Hoppa yfir valmynd
26. október 2010 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Ávarp forsætisráðherra á samfögnuði með kvennaliði Gerplu

Ágætu gestir.

Það er full ástæða til þess að fagna í dag vegna þess glæsilega og einstaka árangurs sem kvennalið Gerplu náði á Evrópumótinu í hópfimleikum í Svíþjóð nú um helgina.

Sjálf fylltist ég af stolti þegar ég fékk fréttir af þessu afreki og ég veit að það átti við um okkur öll. Þessi árangur minnir okkur á hvers við erum megnug, Íslendingar, þessi árangur sýnir að okkur eru allir vegir færir ef við erum samtaka og vinnum saman sem einn maður, ef við göngum í takt.

Árangur í hópfimleikum byggir á samvinnu margra einstaklinga og sú viðurkenning sem við fögnum hér í dag byggir á því hve liðinu sem heild tókst vel upp. Árangur heildarinnar byggir á framlagi hvers einstaklings og í hópi sem þessum hafa menn mismunandi styrkleika, innan og utan keppni. Evrópumeistaratitillinn sem nú er í höfn byggir ekki á tilviljun heldur þrotlausri vinnu og mikilli skipulagningu sem margir hafa komið að.

Að baki liggur ára og jafnvel áratuga ástundun og vinna margra sterkra einstaklinga sem hafa undanfarið einbeitt sér að því að ná árangri. Það er þessi hópur sem heild sem er þegar orðinn fyrirmynd annarra og það er þessi hópur sem heild sem sýndi og sannaði að Íslendingar geta sótt fram á alþjóðavettvangi og unnið þar til afreka. Það er þessi hópur sem heild sem verður öðrum hvatning, ekki bara íþróttafólki heldur okkur Íslendingum almennt og öllum sem vilja sækja fram og ná árangri, á hvaða sviði sem er.

Með dugnaði, elju og samviskusemi eru okkur allir vegir færir, það hafið þið sýnt og sannað.

Ég vil líka nota þetta tækifæri hér í dag til þess að óska unglingalandsliði kvenna í fimleikum innilega til hamingju með að hafa unnið til bronsveðlauna á nýafstöðnu Evrópumóti og unglingalandsliði karla fyrir að hafa náð fjórða sæti í úrslitum á mótinu. Það er mjög góður árangur þar sem þetta er í fyrsta sinn sem Ísland sendir karlalið til keppni á Evrópumóti í hópfimleikum. Þá er þetta einnig í fyrsta sinn sem keppni fer fram í unglingaflokki á Evrópumóti. Mörg jöfn lið mættu til keppni og því er árangur unglingalandsliðs kvenna og annarra íslenskra liða sem komust í úrslit á mótinu mjög góður. Íslensku liðin geta verið afar stolt af framgöngu sinni á þessu móti og borið höfuðið hátt.

Fimleikar eru vaxandi íþróttagrein á Íslandi og í dag stunda sjö til átta þúsund manns um land allt þessa öflugu íþrótt, þar af er um 90% iðkenda börn og ungmenni.

Fimleikar eru að ýmsu leyti merkileg íþróttagrein þótt óneitanlega fari minna fyrir þeirri íþrótt en mörgum öðrum bæði í fjölmiðlum og í almennri umræðu. Fimleikar eru undirstöðuíþrótt sem byggir upp alhliða líkamlegt atgervi og hreysti og ég er sannfærð um að þau afrek sem unnin voru á Evrópumótinu munu reynast börnum og unglingum um land allt mikil hvatning til þátttöku í fimleikum og er það vel.

Í börnum okkar og unglingum eru falin mikil verðmæti og framtíð þjóðfélags okkar og velferð byggist á því að þeim farnist vel. Við iðkun fimleika og annarra íþrótta lærist margt svo sem agi, heilbrigt líferni og félagslegt samneyti sem við megum ekki vanmeta og missa sjónar á.

Til hamingju með árangurinn,  glæsilega íþróttafólk og nýkrýndir Evrópumeistarar.

Við skulum gefa Evrópumeisturunum í hópfimleikum árið 2010 gott klapp.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta