Ávarp við opnun sýningarinnar „ÓSKABARN“
Forseti Íslands, aðrir gestir.
Eins og fram hefur komið hjá þeim sem ávarpað hafa hér á undan mér hefjum við hér í dag dagskrá afmælisárs í tilefni af merkum tímamótum. Jón Sigurðsson skipar sinn sess í hugum okkar allra og 200 ára afmælis hans verður minnst á margan hátt á árinu. Hæst mun þó bera enduropnun Safns Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri á þjóðhátíðardaginn.
Það er rökrétt og jafnframt sérstaklega ánægjulegt að fyrsti viðburðurinn tengist æsku Jóns og að sýningin sé einkum ætluð börnum og unglingum. Jón Sigurðsson var og er fyrirmynd að svo mörgu leyti og ekki síst þess vegna á saga hans fullt erindi til íslenskrar æsku árið 2011. Hann lagði mikið af mörkum og háði friðsama baráttu í þágu þjóðarinnar, hann varði tíma sínum á óeigingjarnan hátt. Af því eigum við öll að læra, ekki síst þeir sem koma til með að erfa landið.
Sagan er hluti af sjálfsmynd okkar og mikilvægt er að þráðurinn milli fortíðar og nútíðar rofni ekki. Við byggjum m.a. á þessum grunni í sívaxandi alþjóðasamskiptum. Þeim mun sterkari sem sjálfsmynd okkar er þeim mun betur vegnar okkur í samskiptum við aðrar þjóðir, ef við erum sterk inn á við erum við jafnframt sterk út á við.
Það er eins og ég sagði hér í upphafi afar vel til fundið að fyrsta verkefnið á afmælisári Jóns Sigurðssonar skuli vera sýning ætluð börnum sem segir sögu hans á litríkan og frjálslegan hátt út frá sjónarhorni æskunnar.
Mjög margir hafa lagt hönd á plóg við þann mikla undirbúning sem nú er að baki. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka þeim sem þar hafa komið að með einum eða öðrum hætti.
Við minningarathöfn sem haldin var í Kaupmannahöfn í desember árið 1879 var lagður á kistu Jóns Sigurðssonar silfursveigur sem Íslendingar höfðu látið gera. Þar birtust í fyrsta sinn hin fleygu orð; Óskabarn Íslands, sómi þess, sverð og skjöldur.
Jón Sigurðsson var óskabarn prestshjónanna á Hrafnseyri, fyrsta barn foreldra sinna eftir átta ára hjónaband. Börnin urðu alls þrjú, Jón, Jens og Margrét. Þeirra biðu örlög samtímans; bræðurnir hlutu góða menntun og embætti, en Margrét systir þeirra bjó alla sína tíð í Arnarfirði í fátækt með stóran barnahóp.
Jón og Ingibjörg tóku að sér son Margrétar, þá átta ára gamlan, og ólu hann upp sem sitt eigið barn. Hann hefur eflaust verið óskabarnið á heimili þeirra.
Við Íslendingar erum fámenn þjóð, við þurfum á hverjum manni að halda, og sérhvert barn, sem nær aldri og þroska, er í rauninni óskabarn okkar allra.
Ég á þá von að sýningin ÓSKABARN eigi eftir að opna augu æskunnar fyrir sögunni, leyndardómum hennar og ævintýrum.
Sýningin er hér með opnuð.