Hoppa yfir valmynd
03. október 2011 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Stefnuræða forsætisráðherra 

Góðir landsmenn.

Það hvílir mikil ábyrgð á okkur stjórnmálamönnum, þeim sem taka þátt í opinberri umræðu og öðrum sem falið hefur verið að þjóna þjóðinni og fara með vald. Við eigum að hugleiða áður en við stígum fram, hvaða áhrif orð okkar og athafnir kunna að hafa.

Byggjum við upp traust á stjórnmálunum og okkur sjálfum með framgöngu okkar? Vinnum við í þágu heildarinnar þegar til lengdar er litið? Erum við góðar fyrirmyndir því unga fólki sem veltir fyrir sér virkri þátttöku í stjórnmálastarfi? Því verður hver að svara fyrir sig.

Fjölmargir eru þeirrar skoðunar að samskiptin hér á Alþingi hafi aldrei verið verri en undanfarin misseri. Umbjóðendur okkar, fólkið í landinu, vill ekki að Alþingi starfi með þessum hætti enda blasir það við í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri, að traust á okkur stjórnmálamönnum minnkar í réttu hlutfalli við hávaðann og stóryrðin sem viðgangast í samskiptum okkar á þessum vettvangi.

Traust til Alþingis, bæði okkar stjórnarliða og stjórnarandstæðinga, hefur aldrei verið minna. Það verður ekki skýrt einvörðungu með vísan til hrunsins eða nauðsynjar á endurnýjun á Alþingi. Staðreyndin er sú að endurnýjun á Alþingi hefur sjaldan eða aldrei verið meiri en á undanförnum árum.

Um helmingur núverandi þingmanna settist á þing eftir hrun, eða þrjátíu af sextíu og þremur þingmönnum. Við skulum ekki falla í þá gryfju að leita einstakra sökudólga, því að verulegu leyti er hér um að ræða átakahefð sem á sér langa sögu - málum ríkisstjórnarinnar er iðulega haldið í gíslingu í þinginu og ekki virtur þingræðislegur meirihluti til að koma fram mikilvægum málum. Þetta er nær óþekkt annars staðar á Norðurlöndum. Þessu verðum við að breyta – þjóðarinnar vegna.

Hæstvirtur forseti
Það eru sannarlega tímamót að efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Íslands er nú lokið og markmiðum hennar náð. Og vissulega hafa orðið hér vatnaskil. Við erum nú að sjá hagvöxt á nýjan leik, vaxandi kaupmátt og minnkandi atvinnuleysi.  

Hinn virti bandaríski hagfræðiprófessor, Robert Aliber, vakti reiði sumra þegar hann árið 2007 varaði ítrekað við harðri lendingu hagkerfisins hér á landi.

Aliber segir nú að endurreisnin frá hruni hafi gengið vel og bendir á Ísland hafi náð að rétta úr kútnum hraðar en aðrar þjóðir sem lentu í fjármálakreppu á sama tíma og Ísland;og nefnir sérstaklega Írland, Bandaríkin, Bretland og Spán.

En þótt erlendir sérfræðingar horfi til Íslands og telji að við séum að vinna okkur hraðar út úr vandanum en aðrar þjóðir, er ekki þar með sagt að sú sem hér stendur, sé að öllu leyti sátt við stöðuna.

Ég vissi að viðfangsefnið og tiltektin sem við tókum að okkur eftir hrun yrði mjög erfið og ég bjó mig undir það versta. Flest hefur hins vegar gengið betur en ég þorði að vona, en sumt er ég enn ósátt við, eins og fjölmargir aðrir.

Ég skil að ýmsu leyti vel þá reiði sem beinist að bönkunum. Ég skil líka mjög vel reiði þeirra sem hafa misst atvinnuna, þegar þeir horfa upp á að aðstæður virðast lítið hafa breyst hjá mörgum athafnamönnum, sem voru áberandi í aðdraganda hrunsins. Og ég skil vel þá gagnrýni sem beinist að réttarkerfinu um að of hægt gangi að fá niðurstöðu í þau sakamál sem til rannsóknar eru.

Góðir Íslendingar

Endurreisnarstarfið hefur ekki verið sársaukalaust. Öll heimili landsins hafa fundið fyrir afleiðingum hrunsins og öll höfum við fundið fyrir niðurskurði. Hversu sárt sem það er að skera niður útgjöld eða afla ríkissjóði aukinna tekna þá var það nauðsynlegt og það hefur borið árangur sem varanleg velferð þjóðarinnar allrar verður reist á í framtíðinni. Margar ákvarðanir sem eru óvinsælar í dag eru því teknar með langtímamarkmið og langtímahagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

Horfum til þess að halli á ríkissjóði var um 215 milljarðar króna árið 2008 en stefnir í 18 milljarða króna á næsta ári. Lækkun hallans svarar til allra útgjalda til mennta-, menningar og félags- og tryggingamála á þessu ári. Það skiptir öllu að lækka opinberar skuldir og spara þannig vaxtaútgjöld. Í ríkisfjármálaáætluninni er sett það markmið að skuldir ríkisins lækki um 15% af landsframleiðslu fyrir árið 2015, sem myndi spara árlega vaxtakostnað sem nemur rekstri allrar löggæslu hér á landi.

Ég gerði ítarlega grein fyrir stöðu efnahags- og atvinnumála í skýrslu hér á Alþingi fyrir réttum mánuði síðan. Þar benti ég meðal annars á þá staðreynd að 12 til 13 þúsund störf töpuðust í hruninu. Í ljós kom að sú stefna sem fylgt hafði verið og sú mikla og hraða uppbygging sem hér átti sér stað reyndist á sandi byggð. Atvinnustefna Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks byggði áratugum saman nánast einvörðungu á uppbyggingu stóriðju og hugmyndum um að Ísland yrði alþjóðleg fjármálamiðstöð.

Við þurfum breytta stefnu. Við eigum að líta til framtíðarinnar og þess hvernig Íslandi muni reiða af í samkeppni um fólk og fyrirtæki í framtíðinni. Við eigum að horfa til þess hvernig við getum tryggt að ungir Íslendingar standi sterkir að vígi í því alþjóðaumhverfi sem við lifum í.

Við eigum að byggja hér upp þekkingarþjóðfélag og viðurkenna að menntun er mikilvægasta auðlind þjóðarinnar. Í kjölfar hrunsins höfum við boðið þúsundum atvinnulausra að sækja nám og svo verður áfram næstu tvö árin. Háskóli Íslands brást m.a. afar vel við áskorun stjórnvalda og á niðurskurðartímum hefur nemendum í fullu námi við skólann fjölgað um 1.500 eða um 19%.

Stjórnarflokkarnir vilja byggja hér upp fjölbreytt, varanleg og verðmæt störf. Við viljum leggja aukna áherslu á græna hagkerfið, skapandi greinar, upplýsingatækni, nýsköpun og hugverkaiðnað og tækniþróun, ekki síst í tengslum við orkunýtingu, sjávarútveg og ferðaþjónustu.

Staðreyndin er sú, að þrátt fyrir síendurtekna ómálefnalega gagnrýni forsvarsmanna Samtaka atvinnulífsins hefur ótal margt verið gert til þess að skapa hér störf og byggja upp atvinnu. Bjartsýni almennings um horfur í efnahags- og atvinnumálum er líka að aukast. Væntingavísitalan hækkaði um 40% frá ágúst til september og einkaneysla almennings vex enn.

Enda er störfum tekið að fjölga á ný og jafnt og þétt dregur úr atvinnuleysi. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins er markið sett á að atvinnuleysi verði ekki meira en 4-5% í lok samningstímans árið 2013 og samkvæmt spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er líklegt að það náist. Framundan eru á næstu árum verkefni, opinber og hálfopinber upp á 80-90 milljarða króna sem skapa munu um 7.000 störf.

Til viðbótar koma framkvæmdir í orkugeiranum og tengdum fjárfestingum en þar er líklega um sambærilegan fjölda nýrra starfa að ræða.

Lykillinn að hagvexti er þó ekki opinberar framkvæmdir eða verkefni, þótt þau gegni mikilvægu hlutverki við núverandi aðstæður. Lykilatriði er að setja kraft í innlendar jafnt sem erlendar fjárfestingar, einkum í útflutningsgreinum, og skapa skilyrði til þess að svo geti orðið.

Hagvöxtur hér á landi er áætlaður um 3% í ár og margt bendir til að horfur um hagvöxt á næsta ári séu vænlegri en ýmsar spár sýna. Ef við berum hagvöxt hér á landi á fyrri hluta þessa árs saman við hagvöxt í öðrum OECD ríkjum kemur í ljós að við erum þar í 13. sæti af 26 ríkjum.

Við þurfum að setja fram heildstæða stefnu um erlenda fjárfestingu en stefnumörkun á þessu sviði er í undirbúningi og verður kynnt Alþingi sem þingsályktunartillaga á þessu þingi.

Fjármögnun er einnig mikilvægt skilyrði fjárfestinga. Ýmislegt hefur áunnist á því sviði. Endurreisn fjármálakerfisins er langt komin, aðgengi hefur fengist að erlendum lánamörkuðum, vextir hafa lækkað, skuldatryggingaálag hefur lækkað, skuldaaðlögun heimila og fyrirtækja er vel á veg komin og stöðugleiki ríkir í hagkerfinu. Það vekur því athygli að þrátt fyrir mjög rúma lausafjárstöðu bankanna er þar lítil sem engin útlánaaukning til fjárfestinga.

Á sama tíma birtast ótrúlegar tölur um þann ofurhagnað sem bankarnir hafa skilað á undanförnum misserum, m.a. vegna hárra útlánsvaxta. Blasir ekki við að bankarnir þurfa að lækka vexti sína enn frekar til að koma fjárfestingum af stað? Háir vextir bankanna eru uppskrift að lítilli fjárfestingu og efnahagslegri stöðnun.

Það er ekkert launungarmál að ríkisstjórnin telur að bankarnir þurfi að leggja meira af mörkum til samfélagsins og uppgjör þeirra sýna að þeir eru svo sannarlega aflögufærir. Á sama tíma og heimilin, fyrirtækin og velferðarþjónustan búa við samdrátt í kjölfar hruns fjármálakerfisins er það samfélagsleg skylda bankanna að skila þessum mikla hagnaði aftur til samfélagsins með einhverjum hætti.

Það segir sig sjálft að það verður ekki þolað að þessi mikli hagnaður verði nýttur til þess eins að greiða hluthöfunum arð eða hækka laun æðstu stjórnenda úr takt við launaþróun annarra, eins og áður gerðist. Bankarnir, sem árin og jafnvel áratugina fyrir hrun, sögðu sig úr siðferðilegu sambandi við þjóðina hljóta nú að hugsa sinn gang í þessum efnum.

Góðir Íslendingar.
Aðdragandi hrunsins var, eins og alkunna er, eignabóla sem grundvallaðist á mikilli skuldsetningu einstaklinga og fyrirtækja. Þegar bólan sprakk snarlækkaði eignaverð og margar eignir urðu verðlausar á sama tíma og skuldir snarhækkuðu. Í lok september 2008 voru tæplega 80% innlendra útlána banka og sparissjóða til fyrirtækja og eignarhaldsfélaga og ríflega 20% til heimila.

Hlutfallslega meiri afskriftir til fyrirtækja en einstaklinga verður að skoða í því ljósi. Til þess að vinda ofan af þessum skelfilegu afleiðingum bóluhagkerfisins er nú unnið af kappi við að endurskipuleggja skuldir fólks og fyrirtækja.

Sérstakt samkomulag var gert um endurskipulagningu skulda lítilla og meðalstórra fyrirtækja, sem reiknað er með að verði lokið fyrir áramót. Af tiltækum gögnum má ráða að skuldir lítilla og meðalstórra fyrirtækja verði færðar niður um í kringum 200 milljarða króna.

Lánastofnanir stefna að því að ljúka afgreiðslu umsókna vegna skuldavanda heimilanna fyrir áramót. Þessar aðgerðir ásamt endurútreikningi gengislána hafa skilað miklu og gangi áætlanir bankanna eftir má reikna með að í lok árs hafi skuldir heimilanna verið færðar niður um hartnær 200 milljarða króna frá hruni.

Ríkisstjórnin hefur einnig stuðlað að almennri og víðtækri lækkun á greiðslubyrði húsnæðislána meðal annars með hartnær tvöföldun á niðurgreiðslu vaxtakostnaðar húsnæðislána. Vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla nema um 18 milljörðum króna í ár eða um þriðjungi alls vaxtakostnaðar heimila af fasteignalánum. Þá hefur um helmingur heimila valið greiðslujöfnun á lánum sínum sem tryggir að greiðslubyrði þeirra sé litlu meiri en hún var fyrir hrun.

Öllum þessum aðgerðum er ætlað að milda þann samdrátt í lífskjörum fjölskyldna sem hrunið olli og styðja við starfsemi fyrirtækja og þar með atvinnu og mikilvæg störf.

Góðir landsmenn.
Mikill skulda- og ríkisfjármálavandi herjar nú á mörg Evrópuríki, Bandaríkin og Japan. Ýmsir telja jafnvel að alþjóðahagkerfið stefni í kreppu á borð við þá sem varð árið 2008 sem gæti leitt til gjaldþrots þjóðríkja og fjármálafyrirtækja.

Það er mikilvægt að greina svo sem kostur er áhrif þess á efnahag okkar en ljóst er að aðgerðir stjórnvalda frá hruni hafa dregið úr áhættu þjóðarbúskaparins vegna sveiflna í alþjóðafjármálakerfinu.

Með markvissum aðgerðum hefur Ísland þegar tekist á við skulda- og ríkisfjármálavanda sinn. Þótt opinberar skuldir séu enn alltof háar hér á landi má benda á að 17 ríki OECD eru með þyngri byrði hreinna skulda af landsframleiðslu en við.

Að þessu leyti stöndum við vel að vígi gegn þeirri vá sem alþjóðaefnahagskreppa gæti orðið og betur en margar aðrar þjóðir. Alþjóðleg efnahagskreppa myndi hins vegar hafa áhrif á útflutning okkar og getur leitt til lækkunar á verði útflutningsvara og á ferðaþjónustuna. Ekki er síður alvarlegt að djúp alþjóðaefnahagskreppa gæti tafið erlendar fjárfestingar hér á landi, bæði vegna lækkunar afurðaverðs og erfiðari fjármögnunar.

Góðir landsmenn.
Á þessu þingi munum við leggja fram heildstæða stefnu í efnahags- og atvinnumálum með skýrari hætti en áður hefur tíðkast í íslenskum stjórnmálum.

Í fyrsta lagi má nefna að fjárlagafrumvarp fyrir árið 2012 felur í sér síðasta stóra áfangann í aðlögun ríkisfjármála eftir hrun. Í kjölfarið verður kynnt ríkisfjármálaáætlun sem marka mun stefnu til lengri tíma.

Í öðru lagi verður kynnt efnahagsáætlun til næstu ára, þar sem fram koma markmið og leiðir í efnahagsmálum.

Í þriðja lagi verður peningamálastefnunni sköpuð ný umgjörð, samþykki Alþingi breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands með heimild til beitingar þjóðhagsvarúðartækja til að greiða fyrir framkvæmd gengis- og peningamálastefnunnar.


Í fjórða lagi er boðuð víðtæk úttekt á umgjörð fjármálamarkaðarins sem m.a. tekur til skipulags eftirlitsstofnana á því sviði.

Í fimmta lagi verður mörkuð heildstæð stefna um erlendar fjárfestingar sem ekki hefur verið gert áður hér á landi.

Í sjötta lagi er að því stefnt að lögfesta breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu, þannig að þjóðin njóti í ríkari mæli arðs af þessari auðlind sinni og sem mest sátt skapist um hagstæð rekstrarskilyrði þessarar mikilvægu atvinnugreinar.

Í sjöunda lagi verður lokið við mörkun heildstæðrar stefnu um auðlindir í þjóðareign, meðal annars um fyrirkomulag gjaldtöku og stofnun auðlindasjóðs. Stefnt er að því að rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða verði afgreidd.

Í áttunda lagi verður heildstæð orkustefna mótuð með áherslu á endurnýjanlega orkugjafa.

Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar munum við ljúka heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins, en gert er ráð fyrir að kerfið verði einfaldað með fækkun bótaflokka og einfaldari reglum um útreikning bóta og meiri jöfnuði meðal þeirra sem þurfa að nýta sér kerfið til framfærslu.

Á vegum velferðarráðuneytisins hefur verið í mótun ný húsnæðisstefna í víðtæku samráði fjölmargra aðila og með þverpólitískri samstöðu. Markmiðið er að auka fjölbreytni á húsnæðismarkaði, m.a. að stórefla leigumarkaðinn sem raunverulegan öruggan valkost við séreignastefnuna og þegar er unnið að stofnun opinberra leigufélaga.

Ein megintillagan er að teknar verði upp húsnæðisbætur í stað vaxta- og húsaleigubóta til að jafna húsnæðisstuðning hins opinbera milli ólíkra búsetuforma og stuðla að því að heimili eigi val á milli leigu-, búseturéttar- og eignaríbúða.

Góðir landsmenn.
Í samræmi við skýran vilja meirihluta þjóðarinnar munum við halda áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið með markvissum og faglegum hætti. Alþingi hefur samþykkt að fara þessa leið, ríkisstjórnarflokkarnir eru sammála um að ljúka ferlinu á sem skemmstum tíma og um tveir þriðju landsmanna vilja að umsóknarferlinu verði lokið með samningum sem þjóðin fái síðan að greiða atkvæði um.

Við eigum því að sameinast um að ljúka samningum með sem hagfelldustum hætti fyrir íslenska þjóð og leggja afrakstur þeirrar vinnu í dóm þjóðarinnar. Það gerum við með því að móta faglega sterka kröfugerð fyrir Íslands hönd. Það er beinlínis lýðræðisleg skylda okkar að vinna nú með þessum hætti, í ljósi forsögunnar og afstöðu þjóðarinnar til málsins.

Síðast en ekki síst vil ég nefna það stóra og mikilvæga verkefni að vinna úr þeim tillögum að nýrri stjórnarskrá sem stjórnlagaráð samþykkti einróma og hefur nú afhent Alþingi. Nú er mikilvægt að alþingismenn sameinist um að vinna með þessar tillögur af heilindum og fagmennsku eins og fulltrúum stjórnlagaráðs auðnaðist að gera. Það er mín skoðun að endanlegan úrskurð um afdrif þessa mikla verkefnis eigi þjóðin að kveða upp í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Góðir Íslendingar.
Í stjórnarskránni er ákvarðanir um stjórnarathafnir, sem forseta Íslands er í orði kveðnu falið að sinna, lagðar í hendur ráðherra sem jafnframt bera ábyrgð á þeim. Það er óumdeilt að forsetinn hefur frelsi til að tjá sig opinberlega. Mikilvægt er þó að forseti lýðveldisins virði í orði og verki þá stefnu og stjórnarframkvæmd sem réttkjörin stjórnvöld móta á hverjum tíma í samræmi við stjórnarskrá og lög frá Alþingi.

Það verður ekki ráðið af stjórnskipun landsins að gert sé ráð fyrir því að forseti lýðveldisins tali fyrir öðrum áherslum í pólitískum álitamálum en þeim sem stjórnvöld hafa mótað. Forseti Íslands er kjörinn af allri þjóðinni og sem slíkur er hann sameiningartákn hennar. Forseti Íslands þarf að vera hafinn yfir dægurþras stjórnmálanna.

Það er von mín og trú að 140. löggjafarþings verði minnst í sögunni sem afkastamikils umbótaþings.

Lifið heil.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta