Hoppa yfir valmynd
31. desember 2012 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Framtíð án frjálshyggju

Mikill árangur hefur verið af uppbyggingarstarfinu eftir hrun. Enn er þó verk að vinna, enn þarf að byggja upp og treysta innviðina, velferðina og byggðina í landinu. Við verðum að losa okkur úr álögum gjaldeyrishaftanna, ljúka uppgjöri fallinna fjármálastofnana og ná samstöðu um framtíðargjaldmiðil þjóðarinnar. Við megum ekki þrengja kosti okkar með óbilgjarnri einangrunarhyggju. Auknar fjárfestingar byggja ekki síst á alþjóðlegu samstarfi.

Reglulega berast fréttir frá erlendum fjölmiðlum sem taka eftir árangrinum og stofnanir á borð við OECD og Norðurlandaráð færa þennan margvíslega árangur til bókar með samanburði á helstu hagvísum þjóðanna. Fréttirnar endurspegla þverrandi fjárlagahalla, stöðugan hagvöxt, minnkandi atvinnuleysi, aukinn kaupmátt, minnkandi skuldir, minni ójöfnuð og aukið lánshæfi.

Fólki verður líka æ ljósara að róttæk frjálshyggja leiðir til ójafnaðar líkt og gerðist á löngum stjórnarferli Sjálfstæðisflokksins.  Afgerandi viðsnúningur varð eftir að ríkisstjórn Samfylkingarinnar og VG tók við stjórnartaumunum og nú er Íslandi í hópi þeirra landa í Evrópu þar sem ójöfnuðurinn er hvað minnstur.

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór frá völdum hafði ójöfnuður og stéttaskipting í samfélaginu aukist til muna enda gekk þeirra pólitíska stefna út á það leynt og ljóst. Þetta hefur gjörbreyst. Séu fjármagnstekjur taldar með hefur ójöfnuður ráðstöfunartekna í landinu minnkað um tæpan helming frá árinu 2007.

Sjálfstæðismenn tala með lítilsvirðingu um aðgerðir til að draga úr ójöfnuði, heimta skattalækkanir fyrir þá sem hafa rúmt handa á milli og tala fyrir einkavæðingu líkt og áður. Þeir voru helstu talsmenn frjálshyggju fram að hruni og eru það enn.  

Lærum af reynslunni

Snemma í nóvember samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um rannsókn á einkavæðingu bankanna. Mikilvægt er að sú rannsókn fari fram enda er talið að þar liggi rætur bankahrunsins að verulegu leyti.  Sjálfstæðisflokkurinn barðist gegn rannsókninni enda virðist hann ekkert hafa lært og einskis iðrast, þó blasir það við að hrunið og afleiðingar þess eru skilgetin arfleifð stjórnarstefnu Sjálfstæðisflokksins – ekki síst þess tímabils þegar núverandi ritstjóri Morgunblaðsins stýrði málum í Stjórnarráði Íslands og Seðlabankanum.

Á síðasta heila ári Sjálfstæðisflokksins við völd varð 216 milljarðar króna halli á ríkissjóði en á næsta ári verður hallinn tæpir fjórir milljarðar. Samanlagður halli ríkissjóðs vegna stjórnleysis Sjálfstæðisflokksins er yfir 540 milljarða króna og kostnaður ríkisins við gjaldþrot Seðlabankans undir forystu sjálfstæðismanna um 270 milljarðar króna. Samanlagt  hljóðar þessi reikningur Sjálfstæðisflokksins uppá rúmlega 1,6 milljónir  króna á hvern Íslending. Á vakt sjálfstæðismanna hrundi auk þess 90% af fjármálamarkaðinum, verðbólga fór upp í tæp 19% og gengi krónunnar féll um 50%. Eftir að ríkisstjórn mín tók við hefur viðsnúningurinn verið afgerandi. Núna er hagvöxtur á Íslandi meiri en víðast annars staðar í Evrópu og verðbólgan ekki fjórðungur af því sem áður var.  

Óstjórn sjálfstæðismanna í fjármálum bitnar ekki aðeins á ríkissjóði heldur einnig almenningi beint. Kaupmáttur heimila hrundi.  Sé tímabilið 2008-2010 borið saman við 2009-2011 sést að ráðstöfunartekjur hafa hækkað meira en neysluútgjöld og ríkið tekur nú minna til sín af þjóðarkökunni en í tíð Sjálfstæðisflokksins og ver stærri hluta hennar til velferðarmála. Um 60% allra heimila eru með lægri eða sömu skattbyrði og þau voru með fyrir hrun. Í tíð Sjálfstæðisflokksins jókst hins vegar skattbyrði almennings til muna. Á árinu 2011 voru skattar á Norðurlöndum lægstir á Íslandi sem hlutfall af landsframleiðslu.

Goðsögnin og hagstjórnin

Skuldir heimila og fyrirtækja jukust einnig vegna óstjórnar sjálfstæðismanna en nú hafa þær lækkað sem nemur um tvöfaldri landsframleiðslu á einungis þremur árum. Rétt rúmlega 200 milljarðar króna hafa verið afskrifaðar af lánum heimilanna og niðurgreiðsla ríkisins á vaxtakostnaði heimilanna hefur verið meira en tvöfölduð. Á síðasta ári stóðu vaxtabætur undir um 35% vaxtakostnaðar vegna húsnæðislána og hjá tekjulægstu 10% heimila nálægt 45%.

Hagvaxtarhorfur hér á landi eru bjartari en meðal annarra iðnvæddra ríkja. Hagvöxtur hefur verið mestur hér á landi undanfarin tvö ár meðal þróaðra OECD-ríkja. Það er góður árangur sem ástæða er til að gleðjast yfir.

Goðsögnin um ráðdeild sjálfstæðismanna í hagstjórn ætti því að vera endanlega dauð. Staðreyndirnar sýna svart á hvítu að það skiptir miklu máli fyrir Íslendinga hvort sjálfstæðismenn eða jafnaðarmenn eru við stjórnvölinn.

Auðlindir í eigu þjóðar

Undanfarin ár hefur sjávarútvegurinn notið gengisfalls krónunnar eins og aðrar útflutningsgreinar og árleg framlegð greinarinnar  verið 70 til 75 milljarðar króna undanfarin tvö ár. Af þessari miklu framlegð í greininni á veiðigjaldið að skila landsmönnum allt að 13 milljörðum króna á næsta ári. Almenningur nýtur því loksins arðs af auðlind sinni en mikilvægt er að ná fram enn frekari breytingum á stjórn fiskveiða sem tryggja betur nýliðun og jafnræði í greininni.

Með sérstakri fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar er þeim vilja lýst að þennan arð skuli nota að umtalsverðu leyti til að teysta innviði samfélagsins og örva nýsköpun í atvinnulífinu með tvöföldun á framlagi í vísinda og tæknisjóði ásamt því að veita umtalsverðu fjármagni í skapandi greinar og græna atvinnusköpun. Þannig er hafin ný sókn fjölbreyttara og sterkara atvinnulífs, sem tryggir betur atvinnumöguleika í framtíðinni, ekki síst unga fólksins.

Vísbendingar sýna að hugverkaiðnaðurinn skilar nú þjóðarbúinu 20% af gjaldeyristekjum þess og vöxtur í þessum greinum hafi verið umfram hagkerfið í heild.

Í byrjun næsta árs verður lögfest á Alþingi rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Samþykkt hennar felur í sér breytt vinnubrögð þar sem pólitískt handafl stjórnvalda heyrir sögunni til, en viðskiptaleg og umhverfisvæn sjónarmið ráða ferðinni.

Hvað varð um kjarkinn?

Það hefur ætíð verið sannfæring mín að rík aðkoma fólksins í landinu sé forsenda þess að unnt verði að ná fram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Tillögu þar að lútandi lagði ég fyrir Alþingi þegar árið 1994.  Í tíð núverandi ríkisstjórnar  mótaði Alþingi loks aðferðir sem miðuðu að þessu. Þær voru metnaðarfullar og þinginu til sóma.

Nú liggur fyrir heildstæð tillaga um breytta stjórnarskrá. Og þá er líkt og eitthvert kjarkleysi grípi um sig í herbúðum stjórnarandstöðunnar og ekki laust við að örli á vantrausti í garð kjósenda eða þeirra sem kjósendur og þing völdu til verka. Sama virðist eiga við um aðildarumsóknina að ESB. Þar leggur stjórnarandstaðan allt kapp á að koma í veg fyrir að þjóðin hafi síðasta orðið um fullbúinn samning í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við verðum að hafa kjark til þess að horfast í augu við okkur sjálf og marka okkur leið inn í framtíðina. Það fer best á því að þjóðin hafi sjálf síðasta orðið um þessi mikilvægu mál, hvort heldur það snýr að stjórnskipan landsins eða sambúðinni við mikilvægustu viðskiptalönd okkar og Evrópu alla.

Ég óska landsmönnum öllum gæfu og góðs gengis á komandi ári.

 

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta