Hoppa yfir valmynd
02. september 2011 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Skýrsla forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur á Alþingi 2. september 2011 um efnahags og atvinnumál

Frú forseti
Við upphaf þings er mikilvægt að greina þingheimi frá því sem helst hefur gerst á síðustu mánuðum í efnahags- og atvinnumálum. Ljóst er að atvinnumálin hafa verðið og verða meginverkefni ríkisstjórnarinnar á næstu mánuðum og misserum og þau munu hafa forgang. 

Ég hygg að þjóð og þing  séu í stórum dráttum á einu máli um þau markmið sem setja verður í efnahags- og atvinnumálum; um stöðugleika í efnahagslífi, um fjölgun starfa, um hóflega verðbólgu, batnandi lífskjör og jafnari tekjudreifingu.  Okkur greinir að einhverju leyti á um leiðir og mín von er að í dag náum við að ræða þær málefnalega og með opnum huga.

Þegar allt er sett í samhengi og horft til þess þunga áfalls sem hrunið var þjóðinni, segi ég óhikað: við höfum náð árangri og við erum að vinna okkur út úr erfiðleikunum. Allir sanngjarnir menn sjá að hér hefur margt áunnist. Seðlabankinn spáir að hagvöxtur verði að meðaltali 2,7% árin 2011-2013;  2,8% í ár, 1,6% á því næsta og 3,7% árið 2103.
Það bendir raunar ýmislegt til þess að hagvöxtur ársins 2011 kunni að vera vanmetinn. Fyrirliggjandi verkefni er svo sannarlega að auka efnahagsumsvif og hagvöxt næsta árs. Störfum er að fjölga og atvinnuleysi er að ganga niður sem er til vitnis um að við erum á réttri leið. 

Kaupmáttur launa hefur ekki verið hærri allt frá hruni og var í júlí sl. um 2,6% meiri en á sama tíma í fyrra. Kaupmáttur lægstu launa hefur hækkað enn meira eða um 4%. Hrunið færði kaupmáttinn aftur til ársins 2002 og þurrkaði þannig út 5-6 ára kaupmáttaraukningu. Með vaxandi kaupmætti höfum við nú endurheimt þann kaupmátt sem var árið 2004. 
Hrunið sópaði burt 12-13 þúsund störfum eða nær fjórtánda hverju starfi. Nú er störfum tekið að fjölga á ný og úr atvinnuleysi er að draga. Í júlí var atvinnuleysi 6,6% og hefur það ekki verið lægra síðan í desember 2008.

Ríkisstjórnin hefur lagt þunga áherslu á vinnumarkaðsaðgerðir sem miða að því að byggja upp þá sem án atvinnu eru. Í því skyni verður þúsund atvinnuleitendum boðin skólavist í haust og næstu tvö árin.

Framhaldsskólum verður gert kleift að taka við öllum umsækjendum yngri en 25 ára sem uppfylla skilyrði fyrir skólavist. Þá verður lögð áhersla á að fjölga starfstengdum úrræðum fyrir atvinnuleitendur og stefnt að tvöföldun þeirra. 

Kjarasamningar sem gerðir voru í vor var ætlað að styðja við atvinnusköpun og kaupmáttaraukningu á næstu árum. Í yfirlýsingu stjórnvalda vegna kjarasamninganna er getið fjölda verkefna og aðgerða og skipta þau tugum. Staðreyndin er sú að nær öll verkefni sem þar eru nefnd eru í fullum gangi og mörgum þegar lokið.

Í yfirlýsingunni er markið sett á að atvinnuleysi verði ekki meira en 4-5% í lok samningstímans á árinu 2013 og það markmið er í sjónmáli. Til þess að ná því markmiði þarf að auka verðmætasköpun í samfélaginu og stefnt er  að því að í lok samningstímans verði um fimmtungi landsframleiðslu varið til fjárfestinga.

Tölur Hagstofu Íslands sýna að störfum hefur fjölgað um 3.600 á undanförnum tveimur árum og  þúsundir starfa hafa verið varin. Ríkisstjórnin hefur setið undir ómaklegri gagnrýni um dugleysi í atvinnumálum m.a. frá forsvarsmönnum atvinnulífsins. Ég vísa þeirri gagnrýni á bug. Lengstum var ríkisstjórninni núið um nasir að leggja steina í götu álvers í Helguvík.

Öllum er nú ljóst að sú gagnrýni var ómakleg og á sandi byggð. Staðan í málinu ætti öllum að vera ljós: Ágreiningsefni um orkuverð milli Norðuráls og HS-orku eru  fyrir gerðardómi og niðurstöðu er að vænta innan skamms. Ekkert er upp á ríkisstjórnina að klaga í þessu efni og vonandi munu framkvæmdir hefjast innan skamms.

Ný forysta Landsvirkjunar hefur sett fram metnaðarfulla en þó raunsæja framtíðarsýn, sem gefur fyrirheit um þróttmikinn efnahag sem skila mun þjóðinni arði til varanlegrar velferðar. Það gæti vissulega freistað einhverra að efna til haustútsölu á raforku og feta þá braut miðstýringar, forsjárhyggju og ríkislausna sem stjórnarandstaðan sýnist vilja ganga í þessu efni. 

Þangað liggur ekki leið þessarar ríkisstjórnar. Þingsályktunartillaga um nýtingu og vernd náttúrsvæða liggur nú fyrir þar sem 69 virkjanahugmyndir eru metnar.  Hér er um mikilsverðan áfanga að ræða og skref tekið í átt að þjóðarsátt um vernd og nýtingu mikilvægra náttúrugæða. Á grundvelli þeirrar sáttagjörðar munum við styrkja efnahagsgrundvöll okkar með sjálfbærum og arðbærum hætti.  Nú er í undirbúningi að stofna auðlindasjóð og móta heildarstefnu í auðlindamálum til að tryggja hámarksarð þjóðarinnar af sameiginlegum auðlindum.

Landsvirkjun á nú í viðræðum við allnokkra hópa fjárfesta um verkefni fyrir norðan og vonir eru bundnar við að niðurstaðna sé að vænta í lok árs. Í þessu felst nýmæli því lengstum hafa viðræður verið við eitt fyrirtæki í einu og samningsstaða okkar litast af því. Landsvirkjun mun verja um 2 milljörðum kr.  til orkurannsókna við Bjarnaflag og Þeystareyki.

Þá hefur Landsvirkjun efnt til útboðs vegna hönnunar á þessum virkjunum. Unnið er af kappi við byggingu Búðarhálsvirkjunar, þar sem um 300 manns starfa, og stækkunar í Straumsvík. Önnur verkefni eru í undirbúningi, s.s. stækkun Becromal, kísilver í Helguvík, verkefni í fiskeldi og gagnaver og ættu þessi verkefni að geta farið af stað á næstunni.
Eins og fram hefur komið eru stórhuga verkefni á sviði ferðaþjónustu til skoðunar fyrir norðan með þátttöku kínverskra fjárfesta. Mörg önnur verkefni eru á viðkvæmu stigi og þeim ekki til framdráttar að þau fari í opinbera umræðu að svo stöddu. Áhugi erlendra fjárfesta á Íslandi og eftirspurn eftir innlendri orku hefur aldrei verið meiri en nú.

Tækifærin liggja víða og það er full ástæða til bjartsýni um öfluga fjárfestingu og hagvöxt á næstu árum. Kannanir Seðlabankans benda til að fjárfestingar  fyrirtækja utan stóriðju og orkugeirans séu að glæðast verulega og samkvæmt spá bankans stefnir í að atvinnuvegafjárfestingin aukist um nær 40% á tveimur árum eða um 50 milljarða króna.
Svigrúm til opinberar fjárfestingar takmarkast af stöðu ríkisfjármála og mikilvæg verkefni fara því í einkaframkvæmd með lífeyrissjóðum. Stærst þeirra verkefna er bygging nýs Landsspítala þar sem áætluð fjárfesting er um 40 milljarðar króna og bein störf nálægt 3 þúsundum.

Bygging nýs fangelsis mun væntanlega kosta um 2 milljarða króna og skapa um 100 störf.  Víða um land eru hjúkrunarheimili í byggingu eða í undirbúningi og sú fjárfesting er um 5 milljarðar króna og skapar 450 ársverk.

Varið verður 7,5 milljörðum króna til samgönguframkvæmda, auk Vaðlaheiðargangna sem kosta munu um 10 milljarða króna. Reikna má með um 600 störfum í samgönguframkvæmdum í heild.  Framkvæmdir við tvo framhaldsskóla eru á dagskrá, og sem kosta um 2,5 milljarða og munu veita um 250 manns vinnu. Snjóflóðavarnir eru í byggingu á nokkrum stöðum og áætlað er að þær framkvæmdir skapi um 300 störf.

Framkvæmdir munu senn hefjast við 280 stúdentaíbúðir í Vatnsmýri og verða þar til um 300 ársverk. Verkefni sem hrint var af stað á Vestfjörðum  og á Suðurnesjum  fyrir um 4,5  milljarða króna munu skapa um 260 ný störf. Varið verður um 2,5 milljörðum króna til viðhaldsverkefna á fasteignum ríkissjóðs á þessu ári. Átakið Allir vinna hefur verið framlengt enda hefur þar tekist einkar vel til og áætlað er að það hafi skapað um 800 ný störf.

Það liggja gríðarleg tækifæri í ferðaþjónustunni og stefnir í að árið 2011 verði metár fyrir ferðaþjónustuna. Þriggja ára átak til að efla vetrarferðaþjónustu er að fara af stað. Til þess verður 300 m.kr. árlega og markmiðið er að skapa um  þúsund störf.

Ég hef hér nefnt opinberar eða hálfopinberar framkvæmdir víða um land sem áætlað er að muni skila með beinum hætti í kringum 7.000 ný störf á næstu árum og fjölda afleiddra starfa. Þessar fjárfestingar eru upp á um  80-90.000 milljarða króna.  Eru þá ótaldar framkvæmdir í orkuverum og stóriðju, en reikna má með því að þar muni verða til sambærilegur fjöldi nýrra starfa. Ég legg einnig ríka áherslu á margvísleg verkefni sem efla munu nýsköpun og klasasamstarf og eru nú í farvegi. Mikils má vænta af þessu starfi og einnig vinnu að tillögum um græna atvinnusköpun.

Frú forseti
Ríkisstjórnin hefur fylgt skýrri stefnu í efnahagsmálum og árangurinn ótvíræður. Sá árangur er staðfestur með lokum samstarfs við Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um efnahagsáætlunina. Umsögn sjóðsins nú um stöðu íslenskra efnahagsmála og árangursríka stefnu ríkisstjórnarinnar er holl lesning fyrir stjórnarandstöðuna og ef til vill fleiri. Öll efnahagsleg markmið hafa náðst; s.s. er varðar efnahagslegan stöðugleika, endurreisn fjármálakerfisins, opinberar skuldir og stöðugt gengi.

Vart er blöðum um að fletta að aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var afgerandi  í að endurreisa traust umheimsins á íslensk efnahagslíf. Árangur í því efni kom skýrt fram í árangursríku útboði ríkissjóðs á bandaríkjamarkaði.  Án samstarfs við sjóðinn hefði íslenska leiðin; setning neyðarlaganna og þrotameðferð bankanna; líklega skort trúverðugleika í augum umheimsins og trúlegt að kröfuhafar hefðu gengið fram með miklu meiri hörku.

Ótrúlegur árangur hefur náðst í ríkisfjármálum.  Halli á ríkissjóði var um 215 milljarðar króna árið 2008 samkvæmt ríkisreikningi, en á næsta ári stefnir hallinn í 18 milljarða króna.  Umsnúningurinn  svarar til allra útgjalda til mennta- , menningar, og félags- og tryggingamála á þessu ári.  Skuldir hins opinbera munu lækka hratt á næstu árum og stefnt er að því að þær verði ekki yfir 80% árið  2016. 

Lækkun opinberra skulda um 20% af landsframleiðslu myndi spara árlega um 15-20 milljarða vaxtagreiðslur eða sem nemur rekstri allra framhaldsskóla á landinu. Aðhaldið í ríkisfjármálum hefur þannig sannarlega skilað sér  til að bæta lífskjör og velferð í landinu á næstu misserum.

Aðgerðir vegna skuldavanda heimila og fyrirtækja eru mikilvægir þættir í efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar.

Í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa vaxtabætur verið tvöfaldaðar og nú er svo komið að um þriðjungur vaxta sem heimilin greiða af íbúðalánum er endurgreiddur með vaxtabótum og vaxtaniðurgreiðslu.  Þá hefur verið ráðist í víðtækar aðgerðir vegna heimila sem eru yfirveðsett, sk. 110% leið og endurútreikninga á erlendum lánum.

Fyrr í vikunni átti ég fundi með forsvarsmönnum fjármálastofnana þar sem þeir gerðu grein fyrir framkvæmd aðgerða á þessu sviði. Í heild hafa skuldir heimilanna verið lækkaðar um 144 milljarða króna miðað við stöðuna í lok júlí. Lánastofnanir gera ráð fyrir að úrvinnslu verði lokið fyrir áramót og má reikna með að skuldir muni lækka um 30 milljarða króna til viðbótar þannig að skuldir heimila munu lækka um hartnær 200 milljörðum króna. Óneitanlega hefur mikið áunnist í þessum efnum, en við munum fylgjast áfram náið með og greina hvar skóinn kreppi.

Endurskipulagning skulda fyrirtækja er mikilvæg forsenda þess að þau fjárfesti og ráði til sín fólk. Litlu og meðalstóru fyrirtækin eru hryggjarstykkið í þjóðarbúskapnum og miklu skiptir að treysta efnahag þeirra. Það var því gert sérstakt samkomulag um endurskipulagningu skulda lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Verkefninu verður lokið fyrir áramót. Af tiltækum gögnum má ráða að skuldir lítilla og meðalstórra fyrirtækja veðri færðar niður í um í kringum 200 milljarða króna.

Vegna ytri aðstæðna s.s. hækkunar olíuverðs, hækkunar matvælaverðs í heiminum og lækkunar gengis hefur verðbólgan vaxið og er nú um mitt ár 5%, samanborið við 1,8% í byrjun árs. Spár gera ráð fyrir að verðbólgan fari vaxandi og er þar kjarasamningum einkum kennt um.

Síðasta verðbólgumæling var lægri en spáð hafði verið og gefur von um að verðbólguspár kunni að vera of háar.  Vissulega er það þó svo að launahækkanir sem SA og ASÍ sömdu um voru býsna framhlaðnar.

Við hljótum að biðla til fyrirtækjanna um að þau haldi að sér höndum í verðhækkunum. Í því sambandi bendi ég á að hlutur launa í landsframleiðslu hefur aldrei verið lægri en nú eða um 59% samanborið við yfir 72% árið 2007. Lækkunin svarar til 13%  af landsframleiðslu sem farið hafa frá launþegum til fyrirtækja, í krónum talið um 200 milljarðar króna.  Það ætti að létta mörgum fyrirtækjum að standa undir kjarabótum án þess að hækkunum sé velt út í verðlagið.

Beggja vegna Atlantsála berast nú válegar fréttir af efnahags- og fjármálum svo að heimurinn stendur á öndinni.  Fjármálakreppan, kreppa frjálshyggjunnar, sem hófst árið 2007 teygir anga sína víða. Björgunaraðgerðir ríkissjóða víða um heim vegna fjármálastofnana hafa flutt vandann til.

Skuldir fjármálastofnana hafa verið þjóðnýttar og nú blasir alvarleg ríkisskuldakreppa við mörgum ríkjum. Aðsteðjandi vandi verður ekki leystur nema með víðtækri alþjóðasamvinnu, en það var einmitt skortur á alþjóðasamvinnu sem leiddi heiminn út í kreppuna miklu á fjórða áratugi aldarinnar.

Efnahagsleg einangrunarstefna er vísir að dýpkun kreppunnar. Það er von mín og trú að framsýnir leiðtogum helstu ríkja heims muni bera gæfa til að leiða þessi mál til farsælla lykta.

Þótt vandamálin séu keimlík víða um heim eru lausnir mismunandi. Hér á landi hefur verið farin leið jafnaðar sem tryggt hefur að byrðarnar hafa verið bornar af þeim sem meira mega sín. Víða annars staðar s.s. á Írlandi og Bretlandi hafa lágmarkslaun verið lækkuð, skattleysismörk lækkuð, bætur lækkaðar eða með öðrum orðum þeir sem allra minnst mega sín borið kostnaðinn af þjóðnýtingu gjaldþrota bankakerfis.

Íslenska leiðin hefur verið allt önnur, hér hafa skattar á þá tekjulægstu lækkað, lægstu laun hafa hækkað, bætur almannatrygginga hækkað og myndarlega komið til móts við skulduga íbúðareigendur.

Skuldatryggingarálag á íslenskt þjóðarbú var í hæstum hæðum í kjölfar hruns bankanna á því örlagaríka hausti 2008 eða um 1.300 punktar. Það hefur nú lækkað niður í 280 punkta.  Í mörgum öðrum löndum er álagið nú jafnvel hærra en þegar Íslandsálagið var sem hæst.
Það blasir við mörgum ríkjum heims að feta þá erfiðu braut niðurskurðar í opinberum fjármálum sem við höfum senn lagt að baki. Eins blasir við þeim að laga skuldastöðu fólks og fyrirtækja að greiðslugetu. En við horfum líka til þess að hér á landi höfum við náð forskoti m.a. í því að hafa náð tökum á ríkisfjármálum, forskoti í lausnum á skuldavanda fólks og fyrirtækja.

Það felast tækifæri í þessari stöðu fyrir okkur sem kann  að gera Ísland samkeppnisfærara m.a. um erlenda fjárfestingu og fólk. Forskotið gefur okkur færi á að hagvöxtur komist á myndarlegt skrið fyrr en hjá öðrum þjóðum ef við höldum rétt á okkar málum. Framtíðin er björt og við eigum að sammælast um það á vettvangi þings sem annar staðar að tala ekki atvinnu- og efnahagslíf þjóðarinnar niður. Við megum ekki tala þannig kjarkinn úr þjóðinni. 
Frú forseti.

Lífskjarasókn er framundan og þá lífskjarasókn verður að byggja á jafnari skiptingu tekna, samfélagslegri ábyrgð og virðingu fyrir náttúrugæðum. Reynslan sýnir að valið stendur ekki milli hagvaxtar og jafnaðar, því jöfnuður er forsenda varanlegs hagvaxtar og samfélagslegrar sáttar. 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta