Hoppa yfir valmynd
14. september 2010 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Ræða forsætisráðherra í umræðu um skýrslu þingmannaefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis

Virðulegi forseti.

Níu manna nefnd fulltrúa allra þingflokka, sem kosin var samkvæmt 15. gr. laga um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, hefur nú skilað Alþingi skýrslu sinni.

Ég fagna því að þessi skýrsla sé nú komin fram og tek heilshugar undir þakkir þingmanna til nefndarmanna og annarra sem komið hafa að vinnu skýrslunnar. Vinna þingmannanefndarinnar markar þáttaskil í endurreisnarstarfinu, ekki síst vegna þeirrar staðreyndar að um skýrslu hennar ríkir þverpólitísk sátt, bæði hvað varðar greiningu á orsökum og atburðarás í aðdraganda hruns bankanna og ekki síður um þær leiðir sem fara skal til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig nokkurn tímann.

Skýrsla rannsóknarnefndarinnar var þungur áfellisdómur yfir stjórnkerfinu, stjórnmálunum, eftirlitsaðilum og fjármálastofnunum en um leið var hún áskorun um heiðarlegt uppgjör, breyttar leikreglur í stjórnmálum og nýja og skýrari starfshætti í stjórnkerfinu. Ekki síst átti þetta við þar sem almenn ánægja og sátt ríkti um niðurstöður rannsóknarnefndarinnar.

Sú yfirsýn sem rannsóknarskýrslan veitti okkur um samhengi atburða, ákvarðana og þróunar hjálpaði  okkur sem þjóð til þess að vinna úr áfallinu sem hrun bankakerfisins hafði í för með sér og gaf okkur fótfestu til að standa þannig að endurreisninni að slíkir atburðir endurtækju sig ekki.

Það er gríðarlega merkilegur áfangi og stórpólitísk tíðindi, þegar níu manna nefnd þingmanna úr öllum stjórnmálaflokkum hefur ítarlega yfirfarið efni rannsóknarskýrslunnar lið fyrir lið, rætt sig niður á sameiginlegar leiðir til að bregðast við þeim áfellisdómum og ábendingum sem þar komu fram og skila nánast einróma niðurstöðum. Það hlýtur að efla okkur trú um að nýjir tímar séu að renna upp í endurreisnarferlinu og að aukin sátt muni ríkja um þau mikilvægu verk sem framundan eru.

Þessu fagna ég mjög og óska þingmannanefndinni og okkur öllum innlega til hamingju með þetta skref á vegferð okkar allra.

Ef vel verður nú á málum haldið mun þessi vinna skila samfélaginu og þjóðinni umbótum til frambúðar. Í mínum huga er grundvallaratriði að almenningur sjái þegar upp er staðið bætt vinnubrögð á öllum sviðum þannig að bæði Alþingi og stjórnkerfið í heild njóti virðingar og trausts í hvívetna.

Í skýrslu þingmannanefndarinnar er fjallað um lærdóm sem okkur ber að draga af því sem hér gerðist og olli efnahagshruninu. Skýrt hefur komið fram og viðurkennt er að orsakir hrunsins er að finna í atburðum og ákvörðunum sem áttu sér stað fram til ársins 2006 og fyrstu mánuði ársins 2007.  Eftir það varð hruninu vart forðað, þótt vissulega hefði verið hægt að draga úr tjóninu og bregðast við með faglegri hætti.

Hinar raunverulegu ástæður hrunsins, sem ítarlega var fjallað um í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og nú eru staðfestar með þverpólitískri sátt í þingmannanefndinni áttu sér stað fyrir árið 2007.
Meginástæðan fyrir hruninu verður auðvitað fyrst og fremst rakin til framferðis og stjórnarhátta stjórnenda og aðaleigenda bankanna sjálfra. Um þau mál fáum við stöðugt ný sannindamerki og við hljótum að treysta því að umfangsmiklar rannsóknir sérstaks saksóknara leiði síðan allan sannleikann í ljós áður en langt um líður.

Rótina að þessum óförum má hinsvegar rekja til einkavæðingar bankanna fram til ársins 2003 og þess óhefta vaxtar sem stjórnvöld og eftirlitsstofnanir létu viðgangast, og í raun hvöttu til, framundir það síðasta. Fjármálaeftirlitið og ekki síst Seðlabanki Íslands fá algjöra falleiknun í þessu samhengi.

Ekki síst verður orksaka hrunsins leitað í þeim alvarlegu mistökum sem hér voru gerð í efnahagsstjórn á árunum fyrir hrun. Sérstaklega á þetta við um tímabilið frá 2003 til 2007 þegar vöxtur bankakerfisins var sem mestur.

Þarna liggja hinar raunverulegu ástæður hrunins og ég fagna því sérstaklega að um það ríki nú pólitísk sátt. 

En það var fleira sem brást í stjórnkerfi okkar. Stjórnsýslan og stjórnmálin brugðust í því hlutverki sínu að tryggja hagsmuni almennings og sérhagsmunir viðskiptalífs þar sem gróðasjónarmið réðu för, gegnsýrðu allt. Of langt var gengið í styrkjum til stjórnmálaflokka. Fjölmiðlar og háskólasamfélagið féllu í raun að hluta til einnig á prófinu og öll þurfum við því að líta í eigin barm.

Um þennan skilning ríkir einnig pólitísk sátt hér á Alþingi og við höfum í raun sýnt það í verki á undanförnum árum að við ætlum okkur að læra af reynslunni.

Við höfum nú þegar náð saman um fjölda aðgerða til að bæta stjórnsýsluna og starfsumhverfi stjórmálaflokka og í farvatninu eru enn frekari skref í þessum efnum.

Sú pólitíska sátt sem þingmannanefndin hefur náð um þessi mál hlýtur að boða nýja og betri tíma í þessum efnum og því ber okkur að fagna henni sérstaklega.

Hæstvirtur forseti
Það sem nú skiptir mestu máli er að menn byggi á þeim góða grunni sem skýrsla þingmannanefndarinnar er og læri af þeim mistökum sem gerð hafa verið.

Efnahagshrunið kallar á gagngera endurskoðun á sviði efnahagsstjórnar. Tryggja þarf aukið samræmi í efnahagsstjórn og miðlun upplýsinga á hverjum tíma til þeirra sem bera ábyrgð á þeim þáttum sem mest áhrif geta haft á þessu sviði. Jafnframt ber að tryggja að fagleg sjónarmið liggi til grundvallar ákvörðunum stjórnmálamanna hverju sinni, bæði á vettvangi ríkisstjórnar og Alþingis.

Þingmannanefndin leggur meðal annars til að stofnuð verði sjálfstæð ríkisstofnun sem fylgist með þjóðarbúskapnum og gefi út þjóðhagsspá.

 Ég er sammála þessari tillögu nefndarinnar enda er kveðið á um þetta atriði í yfirlýsingu í tengslum við breytingu á ríkisstjórninni þann 2. september sl. og stofnun slíkrar stofnunar undir efnahags- og viðskiptaráðuneytinu er þegar í undirbúningi.
Forsætisráðuneytið mun jafnframt hafa forystu um og tryggja að hafin verði endurskoðun á þeim sviðum sem varða önnur ráðuneyti, svo sem á sviði efnahagsmála, með hliðsjón af tillögum þingmannanefndarinnar.

Nefnd um fjármálastöðugleika hefur þegar verið endurskipulögð með nýju erindisbréfi og nýrri skipan. Formfesta hefur verið aukin og nefndin hefur meðal annars unnið að viðbragðsáætlun við hugsanlegum efnahagsáföllum.

Forsætisráðuneytið mun fylgja því eftir að tillögur þingmannanefndarinnar er að þessu lúta komi til framkvæmda eftir því sem unnt er.

Hæstvirtur forseti.
Ég vil sérstaklega nefna þá jákvæðu umfjöllun og viðbrögð sem komið hafa fram í umræðu um skýrslu þingmannanefndarinnar gagnvart því að einkavæðing bankanna verði rannsökuð, sem því miður reyndist ekki meirihluti fyrir í þingmannanefndinni.

Ég fagna því sérstaklega sem fram kom af hálfu formanns Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í umræðum hér á Alþingi í gær að vilji sé fyrir því af hálfu þeirra að rannsaka einkavæðinguna og treysti því að breið samtaða náist um það hér á Alþingi.

Ég tek jafnframt undir það með þingmannanefndinni að gerðar verði rannsóknir og úttektir á starfsemi lífeyrissjóða, aðdraganda og orsökum falls sparisjóða og á Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands.

Ég hef sjálf sem alþingismaður flutt tillögu um úttekt á lífeyrissjóðakerfinu svo sem um setu forsvarsmanna lífeyrissjóðanna á sama tíma bæði í stjórnum lífeyrissjóða og í stjórnum fyrirtækja sem lífeyrissjóðirnir eiga hlut í, sem ég tel ástæðu til þess að breyta. Einnig tel ég að tryggja þurfi lýðræðislegra val í stjórnir lífeyrissjóða en nú er.

Ég nefni einnig tillögur um úttekt á þróun valds og lýðræðis hér á landi sem ég hvet allsherjarnefnd Alþingis til þess að yfirfara og meta hvort ekki sé rétt að endurflytja en hliðstæðar úttektir hafa farið fram á öðrum Norðurlöndum.

Virðulegi forseti.
Það er afar mikilvægt að alþingismönnum takist nú að eiga gott samstarf um úrvinnslu þeirra umbótamála sem þingmannanefndin leggur til og sem forsætisráðherra mun ég beita mér fyrir því að unnið verði hratt og vel úr þeim tillögum sem lúta að stjórnsýslunni og ekki eru þegar í vinnslu.

Það er að mínu mati gríðarlega mikilvægt að pólitísk sátt náðist um þessi umbótamál og ég fagna því sérstaklega.

Umbótastarfið er reyndar þegar komið langt á veg komið innan Stjórnarráðsins og nefnd undir forystu Dr. Gunnars Helga Kristinssonar, prófessors, hefur skilað forsætisráðuneytinu tillögum um viðbrögð stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem unnið verður úr á vettvangi allra ráðuneyta, auk þess sem nefnd vinnur nú að endurskoðun starfsumhverfis Stjórnarráðsins.

Ég get tekið undir margt í skýrslu þingmannanefndarinnar um að bæta megi vinnubrögð innan stjórnsýslunnar og í forsætisráðuneytinu hafa reyndar þegar verið innleidd mörg úrbótaverkefni sem nefndin bendir á og önnur eru í góðum farvegi.

Ég vil segja það hér við þetta tækifæri að mér kom mjög á óvart þegar ég tók við embætti forsætisráðherra hve vinnubrögð á mörgum sviðum voru frumstæð. Það er í raun merkilegt hve lítil umræða hefur farið fram um umgjörð og vinnubrögð ríkisstjórnar og ríkisráðs hér á landi og innan Stjórnarráðsins almennt og hve lítið við höfum litið til þróunar í nágrannalöndum okkar í því efni. Þetta hefur m.a. komið fram í störfum nefnda, sem ég hef falið að fara yfir umgjörð Stjórnarráðsins og ég á von á endanlegum tillögum um úrbætur á næstu mánuðum.

Í tengslum við það nefndarstarf er m.a. verið að vinna rannsóknir á starfsháttum ríkisstjórna, samskiptum ráðuneyta og samskiptum þeirra við stofnanir og bera þær saman við erlendar rannsóknir um sama efni.

Við þá skoðun hefur m.a. komið í ljós að völd einstakra ráðherra samanborði við völd ríkisstjórnarinnar virðast almennt meiri hér á landi en í nágrannaríkjum, þrátt fyrir að ríkisstjórnir þeirra landa séu líkt og á Íslandi ekki skilgreind sem fjölskipuð stjórnvöld. Má í því sambandi nefna Noreg, Danmörku og Írland. Ég tel nauðsynlegt að fram fari umræða um kosti þess og galla að breyta fyrirkomulagi ríkisstjórnaskipanar hér á landi svo sem hvort hún eigi að vera fjölskipað stjórnvald.

Nefndin, sem vinnur nú að endurskoðun laga um Stjórnarráðið, skoðar einnig stöðu og hlutverk ráðherra, pólitískra aðstoðarmanna og embættismanna innan ráðuneyta. Nefndin skilaði fyrr í sumar áfangaskýrslu þar sem m.a. eru lagðar til umtalsverðar breytingar á ferli ráðninga innan Stjórnarráðsins með skipan sérstakrar ráðninganefndar.
Þar er einnig lagt til að lögð verði aukin áhersla fagþekkingu og betri stjórnun og nýtingu mannauðs innan Stjórnarráðsins sem heildar. Benda má á að í Danmörku fara allar embættisveitingar ráðherra fyrir sérstaka ráðherranefnd, þannig að einn ráðherra tekur aldrei ákvörðun um skipun í embætti án þess að hafa kynnt tillögu sína fyrir fleiri ráðherrum. Slíkt fyrirkomulag tel ég til mikillar fyrirmyndar og vil gjarnan koma því á hér á landi.
Þrátt fyrir að nefndin hafi ekki formlega skilað af sér verður samt sem áður horft til þeirra sjónarmiða sem unnið er eftir í nefndarstarfinu t.d. við ráðningar stjórnenda í þau nýju ráðuneyti sem Alþingi hefur ákveðið að setja á fót, þ.e. velferðarráðuneyti og innanríkisráðuneyti.


Allt verður þetta skoðað í heild sinni og ráðist í nauðsynlegar breytingar þegar nefndin skilar endanlega af sér í lok næsta mánaðar.

Nefndin fjallar jafnframt almennt um hlutverk og skipulag ráðuneyta, ráðningar og starfslok og hlutverk, valdmörk og ábyrgð ráðherra, ráðuneytisstjóra og sérstakra ráð¬gjafa ráðherra.

Nefndin taldi í áfangaskýrslu sinni að skilgreina þyrfti hlutverk ráðuneyta á skýran hátt í stjórnarráðslögunum og fjallaði sérstaklega um stefnumörkun ráðherra og hvernig efla mætti faglega stjórnsýslu.

Þingmannanefndin leggur til að lögum og reglum verði breytt þannig að komið verði í veg fyrir að einstakir ráðherrar gangi inn á valdsvið og ábyrgðarsvið hver annars. Skarist valdsvið beri þeim að hafa formlega samvinnu og ítrekar ábyrgð fagráðherra á eftirliti með störfum Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

Þetta lýtur að verkstjórnarvaldi forsætisráðherra og valdmörkum ráðherra sem er til umfjöllunar í nefnd sem endurskoðar nú lög um Stjórnarráðið. Ég mun fela nefndinni að taka tillögur þingmannanefndarinnar til sérstakrar umfjöllunar.  Með flutningi Seðlabanka Íslands til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins haustið 2009 var einnig stuðlað að því að ábyrgð eins og sama ráðherra á bankanum og Fjármálaeftirlitinu yrði skýrari en áður.

Eins og ég gat hér um áður hafa margskonar úrbætur á vinnubrögðum þegar verið innleiddar innan Stjórnarráðsins á undanförnum mánuðum og mun ég hér geta þeirra helstu.

Forystuhlutverk forsætisráðuneytisins hefur þegar verið eflt með breyttu skipulagi ráðuneytisins, m.a. til þess að tryggja samhæfð vinnubrögð og formfestu í samskiptum innan Stjórnarráðsins.

Við höfum unnið að sameiningu ráðuneyta og eflingu þeirra og frekar verður unnið að sameiningum ráðuneyta og stofnana þannig að sérfræðiþekking nýtist betur en áður og þjónustan verði skilvirkari, markvissari og betri en áður og verklag samræmt.

Ég tek undir með þingmannanefndinni að brýnt er að í ráðuneytunum sé til staðar sú fagþekking og reynsla sem nauðsynleg er til að sinna þeim verkefnum sem ráðuneytum ber. Leggja þarf ríka áherslu á formfestu við töku ákvarðana og innleiða meiri aga í vinnubrögð ekki síst þegar taka þarf ákvarðanir undir miklu álagi. Þetta tel ég að náist m.a. með því að sameina ráðuneyti og stækka þau og efla.

Við höfum sett á fót sérstakar ráðherranefndir undir forystu forsætisráðherra, m.a. á sviði efnahagsmála og ríkisfjármála, sem fjalla um þau málefni með formlegum hætti á grundvelli reglna.

Fundir eru undirbúnir með dagskrá og formlegar fundargerðir haldnar. Þessir fundir hafa reynst afar mikilvægir og með þeim er tryggt að ráðherrar öðlast með skipulögðum og öguðum vinnubrögðum betri yfirsýn yfir þessi mikilvægu málaflokka en áður.

Við höfum samið reglur um undirbúning laga frumvarpa sem lögð eru fram í ríkisstjórn til þess að tryggja bætt vinnubrögð. Þá hefur forsætisráðuneytið ákveðið að auka forystuhlutverk sitt og samráð við önnur ráðuneyti fyrir framlagningu þingmálaskrár og mun hafa til hliðsjónar tillögur þingmannanefndarinnar um að stjórnarfrumvörp verði lögð fram með góðum fyrirvara.

Jafnframt mun verða tekið til skoðunar í samvinnu við utanríkisráðuneytið hvort setja megi skýrari reglur um innleiðingu EES-gerða, taka tillit til sérstöðu landsins og vanda betur til þýðinga gerðanna. Að nokkru leyti er tekið á þessum málum í endurskoðuðum reglum ríkisstjórnarinnar um undirbúning og meðferð stjórnarfrumvarpa auk þess sem þýðingarmiðstöð utanríkisráðuneytisins hefur verið stórefld að undanförnu.

Talsvert hefur verið rætt um það hvort setja eigi á fót laga skrifstofu á vettvangi Alþingis og tel ég að bætt vinnubrögð á vettvangi stjórnsýslunnar komi alls ekki í veg fyrir að Alþingi efli sína starfsemi á þessu sviði. Ég tel að full ástæða sé til þess að lengja þann tíma sem Alþingi hefur til umfjöllunar um mikilvæg mál á sama hátt og ég hef viljað innleiða vandaðri vinnubrögð við vinnslu frumvarpa áður en þau eru lögð fyrir Alþingi.

Sú staðreynd að komið hafi verið á fót löggjafarskrifstofu innan forsætisráðuneytisins þarf alls ekki að koma í veg fyrir að Alþingi efli yfirferð yfir frumvörp. Þannig er það á öðrum Norðurlöndum svo sem í Danmörku, þar er sterk lagaskrifstofa á vettvangi ráðuneyta og einnig er slík þjónusta öflug á vettvangi þingsins.

Sem sá þingmaður sem hefur lengstan starfsaldur á Alþingi styð ég heilshugar eflingu Alþingis og fagna henni og tel að faglega sterkt löggjafarþing og faglega sterk stjórnsýsla tryggi sameiginlega vönduð vinnubrögð í hvívetna.

Við höfum sett á fót stjórnsýsluskóla fyrir ráðherra, aðstoðarmenn og starfsmenn Stjórnarráðsins sem mun hefja störf í lok þessa mánaðar. Þar verður meðal annars farið almennt yfir vönduð vinnubrögð, störf ríkisstjórnar, skráningu gagna og almennar reglur stjórnsýslulaga og upplýsingalaga og hér eftir munu nýir ráðherrar, aðstoðarmenn og starfsmenn Stjórnarráðsins fá slíka fræðslu.

Siðareglur fyrir ráðherra, aðstoðarmenn ráðherra og starfsmenn stjórnsýslunnar eru þegar í undirbúningi. Kallað hefur verið eftir slíkum reglum í áratugi og er hér um mikið framfaraspor að ræða.

Á vettvangi forsætisráðuneytisins hefur verið fjallað um breytt vinnubrögð að því er varðar skráningu fundargerða ríkisstjórnar og það er eitt af verkefnum nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands að fjalla um verklag ríkisstjórnar. Nefndin mun skoða þetta sérstaklega á næstu vikum. Þá mun forsætisráðuneytið fela nefndinni að fjalla sérstaklega um starfshætti samráðshópa og funda þegar oddvitar ríkisstjórnar eða ráðherrar koma fram gagnvart aðilum úr stjórnkerfinu eða utanaðkomandi aðilum.

Endurskoðun upplýsingalaga er nú á lokastigi. Þar verður lagt til að gildissvið upplýsingalaga verði víkkað þannig að þau taki til einkaréttarlegra aðila sem eru í eigu hins opinbera að 75% eða meira.

Einnig verða lagðar til breytingar á kröfum til framsetningar á beiðni um aðgang að gögnum, með það að markmiði að almenningi verði gert auðveldara en nú er að óska upplýsinga.

Þá verður krafist rökstuðnings af hálfu stjórnvalda fyrir því að ekki sé nýtt heimild til að veita aðgang að gögnum umfram skyldu. Slíkt mun fyrirsjáanlega leiða til að gögn verði frekar afhent en nú er jafnvel þótt það sé ekki skylt að lögum.

Þá stendur nú yfir endurskoðun á málaskrárkerfi Stjórnarráðsins og þar verður m.a. sérstaklega fjallað um hvernig bæta megi vinnubrögð út frá skyldu til skráningar upplýsinga. Þá vil ég að sérstaklega verði skoðað hvort og þá hvernig megi auka aðgang fjölmiðla að upplýsingum um þau verkefni sem unnið er að innan Stjórnarráðsins hverju sinni.

Hæstvirtur forseti.
Ég hef hér reifað tillögur þingmannanefndarinnar sem snúa að stjórnsýslunni og þær úrbætur sem þegar hefur verið unnið að.

Fjölmörg mikilvæg lýðræðis- og umbótamál hafa þegar hlotið umfjöllun og samþykki á Alþingi.

Ég nefni stjórnlagaþing sem nú verður undirbúið á þjóðfundi sem haldinn verður 6. nóvember næstkomandi, og kosið verður til stjórnlagaþings 27. nóvember.

Með þjóðfundinum og stjórnlagaþinginu er stigið stærra skref í lýðræðisátt en fordæmi eru fyrir hér á landi. Ég bind miklar vonir við að stjórnlagaþingið og síðar Alþingi samþykki lýðræðisumbætur sem hafa verið til umfjöllunar áratugum saman.

Ég bind jafnframt vonir við að stjórnlagaþingið taki til umfjöllunar og komi fram með tillögur á grundvelli skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannefndarinnar.

Þá hafa verið samþykkt lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna og frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðanda og upplýsingaskyldu þeirra, sem flutt var af öllum stjórnmálaflokkum en undirbúið í forsætisráðuneytinu. Allt eru þetta mikil framfaramál og vil ég nota tækifærið hér og þakka háttvirtum þingmönnum fyrir þeirra miklu og góðu vinnu í þessum málum.

Virðulegi forseti.

Ég vil ítreka það að ég fagna umfjöllun þingmannanefndarinnar um stjórnsýsluna og tel að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndarinnar séu gott innlegg í þá úrbótavinnu sem þegar er vel á veg komin innan stjórnsýslunnar.

Það er ekki síst mikilvægt að þverpólitísk sátt hafi náðst um vinnslu þessa máls hér Alþingi. Eins og ég sagði hér í upphafi ræðu minnar í dag tel ég að sú staðreynd marki á vissan hátt þáttaskil í þeirri endurreisn sem við erum nú að ganga í gegnum. 

Ég vil einnig nota þetta tækifæri til þess að þakka alþingismönnum fyrir málefnalega umræðu og málefnalega nálgun þessa í senn viðkvæma og mikilvæga verkefnis. Almenningur gerir kröfu um að við vinnum verk okkar með þessum hætti og almenningur á heimtingu á því. Með því móti  getum samhent beint tíma okkar og kröftum í uppbyggingu í stað niðurrifs.

Ég vil jafnframt benda á mikilvægi þess að vel takist til á stjórnalagaþinginu og að þar verði tekist á um grundvallaratiði í uppbyggingu stjórnskipunar okkar hér á landi.

Ef vel tekst til á stjórnlagaþinginu, eins og ég hef fulla trú á, og ef vel tekst til með þær stjórnsýsluumbætur sem nú eru í farvegi og undirbúningi munum við í framtíðinni búa við heilbrigðari og öflugari umgjörð og betra samfélag en nokkru sinni fyrr hér á landi.

Ég heiti því að vinna af fullum krafti að þessum mikilvægu og löngu tímabæru úrbótum, sem fólkið í landinu á svo sannarlega skilið að verði komið á til frambúðar.

Ég vil að lokum nefna að ég tel að þær tillögur sem fram hafa verið settar um endurskoðun á lögum um landsdóm og ráðherraábyrgð séu mjög athyglisverðar. Um það hef ég ítrekað flutt tillögur og m.a. með þingsályktunartillögu sem lögð var fram á 131. löggjafarþingi 2004 – 2005. Þar lagði ég til að lög um ráðherraábyrgð yrðu tekin til gagngerrar endurskoðunar og að fyrirkomulag landsdóms yrði jafnframt breytt þannig að hann yrði lagður niður og að ráðherrar sættu ábyrgð fyrir almennum dómstólum.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta