Ávarp forsætisráðherra á dagskrá í tilefni af 150 ára fæðingarafmæli Hannesar Hafstein
Ágætu afkomendur Hannesar Hafstein og aðrir góðir gestir.
„Þá mun aftur morgna“ eru lokaorðin í „Aldamótaljóði“ Hannesar Hafstein, ljóði sem hann orti á tímum þar sem tvísýnt var hvernig Íslendingar fengju á málum sínum haldið.
Þessi orð skáldsins og stjórnmálamannsins Hannesar Hafstein hefðu ekki síður getað átt erindi við íslenska þjóð undanfarin ár. Nú, eins og í upphafi 20. aldar, hefur þjóðin og stjórnsýslan tekist á við umfangsmikil verkefni, sem á stundum hafa nánast verið ómanneskjuleg, og svo sannarlega sýnt hvað í henni býr.
Ekki leikur vafi á því að Hannesi Hafstein hefði hugnast vel sú mikla framþróun og uppbygging sem hér hefur átt sér stað á öllum sviðum frá því í upphafi síðustu aldar. Hér getum við litið til menntunar, samgangna og fjarskipta, margvíslegra framkvæmda og ekki síst jafnréttismálanna, svo ég nefni málaflokka sem Hannes beitti sér sérstaklega fyrir.
Þá hefði skáldið Hannes Hafstein án efa verið stoltur af þjóð sinni hefði hann upplifað glæsilega þátttöku Íslands í bókamessunni í Frankfurt nú í haust. Þar hefði hann svo sannarlega haft ástæðu til þess að fagna með skáldum þessa lands.
Dagurinn í dag er helgaður minningu Hannesar Hafstein, þessa fjölhæfa manns sem fæddist þann 4. desember árið 1861. Hannes upplifði eins og þjóðin á þeim tíma margvíslega erfiðleika og andstreymi í uppvexti sínum sem vafalaust hafa styrkt hann sem manneskju og stjórnmálamann.
Hannes Hafstein var glæsilegur og merkur maður sem kynntist í senn mótbyr og meðbyr á sinni starfstíð. Hann var brautryðjandi sem fyrsti ráðherrann í heimastjórn Íslands frá 1. febrúar árið 1904 og sem slíkur fyrsti forsætisráðherra landsins. Á þessum merku tímamótum fluttist framkvæmdavaldið í sérmálum Íslands frá Danmörku og íslensk stjórnsýsla tók að mótast en Alþingi starfaði á þessum árum einungis annað hvert ár og ekkert árið 1904.
Stjórnarráði Íslands var fyrst um sinn skipt í deildir eða skrifstofur: kennslumála- og dómsmáladeild, atvinnu- og samgöngumáladeild og fjármála- og endurskoðunardeild og starfsmenn voru 13 til að byrja með. Í upphafi starfs heimastjórnarinnar var kallað eftir upplýsingum um hvaða verkefni væru talin nauðsynleg í hverju héraði.
Mjög ítarleg og fróðleg svör bárust um fjölda áhugamála s.s. almenn löggjafarmál, bankamál og viðskipti, brýr, fiskveiðar, gufubáta, heilbrigðismál, iðnað, landbúnað, námur og jarðefni, póstsamgöngur, siglingar, vita og hafnarmannvirki, „telegraf og telefón“ og vegi og verslun, svo vitnað sé í Sögu Stjórnarráðs Íslands eftir Agnar Klemens Jónsson.
Í dag eru starfsmenn Stjórnarráðsins 5 – 600 að tölu í 10 ráðuneytum. Auk þess er fjöldi starfsmanna í ýmsum ríkisstofnunum, sem ekki voru fyrir hendi þegar Stjórnarráðið hóf starfsemi sína.
Viðfangsefnin eru vissulega að hluta til sambærileg í dag að grunni til s.s. uppbygging innviða á sviði mennta- og heilbrigðismála og samgangna, svo ég nefni viðamikla málaflokka þar sem stórstígar framfarir hafa átt sér stað, enda þótt undanfarin ár hafi verkefnin því miður fremur beinst að því að verja þessi kerfi en að byggja þau upp.
Ágætu gestir.
Hannes Hafstein var stórbrotinn stjórnmálamaður og framsýnn athafnamaður sem beitti sér fyrir mörgum framfaramálum. Heimastjórnarárin voru uppgangstímar. Lagning sæsíma til landsins og símalína um land allt voru verkefni sem öðrum fremur einkenndu fyrstu heimastjórnarárin.
Hannes Hafstein og fylgismenn hans studdu framgang símamálsins og tókust í því máli á við andstæðinga sína. Hreyfing komst á uppbygginu vita- og hafnarmannvirkja á þessum tíma og þetta voru upphafsár togaraútgerðar sem atvinnugreinar. Hannes Hafstein var maður framkvæmda en hans hefur einnig verið minnst fyrir framlag sitt til jafnréttismála og framsýni í þeim efnum. Þannig setti hann árið 1904 fram nýja reglugerð fyrir Lærða skólann í Reykjavík þar sem kveðið var á um að skólinn skyldi vera opinn bæði piltum og stúlkum.
Árið 1911 lagði Hannes fram á Alþingi frumvarp til laga um rétt kvenna til menntunar og embætta en miklar umræður urðu um það mál enda þótti sumum þingmönnum full langt gengið.
Í dag er litið til Íslands sem fyrirmyndarlands þegar jafnréttismál eru annars vegar og við Íslendingar höfum skipað efsta sætið þegar jafnrétti meðal allra þjóða heims er metið á alþjóðlega viðurkenndum lista World Economic Forum. Á þeirri leið voru skrefin sem Hannes Hafstein átti þátt í að stíga í jafnréttisátt í byrjun 20. aldar afar mikilvæg í sögulegu samhengi.
Enda þótt við höfum tekið stórstígum framförum á því sviði sem flestum öðrum þá er nauðsynlegt að stíga ákveðnari skref en áður til þess að ráðast gegn launamun kynjanna sem því miður virðist vera erfitt að vinna fullan bug á. Þar er svo sannarlega þörf á því að framsýnir, víðsýnir og djarfir stjórnmálamenn í öllum stjórnmálahreyfingum taki höndum saman til þess að ná raunverulegum mælanlegum árangri í þessu mikla mannréttindamáli.
Hér í dag munum við hlýða á valinkunna einstaklinga segja nánar frá Hannesi sem manneskju, stjórnmálamanni og skáldi og við munum heyra ljóð hans flutt bæði með lestri og söng.
Það er vel við hæfi að við komum saman hér í Þjóðmenningarhúsinu í dag en eins og kunnugt er var Hannes Hafstein helsti frumkvöðull að byggingu þessa glæsilega húss, sem enn er meðal merkustu bygginga hér á landi. Það er einnig vel við hæfi að afkomendur og almenningur hafi í dag átt þess kost að njóta húsakynna Ráðherrabústaðarins við Tjarnargötu en þetta er í fyrsta sinn sem það hús er opið almenningi. Þar bjó Hannes Hafstein eftir að hann tók við ráðherradómi.
Ég vil að lokum þakka þeim sem hafa staðið að undirbúningi þeirrar dagskrár sem við njótum í dag til minningar um Hannes Hafstein og þeim sem fram munu koma hér í dag fyrir þeirra mikla og góða framlag. Ekki síst afkomendunum sem hafa unnið að því að heiðra minningu forföður síns.
Ég vona að allir hafi notið og muni njóta dagskrárinnar í dag og mér er kunnugt um að margt fleira áhugavert verður gert til að heiðra minningu Hannesar Hafstein á því afmælisári sem nú er að hefjast.