Hoppa yfir valmynd
09. október 2012 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Varanlega bætt búsetuskilyrði

Fáir vita það jafn vel og íbúar Vestfjarða hversu þýðingarmiklar góðar og öruggar samgöngur eru fyrir mannlíf og búsetu. Ríkisstjórnin kynntist þessu af eigin raun þegar haldinn var ríkisstjórnarfundur á Ísafirði 5. apríl í fyrra. Þegar loksins tókst að halda fundinn reyndist hann mjög gagnlegur. Það var hollt að fara yfir málefnin í návígi við heimamenn og á heimaslóðum þeirra.
Á fundinum var farið yfir margvísleg framfaramál landshlutans. En margt hefur einnig gerst síðan þá. Hækkun veiðigjalds hefur verið lögfest. Í krafti tekna m.a. af veiðigjaldinu hefur ríkisstjórnin sett fram fjárfestingaráætlun sem gerir ráð fyrir því að gerð Dýrafjarðarganga verði flýtt. Nú er áætlað að forval vegna framkvæmda við 5,6 kílómetra löng göngin fari fram árið 2015 og framkvæmdir hefjist í kjölfarið.
Íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum hafa búið við erfiðar vetrarsamgöngur um Barðaströndina. Það er eðlileg krafa þeirra að fá þar lagðan láglendisveg sem veitir samgönguröyggi allt árið. Að því er nú unnið sem kunnugt er. Sama á við um ýmsar aðrar vegabætur í landshlutanum.

Stöðugar umbætur

En það er ekki svo að í þessum efnum ríki kyrrstaða. Fyrir þremur árum var nýr vegur um Arnkötludal (Þröskuldar) tekinn í notkun. Um svipað leyti var ný brú yfir Mjóafjörð í Ísafjarðardjúpi vígð en hún stytti vetrarleiðina þar um 30 kílómetra og færði hana niður á láglendi. Fyrir réttum tveimur árum voru svo Bolungarvíkurgöngin tekin í notkun.
Þótt stofnkostnaður samgöngumannvirkja sé hár er það hafið yfir vafa að þau gerbreyta varanlega innviðum samfélaganna sem þeirra njóta. Það ætti því að vera Vestfirðingum fagnaðarefni að ráðgert er að leggja sérstaka áherslu á samgöngumál á Vestfjörðum á næstu árum eins og endurspeglast í áliti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. 

Sókn og tækifæri

Ríkisstjórnin hefur margt á prjónunum sem horfir til framfara á Vestfjörðum eins og fram kom á ríkisstjórnarfundinum forðum á Ísafirði. Fyrir skemmstu undirritaði velferðarráðherra samning um byggingu og leigu á nýju hjúkrunarheimili fyrir aldraða í Bolungarvík. Síðla árs í fyrra undirritaði hann samning um byggingu 30 rýma hjúkrunarheimilis á Ísafirði sem nú er að komast á framkvæmdastig. Nefna má einnig áætlanir um jöfnun húshitunarkostnaðar og frekari gerð ofanflóðavarna á Ísafirði og Patreksfirði. Þá voru auknar fjárheimildir á þessu ári til að jafna flutningskostnað í þágu iðnaðar- og vöruframleiðslu á landsbyggðinni.
Ég legg kapp á að framfylgja sóknaráætlunum landshlutanna sem hafa verið í mótun undanfarin misseri. Á næsta ári er gert ráð fyrir að alls 400 milljónum króna verði varið til þessara sóknaráætlana. Þær byggjast á einföldun á samstarfi landshlutanna og stjórnvalda. Þetta samstarf og samtal þarf að vera skilvirkt og markvisst og krefst þess að menn heima í héraði forgangsraði og mæli fyrir hagsmunum sínum á nýjan og einfaldri hátt en áður. Sama á við um stjórnarráðið sem vinnur úr málum sem afgreiða þarf.

Að nýta sérstöðuna

Þingmenn kjördæmisins hafa beitt sér fyrir því að landshlutarnir verði sérgreindir með hliðsjón af rannsóknum, kennslu og atvinnuþróun og lagt fram þingsályktunartillögu þar um. Ólína Þorvarðardóttir, Samfylkingunni, og þingmenn annarra flokka í kjördæminu hafa jafnframt lagt fram tillögu sem snýr sérstaklega að því að skilgreina Vestfirði sem vettvang kennslu í sjávaraútvegsfræðum og rannsókna á málefnum hafsins. Það er von mín að Alþingi samþykki þessa tillögu sem styrkja mun Háskólasetur Vestfjarða og önnur fræðasetur sem nú þegar er vísir að á Vestfjörðum.
Það er einnig von mín að í vetur takist að greiða úr ágreiningsmálum er varða fyrirhugaðar breytingar á stjórn fiskveiða. Vestfirðingar eiga þar mikilla hagsmuna að gæta, ekki síst er varðar veiðar smábáta og minni útgerða sem sækja gjöful miðin undan Vestfjarðakjálkanum.
Vestfirðingar hafa verið þeirrar gæfu aðnjótandi að atvinnuleysi hefur haldist þar í lágmarki þrátt fyrir efnahagskreppuna. Byggðaþróunin hefur þó verið þeim mótdræg og íbúum hefur fækkað líkt og á við um ýmis önnur landsvæði. Mest eiga þeir undir áframhaldandi samgöngubótum og aukinni fjölbreytni atvinnulífsins. Tækifærin eru mörg, ekki aðeins í sjávarútvegi og fiskeldi heldur einnig í ferðaþjónustu og í ýmis konar nýsköpun sem ríkisstjórnin styður heilshugar eins og sjá má í áðurgreindri fjárfestingaráætlun. Með batnandi búsetuskilyrðum eiga Vestfirðingar því að geta horft glaðbeittir fram á veginn.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta