Ávarp í Jónshúsi 19. júní 2011 í tilefni af 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar
Ágætu gestir.
Ég vil þakka fyrir að fá tækifæri til þess að vera með ykkur hér í dag í húsi Jóns í Kaupmannahöfn.
Íslendingar um land allt fögnuðu þann 17. júní þjóðhátíð og heiðruðu minningu sjálfstæðishetjunnar með margvíslegum hætti.
Við höfum fulla ástæðu til þess að vera bjartsýn um þessar mundir. Hagvöxtur er að aukast á ný og mikil gróska er í vísinda- og menningarstarfi víða um land. Ekki leikur vafi á því að Jón Sigurðsson hefði verið stoltur af þjóð sinni og mörgum skrefum sem stigin hafa verið í framfaraátt. Stöðu Íslands í dag verður ekki með nokkru móti líkt við stöðuna á þeim tíma sem Jón háði baráttu fyrir land sitt og þjóð. Engu að síður eru viðfangsefnin ærin og mikilvægt er að okkur takist að vinna bug á atvinnuleysinu sem er því miður meira en við Íslendingar getum sætt okkur við.
Saga Íslands er samofin sögu Kaupmannahafnar og því er vel við hæfi að við komu hér saman til þess að minnast 200 ára ártíðar Jóns Sigurðssonar. Kaupmannahöfn var í raun höfuðborg Íslands allt frá því um miðja 15. öld þar til framkvæmdavaldið var að verulegu leyti flutt til Reykjavíkur við stofnun heimastjórnar árið 1904. Í Kaupmannahöfn sat konungurinn og frá ráðuneytum hans í borginni, Kansellíinu og Rentukammerinu, var málefnum Íslands stjórnað.
En Kaupmannahöfn var líka höfuðborg Íslands í mörgum öðrum skilningi. Öldum saman fór nær öll Íslandsverslun um þessa borg og þaðan komu flestar þær nýjungar í menningarlegum og andlegum efnum sem bárust til Íslands. Þegar Íslendingar tóku að berjast fyrir endurreisn Alþingis, endurreisn íslenskra atvinnuvega og aukinni sjálfstjórn upp úr 1830 var þungamiðja þeirrar baráttu, eins og kunnugt er, háð af íslenskum menntamönnum í Kaupmannahöfn.
Segja má að ein helsta vagga íslenskrar þjóðfrelsisbaráttu hafi verið á Garði við Stóra Kanúkastræti þegar Fjölnismenn og Jón Sigurðsson bjuggu þar, en þá var Garður helsta hreiður uppreisnarafla í danska konungsríkinu, þeirra afla sem börðust fyrir afnámi einveldis og ritskoðunar og vildu tryggja margvísleg mannréttindi.
Eftir 1840 var Jón Sigurðsson orðinn ótvíræður foringi íslenskrar þjóðfrelsisbaráttu og sá maður sem við þökkum mest að Íslendingar fengu skref fyrir skref stjórn á sínum eigin málum og hófu víðtæka viðreisn á mörgum sviðum mannlífsins.
Hann bjó alla sína tíð í Kaupmannahöfn, lengst af hér í þessu húsi við Östervoldgade, sem við köllum Jónshús. Hér var heimili þeirra Jóns og Ingibjargar Einarsdóttur konu hans frá 1852 uns yfir lauk og þau gáfu hér upp andann með stuttu millibili í desember árið 1879.
Áður var þess getið að Garður hafi verið ein helsta vagga íslenskrar þjóðfrelsisbaráttu framan af, en segja má að heimili Jóns og Ingibjargar hér hafi verið önnur helsta vaggan. Það var miðstöð allra Íslendinga í Kaupmannahöfn og frá heimili sínu skrifaði Jón fjölda sendibréfa til fylgismanna sinna í hverri sýslu og hverri sveit á Íslandi.
Þar hvatti hann þá til dáða, stappaði í þá stálinu og liðsinnti þeim. Sendibréf voru hans helsta tæki í stjórnmálabaráttunni auk þess sem hann sendi heim tímarit sitt, Ný félagsrit, með greinum um stjórnmál og margvísleg framfaramál Íslands. Penninn var hans vopn og var hann óvenjuleg þjóðfrelsishetja að því leyti. Hjá öðrum þjóðum voru þjóðfrelsishetjur gjarnan með rjúkandi byssu í hönd en Jón barðist með penna sínum enda var engu blóði úthellt í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.
Það er mikils virði fyrir okkur Íslendinga að eiga þetta hús hér í Kaupmannahöfn núna, héðan var sjálfstæðisbarátta Íslands að miklu leyti rekin um langt árabil.
Ágætu gestir.
Á mótunartíma íslenska ríkisvaldsins, frá stofnun Alþingis 1845 til lýðveldisstofnunar 99 árum síðar, glímdu Íslendingar við tvær stjórnskipulegar spurningar. Annars vegar hvernig sambandinu við Dani skyldi háttað og hins vegar hvernig innri stjórnskipun íslenska ríkisins skyldi hagað. Jón Sigurðsson lét hvort tveggja sig miklu varða. Hann sat stjórnlagaþing Dana veturinn 1848-1849 þar sem danska stjórnarskráin var samin, en hún var talin ein sú framsæknasta í Evrópu á þeim tíma og sem þjóðkjörinn fulltrúi sat hann þjóðfundinn fræga í Lærða skólanum árið 1851 þar sem til stóð að semja Íslandi fyrstu stjórnarskrá landsins.
Spurningin um sambandið við Dani var endanlega útkljáð með sambandsslitunum 1944. Hins vegar var almennt viðurkennt við lýðveldisstofnun það ár að því verkefni að móta varanlega stjórnskipan væri ólokið. Afar vel væri við hæfi að ljúka því verki þegar 200 ár eru liðin frá fæðingu Jóns Sigurðsonar.
Sá atburður í lífi Jóns Sigurðssonar, sem flestum núlifandi Íslendingum er líklega minnisstæðastur er framganga hans á þjóðfundinum árið 1851, þar sem tekist var á um framtíðar stjórnskipan landsins.
Andspænis “ofríki” fulltrúa konungsvaldsins, sem sleit þjóðfundinum þegar allt stefndi í að hann myndi samþykkja nýja stjórnarskrá Jóns Sigurðssonar, en ekki þá sem danska stjórnin lagði fram, þá reis Jón upp eins og sönnum foringja sæmir og mælti þessi fleygu orð:
„Og ég mótmæli í nafni konungs og þjóðarinnar þessari aðferð, og ég áskil þinginu rétt til þess að klaga til konungs vors yfir lögleysu þeirri, sem hér er höfð í frammi.“” og flestir kollegar hans tóku undir og sögðu einum rómi “Vér mótmælum allir“.
Tuttugu og þremur árum síðar færði Kristján IX. Íslandi stjórnarskrá sem að grunni til var sú sama og samþykkt var við lýðveldisstofnunina 1944 og hefur verið í gildi æ síðan, með nokkrum breytingum.
Það væri ósanngjarnt að halda því fram að fullkomin stöðnun hafi ríkt í innri stjórnskipunarmálefnum Íslendinga frá 1944, því ýmsu hefur verið breytt, ekki síst í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.
En æ síðan hefur það verið á dagskrá íslenskra stjórnmála að endurskoða frá grunni stjórnskipan landsins og æ síðan hafa handhafar valdsins reynst ófærir um að móta landinu nýja stjórnarskrá.
Hagsmunir valdsins hafa ávallt reynst hagsmunum þjóðarinnar yfirsterkari í þessum efnum þegar til kastanna hefur komið.
Það er raun stórmerkilegt að fyrst nú, 160 árum eftir að þjóðfundinum var slitið vegna deilna um stjórnarskrá Jóns Sigurðssonar skuli hilla undir fyrstu alíslensku stjórnarskrána á vettvangi Stjórnlagaráðs. Fyrst núna hafa handhafar valdsins stigið það skref að fela óháðum fulltrúum þjóðarinnar vinna að mótun nýrra grundvallarreglna fyrir íslenskt samfélag, án afskipta stjórnmálaflokka, framkvæmdavalds eða löggjafarvalds.
Reyndar er það svo, líkt og á þjóðfundinum forðum, að endanlegt ákvörðunarvald um niðurstöðuna er ekki í höndum stjórnlagaráðsins sjálfs. Alþingi mun fá hina nýju stjórnarskrá til umfjöllunar og endanlegrar afgreiðslu í samræmi við gildandi stjórnskipan landsins.
Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að sú stjórnarskrá sem nú er í mótun eigi að vera stjórnarskrá fólksins í landinu – mótuð af fólkinu í landinu, fyrir fólkið í landinu.
Stjórnlagaráðið býr að og byggir störf sín á víðtækri gagnaöflun og umræðum meðal þjóðarinnar um stjórnskipan landsins, m.a. af þjóðfundi þeim sem haldinn var í aðdraganda Stjórnlagaráðsins.
Til að styrkja enn frekar aðkomu og eignarhald þjóðarinnar á tilurð þessarar nýju stjórnarskrár finnst mér einnig koma vel til greina að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöðu Stjórnlagaráðs, líkt og gert var við lýðveldisstofnunina árið 1944.
Nú líkt og á þjóðfundinum fyrir 160 árum hafa fulltrúar valdsins endanlegar lyktir þessa máls í sínum höndum. Alþingi Íslendinga getur brugðist við tillögum Stjórnlagaráðsins líkt og Trampe greifi forðum eða farið að líkt og Jón Sigurðsson lagði þá til.
Vandséð er að minningu Jóns Sigurðssonar verði sýndur meiri sómi en sá, að þegar 200 ár eru liðin frá fæðingu hans verði draumur hans um íslenska stjórnarskrá, stjórnarskrá fólksins í landinu, uppfylltur með samþykkt á Alþingi Íslendinga.
Þau Jón og Ingibjörg voru nokkurs konar óformlegir sendiherrar Íslendinga í Kaupmannahöfn. Til þeirra var óhikað leitað ef einhvers þurfti með frá höfuðborginni við Sundið. Ekkert var svo smátt að þau teldu eftir sér að snúast eftir. Það voru keyptar saumnálar, sjöl og armbönd fyrir húsfreyjur víða um Ísland og karlarnir vildu láta kaupa fyrir sig allt frá fiskiönglum upp í prentsmiðjur.
Yfirleitt var leitað til Jóns þegar kom að því að útvega ungu fólki námsvist erlendis, koma strákum í snikkaralæri eða stúlkum ostagerðarnám svo dæmi séu nefnd. Og þau tóku ábyrgð á fólki sem leitaði sér lækninga í Kaupmannahöfn. Um þetta allt saman vitna öll sendibréfin sem skrifuð voru í þessu húsi.
Það er dýrmætt að eiga þessi minningabrot á þessum tímamótum sem varpa ljósi á þær hetjur sem Jón og Ingibjörg voru. Við skulum minnast þeirra með þeirri virðingu sem þeim sæmir. Ég trúi því að þau hjón yrðu stolt af mörgu sem áunnist hefur á Íslandi, ekki síst á síðustu öld. Ég get mér þess til að Jón Sigurðsson, sá framsýni maður, hefði fylgst grannt með viðræðum við Evrópusambandið, og vegið og metið á yfirvegaðan hátt hvernig samninga mætti vænta fyrir Íslenska þjóð þannig að hagsmunir þjóðarinnar til lengri tíma litið væru í öndvegi.
Þó að Jón Sigurðsson væri þjóðfrelsismaður af hugsjón var hann síður en svo einangrunarsinni. Hann barðist alla ævi fyrir algeru verslunarfrelsi Íslendinga og má segja að fyrsti sigur hans á vettvangi stjórnmála hafi verið unnin þegar Íslendingar fengu árið 1855 frelsi til að versla frjálst við allar þjóðir.
Eitt besta dæmið um það hvernig hann vildi opna landið fyrir erlendu fjármagni og erlendum atvinnuumsvifum var beiðni Frakka um mikla fiskveiðistöð á Vestfjörðum árið 1855.
Íslendingum leist ekki vel á að fá svo stóra franska stöð inn í landið, allra síst á Vestfjörðum. Jón Sigurðsson vildi hins vegar að beiðni Frakka yrði tekinn til alvarlegrar athugunar því að í henni gæti falist ávinningur fyrir Íslendinga. Árið 1856 birtist nafnlaus grein í dönsku blaði sem talið er víst að Jón Sigurðsson sé höfundur að. Höfundurinn taldi litla hættu á franskri ásælni á Íslandi en hvatti til að landið yrði opnað hverjum sem vildi og af hvaða þjóðerni sem væri til verslunar eða annarra umsvifa svo fremi ekki væri um hernaðarleg umsvif að ræða og starfsemin samræmdist lögum.
Þessi orð voru rituð árið 1856 og minna okkur á þá staðreynd að mikilvægustu viðreisnaraðgerðir frá lýðveldisstofnun hafa falist í alþjóðasamningum. Ég nefni aðildina að EFTA 1970, samning við Evrópusambandið 1972, og aðild að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið árið 1994.
Um mikilvægi þessara skrefa og samninga fyrir íslenskt efnahagslíf og samfélagið í heild er ekki deilt í dag. Það þurfti víðsýni, hugrekki og þor til þess að stíga þessi skref. Þetta bið ég alla að hafa í huga nú þegar við eigum í viðræðum við Evrópusambandið sem hafa það að markmiði að ná sem bestum kjörum fyrir íslenska þjóð.
Góðir gestir.
Við erum hér saman komin 19. júní, á degi sem á Íslandi er helgaður kvenréttindum, en þann dag árið 1915 fengu íslenskar konur, 40 ára og eldri, kosningarétt og kjörgengi til Alþingis.
Það leiðir hugann að því hver staða þeirra mála hafi verið þegar Jón og Ingibjörg áttu hér heimili og hvar alþjóðleg umræða um kvenréttindi var stödd á þeim tíma.
Til eru heimildir um að Indriði Einarsson, þá ungur Hafnarstúdent, hafi setið eitt sunnudagskvöld á heimili Jóns og Ingibjargar og þá nýlega lesið rit Johns Stuarts Mills um kúgun kvenna sem kom út í danskri þýðingu árið 1869.
Indriði fer þetta kvöld að halda fram skoðunum Stuarts Mills og telur þær óhrekjandi en Jón Sigurðsson er ekki sammála.
Þá kemur Ingibjörg til liðs við Indriða og andmælir manni sínum kröftuglega og tekur í einu og öllu undir orð unga mannsins. Jón vill þá ekki lengur tala um kvenréttindamál og segir við Indriða:
”Það er ómögulegt að dispútera við yður þegar þér hafið fengið konuna mína með yður.”
Ekki virðast til skriflegar heimildir um afstöðu Jóns til kvenréttinda en öllum heimildum ber saman um gagnkvæma virðingu þeirra hjóna hvort fyrir öðru og sú heimild sem ég hef hér vitnað til staðfestir það með skýrum hætti. Þá er ljóst af öðrum gögnum að Jón Sigurðsson gaf gaum vaxandi umræðum um réttindi kvenna og í úrklippusafni hans er meðal annars að finna langa grein frá 7. janúar 1870 um nýju kvennabyltinguna.
Ekki leikur vafi á því að kvenréttindabaráttu og jafnrétti hefur fleygt fram frá þessum tíma, ekki síst á Íslandi og öðrum Norðurlöndum. Þessar þjóðir standa fremst í flokki í alþjóðlegum samanburði á þessu sviði. Það er tímanna tákn að hér skuli stödd í dag sú kona sem fyrst kvenna í heiminum var kjörin forseti með lýðræðislegum hætti og í dag eru allir handhafar forsetavalds konur. Skyldi Ingibjörg Einarsdóttir hafa gert sér þetta í hugarlund þegar hún ræddi kvenréttindamál við Indriða Einarsson í þessu húsi á ofanverðri nítjándu öld?
Góðir gestir.
Ég vil ítreka þakkir mínar fyrir að fá tækifæri til þess að vera með ykkur hér í dag. Það er von mín og trú að Íslendingum takist áfram að móta samfélag sitt með framsæknum hætti þannig að allir fái notið verðleika sinna og velferðar og mannréttinda í hvívetna.