Hoppa yfir valmynd
18. október 2012 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Ræða forsætisráðherra í sérstökum umræðum á Alþingi um stjórnarskrármál

Ræða Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í sérstökum umræðum á Alþingi um stjórnarskrármál 18. október 2012.

Virðulegi forseti.
Á laugardaginn fá landsmenn, kjósendur í þessu landi, einstakt tækifæri til að hafa bein áhrif á mótun þeirra grunnreglna sem samfélag okkar verður byggt á til framtíðar. Ég hef sagt það áður og segi það enn, að þetta er tækifæri sem engin kosningabær Íslendingur ætti að láta fram hjá sér fara. Það er engin trygging fyrir því að annað eins tækifæri til að hafa áhrif á grunnskipan samfélagsins gefist í náinni framtíð.

Virðulegi forseti
Við lýðveldisstofnun voru flestir sammála um að brýnt væri að ráðast fljótt í heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Stjórnarskráin var á sínum tíma sett til bráðabirgða. Um það vitna glöggt margra áratuga gamla tilvitnanir t.d. í Svein Björnsson fyrrverandi Forseta Íslands sem Guðni Th Jóhannesson vitnað til á fundi í gær.

Reynslan hefur sýnt að þrátt fyrir allmargar tilraunir í marga áratugi hefur slík heildstæð endurskoðun stjórnarskrárinnar reynst Alþingi ofviða.

Ástæður þessa eru margþættar en ljóst má vera að mörg þeirra álitamála sem undir eru hafa reynst Alþingi erfið úrlausnar enda varða þær jafnan beina hagsmuni stjórnmálaflokkanna og einstakra þingmanna með einum eða öðrum hætti.

Virðulegi forseti
Það er sannfæring mín að rík aðkoma fólksins í landinu sé forsenda þess að unnt verði að ná fram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.  Í því ljósi lagði ég árið 1994 og aftur árið 1998 fram frumvarp þar sem ég lagði til að kosið yrði til sérstaks stjórnlagaþings.

Það var því  mikið fagnaðarefni að Alþingi samþykkti vorið 2010 að setja endurskoðun stjórnarskrárinnar í lýðræðislegt ferli sem tryggði beina aðkomu fólksins í landinu.

Sú vegferð sem Alþingi mótaði var afar metnaðarfull og þinginu til mikils sóma. Með þeirri ákvörðun sýndi Alþingi því loks skilning að heildstæð endurskoðun stjórnarskrárinnar er stærra mál en svo að það verði alfarið til lykta leitt innan veggja Alþingis.

Virðulegi forseti
Ferill málsins frá samþykkt Alþingis árið 2010 hefur verið um 1000 manna þjóðfund, til sérfræðinganefndar, frá sérfræðinganefndinni til stjórnlagaráðs, sem skipað var í samræmi við niðurstöður almennra og lýðræðislegra kosninga og aftur til Alþingis sem undirbúið hefur þjóðaratkvæðagreiðsluna um komandi helgi.

Heildstæðar tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá fyrir íslenska þjóð, sem samþykktar voru einróma af ráðinu, vekja vonir um nýtt og betra lýðveldi.

Lýðveldi sem markast af djúpri virðingu fyrir mannréttindum, fyrir náttúru og lífríki landsins, lýðveldi þar sem almannahagsmunir eru settir ofar einkahagsmunum og auðlindir lands og sjávar, sem ekki eru í einkaeigu, eru lýstar þjóðareign.

Lýðveldi þar sem fólkið sjálft getur haft raunveruleg áhrif á málefni líðandi stundar. Lýðveldi þar sem leikreglur lýðræðisins og hlutverk ólíkra handhafa ríkisvalds er skýrt afmarkað.

Forseti
Tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá fela í sér mikilvægar umbætur í stjórnskipan landsins. Eigum við að leggja þær tillögur til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Svar mitt við þeirri spurningu er tvímælalaust JÁ, það eigum við að gera. Munum við gera það? Svarið við því er í höndum kjósenda þessa lands næstkomandi laugardag.

Virðulegi forseti. Gefið er í skyn að ef samþykkt verður að leggja  tillögurnar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá megi ekki við neinu hrófla sem þar stendur við þinglega meðferð málsins.

Þetta er vitaskuld ekki rétt. Verði niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar jákvæð mun frumvarpið verða lagt fyrir Alþingi til efnislegrar umfjöllunar og afgreiðslu. Í því þinglega ferli kunna breytingar að verða gerðar eins og raunar kemur skýrt fram á kjörseðlinum sjálfum.

Forseti
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur þegar falið nefnd sérfræðinga að yfirfara tillögur stjórnlagaráðs með hliðsjón af lagatæknilegum atriðum, innra samræmi, orðalagi og hugsanlegum annmörkum.

Efnislegar breytingar munu jafnframt koma til álita séu færðar fyrir þeim gild rök og ef slíkt reynist nauðsynlegt til að taka tillit til niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar um aðrar spurningar sem upp eru bornar. Vald Alþingis til að gera slíkar breytingar verður ekki véfengt.

Jákvætt svar í þjóðaratkvæðagreiðslunni mun öðru fremur gefa skýr skilaboð til Alþingis um að fólkið í landinu óski þess að endurskoðunarferlinu verði lokið með nýrri stjórnarskrá, sem Alþingi afgreiði fyrir næstu Alþingiskosningar.  

Virðulegi forseti.
Ljóst er að verði niðurstaðan neikvæð verður ekki unnt að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá fyrir næstu alþingiskosningar. Frá mínum sjónarhóli væri það sorglegur endir á því merka lýðræðisferli sem málið hefur fengið að þróast og þroskast í, ferli sem víða hefur vakið verðskuldaða athygli og gæti orðið örðum þjóðum til eftirbreytni.

En valdið og valið er kjósenda. Við neikvæða niðurstöðu ber að una jafnt sem jákvæða. Það ættu að vera megin skilaboð Alþingis til þjóðarinnar í þessari umræðu.

Neikvæð niðurstaða mun hins vegar ekki breyta því að þörfin fyrir heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar verður söm og áður og ég óttast mjög að mörg ár ef ekki áratugir muni líða áður en niðurstaða fæst um slíka endurskoðun, ef þetta tækifæri fer forgörðum.

Neikvæð niðurstaða við fyrstu spurningunni útilokar hins vegar ekki að tilteknar afmarkaðar breytingar verði gerðar á stjórnarskránni fyrir næstu alþingiskosningar í samræmi við afstöðu þjóðarinnar  til  hinna fimm spurninganna sem jafnframt verða bornar upp í atkvæðagreiðslunni;

  • Hvort auðlindir sem ekki eru í einkaeigu verði lýstar þjóðareign  
  • Hvort auka eigi persónukjör í kosningum til Alþingis  
  • Hvort atkvæði kjósenda alls staðar af landinu eigi að vega jafnt
  • Hvort tiltekið hlutfall kosningabærra manna eigi að geta krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og
  • Hvort ákvæði um þjóðkirkju eigi að vera í stjórnarskrá

Alþingi ber að sjálfsögðu skylda til að taka niðurstöður í þessum spurningum til gaumgæfilegrar skoðunar og afgreiðslu  til að bregðast við þeim þjóðarvilja sem þar mun birtast.

Virðulegi forseti
Ég vill leyfa mér hvetja háttvirta þingmenn til að gæta hófs í þeirri umræðu sem nú fer hér fram um þetta mikilvæga mál, umræðu sem haldin er svo skömmu áður en kjósendur fá sitt tækifæri til að segja hug sinn til málsins. Forðumst upphrópanir og palladóma um efni málsins.

Ómaklegt er, svo ekki sé sterkara að orði kveðið, að kalla afrakstur vinnu þeirra þúsunda Íslendinga sem komið hafa að undirbúningi tillagna stjórnlagaráðs fúsk svo dæmi sé tekið.

Jafn ómálefnalegt er að kalla almenna lýðræðislega þjóðaratkvæðagreiðslu, sem Alþingi hefur ákveðið lögum samkvæmt að fram skuli fara, skoðanakönnun.  Höfum í huga að málið er í eðli sínu ekki flokkspólitískt og á ekki að vera það. Tillögur þær sem fyrir liggja eru það ekki heldur.

Þær eru sprottnar úr grasrót samfélags okkar.

Virðulegi forseti
Ég hvet alla kosningabæra Íslendinga til að mæta á kjörstað næstkomandi laugardag og nýta atkvæðisrétt sinn. Einn meginkjarninn í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er aukið beint lýðræði, og flutningur valds frá stjórnmálaflokkunum til fólksins.

Góð þátttaka í komandi atkvæðagreiðslu mun undirstrika vilja fólks til slíkra breytinga.  

Látum ekki þetta tækifæri fram hjá okkur fara.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta