Bjartsýni og bölmóður
Það er engum blöðum um að fletta að góður gangur er í íslensku efnahagslífi. Hagtölur tala skýru máli: hratt dregur úr atvinnuleysi, verðbólga rénar, gengið styrkist, aflaverðmæti eykst og ferðaþjónusta er í blóma. Það er bjart yfir Íslandi.
Atvinnulausum fækkar , störfum fjölgar
Jafnt og þétt dregur úr atvinnuleysi. Í júní sl. voru 8.700 á atvinnuleysiskrá og atvinnuleysi mældist 4,8%. Á tólf mánuðum fækkaði atvinnulausum á skrá um 3.000 og atvinnuleysi minnkaði um tæp 2 prósentustig. Hagstofan spáir 6% atvinnuleysi á árinu í heild og 5,3% á því næsta, en full ástæða er til meiri bjartsýni um þá þróun. Tölur Vinnumálastofnunar sýna einnig að á síðustu 12 mánuðum hefur verulega dregið úr langtímaatvinnuleysi, þeim sem verið hafa án atvinnu í ár eða lengur fækkar um nærfellt fjórðung.
Mikill árangur hefur náðst með markvissum vinnumarkaðsaðgerðum. Ungt atvinnulaust fólki hefur fengið tækifæri til menntunar og þeim sem búið hafa við atvinnuleysi um langt skeið hafa fengið tímabundna atvinnu. Þetta skilar árangri í bráð og í lengd.
Störfum fjölgar eins og vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands sýnir. Á öðrum ársfjórðungi 2012 fjölgaði starfandi fólki um 2.100 frá sama tíma í fyrra eða um 1,2%.
Verðbólga í rénun
Nú dregur hratt úr verðbólgu. Verðbólguskotið sem hófst um mitt ár í fyrra er að ganga hratt og örugglega til baka. Verðbólga í júlí mældist 4,6% og verðlag lækkaði milli júní og júlí um 0,7%. Horfur eru hagstæðar á næstu mánuðum, enda hefur gengi krónunnar styrkst verulega og er nú í júlílok svipað og það var í upphafi árs 2011. Frá áramótum hefur gengið hækkað um 4%. Miklu skiptir nú að styrking krónunnar gæti í verðlagi og hagsmunasamtök og eftirlitsaðilar hljóta að veita versluninni strangt aðhald til þess að hinn almenni neytandi njóti hagstæðara gengis. Með því verður fylgst.
Hagvöxtur og horfur
Margt hefur lagst þjóðinni til að undanförnu. Aflaverðmæti á fyrstu fjórum mánuðum ársins er um fjórðungi meira en á sama tíma í fyrra. Aukning þorskvóta á næsta ári og góðar horfur til næstu ára er mikið fagnaðarefni og mun leggja mikið til hagvaxtar á næstunni. Makrílveiðar hafa sannarlega einnig lagt björg í bú. Ég nefni einnig ferðaþjónustuna sem blómstrað hefur sem aldrei fyrr. Rösklega 13% fleiri erlendir ferðamenn komu til landsins í júní sl. en á sama tíma í fyrra. Eftirtektarvert er einnig að ferðamönnum fjölgaði um rösklega 20% á fyrstu fjórum mánuðum ársins samanborið við sama tíma í fyrra, sem sýnir að átak til að fjölga ferðamönnum að vetrarlagi hefur borið ríkulegan ávöxt.
Hagstofan metur að hagvöxtur á þessu ári verði 2,8% og sér svipaðan hagvöxt í sínum kortum næstu árin. Hagstofan er varfærin í sínum spám og tína má ýmislegt til sem gæti lagst á sveif með meiri hagvexti, þar er einkum vísað til meiri fjárfestinga og afla. Þróun í alþjóðaefnahagsmálum gæti á hinn bóginn valdið okkur búsifjum, bæði er varðar verð á útflutningsafurðum en einnig erlenda fjárfestingu.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur með nýjustu spá sinni sent varnaðarorð um stöðu alþjóðaefnahagsmála. Úr hagvexti dregur á heimsvísu og meðal þróaðra ríkja reiknar AGS með aðeins 1,4% hagvexti í ár og 1,9% á því næsta. Áætlað hefur verið að ef hagvöxtur í okkar viðskiptalöndum minnkar um 1% megi búast við 0,2% samdrætti hjá okkur. Það blasir líka við að óvíða í Evrópu er hagvöxtur jafn mikill og hér á landi nú um stundir. Aðeins Eistland og Pólland státa af meiri hagvexti en við á fyrri hluta þessa árs. Víða um heim er eftir þessum árangri tekið.
Aukin fjárfestning
Mikilvægt stefnumið ríkisstjórnarinnar er að örva hagvöxt og atvinnu m.a. með auknum fjárfestingum. Fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu var í sögulegu lágmarki árið 2010 þegar aðeins tæp 13% af landsframleiðslu var varið til fjárfestinga. Hefur þetta hlutfall hækkað undanfarin ár og reiknar Hagstofan með að hlutfallið verði rösklega 15% í ár og á því næsta. Að mati Hagstofunnar eykst fjárfesting í heild um 12,6% á þessu ári, þar af atvinnuvegafjárfesting um 16%. Margvísleg fjárfestingarverkefni eru í undirbúningi og verulegar líkur á að fjárfesting atvinnulífsins verði meiri en Hagstofan gengur út frá. Þá má einnig minna á metnaðarfulla fjárfestingaáætlun til þriggja ára sem ríkisstjórnin kynnti nú á vordögum sem felur í sér fyrirheit um umtalsverða aukningu fjárfestinga þegar á næsta ári.
Bölsýni getur verið efnahagsvandamál
Það er bjart yfir þjóðlífinu og horfur allgóðar. Hagtölur tala sínu máli eins og hér hefur verið rakið um batnandi þjóðarhag. Ástæða er þó til að hafa áhyggjur af þróun alþjóðaefnahagsmála sem gætu sett strik í reikninginn. En umheimurinn er ekki eina ógnunin. Barlómur og bölsýni stjórnarandstöðu og áhanganda þeirra í hagsmunasamtökum er efnahagsvandamál. Söngur þessa karlakórs verður góðu heilli sífalskari eftir því sem óyggjandi hagtölur sýna skýrari árangur.