrgum hætti gagnvart komandi kynslóðum. Við erum líka að tala um það að félagsauður landsmanna sé nýttur á sjálfbæran hátt og að jafnrétti og jafnræði ríki í samfélaginu.

Sóknaráætlun verður lögð fram í haust ef áætlanir ganga eftir. Henni til grundvallar liggur m.a. fyrir ný skipting landsins í svæði til að skapa viðspyrnu í endurreisnarstafinu, sem gæti líka orðið nýtt upphaf af frekari sameiningu sveitarfélaga en hún er ákveðið sóknarfæri sem við eigum.

Lýðræði er ekki bara að taka meirihlutaákvarðanir. Það felst líka í góðum og málefnalegum undirbúningi, ítarlegri rökræðu þar sem andstæðum sjónarmiðum er sýnd virðing og einnig sanngjarnri viðleitni til þess að ná fram málamiðlum áður en mál eru borin undir atkvæði. Þetta viðhorf hefur einkennt allan undirbúning sóknaráætlunar, og nú liggur fyrir vandað grunnefni um samþættingu opinberra áætlana, ýmislegt talnaefni fyrir sóknaráætlanir landshluta sem ekki hefur verið tiltækt áður, sviðsmyndir um hugsanleg þróunarferli atvinnulífs, grunnefni um atvinnustefnu og upplýsingar um samkeppnishæfni.

Lýðræðisleg nálgun á verkefni og verklagið sjálft skipta höfuðmáli. Hver landshluti, hver ríkisstonun, hvert sveitarfélag, hver vinnustaður og hver fjölskylda og einstaklingur búa yfir sínum sóknarfærum. Marmikið með sóknaráætlun er að nálgast þessi sóknarfæri, orða þau og tengja saman þannig að þau verði okkur til framdráttar.

Sóknaráætlun sem liður í endurreisn efnahagslífsins felst ekki bara í að finna eitthvað nýtt heldur ekki síður að sjá og greina það sem við eigum, það sem við höfum og hefur reynst okkur vel. Þar fer saman mannauður, reynsla, sýn og þekking stofnana hins opinbera meðal annars. Viska og lausnir hvers og eins er ekki síður mikilvæg en hefðbundin nálgun ofanfrá og niður. Vinnubrögðin og verklagið endurspegla gildin og eru þar að hluta til lögð til grundvallar gildi þjóðfundar um heiðarleika, réttlæti og virðingu. Þjóðfundir þeir sem haldnir verða um land allt eru sniðnir eftir Þjóðfundinum í Laugardalshöll og Mauraþúfan sem undirbjó það verkefni er meðal undirbúningsaðila að Sóknaráætlun. Með þeim hætti virðum við þeirra mikilsverða frumkvæði. Ekki síður er það þýðingarmikið að unnið sé að verkefninu á opinn og gegnsæjan hátt og fólk og fyrirtæki, landshlutar og stofnanir geri það að sínu, eignist hlutdeild í því og líti á sóknaráætlun sem sitt verkfæri. Í sóknaráætlun 20/20 felst ekki síst vilji til þess að opna á milli hólfa sem við höfum tilhneigingu til þess að halda hugsunum okkar og gjörðum innan. Opna á milli áætlana, milli landshluta, milli stofnana, milli ríkis og sveitarfélaga – og freista þess að sameinast í nýrri sýn, nýjum takti og árangursríkum aðferðum sem skila okkur áleiðis til betra samfélags.

Tilgangurinn með þessum fundi hér í dag er að ná saman um helstu leiðarstef í þeirri vinnu sem framundan er. Ég óska ykkur góðs gengis og árangurs í dag og endurtek þakkir til ykkar allra fyrir verðmætt framlag til Sóknaráætlunar 2020.

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta