Enn tímamót í jafnréttismálum
Árangur í baráttunni fyrir jafnrétti kynja er gjarnan markaður því að hin svokölluðu karlavígi hafa fallið eitt af öðru. Kosningarétturinn, fyrsti kvenráðherrann, fyrsta konan í embætti forseta Íslands, forseta Alþingis, forseta Hæstaréttar og forsætisráðherra – þessir og margir fleiri eru áfangar í jafnréttisbaráttunni sem við minnumst með stolti. Nú getum við glaðst yfir tveimur til viðbótar sem báðir munu fara á spjöld Íslandssögunnar. Í fyrsta skipti eru konur í meirihluta í ríkisstjórn Íslands og í fyrsta skipti hefur kona tekið við hinu þungvæga fjármálaráðuneyti. Eftir því sem ég kemst næst er ríkisstjórn Íslands eina ríkisstjórnin á Vesturlöndum með konur í meirihluta.
Á öðrum sviðum er árangurinn ekki eins sýnilegur og markast ekki af neinum einum atburði, heldur stöðugri og markvissri viðleitni til að sækja fram sem víðast. Þriðja árið í röð hefur Alþjóða efnahagsráðið skipað Íslandi í efsta sæti yfir kynjajafnrétti á heimsvísu. Mæling ráðsins er athygli verð fyrir þær sakir að þar eru 16 mælikvarðar lagðir til grundvallar niðurstöðunni og eru þeir á sviði menntunar, heilsufars, stjórnmálaþátttöku og atvinnulífs. Í skýrslu ráðsins kemur fram að Ísland hefur ekki aðeins haldið fyrsta sætinu, heldur einnig bætt árangur sinn milli ára. Af þessum mælikvörðum er frammistaða Íslands lökust á sviði atvinnulífs og vinnumarkaðar – en þar er þá einnig mest að vinna. Nú er nýtekin til starfa framkvæmdanefnd um launajafnrétti kynja sem er ætlað að móta raunhæfar aðgerðir til langs tíma til að draga úr launamun kynja. Þá er von mín sú að á næsta ári þegar ákvæði laga um kynjakvóta í stjórnum einkahlutafélaga og lífeyrissjóða tekur gildi muni frammistaða okkar varðandi hlut kvenna í stjórnunarstöðum loks verða viðunandi.
En alla áfanga og árangur þarf að verja – um leið og við sækjum fram. Þess vegna þarf að efla jafnréttisfræðslu meðal ungs fólks og flytja áfram reynslu og þekkingu þeirra mörgu kynslóða kvenna sem hafa helgað jafnréttisbaráttunni krafta sína.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra