Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2012 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Viðurkenning Barnaheilla á afmælisdegi barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna – ávarp forsætisráðherra.

Ágætu gestir.
Það er ánægjulegt að fá að vera hér með ykkur í dag og gaman að hlusta á þessa ungu hljóðfæraleikara, sem eru svo sannarlega glæsilegir fulltrúar sinnar kynslóðar.

Já, það er mikið ríkidæmi að eiga börn og sú þjóð sem hlúir vel að börnum og unglingum hlýtur að leggja grunn að heilbrigðu og sterku samfélagi. 

Ég trúi því að það gerum við Íslendingar í dag og staðreyndin er sú að margt bendir til þess að svo sé m.a. þegar litið er til alþjóðlegs samanburðar.

Samkvæmt árlegri skýrslu Barnaheilla sem út kom í vor er best að vera barn á Íslandi. Sú niðurstaða byggir á margvíslegum samanburði s.s. á heilsu, menntun og næringu.
Einnig má nefna að í skýrslu UNICEF sem út kom fyrr á þessu ári mælist Ísland með minnstu barnafátækt í heimi.

Sú skýrsla veitir þó vísbendingar um að börn foreldra með litla menntun, innflytjenda og atvinnulausra séu líklegri til þess að líða skort en aðrir hópar.

Til þessara hópa verðum við því að líta sérstaklega og horfa til þess hvernig við getum tryggt sem jafnastar aðstæður fyrir börn hér á landi, óháð tekjum og stöðu foreldra.
Það getum við gert með margvíslegum stuðningi bæði frá ríki og sveitarfélögum og jafnvel félagasamtökum s.s. íþróttafélögum.

Það hlýtur að vera metnaðarmál fyrir okkur, sem búum í ekki fjölmennara samfélagi, að styðja við börn og fjölskyldur sem búa við erfiðar aðstæður.

Fátt er sárara en að horfa uppá barn sem verður að sitja hjá vegna fátæktar og við eigum að stuðla að því að slík börn hljóti stuðning.

Sem betur fer hafa verið gerðar úrbætur á ýmsum sviðum í þessu skyni s.s. með hækkun barnabóta og margvíslegra annarra aðgerða á grundvelli aðgerðaætlunar til að styrkja stöðu barna og ungmenna frá árinu 2007 – 2011. 

Má þar m.a. nefna verulega aukna fjármuni í þágu barna og ungmenna með hegðunar- og geðraskanir og samþykkt samnings Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misnotkun og kynferðisofbeldi.

Þá er í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi gert ráð fyrir verulega auknu framlagi til þróunarsamvinnu en Ísland vinnur m.a. að framgangi mennta- og heilbrigðismála meðal barna í þróunarríkjum og mæðra þeirra.

Við sem búum við góðar aðstæður eigum að láta okkur varða aðbúnað annarra þjóða. Við höfum undanfarna daga fylgst með skelfilegum fréttum af árásum á Gaza-svæðinu og hugur okkar er hjá óbreyttum borgurum, og  sérstaklega börnum, sem búa nú við hörmulegar aðstæður og lifa í ótta og óöryggi á meðan ekki hefur tekist að koma á vopnahléi.

Aðstæður barna sem alast upp við átök af þessu tagi geta mótað þau fyrir lífstíð.

Góðir gestir.
Enda þótt efnahagshrunið hér á landi hafi  vissulega sett strik í reikninginn á öllum sviðum hefur okkur, eins og alþjóðlegur samanburður sýnir, tekist að verja grunnþætti velferðarkerfisins s.s. heilbrigðisþjónustu og menntun sem er aðgengileg fyrir alla.
Í fjárlagfrumvarpi fyrir árið 2013 eru stigin mikilvæg skref sem varða hag barna og ungmenna og má þar nefna lengingu fæðingarorlofs, auknar barnabætur og auknar fjárveitingar til þjónustu við börn sem greinast með ADHD.

Við vitum að mikið vinnuálag á foreldrum bitnar á börnunum og hið sama má segja um lífsgæðakapphlaupið, sem náði hámarki á árunum fyrir hrun, þegar allt ætlaði um koll að keyra.

Fram hefur komið í opinberri umræðu að hrunið hafi hugsanlega opnað augu margra og breytt verðmætamati og forgangsröðun og að fjölskyldur eyði nú meiri tíma saman, enda samverustundir með foreldrum það sem börn og unglingar meta meira en nokkuð annað. 
Mér virðist að ungir foreldrar deili í dag jafnar með sér verkum en áður var og á það ekki síst við um umönnun barna. 

Foreldrar eru mikilvægar fyrirmyndir barna sinna og það hvernig við komum fram inni á heimilum við börnin okkar hefur áhrif á það hvernig þjóðfélagsþegnar þau svo verða.
Þannig getur verkaskipting á heimilum og samskipti og gagnkvæm virðing stuðlað að heilbrigðu samfélagi þar sem jafnrétti og mannréttindi eru virt á öllum sviðum.
En enda þótt benda megi á margt jákvætt þegar litið er til þróunar samfélags okkar er það, einsog ég nefndi hér áður, því miður staðreynd að sum börn og unglingar búa við lakari aðstæður af mismunandi ástæðum. Þessi hópur má ekki gleymast og að honum verðum við að hlúa.

Barnaheill hefur m.a. unnið mjög mikilvægt starf gegn ofbeldi gegn börnum og fyrir það vil ég þakka. Börn mega sín oft lítils eins og dæmin sanna því miður og ofbeldi getur birst í ýmsum dökkum myndum.

Barnaheill hefur m.a. verið óþreytandi við að vekja athygli á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en 12. gr. sáttmálans kveður á um að barn eigi rétt á að láta skoðanir sínar í ljós og að virðing sé borin fyrir þeim.

Það er afar mikilvægt í okkar fámenna samfélagi að við séu vakandi fyrir nærumhverfi okkar með það fyrir augum að hlusta á börnin, leggja þeim lið og veita skjól þar sem þess er þörf.

Nútímasamfélagið og nútímatæknin færa okkur vissulega margt jákvætt, en við verðum sífellt að vera vakandi yfir hættum sem kunna að skapast, hvort sem er inni á heimilum eða utan þeirra. Það er sameiginleg ábyrgð okkar allra að byggja upp samfélagsnet og þjónustu sem er til staðar þegar eitthvað bjátar á.

Ég þekki vel úr mínu fyrra starfi sem félagsmálaráðherra hve mikilvægt er að þeir sem koma að umönnun barna á öllum stigum og almenningur sé vel vakandi og að barnaverndaryfirvöld komi sem fyrst að málum ef aðbúnaður virðist ekki sem skyldi.

Ágætu gestir.
Við eigum öll að hjálpast að við að byggja börnum og unglingum sem heilbrigðast umhverfi og aðbúnað, heima og heiman.

Ef við erum góðar fyrirmyndir, fræðum, leiðbeinum og sýnum samhjálp í orði og verki þá aukast líkur á því að börnum okkar og unglingum líði vel og tileinki sér heilbrigða lífssýn.
Ég vill þakka Barnaheillum fyrir mikið og gott starf og fyrir að vera ötul við að vekja athygli á málefnum barna og jafnframt öðrum þeim sem koma að umönnum barna og unglinga á öllum stigum og vinna mikilvæg störf dag hvern.

Framundan er aðventan og jólin, sem er tími margra samverustunda í flestum fjölskyldum. Megi okkur öllum takast að nýta þær sem best með okkar fólki og gleðjast einlæglega með börnum og unglingum og eiga með þeim skemmtilegar stundir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta