Ræða Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á Viðskiptaþingi 17. febrúar 2010
Ágæta viðskiptaþing!
Viðskiptaþing er að þessu sinni haldið á Öskudegi. Sá dagur markar upphaf lönguföstu og áður fyrr í kaþólskri tíð var dreift ösku yfir söfnuði í kirkjum til þess að minna á hið forgengilega en hún var einnig álitin hafa hreinsandi áhrif. Ef til vill hafa skipuleggjendur Viðskiptaþings haft þetta í huga þegar þeir völdu fundardag. Við eigum að fagna því sem vel er gert og ég ætla að byrja á því að óska okkur öllum til hamingju með það að fyrirtækin Mannvit og Edda útgáfa hafa undirritað fyrirheit um að efna samning Félags kvenna í atvinnurekstri, Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins um jafnt kynjahlutfall í stjórn félaganna.
Nú eru að hefjast aðalfundir í fyrirtækjum landsins og ég tek undir hvatningu jafnréttisráðs til forráðamanna félaga um að fylgja þessu hraustlega eftir. Konur hafa um árabil verið fleiri en karlar í háskólum landsins þannig að úrvalið ætti að vera nóg. Rannsóknir sýna að fjölbreytni og jafnræði milli kynja í stjórnum atvinnufyrirtækja er líklegra til þess að skila betri árangri og meiri ábyrgð en einsleitar stjórnir. Aldrei var meiri þörf en nú og því er ekki eftir neinu að bíða!
Góðir þinggestir!
Viðskiptaráð hrósaði sér sér af því á árinu 2006 að 90% af tillögum þess til Alþingis hefði með einum eða öðrum hætti komið til framkvæmda. Ég var og er í mörgum greinum ósammála tillöguflutningi ráðsins, en það breytir ekki því að það fæst við að greina vanda líðandi stundar og setja fram hugmyndir um framtíðina. Það er lofsvert. Og ég tek eftir því að í nýjustu skýrslum Viðskiptaráðs kveður við nýjan tón á ýmsan hátt. Nýjar og mun strangari leiðbeiningar um stjórnunarhætti fyrirtækja hafa verið gefnar út, enda nokkuð auðsætt í ljósi atburða síðustu ára að fullyrðingin um að með leiðbeiningunum frá 2004 “hafi nýtt skref verið stigið i viðskiptamenningu hér á landi” fékk ekki staðist. Ég tel líka að margt í skattatillögum Viðskiptaráðs sé þess virði að um það sé tekin alvarleg umræða.
Það var óhjákvæmilegt að auka umtalsvert jöfnunaráhrif skatta- og bótakerfis eftir að hér höfðu verið innleidd forréttindi í skattakerfinu fyrir hátekju- og stóreignafólk, sem eiga sér engin fordæmi á síðustu áratugum í hópi OECD-ríkjanna. Með breytingum í tengslum við fjárlagagerðina á síðastliðnu ári var íslenska skattkerfið fært nær tekjuskattkerfum hinna norrænu ríkjanna, þótt ekki gangi breytingin alla leið. Við skulum muna að skattbyrði verður áfram lægri á Íslandi fyrir flesta tekjuhópa - og að hátekjufólk ber reyndar meiri skattbyrði í flestum Evrópulöndum en á Íslandi þrátt fyrir þá hækkun sem orðin er. Tekjuskattur fyrirtækja var hækkaður lítillega en íslensk fyrirtæki verða áfram með eina allra lægstu skattbyrðina af OECD-ríkjunum. Efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar er skýr. Aðalmarkmiðin eru þrjú. Í fyrsta lagi að tryggja stöðugleika krónunnar. Í öðru lagi að endurreisa fjármálakerfið og í þriðja lagi að tryggja sjálfbærni í opinberum fjármálum á næstu misserum. Til þess að gera langa sögu stutta þá vil ég fullyrða hér að efnahagsáætlunin gekk vel á síðasta ári þrátt fyrir allar tafir og erfiðleika og árangurinn varð betri en spáð hafði verið. Raunar svo vel að það vakti alþjóðlega athygli.
Það er af mörgum talið afrek að það skyldi takast að halda greiðslumiðlun gangandi gegnum hrunið og aftur síðastliðið vor. Sá árangur er mikilvægari fyrir almenning í landinu en flestir gera sér grein fyrir. Og endurreisn bankanna í sátt og með þátttöku lánardrottna er gríðarlega mikilvægur áfangi. Sá árangur er mikilvæg forsenda fyrir endurreisn atvinnulífsins. Á síðasta ári var ríkisfjármálum beitt til þess að milda áhrif efnahagsáfallsins sem er það mesta sem Ísland hefur orðið fyrir í lýðveldissögunni. Halli ríkissjóðs er hins vegar af þeirri stærðargráðu að til frambúðar er ríkið ekki sjálfbært með slíku lagi. Hér er um efnahagslegt sjálfstæði ríkisins að tefla. Það finna allir fyrir kaupmáttarrýrnun, skattahækkunum og niðurskurði á eigin skinni, hvar sem þeir eru staddir í þjóðfélaginu. En við eigum einskis annars úrkosta og verðum að ná tökum á ríkisfjármálunum af því að við ætlum að halda áfram að vera efnahagslega sjálfstæð þjóð. Ef við náum ekki niður vaxtabyrði ríkissjóðs er tómt mál að tala um framtíðarmarkmið í velferðarmálum, skólamálum og heilbrigðismálum.
“Stærsta áskorun stjórnmálamanna er að standast ágang þrýstihópa og láta heildarhagsmuni ráða för við ráðstöfun fjármuna”, segir í nýjustu skýrslu viðskiptaráðs. Þetta eru orð í tíma töluð þegar við sjáum volduga hagsmunahópa rísa upp á afturlappirnar og gera hróp að stjórnvöldum gegnum auglýsingastofur, fjölmiðla og áróðursherferðir. Þá er vissulega nauðsyn að hafa sterk bein og vonandi fáum við stuðning Viðskiptaráðs til þess að standast áganginn.
Ríkisstjórnin hefur farið blandaða leið niðurskurðar og skattahækkana í samræmi við stöðugleikasáttmálann frá síðstliðnu sumri. Útfærslan er meðal annars niðurstaða af samráði við samtök launafólks og atvinnurekenda. Það er sannarlega hægt að halda því fram að skattahækkanir dragi þrótt úr atvinnulífi og ég hef sérstakar áhyggjur af því að hækkun tryggingagjalds hafi neikvæð áhrif á möguleika smærri fyrirtækja. Á móti kemur þó að sú innspýting í efnahagslífið sem heimild til útgreiðslu séreignarsparnaðar hefur í för með sér hefur reynst sambærileg við bein framlög annarra ríkja til þess að örva hagkerfið í niðursveiflunni. Það er m.a. skýringin á því að einkaneysla hefur ekki dregist eins mikið saman og búist hafði verið við.
Í mínum huga verður ekki undan því vikist að ríkið taki á sig stærri hlut við að koma efnahagslífinu á kjöl á nýjan leik. Það er reynslan hvarvetna í heiminum og frekari niðurskurður á velferðarkerfinu en nú er gert ráð fyrir getur orðið dýrkeyptur. Þar eru einnig þolmörk sem verður að virða og taka tillit til. Ég vil segja það hér að það þarf að reka ríkið og stofnanir þess á einfaldari og ódýrari hátt en nú er gert. Aðhaldið er mikið á þessu ári og óspart er skorið niður í opinberum rekstri. Á tveimur árum mun halli ríkissjóðs fara úr rúmum 200 milljörðum í tæpa 100 milljarða. Það verður því að nást árangur í sameiningu ráðuneyta og stofnana og verkefna og endurskoðun á starfsemi hins opinbera ef okkur á að takast að knýja fram einfaldari og betri rekstur. Það er stórt verkefni og mun reyna á stjórnkerfið til hins ítrasta. En undan því verður heldur ekki vikist ef vel á að fara.
Stjórnkerfið þarf á sama tíma að breyta um vinnubrögð. Aukið gegnsæi, upplýsingagjöf, samráð og fagleg vinnubrögð í hvívetna eru leiðarljós sem nú er unnið eftir. Nýjar siðareglur hafa verið settar fram, upplýsingalög eru í endurskoðun, starfsmannalögum og fyrirkomulagi ráðninga og vinnulags innan Stjórnarráðsins verður breytt og fyrstu skrefin hafa þegar verið stigin í sameiningu ráðuneyta og endurskipan verkefna innan þeirra. Við höfum því þegar hafist handa við endurmótun stjórnsýslunnar að þessu leyti enda brýnt að endurvinna henni traust eftir það sem á undan er gengið. Allt þetta starf þurfum við síðan að endurmeta og mögulega að gera enn betur, þegar skýrsla rannsóknarnefndarinnar lítur dagsins ljós. Þær ábendingar sem þar koma fram þurfum við að taka alvarlega og breyta og bæta starfshætti okkar til samræmis við þær. Verkefni okkar allra, hvort sem við störfum í ríkisstjórn, á Alþingi eða í atvinnulífinu er og á að vera að læra af mistökum fortíðarinnar og tryggja að afdrifarík mistök endurtaki sig ekki.
Um þessar mundir eru að verða straumhvörf með mestu endurbótum á regluverki og eftirliti með fjármálastarfsemi sem nokkurt ríki hefur gripið til. Eftirlitsaðilar fá miklu skýrari og afdráttarlausari heimildir til inngripa og upplýsingaöflunar en áður var, og rýmri möguleika til þess að kveða á um það hvað teljist vera eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir. Fjármálaeftirlitð og Seðlabankinn fá mörg ný stjórntæki til þess að tengja saman stórar áhættuskuldbindingar og meta hvort skuldastaða einstakra aðila geti leitt til kerfislægrar áhættu. Það verður lagt bann við að lána til kaupa á eigin bréfum og strangar takmarkanir settar á lán til lykilmanna, áhættuskuldbindingar, kaupaukakerfi og starfslokasamninga. Nýjar viðmiðunarreglur verða settar um virka eignarhluti og reglur um eiginfjárgrunn verða hertar. Þessu til viðbótar verða gerðar umfangsmiklar breytingar á lögum um verðbréfasjóði, peningamarkaðssjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði með aukna neytendavernd og gegnsæi í huga. Sú áhættusækna og lánadrifna hringekja sem hér snérist með sívaxandi hraða og kastaði okkur að lokum af sér á ekki að geta farið af stað aftur.
Allt er þetta nauðsynlegt til þess að nýju bankarnir, sem nú eru farnir af stað vel fjármagnaðir og með reiðufé og lausafé til þess að standast áföll, geti aflað sér trausts og endurnýjað íslenskt atvinnulíf. Marmkið ríkisstjórnarinnar og Alþingis í þeim lögum sem það hefur þegar samþykkt í þessum efnum er alveg skýrt. Ákvarðanir fjármálastofnana við skuldauppgjör og fjármálalega endurskipulagningu lífvænlegra fyrirtækja þurfa að byggjast á gagnsæjum vinnubrögðum og ekki síður sjónarmiðum um réttlæti, sanngirni og virka samkeppni. Þeim sjónarmiðum hefur verið haldið fram að ríkisstjórnin ætli að láta það afskiptalaust að sömu persónur og leikendur og fóru með stórt hlutverk í fjármála- og viðskiptalífinu fyrir hrun, verði áfram við stjórnvölinn. Að þessu tilefni vil ég láta koma fram að ég er algerlega mótfallin því að stjórnmálamenn handstýri fjármálakerfinu. Slík handstýring er nú talin upphafið að bankahruninu þegar einkavæðing bankanna fór út af sporinu árið 2002 og sérvöldum aðilum voru afhent völdin í bankakerfinu án þess að þeir reiddu fram annað en lánsfé. Og því fór sem fór. Það verður að fara fram ítarleg rannsókn á þessum afdrifaríka kafla í sögu fjármálakerfis þjóðarinnar þar sem allt verður krufið til mergjar.
Við megum ekki gleyma því að eitt mikilvægasta verkefni okkar um þessar mundir er að endurreisa traust í íslensku samfélagi. Þetta verkefni snýr ekki bara að stjórnvöldum eða stjórnmálamönnum, heldur einnig að atvinnulífinu, ekki síst fjármálsstofnunum og stærri fyrirtækjum sem nú ganga í gegnum endurskipulagningu. Þar þarf meira að koma til en lög, reglur eða fyrirmæli stjórnvalda – þar þarf hver og einn að líta í eigin barm og ýmsir að sýna auðmýkt. Það segir sig sjálft að einstaklingar sem hafa valdið lánadrottnum sínum, fyrirtækjum sínum eða viðskiptavinum eða jafnvel þjóðfélaginu í heild gríðarlegum skaða með starfsháttum sínum, hafa jafnvel stöðu grunaðra í formlegum rannsóknum vegna hrunsins, eru ekki heppilegir samstarfsaðilar eða til forystu fallnir þegar hefja skal endurreisnina. Þeir einstaklingar eiga að stíga til hliðar um sinn og endurvinna sér traust með tíð og tíma. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að það þarf að hámarka verðmæti eigna úr þrotabúum. En ég bendi jafnframt á að það eru ekki síður mikil verðmæti fólgin í trausti – og trúnaði við samfélagið- en í beinum fjármunum.
Það segir sig einnig sjálft að þegar allur almenningur og þjóðfélagið allt gengur í gegnum miklar þrengingar og endar ná vart saman á heimilum landsins um hver mánaðarmót, þá eiga ofurlaun og óhóf ekki að sjást. Það gengur fullkomlega gegn siðferðiskend þjóðarinnar sem með margvíslegum hætti þarf nú að þrengja sultarólina. Slíkt háttalag er ekki til þess fallið að endurreisa traust. En stjórnvöld hafa lagt sitt af mörkum í þessum efnum og það eiga þau auðvitað að gera. Ég hef áður fjallað um nýja lagaumgjörð fjármálamarkaðar og atvinnulífs sem nú er til afgreiðslu á Alþingi. Ég nefni stóreflda rannsóknarstarfsemi á vettvangi sérstaks saksóknara, skattayfirvalda, fjármálaeftirlits og samkeppniseftirlits, sem nú birtast okkur nánast daglega í fréttum. Húsleitir, yfirheyrslur, kyrrsetningar eigna og styrking dómsstóla sem án efa eru án fordæma í íslenskri viðskiptasögu. Þá nefni ég einnig nýsamþykkt lög um skuldaaðlögun fyrirækja og einstaklinga sem leggja mikilvægar línur fyrir markviss og gegnsæ vinnubrögð fjármálastofnana í þessum vandasama ferli.
Ég trúi því að með sameinuðu átaki fjármálastofnana, Samkeppnisstofnunar, Fjármálaeftirlitsins, Bankasýslu ríkisins og Eftirlitsnefndar með skuldaaðlögun einstaklinga og fyrirtækja ætti að vera hægt að tryggja að kröftuglega og vel sé staðið að málum við fjárhagslega endurskipulagningu atvinnulífsins. Það skiptir miklu að lífvænlegum fyrirtækjum verði skapaður rekstrargrundvöllur með afskriftum skulda þegar það er atvinnulífi og neytendum til hagsbóta. Endurskipulögð fyrirtæki á svo fljótt sem auðið er að selja í opnu og gagnsæju ferli og þar er skráning í kauphöll góður kostur. Bæði ríkisstjórn og Alþingi hafa rekið á eftir því að bankarnir setji sér samræmdar verklagsreglur um ákvarðanatöku í þessu efni og öll ferli séu skráð og gegnsæ. Fast verður gengið eftir því að þessar verklagsreglur verði virtar og hefur nýskipuð eftirlitsnefnd stjórnvalda þegar hafist handa og skoðar nú vinnubrögð fjármálastofnana. Eftirlitsnefndin hefur tilkynningaskyldu til ráðherra og Fjármálaeftirlitsins komist hún á snoðir um að ekki sé allt með felldu við skuldaaðlögunina. Eftirlitsnefndin starfar í náinni samvinnu við umboðsmenn viðskiptavina í bönkunum og mun skila skýrslu til ráðherra um framkvæmd á ákvæðum laga um sértæka skuldaaðlögun fyrir 1. mars næstkomandi. Í framhaldi af því verður eigendastefna ríkisins gagnvart bönkunum endurskoðuð og verklagsreglur bankanna mögulega líka.
Góðir áheyrendur!!
Það er góður gangur í mörgum geirum íslensks atvinnulífs. Útflutningsatvinnuvegir og ferðaþjónusta njóta góðs af lágu gengi og Seðlabankinn hefur jafnvel áhyggjur af því að velgengnin þar leiði til launaþrýstings annars staðar í atvinnulífinu þar sem ver gengur. Nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi þrífst vel og lög um ívilnanir til nýsköpunarfyrirtækja munu ýta undir þá þróun. Byggingariðnaðurinn er á hinn bóginn lamaður eftir að þenslunni linnti og brýnt að koma stórverkefnum í gang til þess að bæta atvinnuástandið. Þar þokast allt í rétta átt þótt flókið sé og erfitt að koma virkjunar- og orkuframkvæmdum í gang við ríkjandi efnahagsaðstæður. Ég vildi sjá miklu meira gerast í uppbyggingu sem þessari en því miður er ljóst að frestunin á úrlausn Icesave málsins veldur því að óvissa um efnahagsframvindu eykst og hætta er á að batinn á þessu ári verði veikari en gert var ráð fyrir. Það endurspeglast í meiri svartsýni í atvinnulífinu á horfurnar framundan. Í dag, þegar við sitjum hér á Viðskiptaþingi, eru fulltrúar okkar í Bretlandi og freista þess enn einu sinni að ná hagstæðari lausn í Icesave málinu. Ég vona svo sannarlega að þeim takist það. Þjóðin vonar það og almenningur á skilið að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til þess að ná bestu lausn sem völ er á í þessu erfiða og flókna máli. Stærri fjárfestingarverkefni verða ekki fjármögnuð á innanlandsmarkaði. Okkur er því mikil nauðsyn á því að eiga góð samskipti við önnur ríki og alþjóða fjármálamarkaði. Því þurfum við að ljúka Icesave í sátt við aðrar þjóðir – því fyrr þeim mun betra. Það er einnig mikilvæg forsenda fyrir framhaldinu að rammaáætlun um verndun og nýtingu orkulinda komi fram og staða hennar verði skilgreind á Alþingi. Ég mun leggja sérstaka áherslu á það á næstu vikum. Kominn er tími til þess að hætta deilum um einstaka virkjanakosti og taka ákvörðun um hvar verði virkjað og hvar verndað á næstu áratugum.
Ríkisstjórnin vinnur að heilindum að því að framfylgja stöðugleikasáttmálunum og hefur nýverið kynnt fjölþættar aðgerðir í atvinnu- og nýsköpunarmálum. Fjárfestingar drógust saman um nærri helming árið 2009 miðað við árið 2008 og hlutfall fjárfestingar af landsframleiðslu hefur ekki verið lægra frá lýðveldisstofnun. Það ætti því að vera rúm í hagkerfinu fyrir frekari innlendar fjárfestingar t.d. af hálfu lífeyrissjóðanna og beinar erlendar fjárfestingar og það er eitt af mikilvægustu verkefnum að koma þeim aftur í gang. Til þess þarf stöðugt gengi, örugga fjármögnun erlendra skulda, lægri vexti og verðbólgu. Væntanlega rætist þar eitthvað úr þegar líður á árið í samræmi við fyrirliggjandi efnahagsáætlun stjórnvalda og AGS.
Góðir viðskiptaþingsgestir!
Ég tel að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu sé ákaflega sterk yfirlýsing um hvert við viljum stefna í efnahagsmálum. Ég fagna því að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, undir forystu Barroso, muni leggja til við ráðherraráðið að aðildarviðræður hefjist. Við eigum að horfa hér til framtíðar og taka þátt í viðræðunum af fullum krafti með hagsmuni Íslands að leiðarljósi. Á þessari vegferð ættum við flest að eiga fulla samleið. Ástæðuna fyrir því að íslenskt launafólk er nú orðið hálfdrættingar í launum miðað við grannríki okkar í Evrópu má fyrst og fremst rekja til gengisfalls krónunnar. Slíkar kollsteypur geta hvorki verið framtíðarlausn fyrir fólk né fyrirtæki. Við hljótum að stefna að lausn sem gerir okkur kleift að taka þátt í opnu alþjóðlegu efnahagsumhverfi án síendurtekinna hremminga af þessu tagi. Aðild að Evrópusambandinu með upptöku Evru á síðari stigum er leið sem er skynsamlegt að skoða til enda.
Kæru þinggestir!
Ég held að við getum verið bjartsýn á okkar möguleika ef við kunnum að færa okkur þá í nyt og berum gæfu til þess að gera það besta úr þeim. En það má ekki mikið út af bregða í þróun alþjóðlegra efnahagsmála til þess að setja okkur út af laginu. Ný áföll eða kyrrstaða hér innanlands vegna innbyrðis átaka gætu einnig reynst okkur dýrkeypt. Þess vegna er ástæða til þess að hvetja til þess að við gerum okkur far um að efla samstöðu og leita sameiginlegra lausna. Við þurfum að auka líkindin á að vel fari með því að skapa samstöðu um að nýta alla þá möguleika sem við eigum á skynsamlegan og ábyrgan hátt. Á þeirri vegferð þurfum við að gera okkur far um að skapa traust og trú á framtíðina og nálgast erfið verkefni með jákvæðu hugarfari. Ég vænti mikils af samstarfi við Viðskiptaráð og fulltrúa á viðskiptaþingi sem hafa sett fram ýmsar góðar tillögur. Saman getum við lyft Grettistaki. Það er atvinnulífið sem skapar hagvöxtinn og samvinna ríkisstjórnar og atvinnulífisins er lykilatriði í endurreisn efnahags- og atvinnulífs hér á landi.
Gangi ykkur vel.