Ræða forsætisráðherra á Tækni- og hugverkaþingi
Fundarstjóri, góðir gestir
Það er mér sérstök ánægja að ávarpa fjórða tækni- og hugverkaþing Samtaka iðnaðarins. Hugverkaþingið hefur reynst árangursríkt og markvisst.
Nú sem fyrr er tilgangur þingsins að koma á milliliðalausu samtali milli stjórnenda fyrirtækja og þeirra sem móta starfsskilyrði tækni- og hugverkafyrirtækja á Íslandi, ekki síst þeirra sem fara með löggjafar- og framkvæmdavaldið.
Í ár er markmiðið að vinna vegvísi til framtíðar um eflingu og uppbyggingu sprota-, tækni- og annarra hugverkafyrirtækja á Íslandi. Þetta er frábært framtak sem ég vil þakka sérstaklega. Hér er lagður góður grunnur að atvinnuuppbyggingunni. Hér liggja mikil tækifæri til framtíðar.
Upphaf og stundum endir í umræðum um atvinnumál á Íslandi er ál eða fiskur og jafnvel um stund var það alþjóðafjármálamiðstöð. Í umræðunni var gjarna talað niður til annarra kosta í atvinnuuppbyggingu sem kallað var “eitthvað annað” þegar Kárahnjúkavirkjun var lausnarorðið. Á þessu tækniþingi er einmitt “eitthvað annað” til umræðu.
Hagstofan veit allt milli himins og jarðar t.d. um afla og útflutning eftir tegundum og vinnslu. Um sprotana í atvinnulífinu, tækni- og hugverkaiðnaðinn, er tölfræðin fátækleg og úr því þarf að bæta og stjórnvöld munu beita sér fyrir því.
Þær vísbendingar sem til eru tækar sýna að hugverkaiðnaðurinn, þetta “eitthvað annað”, afli 20% af gjaldeyristekjum og að vöxtur í þessum greinum hafi verið langt umfram vöxt hagkerfisins í heild.
Horfum yfir sviðið; hvaða atvinnugreinar hafa burði til að bera upp sjálfbæran framtíðarvöxt? Hvar eru möguleikar okkar mestir til að við getum boðið okkar glæsilega unga fólki þau lífskjör að þau velji að starfa og búa hér á landi? Svarið er augljóst: lykillinn er hugverkaiðnaðurinn, þar eru okkar stóru tækifæri.
Við vitum að sjávarafla eru takmörk sett af náttúrunnar hendi. Náttúran setur líka uppbyggingu í orkufrekum iðnaði takmörk til framtíðar, því vænlegir virkjanakostir, hvort sem horft er frá fjárhagslegu eða umhverfissjónarmiði eru ekki óendanlegir. Stóriðja og sjávarútvegur eru hluti af lausninni en engin allsherjarlausn.
Það eru möguleikar til vaxtar í ferðaþjónustu með nýsköpun og vöruþróun til að lengja ferðamannatímann og efla vetrarferðaþjónustu. Við greinum vaxtarbroddana í skapandi greinum, sem nú þegar velta jafnmiklu og nemur framleiðslu áls og veitir atvinnu sem svarar um 10.000 ársverkum.
Það er rangt að valið sé á milli atvinnuuppbyggingar og umhverfisverndar. Það sýna rannsóknir á græna hagkerfinu. Á því sviði höfum við mýgrút tækifæra til að skapa græn og vellaunuð störf og þar vísa ég í nýlega skýrslu um nefndar um græna hagkerfið. Allt ber að sama brunni; fjölbreytni í okkar atvinnulífi er að aukast og atvinnustefna ríkisstjórnarinnar beinist að því.
Margt hefur verið gert til þess að ná markmiðum okkar um nýjar áherslur í atvinnumálum og örva atvinnusköpun í hugverkaiðnaði, en við blasa fjölmörg verkefni sem leysa þarf. Stjórnvöld hafa miklu hlutverki að gegna. Þau þurfa að skapa réttu skilyrðin og réttu hvatana er varðar menntun, rannsóknir og þróun og fjármögnun og síðast en ekki síst að rekstrarskilyrði atvinnulífsins hvetji til vaxtar.
Hugum fyrst að undirstöðunni sem er menntunin og þar gegnir hið opinbera lykilhlutverki. Til þess að virkja mannauðinn þurfum við að fjárfesta í menntun. Hér er ærið verk að vinna. Staðreyndin er sú að um 30% þjóðarinnar er án formlegar framhaldsskólamenntunar og það er sérstaklega slagsíða er varðar iðn- og tæknimenntun.
Í tengslum við kjarasamningana í vor var metnaðarfullu menntunarátaki hleypt af stokkunum, þar sem öllum 25 ára og yngri komast í framhaldsskólana og jafnframt verður þeim sem lokið hafa raunfærnimat gefinn kostur á námi á framhaldsskólastigi. Eitt þúsund atvinnuleitendum verður boðið menntunarúrræði. Þarna er þrátt fyrir kreppu í ríkisfjármálunum verið að búa í haginn fyrir framtíðina. Við ætlum að auka vægi iðn- og tæknináms og að því er unnið í mennta- og menningarmálaráðuneytinu í samvinnu við atvinnulífið og fleiri aðila. .
Nú ber svo við að skortur á mannafla er farin að há mörgum greinum, t.d. í hugbúnaðargerð, sem felur í sér þá hættu að íslensk fyrirtæki fari úr landi að hluta eða öllu leyti og flytja þurfi inn sérmenntað fólk frá útlöndum. Það skiptir miklu að samræmi sé á milli framtíðarþarfa atvinnulífs fyrir menntað vinnuafl og áherslna í skóla – og menntastarfi. Þessu ætlum við að gera skil í vinnumarkaðs- og menntastefnu.
Stjórnvöld gegna lykilhlutverki er varðar rannsóknir og þróun. Með fækkun og sameiningu sjóða og einföldun á yfirbyggingu næst mikilsverður áfangi og aukin áhersla á faglega úthlutun fjármagns. Að því er nú unnið.
Fyrirliggjandi úttektir á Tækniþróunarsjóði sýna að það er samfélagslega arðbær fjárfesting að auka framlög til sjóðsins. Til framtíðar horfum við til Auðlindasjóðs sem gjöfullar lindar fjármagns til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar. Í Auðlindasjóð mun renna arður af auðlindum í þjóðareign, en ég vænti þess að tillaga að stefnu í auðlindamálum og um stofnun sjóðsins verði kynnt fyrir árslok.
Starfsskilyrði atvinnulífsins eru sannarlega mikilvægt og viðvarandi verkefni stjórnvalda. Í því efni skiptir fyrirkomulag peninga- og gengismála sköpum. Króna sem innpökkuð er í gjaldeyrishöft útávið og varin af verðtryggingu innávið er ekki góður kostur til framtíðar. Slíkt fyrirkomulag peningamála mun trauðla gagnast til kröftugrar atvinnuuppbyggingar og gæti leitt til þess að íslensk fyrirtæki flytji höfuðstöðvar sínar til útlanda, en það er m.a. til umræðu hér á þinginu.
Innganga í Evrópusambandið og upptaka evru er að mínu mati besti kosturinn í þessum efnum og felur jafnframt tvímælalaust í sér sóknarfæri fyrir íslensk sprotafyrirtæki.
Stjórnvöld geta líka innan hóflegra marka beitt ívilnunum til að styðja fjárfestingu og nýsköpun og veitt skattaafslátt í því skyni. Það höfum við gert og ég bendi á lög um ívilnanir vegna nýfjárfestinga og lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki.
Við þurfum að einfalda stjórnsýsluna og gera hana markvissari og hæfari samstarfsaðila við atvinnulíf og vísindasamfélag. Fækkun ráðuneyta og stofnun atvinnuvegaráðuneytis eru mikilvæg skref í þá átt. Ég vænti einnig mikils af ráðherranefnd um atvinnumál sem stofnuð hefur verið til að halda utan um atvinnuuppbygginguna og samhæfa aðgerðir, enda verða atvinnumál forgangsmál á þessum vetri.
Ég nefni hér að síðustu stefnumótunarhlutverk stjórnvalda. Ríkisstjórnin samþykkti í fyrra stefnuyfirlýsingu undir heitinu Ísland 2020. Þessi framsækna stefnumörkun varð til á grunni samtala og samvinnu hundruða Íslendinga um land allt og í samráði við landshlutasamtök, sveitarfélög, og aðila vinnumarkaðarins.
Ísland 2020 er eins konar samhæfingarverkfæri stjórnsýslunnar um verkefni sem öll ráðuneytin koma að og mun auka samþættingu í aðgerðum í helstu málaflokkum. Meðal verkefna innan Ísland 2020 er að móta atvinnustefnu. Er sú vinna hafin og verður unnin í nánu samráði við fjölmarga aðila.
Fundarstjóri, góðir gestir
Hrunið var svo sannarlega ekki bara efnahagslegt hrun. Það ógnaði samfélaginu öllu og aðdragandi þess var siðferðisbrestur. Nú er framundan sókn til betri lífskjara og bættra vinnubragða. Öll erum við liðsmenn í þeirri sókn.
Markmiðið er skýrt að hér verði til fjölbreytt og vel launuð störf sem standast alþjóðlegan samanburð og að ungir Íslendingar þurfi aldrei að velkjast í vafa um að framtíð þeirra er best borgið á Íslandi. Óhikað segi ég hugvitið á að verða okkar næsta stórvirkjun.