Hoppa yfir valmynd
07. febrúar 2011 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Ávarp forsætisráðherra á Jafnréttisþingi 2011

Ágætu þinggestir

Nú er komið að lokum þessa Jafnréttisþings. Það er von mín og trú að við förum héðan fullnestuð af nýjum hugmyndum um hvernig stjórnvöld og við öll getum haldið áfram baráttunni fyrir fullu jafnrétti kynja, bæði hér á landi og annarsstaðar. Enda er það tilgangurinn með Jafnréttisþingi meðal annars að stjórnvöld geti lagt verk sín og fyrirætlanir fram fyrir almenning og þá sem beita sér í baráttunni, fengið viðbrögð, gagnrýni líka og nýjan innblástur.

Jafnréttisþing er líka vettvangur fyrir alla þá sem láta sig málefni kynjajafnréttis varða til að vekja athygli á hvar aðgerða er þörf. Jafnréttisþingi er þannig ætlað að tengja saman stjórnvöld, kvennahreyfinguna, fræðasamfélagið og alla aðra sem áhuga hafa til þess að auðveldara sé að greina vandann, móta ný verkefni, samhæfa kraftana – sækja fram.

Jafnréttisþing 2011Vissulega getum við fagnað því að á Íslandi hefur einna mestur árangur náðst í jafnréttismálum samanborið við önnur lönd. Eins og kom fram hjá velferðarráðherra hér í morgun þá hefur Íslandi nú tvö ár í röð verið skipað í efsta sæti á lista Alþjóða efnahagsráðsins yfir stöðu jafnréttis kynja í alls 134 (hundrað þrjátíu og fjórum) ríkjum heims. Við skulum ekki láta þann árangur verða að einhvers konar silkipúða til að hvíla höfuðið á. Frekar ætti hann að verða okkur áminning um hvað konur eiga langt í land í öðrum löndum og hvatning til að beita okkur af enn meiri krafti á alþjóðavettvangi fyrir mannréttindum, jafnrétti kynjanna og félagslegu  réttlæti.

Louis Shelley minnti okkur rækilega á þetta í áhrifaríku erindi sínu hér í morgun. Þrátt fyrir velmegunina og framþróunina síðustu áratugi eru þúsundir kvenna og barna seld mansali á ári hverju, ekki síst vegna kynlífsiðnaðarins þar sem líf þeirra er lagt í rúst.

Þennan ófögnuð ber að uppræta með öllum tiltækum ráðum og þar berum við okkar ábyrgð. Þetta ræddum við meðal annars á síðasta jafnréttisþingi og ég er afar stolt af þeim skrefum sem við höfum verið að stíga í þessum efnum síðan þá - en betur má ef duga skal.

Ég er líka þeirrar skoðunar að bara til þess að halda í þá ávinninga sem náðst hafa í jafnréttismálum sé þörf á stöðugri árvekni – við þurfum sífellt að verja þann árangur sem náðst hefur. Annars er hætta á því að hann glatist.

Árangur okkar í jafnréttismálum hvílir að hluta til á þeirri staðreynd að við hér á Íslandi höfum að mestu fylgt hinu norræna módeli í velferðar- og menntamálum, enda má segja að konur hafi löngum verið öflugustu málsvarar velferðarsamfélagsins og barist ötullega fyrir því. Þar megum við ekki slaka á, heldur sækja fram.

Án leikskólanna væri atvinnuþátttaka og menntun kvenna ekki eins mikil og raun ber vitni. Án menntunar kvenna væri framsókn þeirra á vinnumarkaði og í stjórnmálum svipur hjá sjón. Án fæðingarorlofs feðra væri leiðin í átt að jafnri ábyrgð á heimilunum enn brattari.

Án öflugrar opinberrar þjónustu og þeirra samfélagslegu gilda sem felast jöfnuði og jöfnum tækifærum allra væri konum gert mun erfiðara fyrir að njóta hæfileika sinna og taka þátt í því að móta samfélagið.

Hin stjórnmálalega barátta fyrir því að efla velferðarsamfélagið íslenska í anda norrænnar hefðar er því svo sannarlega barátta fyrir auknu jafnrétti kynjanna.

Árangur okkar hvílir líka á öflugum kvennahreyfingum. Hér á landi hefur grasrótarstarf fjöldamargra kvennasamtaka og mannréttindasamtaka staðið óslitið í áratugi og geta þeirra til að virkja fjöldann er aðdáunarverð eins og sannaðist núna síðast þegar kvennafrídagsins var minnst í október síðastliðnum.

Ég vil líka halda því fram að boðleiðirnar frá kvennahreyfingunni og til stjórnmálakvenna og einstakra stjórnmálakarla bæði á vettvangi löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins séu verulega styttri hér en gengur og gerist með öðrum þjóðum.

Glöggt er gests augað segir máltækið. Staða Íslands á sviði jafnréttismála og þau skref sem hér hafa verið stigin hafa vakið umtalsverða athygli meðal annarra þjóða. Nýlega sat ég fund forsætisráðherra Bretlands, Norðurlanda og Eystrasaltsríkja þar sem jafnréttismálin voru á dagskrá sem mikilvægur þáttur í framþróun þessara ríkja.

Reyndar urðu jafnréttismálin eitt af aðal umræðuefnunum vegna þáttöku og frumkvæðis Íslands í undirbúningi fundarins, sem sýnir okkur ágætlega hvernig við getum haft áhrif í jafnréttismálunum á alþjóðavettvangi þó lítil séum.

Á fundinum fluttu margir fyrirlesarar áhugaverð erindi, meðal annars um mikilvægi atvinnuþátttöku kvenna fyrir efnahagslega og félagslega velferð ríkja. Þar kom fram að atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi er hæst meðal OECD ríkja eins og verið hefur um nokkurt skeið.

Á fundinum var rætt um það hve samspil almennrar velferðar og efnahagslegrar velgengni væri mikilvægt og að margt mætti læra af Norðurlöndum í því efni.

Fæðingarorlof feðra vakti sérstaka athygli enda áform um að stíga skref í þá átt í Bretlandi. Einnig var greint frá jafnréttisstarfi Hjallastefnunnar og fjallað um mikilvægi þess að byrja að vinna markvisst að jafnrétti með ungum strákum og stelpum.

Það er að renna upp fyrir æ fleiri stjórnmálaleiðtogum í lýðræðisríkjum að samfélag án jafnrar þátttöku og jafnra áhrifa kynjanna er ekki sjálfbært samfélag. Við höfum undanfarin misseri kynnst því hversu grátt einsleit karllæg menning í atvinnulífi, stjórnmálum og á fjármálamarkaði hefur leikið okkur. Það má ekki endurtaka sig – þar er velferð okkar allra í húfi – þar er framtíð barna okkar í húfi.

Á síðasta Jafnréttisþingi kom fram eindregin krafa um að kynjakvóti í stjórnum fyrirtækja yrði lögfestur. Kynjakvótinn er nú orðinn að lögum og tekur hann gildi 2013. Við sjáum því miður ekki margar vísbendingar um að atvinnulífið sé að undirbúa sig undir þessar breytingar, þótt undantekningar séu vissulega til staðar. Þar verður að gera betur.

Efnahagslægðin sem Ísland hefur gengið í gegnum hefur leitt til þess að launamunur kynja hefur dregist saman. Bæði stafar það af því að tekist hefur að verja lægstu launin á meðan dregið hefur úr aukasporslum þeirra sem hærri launin hafa – karla – og laun margra þeirra hafa lækkað.

Það er að mörgu leyti sár staðreynd að þennan árangur er ekki hægt að rekja til meðvitaðra aðgerða gegn launamuni kynja, heldur fremur til svokallaðra markaðsaðstæðna á vinnumarkaði.

Ef ekkert verður að gert má gera því skóna að launamunur kynja aukist aftur þegar vinnumarkaðurinn nær sér á strik fyrir alvöru. Það má ekki gerast. Ég vil ákalla aðila vinnumarkaðarins, fyrirtækin í landinu og launafólk sjálft til að standa vaktina og koma í veg fyrir að sá efnahagsbati sem framundan er verði til þess að aftur dragi í sundur með kynjunum að þessu leyti.

Og það er full ástæða til að skoða það ofan í kjölinn hvað stjórnvöld geta gert til að draga enn frekar úr launamuni kynja. Þar verður að beita róttækari meðulum en hingað til.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að mér voru það mikil vonbrigði að Hæstiréttur skyldi úrskurða að ógilda beri kosningu til stjórnlagaþings. Þessar kosningar voru þær fyrstu í sögu Íslands þar sem kynjakvóti var í gildi og mörkuðu þær því tímamót að því leyti líka.


Ég er staðráðin í að stjórnlagaþing verður haldið. Þar er verkefnið ekki síst það að tryggja að í nýrri stjórnarskrá verði kveðið á um jafnrétti kynjanna með áhrifaríkari hætti en gert er í núgildandi stjórnarskrá. Ábendingar Oddnýjar Mjallar í fróðlegu erindi hennar hér í morgun hljóta að verða okkur leiðarljós í því efni.

Ágætu þinggestir.

Við förum héðan með gnótt nýrra hugmynda. Á vettvangi ríkisstjórnarinnar er nú í fyrsta sinn starfandi ráðherranefnd um jafnrétti kynja, sem er til merkis um þann vilja ríkisstjórnarinnar að taka jafnréttismál mun fastari tökum en hér hefur áður verið gert.

Það byggir á þeirri sannfæringu minni – og ríkisstjórnarinnar allrar – að jafnrétti kynja er ekki aðeins spurning um mannréttindi, lýðræði og kvenfrelsi. Það er beinlínis efnahagsleg og félagsleg nauðsyn til þess að samfélagið allt geti sótt fram í anda jöfnuðar og manngildis.

Ég vil þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við að gera þennan dag, Jafnréttisþingið, að jafn mikilvægum viðburði og raun ber vitni.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta