Hoppa yfir valmynd
16. júní 2011 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Ávarp forsætisráðherra við þingfrestun og sérstökum þingfundi til minningar um Jón Sigurðsson

Hæstvirtur forseti.

Það er vel við hæfi að Alþingi og stjórnvöld staldri við í tilefni af merkum tímamótum og minnist mikilvægra skrefa sem stigin hafa verið í framfaraátt landi og þjóð til heilla. Það er mikilvægt fyrir okkur að virða söguna og þá hornsteina sem lagðir hafa verið til grundvallar samfélagi okkar.

Við höfum hér á þessum sérstaka þingfundi heiðrað minningu Jóns Sigurðssonar.

Baráttu sína háði Jón Sigurðsson m.a. á vettvangi Alþingis. Penninn var þó hans helsta vopn og var hann óvenjuleg þjóðfrelsishetja að því leyti. Þjóðfrelsishetjur annarra landa voru gjarnan með byssu eða önnur vopn í höndum en Jón barðist með penna sínum.

Til orða hans, bæði í ræðu og riti, er enn vitnað af ýmsu tilefni. Við minnumst þessa friðsama en staðfasta baráttumanns með margvíslegum hætti um land allt á þessu ári og er það vel.

Margt í fari hans og starfsháttum getum við sem störfum á vettvangi stjórnmálanna svo sannarlega tekið okkur til fyrirmyndar og það eigum við að gera.

Hann var víðsýnn og framsýnn og hafði mikla trú á því að Íslendingar ættu framtíð fyrir sér sem þjóð meðal þjóða. Engum blandast í dag hugur um að þar hafði hann á réttu að standa.

Á aldarafmæli Jóns Sigurðsson, 17. júní árið 1911, var Háskóli Íslands stofnaður hér í þessum sal. Þess verður minnst með hátíðarsamkomu í fundarsal þingsins á þjóðhátíðardaginn.

Með tilkomu háskólans voru í fyrsta sinn sköpuð skilyrði til almennrar vísindastarfsemi hér á landi. Tilkoma skólans markaði tímamót í sögu þjóðarinnar, í menningarlífi hennar og rannsóknastarfsemi og á þeirri öld sem liðin er frá stofnun hans hefur Háskóli Íslands verið grunnundirstaða æðri menntunar í landinu. Hann hefur verið skóli allrar þjóðarinnar og máttarstólpi þess þekkingarsamfélags sem einkennir íslensku þjóðina í dag.

Ég hef átt samtöl við fulltrúa flokkanna hér á Alþingi og get því lýst yfir fyrir hönd Alþingis og ríkisstjórnar að við munum sameinast í því, Alþingi og ríkisstjórn, að heiðra Háskóla Íslands í tilefni af 100 ára afmæli hans með stofnun Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands. Stofnframlag í sjóðinn á afmælisárinu 2011 er 150 milljónir króna.

Sérstakur starfshópur skipaður fulltrúum frá Alþingi, forsætisráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu, mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Háskóla Íslands verður settur á fót og mun meta og gera tillögur um framlög í Aldarafmælissjóðinn á árunum 2012 til 2020.

Markmið sjóðsins er að efla rannnsóknir og nýsköpun sem nýtast muni til uppbyggingar atvinnulífs og verðmætasköpunar í þágu íslensks samfélags og þjóðar.

Við mat á árlegu framlagi í sjóðinn verður höfð hliðsjón af hvernig miðar í sókn Háskóla Íslands að markmiðum, eins og þau eru sett fram í stefnu skólans og áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum á framangreindu tímabili.

Í yfirlýsingu um Afmælissjóð Háskóla Íslands segir enn fremur, með leyfi forseta:

  • Háskóli Íslands vinnur að því að efla rannsóknir og nýsköpunarstarfsemi til þess að tryggja framþróun og vöxt í íslensku samfélagi m.a. með eftirfarandi markmið að leiðarljósi:
  • Að fylgja eftir stefnu Vísinda- og tækniráðs, en þar er hvatt til þess að byggja upp mennta- og vísindakerfi sem er í fremstu röð meðal þjóða og starfar í nánum tengslum við atvinnulíf.
  • Að styrkja grundvöll kennslu, rannsókna og fræðiiðkana í landinu öllu og byggja með skipulegum hætti upp starfsemi sem miðar að því að nýta, afla og miðla þekkingu.
  • Að háskólastarfsemi þjóni því markmiði að efla og rækta íslenska menningu, íslenska tungu og menningararf.
  • Það er von ríkisstjórnar Íslands og Alþingis að aldarafmælisgjöfin efli vísindastarf í Háskóla Íslands og verði honum og þjóðinni allri til heilla."

Hæstvirtur forseti.

Nú er komið að lokum vorþings á 139. löggjafarþingi með því að lesin verður hefðbundið forsetabréf um þingfrestun. Að baki er annasamur vetur þar sem Alþingi hefur fjallað um mörg afar flókin og viðamikil mál. Margt hefur áunnist og mörg merk skref hafa verið stigin og tekist hefur verið á hér í þingsölum.

Okkar bíða jafnframt mikilvægt úrlausnarefni á komandi septemberþingi. Ég vil þakka öllum þingmönnum þeirra miklu vinnu og ég vil þakka starfsfólki Alþingis fyrir þeirra mikilvæga framlag. Það er von mín og trú að okkur auðnist að virða mismunandi sjónarmið og stefnur og við getum tekist málefnalega á um þau frumvörp sem bíða afgreiðslu.

Mun ég nú lesa forsetabréf um þingfrestun.

„Forseti Íslands gjörir kunnugt:
Að ég, að tilskildu samþykki Alþingis, veiti forsætisráðherra umboð til þess að fresta fundum Alþingis, 139. löggjafarþings, frá 15. júní 2011 eða síðar ef nauðsyn krefur til 2. september.

Gjört á Bessastöðum, 10. júní 2011.

Ólafur Ragnar Grímsson.

Jóhanna Sigurðardóttir.

Forsetabréf um frestun á fundum Alþingis.“

Samkvæmt þessu umboði og með vísan til samþykkis Alþingis lýsi ég yfir því að fundum Alþingis, 139. löggjafarþings, er frestað.

Ég óska háttvirtum alþingismönnum, starfsmönnum þingsins, svo og landsmönnum öllum, allra heilla.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta