Ræða efnahags- og viðskiptaráðherra á fundi Viðskiptasambands Íslands um Beinu brautina
Ágætu fundargestir.
Ég vil byrja á að þakka ykkur fyrir boðið á þennan fund og ég fagna þeim mikla áhuga sem þessum mikilvæga málaflokki er sýndur. Það gleður mig að fulltrúar atvinnulífsins sem og fjármálafyrirtækjanna skuli leggja sig fram við að kynna átak um endurskipulagninga skulda lítilla og meðalstórra fyrirtækja og ég veit að við erum öll sammála um mikilvægi þess að átakið heppnist sem skyldi.
Fjárfesting er forsendan fyrir aukinni framleiðslugetu Íslands, sköpun nýrra starfa og betri lífskjörum. Um þessar mundir er fjárfesting í sögulegu lágmarki, aðeins 13% af landsframleiðslu. Samdrátturinn í henni er 67% frá því sem mest var árið 2006. Fyrir þessu eru ýmsar ástæður.
Opinber fjárfesting hefur dregist saman til þess að mæta nýjum raunveruleika í hagkerfinu, koma á jafnvægi, og búa ríkissjóð undir endurgreiðslu skulda til komandi ára.
Einkaneysla er einnig veik vegna mikillar skuldsetningar heimila, atvinnuleysis og lægri kaupmáttar.
Landið hefur að miklu leyti lokast frá erlendum fjármagnsmörkuðum í kjölfar hrunsins, en fram til ársins 2008 stóð erlend skuldsetning undir helstu fjárfestingarverkefnum þjóðarinnar. Hrun fjármálakerfisins hefur einnig verulega truflað miðlun þess fjármagns sem bankastofnanir hafa yfir að ráða.
Oft heyrist í umræðunni að bankarnir séu fullir af peningum. Það er rétt að íslenska bankakerfið er enn mjög stórt í sögulegu samhengi, eða um 1,7-föld landsframleiðsla. Í bönkunum er mikið af innlánum sem liggja á reikningum, en á móti lítið af útlánum til nýrra verkefna. Að hluta til má skýra það með mikilli varkárni banka þegar kemur að nýjum útlánum. Að hluta til má skýra það með óvissu bankanna um eigin útlánagetu, sér í lagi vegna væntra afskrifta af útlánum til heimilanna og lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
Ein helsta áskorun okkar sem þjóðar um þessar mundir er að ná niður atvinnuleysi og koma vinnufúsum höndum til starfa á ný. Ljóst er að hagvöxtur þarf að verða umtalsverður og fara nærri 4% á ári til þess að atvinnuleysi geti minnkað næstu árin. Það takmark næst ekki nema með mjög aukinni fjárfestingu í atvinnulífinu.
Aðstæður fyrir aukna fjárfestingu eru að ýmsu leiti góðar, sérstaklega þegar litið er til lágs raungengis, sem ætti að stuðla að auknum umsvifum útflutnings- og samkeppnisgreina. Það hefur þó ekki enn gerst í þeim mæli sem vonir stóðu til. Fyrir hrun voru útflutningsfyrirtækin lengi aðþrengd vegna alltof hás raungengis krónunnar og það tekur þau tíma að breyta um áherslur nú þegar gengið er þeim hagstætt.
Stærsta ástæðan fyrir því að fyrirtækin hafa ekki nýtt sér aðstæðurnar til fjárfestingar er sú að skuldastaða þeirra tók stakkaskiptum í kjölfar falls krónunnar á vordögum 2008. Erlendar skuldir hækkuðu gríðarlega og verðbólguskotið sem fylgdi í kjölfarið hækkaði verðtryggðar skuldir fyrirtækja umfram tekjur þeirra. Hvorki þarf að hafa mörg orð um þetta í þessum hópi, né um nauðsyn þess að bæta úr stöðunni. Endurskipulagning skulda er nauðsynlegur hlekkur í að koma hjólum atvinnulífsins af stað á ný, eins og dæmin sýna úti um allan heim. Öðru vísi tengjum við ekki saman allt það fjármagn sem bíður þess að koma í vinnu í bankakerfinu og þau tækifæri sem búa í atvinnulífinu. Án vissu um skuldastöðu sína geta fyrirtækin ekki fjárfest, vaxið og skapað ný störf.
Samkomulagið um Beinu brautina er afar mikilvægt í því skyni að greiða úr þessu. Samkomulagið byggir á þeim sameiginlega skilningi aðila þess að heildarskuldsetning fyrirtækis að lokinni skuldaúrvinnslu eigi ekki að fara fram úr virði þess.
Nú eru liðnir rúmir þrír mánuðir frá því að Beina brautin var lögð og því um að gera að líta á hvernig til hefur tekist. Í lok febrúar höfðu 363 fyrirtæki sem undir samkomulagið falla fengið send tilboð um endurskipulagningu sinna skulda, en það er nokkuð undir þeim markmiðum sem sett höfðu verið um að á þeim tímapunkti yrðu 506 fyrirtæki komin með tilboð í hendurnar. Þau fyrirtæki sem nú þegar hafa fengið afgreiðslu hafa fengið skuldir sínar lækkaðar um að meðaltali 50 milljón krónur hvert.
Hátt í þúsund fyrirtæki bíða þess að fá tilboð send og rétt rúmir tveir mánuðir eru þar til stefnt var að því að öll fyrirtæki sem falla undir samkomulagið yrðu komin með tilboð um endurskipulagningu. Það er því þörf á að spýta í lófana.
Tvennt skiptir þar sérstaklega máli:
Annars vegar þarf að undirstrika að fyrirtækin tapa engu á því að leita til bankanna um tilboð, sem þau geta þá annað hvort tekið eða hafnað. Það er líka mikilvægt að hafa í huga að í samkomulaginu er fyrirvari um betri rétt lántakanda, þannig að ef dómar falla í framtíðinni um lögmæti ákveðinna forma gengistryggðra lána, þá breytir þátttaka í Beinu brautinni engu um þann hagnað sem fyrirtæki kunna að hafa af slíkum dómum.
Hins vegar er mikilvægt að greiða úr ágöllum sem upp koma í ferlinu. Okkur hefur til dæmis verið bent á að það skapi vanda í úrlausn mála, ef skuldir eru að einhverju leyti á forræði skilanefnda eða slitastjórna, sem virðast sumar hverjar ekki telja sig þurfa að fara að almennum leikreglum í þágu heildarhagsmuna – hvorki í þessu máli frekar en öðrum. Við í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu vinnum nú að úrlausn þess máls og óskum eindregið eftir að fyrirtæki geri hagsmunasamtökum sínum viðvart um slíka ágalla, eða hafi samband við okkur beint.
Góðir gestir. Við höfum verk að vinna. Það má endalaust ræða um það sem betur má fara og hvort þetta eða hitt er nákvæmlega eins og við helst vildum að það væri. Hitt er alveg ljóst að án endurskipulagningar skulda fyrirtækja verður engin endurreisn. Það verða engin ný atvinnutækifæri og bankakerfið mun veslast upp þar sem það fær enga nýja viðskiptavini til að veita ný lán. Við eigum því öll mikið undir að þetta verkefni takist hratt og vel.