Norðfjarðargöng og sóknarfæri Austurlands
Það var mér mikið ánægjuefni að setja ríkisstjórnarfund 8. maí síðastliðinn í virðulega gamla gistihúsinu á Egilsstaðabýlinu sem svo vel hefur verið við haldið og endurnýjað. Við áttum góða fundi með sveitarstjórnarmönnum á Austurlandi og forystufólki þeirra stofnana sem styðja atvinnulífið í fjórðungnum.
Austfirðingar riðu á vaðið þennan dag og stofnuðu með stuðningi ríkisvaldsins Austurbrú, samstarfsvettvang sem vinnur að nýsköpun, þróun og eflingu atvinnulífs í fjórðungnum. Það er einlæg von mín að starfið gangi að óskum og sá grunnur sem lagður var verði fjórðungnum til heilla. Samtímis þessu er ætlunin að framfylgja sóknaráætlunum landshlutanna sem hafa verið í mótun undanfarin misseri. Þær byggjast meðal annars á einföldun á samstarfi landshlutanna annars vegar og stjórnvalda og stjórnarráðsins hins vegar. Þetta samstarf og samtal þarf að vera skilvirkt og markvisst og krefst þess að menn heima í héraði skipuleggi, forgangsraði og mæli fyrir hagsmunum sínum á nýjan og einfaldri hátt en áður. Sama á við í stjórnarráðinu þar sem hópur fólks úr mörgum ráðuneytum kemur að úrvinnslu mála, t.d. innan sóknaraáætlananna.
Í gegn um fjöllin
Austurland og Vestfirðir eiga það sameiginlegt að búa við sérstaka samgönguerfiðleika. Fjallvegir eru margir og sumir þeirra eru þungfærir eða ófærir mánuðum saman á veturna. Gerð jarðganga og fjölgun þeirra breytir því mannlífinu og búsetuskilyrðum verulega til batnaðar í þessum landshlutum rétt eins og um miðbik Norðurlands. Það var okkur því kappsmál að geta treyst fjármögnun slíkra mannvirkja og flýtt þeim, m.a. með því að leggja sérstakt veiðigjald á útgerðina, eins og samþykkt var á Alþingi snemma sumars. Á grundvelli fjárfestingaráætlunar ríkisstjórnarinnar 2013 - 2015 og samgönguáætlunar er undirbúningur jarðganga milli Norðfjarðar og Eskifjarðar hafinn. Áætlað er að verkið verði boðið út öðru hvoru megin við áramótin og að framkvæmdir hefjist á miðju næsta ári. Það verður sannarlega áhrifarík aðgerð til þess að gera Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað í raun að einu samfelldu atvinnusvæði. Stóriðjan í Reyðarfirði hefur leitt til um 40% fjölgunar íbúa á síðustu árum og með bættum samgöngum við Neskaupstað má ætla að búsetuskilyrði og öryggi íbúa verði jafnara innan Fjarðabyggðar allrar. Enginn velkist í vafa um hve þýðingarmikil jarðgöngin milli Reyðarfjarðar og Fásksrúðsfjarðar hafa verið fyrir íbúana og atvinnusvæðið allt um miðbik Austurlands.
Innviðirnir og atvinnan
Fjárfestingaráætlunin, sem áður var nefnd, gerir einnig ráð fyrir fjármögnun rannsókna- og tækniþróunarsjóða og markaðsáætlana. Loks er gert ráð fyrir að verja af þessum tekjustofni umtalsverðum fjármunum næstu þrjú árin til sóknaráætlana landshlutanna. Eignasala á hlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum og arðtaka af þeim skilar einnig fé til uppbyggingar ferðamannastaða, verkefnasjóða skapandi greina og grænna og orkusparandi verkefna.
Það er ánægjulegt að sjá að atvinnulausu fólki fækkar á Austurlandi. Nýleg gögn Vinnumálastofnunar sýna að atvinnuleysi í júlí sl. hafi aðeins verið 1,9% í fjórðungnum. Í júlí í fyrra var það 2,9%. Reyndar er atvinnuleysi hvergi minna en á Austurlandi ef frá er talið Norðurland vestra. Þetta helst í hendur við jafnan 2,5 til 3 % hagvöxt í landinu. Þau ánægjulegu tíðindi berast einnig að verðbólga minnki enn; hún nam liðlega 4 prósentum síðustu tólf mánuði samkvæmt mælingum Hagstofunnar.
Ástæða er til bjartsýni á Austurlandi með traustari innviðum og vænlegri búsetu- og atvinnuskilyrðum en áður.