Jafnlaunastaðall
Ávarp forsætisráðherra á fundi til kynningar á frumvarpi um jafnlaunastaðal, Grand Hótel Reykjavík, 19. júní 2012.
Góðan daginn – ágætu gestir
Það er mér mikið ánægjuefni að geta í dag, á kvenréttindadeginum 19. júní, ýtt úr vör kynningu á brautryðjendaverki í jafnréttisbaráttunni - nýjum staðli um launajafnrétti kynjanna . Dagurinn í dag markar þáttaskil í þessu mikilvæga verkefni.
Á síðustu árum hefur gætt vaxandi og víðtækrar óánægju með að ekki skuli betur og hraðar ganga að minnka launamun kynjanna með markverðum hætti. Á sama tíma hafa margir bent á að atvinnurekendur skorti hagnýt tæki til að styðjast við endurskoðun á launastefnu sinni og þeim viðmiðum sem notuð eru við launasetninguna til að þeir sjálfir og starfsmenn þeirra geti treyst því að réttur kvenna og karla til launajafnréttis sé virtur í hvívetna. Jafnlaunastaðlinum er ætlað að verða slíkt tæki.
Eins og flestir sem hér eru vita þá hefur jafnlaunastaðallinn verið lengi í fæðingu Á ofanverðum síðasta áratug, um nokkurra missera skeið, hafði hugmyndin verið í umræðu milli félags- og tryggingamálaráðuneytisins, aðila innan háskólasamfélagsins, aðila vinnumarkaðar og ýmissa stofnana og samtaka á sviði jafnréttismála.
Það er ekkert launungarmál að skoðanir voru skiptar á því hvort yfirleitt væri gerlegt að smíða staðal um launajafnrétti. Meðal annars var bent á það augljósa að slíkur staðall er hvergi til, enginn hefur tekist á við slíkt verkefni áður og væntanlega ekki vegna áhugaleysis.
Og andsvarið liggur því líka í augum uppi og meðal annars vegna þessa er verkefnið gríðarlega spennandi og mögulegur ávinningur of mikill til að við hefðum getað látið hjá líða að láta á hugmyndina reyna.
Ekki síst voru þessar raddir fjölmennar meðal forsvarsmanna fyrirtækja og stofnana . Margir þeirra lýstu einlægum áhuga á því að fá í hendur nothæf verkfæri til að koma á og viðhalda launajafnrétti kynja, verkfæri sem faglega væri staðið að á allan hátt og sem nyti trausts þeirra sem gerst þekkja til á sviði jafnlaunamála.
Samkvæmt núgildandi jafnréttislögum, sem samþykkt voru í minni tíð sem félags- og tryggingarmálaráðherra árið 2008, var ráðuneyti mínu falið að sjá til þess að þróað yrði sérstakt vottunarkerfi á framkvæmd stefnu um launajafnrétti og framkvæmd stefnu um jafnrétti við ráðningar og uppsagnir í samvinnu við samtök aðila vinnumarkaðarins.
Í ákvæðinu var tekið fram að því verki skyldi lokið fyrir 1. janúar 2010. Sama ár samþykktu Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins sérstaka bókun við kjarasamninga sína um að þróað yrði vottunarferli sem fyrirtæki gætu nýtt sér og fæli í sér vottun á framkvæmd stefnu um launajafnrétti og jafna möguleika kynjanna til starfa og starfsþróunar.
Fljótlega hófu þessir þrír aðilar samræður um hvernig best yrði að þessu verki staðið og komust að þeirri niðurstöðu að óska eftir því við Staðlaráð Íslands að verkið yrði unnið innan vébanda þess.
Á kvennafrídeginum 24. október 2008 undirrituðu forsvarsmenn ASÍ og SA ásamt mér sameiginlegt erindi til Staðlaráðs þessa efnis. Þar með var ljóst að verkið myndi snúast um gerð staðals sem að öllu leyti myndi lúta alþjóðlegum reglum sem Staðlaráð er bundið af .
Hið óljósa og að sumu leyti ólíka orðalag úr bráðabirgðaákvæði jafnréttislaganna og bókun aðila vinnumarkaðar um annars vegar þróun á vottunarkerfi, og hins vegar þróun á vottunarferli, vék því fyrir hugtakanotkun staðlaheimsins ef svo má að orði komast.
Ljóst varð að verkefnið var að smíða staðal um launajafnrétti sem væri að formi til sambærilegur öðrum stöðlum eins og gæðastjórnunarstöðlum eða umhverfisstöðlum. Með öðrum orðum; jafnlaunastaðallinn yrði vottunarhæfur á nákvæmlega sama hátt og aðrir staðlar.
Hin sameiginlega ákvörðun mín og ASÍ og SA um að óska eftir því að verkið yrði unnið innan vébanda Staðlaráðs þýddi einnig að það hlaut að lúta vinnureglum ráðsins. Það þýddi að Staðlaráð bauð fjöldamörgum aðilum sem það taldi geta haft áhuga á staðlinum eða hagsmuni af honum til að taka sæti í svokallaðri tækninefnd, sem í raun bar ábyrgð á samningu staðalsins.
Flestir svöruðu boði Staðlaráðs og í desember 2009 var haldinn fyrsti fundur tækninefndar. Þessi hópur sem tekið hefur þátt í gerð staðalsins er því mun fjölmennari og úr mun fleiri áttum en ef eingöngu hefði verið um fulltrúa þessara þriggja frumkvæðisaðila að ræða.
Þegar hér var komið sögu mátti öllum vera ljóst að sá tímarammi sem verkinu var gefinn í bráðabirgðaákvæði jafnréttislaganna, þ.e. rétt rúmlega ár, gat alls ekki staðist. Samkvæmt upplýsingum Staðlaráðs sjálfs væri það ekki óalgengt að jafnvel staðla sem væru tiltölulega einfaldir að uppbyggingu tæki um það bil þrjú ár að smíða. Þar skiptir auðvitað mestu að staðallinn byggir á sátt allra þeirra aðila sem að verkinu koma.
Og núna stöndum við hér með frumvarp að staðli í höndunum.
Í samræmi við hversu lýðræðislega er staðið að gerð staðalsins er með þessum fundi opnað fyrir umsagnarferli, þar sem allir, sem áhuga kunna að hafa, geta kynnt sér frumvarpið og sent inn athugasemdir og ábendingar.
Tækninefnd mun vinna úr þessum umsögnum og gefa staðalinn endanlega út í desember næstkomandi. Þá hefst hin eiginlega vegferð staðalsins til þeirra sem áhuga hafa á því að innleiða hann.
Ég bind gríðarlega miklar vonir við íslenskt atvinnulíf að þessu leyti, að það sýni þá framsýni, dug og djörfung að taka þessu verkfæri fagnandi og hrinda því í notkun.
Góðir gestir.
Ég tel tímamótaverk hafa verið unnið. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka af heilum hug öllum þeim sem að því hafa komið á vettvangi tækninefndar og Staðlaráðs og ekki síst þeim sérfræðingum sem hafa lagt verkefninu ómælt lið.
Ég óska okkur öllum til hamingju með daginn !