Áramótaávarp forsætisráðherra 2011
Góðir landsmenn.
Árið 2011 er senn á enda , við kveðjum það sem liðið er og heilsum nýju ári. Í flestum stórfjölskyldum hafa orðið breytingar á árinu. Sumir hafa tekist á við áföll og erfiða tíma á meðan aðrir hafa fagnað sigrum, stórum og smáum. Flest okkar hafa þó upplifað bæði meðbyr og mótlæti á árinu sem er að kveðja. Það er lífsins gangur.
Það er von mín og trú, að nú þegar mesta efnahagsháskanum hefur verið bægt frá, finni fólk í auknum mæli fyrir batnandi hag fjölskyldna og fyrirtækja. Kröftugur hagvöxtur hefur leyst samdrátt af hólmi og allar forsendur eru fyrir áframhaldandi lífskjarasókn hér á landi. Framtíð Íslands er björt ef vel verður á málum haldið.
Þegar við horfum til baka yfir árið 2011 er full ástæða til þess að gleðjast yfir árangri okkar og stöðu. Við getum glaðst yfir þeirri staðreynd að hagur Íslendinga batnar nú hraðar en flestra annarra þjóða, kaupmáttur vex, dregið hefur úr atvinnuleysi og lífskjör þjóðarinnar munu áfram fara batnandi.
Við getum glaðst yfir því að félagslegt réttlæti og jafnrétti kynjanna mælist nú hvað mest á Íslandi í alþjóðlegum samanburði og að efnahagslegur jöfnuður eykst hér hröðum skrefum.
Við getum glaðst yfir afrekum okkar glæsilega íþróttafólks, sem sýnir hvað eftir annað að við Íslendingar getum skipað okkur í fremstu röð meðal þjóða. Þetta íþrótta- og afreksfólk er góð fyrirmynd börnum okkar og unglingum, sem sjá að ástundun og iðni leggur grunn að góðum árangri.
Við getum glaðst yfir grósku í íslensku menningarlífi sem aldrei fyrr; á sviði tónlistar, bókmennta, kvikmyndagerðar, myndlistar og hönnunar.
Við getum glaðst yfir því, að fyrirtæki sem byggja á íslensku hugviti skipi sér í fremstu röð á sínu sviði í alþjóðlegum samanburði. Starfsemi sem byggir á hugviti og menntun þjóðarinnar er afar mikilvæg í þeirri vistvænu atvinnuuppbyggingu sem við eigum að stefna að.
Við getum glaðst yfir þeim góða árangri sem íslensk ferðaþjónusta hefur náð á árinu og því að Ísland hefur ítrekað verið valið spennandi ferðamannastaður af virtum alþjóðlegum aðilum. Ferðaþjónustan og aðrar vaxandi greinar mynda ásamt hefðbundnum grunnatvinnuvegum þá fjölbreyttu flóru atvinnulífs sem nauðsynleg er samfélögum sem vilja vaxa og dafna. Og úflutningsgreinarnar, sjávarútvegur og áliðnaður, hafa ekki síður lagt til þess góða hagvaxtar sem hér hefur verið á liðnu ári.
Góðir landsmenn.
Nú, þegar tekið er að birta verulega til í íslensku efnahagslífi, er tímabært að huga að því hvernig við viljum sjá framtíðina, að hverju við viljum stefna.
- Í hvernig landi viljum við búa ?
- Hvað viljum við gera til að unga fólkið, börn okkar og barnabörn, velji Ísland sem sitt framtíðarland?
- Hvernig viljum við byggja upp velferðar- og heilbrigðiskerfið?
- Hvaða áherslur viljum við leggja í atvinnumálum og varðandi nýtingu og verndun auðlindanna?
- Hvernig viljum við tryggja stöðugleika og að lífskjör hér á landi verði eins og best gerist í heiminum ?
- Hvar viljum við skipa okkur í samfélagi þjóðanna?
Almenningur víða um heim mótmælir um þessar mundir ójöfnuði og miklum lífskjaramun. Kallað er á réttlátari skiptingu lífsgæða með hagsmuni almennings og samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi. Þetta eru að mínu mati eðlilegar kröfur enda efnahagslegur og félagslegur jöfnuður afar mikilvægur.
Það er engin tilviljun að Norðurlöndin mælast ítrekað meðal farsælustu samfélaga heims, bæði hvað varðar lífskjör og á ýmsa aðra samfélagslega mælikvarða. Þar er jöfnuður í hávegum hafður. Til þess hljótum við að horfa. Við eigum að tryggja að samfélag okkar dafni og þróist með þeim hætti að jöfnuður aukist. Jöfnuður er ekki bara göfugt og gott markmið í sjálfu sér heldur sýna rannsóknir að hann hefur margvísleg jákvæð áhrif á samfélög.
Þar sem jöfnuður ríkir farnast flestum íbúum einfaldlega betur. Þeir búa við betri heilsu og lífslíkur, börnum líður þar almennt betur, skólabörn eru síður lögð í einelti, færri glíma við eiturlyfjavanda, ofbeldi er fátíðara og geðrænir sjúkdómar eru sjaldgæfari. Rannsóknir sýna einnig, að þar sem tekjumunur er minni er samheldni meðal íbúa meiri og síðast en ekki síst – meira traust ríkir manna í millum. Aukinn jöfnuður er því lykill að betra samfélagi á nánast öllum sviðum og að slíkum jöfnuði eigum við að vinna með markvissum og fordómalausum hætti.
Góðir landsmenn.
Við Íslendingar búum vel. Við búum að dýrmætum auðlindum og lega Íslands felur í sér spennandi tækifæri sem okkur ber að vinna vel úr. Við erum í hópi ríkustu þjóða heims og allt bendir til þess að við getum tryggt velferð komandi kynslóða og áfram skipað okkur í fremstu röð meðal þjóða á mörgum sviðum.
Á næstu misserum munum við móta okkur nýja auðlindastefnu, setja á fót auðlindasjóð og innleiða hér stefnu hins græna hagkerfis með áherslu á hreina náttúru, sjálfbæran orkubúskap, nýsköpun og menntun. Þannig getur Ísland skipað sér í fremstu röð á alþjóðavettvangi sem grænt hagkerfi.
Lega okkar á Norðurslóðum kallar á forystu Íslendinga í þessum efnum og nágrannalöndin og aðrar heimsálfur horfa nú í auknum mæli til þessa svæðis. Norðurslóðir, sem eru okkar nærumhverfi, eru að taka miklum breytingum sökum hlýnandi loftslags og vaxandi efnahagsumsvifa. Ef rétt er að staðið munu fylgja breytingunum ýmis tækifæri fyrir Íslendinga svo sem á sviði orkumála, auðlindanýtingar og norðurslóðasiglinga. Þá stöndum við ásamt öðrum norðurskautsríkjum frammi fyrir þeirri áskorun að tryggja verndun og sjálfbæra nýtingu viðkvæmrar náttúru svæðisins. Hagsmunirnir eru augljósir og ábyrgðin sömuleiðis mikil. Það voru því að sönnu merk tímamót þegar Alþingi samþykkti einróma fyrr á þessu ári í fyrsta skipti heildstæða stefnu í málefnum norðurslóða, sem miðar að því tryggja hagsmuni Íslands og efla tengsl og samstarf við aðrar þjóðir.
Áhrifa hlýnunar loftslags er þegar farið að gæta hér sem annars staðar og vísindamenn telja að þessi hlýnun muni hafa greinileg áhrif næstu þrjá til fimm áratugi. Það mun skipta sköpum fyrir framþróun lífs á jörðinni hvernig okkur tekst á næstu tíu árum að stemma stigu við þessum loftslagsbreytingum. Mikilvægt er að við Íslendingar tökum þessi mál föstum tökum, en að óbreyttu er talið að jöklar hér á landi gætu horfið að mestu á næstu tveimur öldum.
Meðal annars í ljósi alls þessa er afar mikilvægt að við metum á næstu misserum stöðu Íslands með tilliti til alþjóðlegrar þróunar næstu áratugi. Ég hef því ákveðið að fela hópi vísindamanna og sérfræðinga að kortleggja heildstætt, stöðu Íslands og sóknarfæri í víðu samhengi, svo sem á sviði umhverfismála, orkumála, efnahags- og atvinnumála, menntamála og á fleiri sviðum sem geta haft áhrif á stöðu og vöxt landsins til lengri tíma litið. Ég mun tryggja að slík vinna hefjist nú í upphafi nýs árs þannig að við Íslendingar getum farið skipulega yfir tækifæri og ógnanir í alþjóðlegu samhengi og sett okkur markmið til þess að mæta þeim. Víðtækt og vandað mat á stöðu Íslands mun hjálpa okkur að svara stórum spurningum um framtíð okkar og móta áherslur í því samfélagi sem við viljum sjá þróast hér á landi á þessari öld.
Góðir Íslendingar.
Þróun lífskjara ræðst ekki nema að nokkru leyti innan landamæra einstakra ríkja. Forsenda framfara og uppbyggingar lífvænlegs samfélags hér á landi á komandi árum er að Ísland verði áfram virkur þátttakandi í samfélagi þjóðanna.
Hlýnun jarðar, og þeim skelfilegu afleiðingum sem sú þróun getur haft á lífríki jarðarinnar og daglegt umhverfi okkar, verður ekki afstýrt nema með samstarfi og samtakamætti allra þjóða heims. Þörf mannkyns fyrir orku, næringu og vatn verður ekki fullnægt með viðunandi hætti nema allir leggi lóð sitt á vogarskálarnar og leiti sameiginlegra lausna. Og sjúkdómum og örbirgð verður ekki útrýmt nema þjóðir heims leggi sitt af mörkum og standi saman.
Ýmsir alþjóðlegir atburðir hafa á árinu vakið okkur Íslendinga til umhugsunar og minnt okkur á að við erum svo sannarlega hluti af samfélagi þjóða. Hörmulegir atburðir í Útey og í Ósló, hjá frændum okkar og vinum Norðmönnum, snertu hjörtu okkar allra. Í meiri fjarlægð höfum við fylgst með hinu svonefnda arabíska vori og þeirri áhrifamiklu lýðræðisvakningu sem hefur átt sér stað í Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum. Þá hafa ýmsar þjóðir svo sem Japanir glímt við afleiðingar náttúruhamfara eins og við Íslendingar höfum einnig ítrekað gert af dugnaði og æðruleysi undanfarin misseri. Allir þessi atburðir hafa haft áhrif um heim allan.
Góðir landsmenn.
Ég er sannfærð um að tækifæri lands okkar og þjóðar eru nánast óþrjótandi, takist okkur að halda vel á málum og byggja hér upp öflugt samfélag sem reist er á heilbrigðum gildum.
Við stöndum á vissum tímamótum og ég tel að jarðvegurinn hafi hugsanlega aldrei verið betri en einmitt nú til þess að hafa raunveruleg áhrif á það samfélag sem við viljum sjá þróast hér til frambúðar. Takist íslensku þjóðinni að læra af því sem hér gerðist og draga skynsamlegar ályktanir munum við standa sterkari á eftir.
Við eigum að byggja hér upp samfélag jafnvægis og jöfnuðar á öllum sviðum. Við eigum að bera virðingu hvert fyrir öðru, virða mannréttindi allra hópa og vera ábyrg í samfélagi þjóðanna, ekki síst þegar kemur að efnahagsmálum, mannréttindamálum og umhverfismálum.
Við eigum að byggja hér upp samfélag sem býr við stöðugt efnahagsumhverfi og tryggir okkur og komandi kynslóðum kjör sambærileg við það sem best gerist í nágrannalöndum okkar, ekki síst þegar kemur að húsnæðismálum, vaxtakjörum og launakjörum. Þar ræður m.a. miklu hvaða ákvarðanir við munum taka varðandi framtíðargjaldmiðil okkar.
Við eigum að byggja hér upp lýðræðislegra samfélag, - samfélag sem gerir ráð fyrir aukinni ábyrgð og þátttöku almennings og félagasamtaka í mótun og framkvæmd þeirra samfélagslegu verkefna sem stjórnmálin glíma við á hverjum tíma. Ný stjórnarskrá, sem nú er í mótun, gæti leikið þar lykilhlutverk.
Við eigum að byggja hér upp barnvænt samfélag. Það að eiga og ala upp börn er eitt mikilvægasta verkefni sem hver einstaklingur tekst á hendur og getur í senn verið gefandi og krefjandi. Efnahagur, vinna, veikindi, þroskafrávik, nám og tómstundir eru allt þættir sem hafa áhrif á líf og umhverfi bæði foreldra og barna, sem taka þarf tillit til við mótun samfélagsins.
Við eigum að móta hér samfélag sem veitir öllum kynslóðum góða, skapandi og gjöfula menntun sem byggð er upp með framtíðaratvinnumöguleika fyrir augum. Menntun, hvort sem það er verkmenntun, tæknimenntun, listnám eða bóknám er megingrundvöllur framþróunar í nútímasamfélögum og um leið ein mikilvægasta auðlind hverrar þjóðar.
Góðir Íslendingar.
Ég tel að við höfum aldrei haft betra tækifæri en einmitt nú til þess að hafa raunveruleg áhrif á það samfélag sem við viljum sjá þróast hér á landi.
- Hvert viljum við stefna?
- Hvert er hlutverk okkar, hvers og eins?
- Hvað getum við gert til þess að bæta samfélag okkar ?
- Hvað viljum við leggja af mörkum?
Ég bið sérhvern Íslending að hugleiða það, nú í byrjun nýs árs. Höfum hugfast að Íslandi eru allir vegir færir. Metum hvar tækifærin liggja og hvernig við getum nýtt þau, sjálfum okkur og öðrum til hagsbóta. Mótun framtíðarinnar er í höndum okkar allra.
Ég þakka samfylgdina á árinu sem er að líða og óska landsmönnum öllum alls hins besta á komandi ári.
Gleðilegt nýtt ár.