Hoppa yfir valmynd
17. mars 2011 MatvælaráðuneytiðÁrni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra 2010-2011

Ræða ráðherra á aðalfundi Samtaka verslunar og þjónustu

Við stöndum nú á miklum tímamótum. Að baki er glíman við að ná tökum á verðbólgunni, stöðva niðursveifluna, hemja aukningu í atvinnuleysi. Framundan er endurreisnin. Hún þarf að gera okkur kleift að auka verðmæti og fjölga vel launuðum störfum í landinu. Stöðnun og kyrrstaða er ekki valkostur. Óbreytt ástand leiðir einungis til hnignunar: Lítill hagvöxtur þrýstir fleiri fyrirtækjum til að segja upp fólki og við festumst í vítahring lítillar eftirspurnar og aukins atvinnuleysis, sem leiðir beint til lakari afkomu ríkisins og þess að við þurfum að skera enn meira niður í ríkisútgjöldum.

Við búum við þá þversögn að á sama tíma og við þurfum hvað mest á þróttmiklu viðskipa- og atvinnulífi að halda til að skapa ný störf og velsæld hefur vantrú á viðskiptalífinu sjaldan verið meiri.

Umfjöllun fjölmiðla undanfarna daga sýnir þetta svart á hvítu. Umræða um ofurlaun, ofurskatta og stórfelld brot gegn samkeppnislögum vekja ýmsar spurningar. Sumum þeirra þarf viðskiptalífið að svara og sumum stjórnmálamenn.

Það er verk að vinna að endurheimta traust á viðskiptalífinu. Stjórnmálamenn þurfa að sjálfsögðu að forðast gífuryrði  sem líkleg eru til tímabundinna vinsælda þegar styr stendur um einstök fyrirtæki en hjá því er ekki hægt að horfa að það eru fyrirtækin og viðskiptalífið sjálft sem vinnur sér inn traust og þarf að sýna í verki samfélagslega ábyrgð.

Fyrirtækin þurfa að sýna í verki viljann til að hafa í heiðri virka samkeppni . Fákeppni á flestum mörkuðum um áratugi hefur valdið almenningi miklum búsifjum. En atvinnulífið hefur líka beðið tjón af því þegar fákeppniskóngar hafa skipt með sér mörkuðum og valdið verðmætaskapandi fyrirtækjum óbærilegu tjóni. Auðvitað er það ekki útgjaldalaust fyrir viðskiptalífið að hér hefur og er fákeppni ráðandi á fraktmarkaði, olíumarkaði, tryggingamarkaði og fjármálamarkaði. Ég veit að margir í ykkar hópi hafa haft áhyggjur af nýsamþykktri breytingu á samkeppnislögum sem heimilar uppskiptingu markaðsráðandi fyrirtækja. Sú heimild verður ekki nýtt með ómálefnalegum hætti, enda íþyngjandi fyrir þá sem fyrir verða. Nýting hennar mun alltaf kalla á skýran rökstuðning. En ég er sannfærður um að þegar horft er til þeirrar harmsögu fákeppni sem einkennt hefur íslenskt atvinnulíf fyrirtækjum ykkar flestra til tjóns, sjá menn mikilvægi þessarar breytingar. Við þurfum að ryðja burt því viðhorfi að ávinningur af markaðsráðandi stöðu og misnotkun hennar sé óhjákvæmilegur og eðlilegur fylgifiskur íslensks viðskiptalífs. Metnaðarfull fyrirtæki, rekin með almannahagsmuni að leiðarljósi, eiga annað og betra skilið. Varðstaða um samráð, markaðsskiptingu og einokunargróða á ekkert erindi í nútímalegu viðskiptalífi.

Launaákvarðanir fyrirtækja verða að vera með þeim hætti að þær séu sanngjarnar og í samræmi við rekstrarforsendur fyrirtækja, en jafnframt verða stjórnir fyrirtækja að hafa í huga að þær geta ekki hækkað laun yfirmanna um tugi prósenta á sama tíma og almennir starfsmenn eiga ekki að njóta neinna hækkana. Ágreiningur minn við stjórnir bankanna um launaákvarðanir bankastjóra lýtur fyrst og fremst að þessu: Hvernig er hægt að réttlæta stórfelld stökk í launaákvörðunum á sama tíma og bankar eru með 40% útlána í vanskilum, efnahagslífið á brauðfótum og engir langtímakjarasamningar í gildi?

Hitt er mikilvægt að fyrirtæki greiði há laun – og því hærri því betra. Til þess þurfa þau hins vegar að hafa rekstrarforsendur. Blessunarlega eru enn fyrirtæki með höfuðstöðvar á Íslandi sem geta greitt há laun og við þurfum á þeim að halda. Við þurfum líka á því að halda að launabilið innan þeirra sé ekki of mikið. Í sumum tilvikum er um að ræða fyrirtæki sem fyrst og fremst eru með erlenda starfsemi en höfuðstöðvar hér á landi. Þá sjáum við í sumum tilvikum að laun forstjóra hafa tvöfaldast frá því fyrir hrun – en gleymum því þá stundum að það eru ekki laun þeirra sem hafa tvöfaldast, heldur laun okkar sem hafa lækkað um helming. Það er nú allur hinn margrómaði ávinningur íslensks samfélags af gengishruni krónunnar.

Um ofurskatta á ofurlaun er hægt að halda langar ræður. Mergurinn málsins er hins vegar sá að við verðum sem þjóð að ná þeirri yfirvegun að ræða grundvallarspurningar í efnahagslífinu á öðrum forsendum en þeim að vera sífellt að svara síðustu uppsláttarfrétt í fjölmiðlum. Ákvarðanir um tekjuskiptingu og skattheimtu eru mikilvægari en svo að þær séu ræddar í kapphlaupi um hæstu skattprósenturnar eða lægstu frítekjumörkin, án þess að nokkur efnahagsleg greining liggi þar að baki. Í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við leggja menn kapp á að ná breiðri samstöðu um skattastefnu. En ekki hér. Það er eitt af því sem þarf að breyta.

Við búum nú við erfiðleika sem meðal annars sköpuðust af því að stjórnvöld tóku ákvarðanir í skattamálum út frá pólitískum forsendum en ekki efnahagslegum. Frá 2003-2007 var hrint í framkvæmd mýgrút af óskynsamlegum skattalækkunum sem allir hagfræðingar vöruðu við og bentu á – réttilega – að myndu ógna efnahagslegum stöðugleika. Samt voru þær ákvarðanir teknar því ráðandi öfl á þeim tíma vildu slá pólitískar keilur á kostnað atvinnulífs og almennings. Vildu sanna að skattalækkanir væru alltaf skynsamlegar, jafnvel þótt viðtekin grundvallarsannindi um efnahagslegan stöðugleika segðu annað. Það var dýr lexía.

Nákvæmlega sömu sjónarmið eiga við í dag. Við sem nú förum með meirihlutavald á Alþingi megum ekki falla í sömu gryfju og leggja á skatta, sem hafa neikvæð efnahagsleg áhrif í pólitískum tilgangi. Umboð okkar nær ekki til þess að leggja á skatta til að mæta pólitískum dægurþörfum. Ofurskattar kunna að eiga við til að hemja óviðráðanlegt launaskrið á þenslutímum, en þeir eiga ekkert erindi þegar landsframleiðsla hefur dregist saman tvö ár í röð og er líklega fjórfalt á við meðaltal í OECD-löndunum og við eigum fullt í fangi með að auka verðmætasköpun í landinu.

Við viljum öll búa í samfélagi þar sem við njótum tækifæra til að bera úr býtum ef við leggjum hart að okkur. Við viljum líka tryggja efnalegan jöfnuð, en án þess að eftir standi samfélag þar sem örbirgðinni er nákvæmlega jafnt skipt. Við viljum – sérstaklega nú um stundir – að allir leggi sig fram, bæti við sig aukavinnu og skili meiri arði af starfi sínu. Okkur hefur blessunarlega tekist að auka á tekjujöfnuð og draga úr misskiptingu í nýafstöðnum skattkerfisbreytingum, en án þess að draga úr hvötum til að fólk sækist eftir hærri launum. Nú þegar höfum við komið á kerfi þar sem launþegar greiða nærri aðra hverja krónu til ríkisins af tekjum í hæsta þrepi. Það er að mínu viti ágætlega í lagt og engar forsendur til frekari skattheimtu á launatekjur.

En atvinnulífið þarf líka að vinna með okkur að skattbreytingum sem hvata hagvöxt og sköpun nýrra starfa og forðast hugmyndafræðilega meinloku í andstöðu við skattlagningaraðferðir. Þar voru gerð mikil mistök í fyrra. Þegar ríkisstjórnin lagði fram tillögur um óhjákvæmilegar skattahækkanir haustið 2009 var gert ráð fyrir að hluti þeirra yrði í formi aukinna álaga á atvinnulífið, m.a. í formi orkuskatta og auðlindagjalda. Samtök Atvinnulífsins lögðu þá áherslu á að auknar álögur á atvinnulífið yrðu frekar í formi hækkaðs tryggingagjalds. Þetta varð því miður á endanum ofan á. Það var alltaf óskynsamlegt að hækka launaskatta á tímum vaxandi atvinnuleysis. Hækkun launakostnaðar í verslun, þjónustu og hugverkaiðnaði er ekki skynsamleg ráðstöfun á sama tíma og við viljum helst komu vinnufúsu fólki til verka. Vaxtarsprotar atvinnulífsins hafa verið kæfðir með þessari leið. Mikilvægt er nú að horfa til að flytja skattheimtu á atvinnulífið af tryggingagjaldsstofni og leggja frekar á gjöld á stórnotendur í raforku og auðlindagjald á sjávarútveginn. Slíkur tilflutningur myndi fjölga störfum og styðja við stöðuga og hægt vaxandi gengisþróun á næstu árum, okkur öllum til hagsbóta.

Þessi dæmi sýna að við getum öll gert betur. Mikilvægast er að auka samstöðu um hvert við stefnum. Við getum tekið höftin sem dæmi: Ef okkur á að auðnast að létta af höftum og varða veginn til aukinnar verðmætasköpunar þarf meiri samstöðu og skýrari sýn. Viljum við krónu sem er felld til að jafna hagsveiflu eða viljum við stöðugt gengi? Og nú spyr ég alveg óháð evru eða ekki evru. Hvort viljum við? Ef svarið er króna sem á að fella til að jafna hagsveiflu er ljóst að krónan verður alltaf í höftum. Enginn fjárfestir mun ótilneyddur halda á slíkri krónu. Ef svarið er hins vegar stöðugleiki í gengi þarf trúverðuga umgjörð um slíka gengisþróun. Ef stjórnmálamenn og forystumenn í atvinnulífi tala út og suður um leiðarljós við stjórn peningamála mun enginn fjárfestir geta gert sér trúverðugar væntingar um framtíðarþróunina. Og á meðan slíkt ástand varir sitjum við áfram reyrð í höftum.

Góðir fundargestir. Verkefnin framundan eru mörg. Samvinna um úrlausn þeirra er mikilvæg og samstaða um meginmarkmið er nauðsynleg. En almannahagsmunir verða að ráða för.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta