Sigur náttúru og þjóðar
Eftir áralangar deilur samþykkti Alþingi rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Afgreiðsla þessa máls markar tímamót og mun tryggja fagleg vinnubrögð við undirbúning virkjanaframkvæmda og sporna gegn því að í framtíðinni verði viðkvæmum og verðmætum náttúrusvæðum fórnað á altari skyndigróða eða sérhagsmuna einstakra stóriðjuvera. Handahófskenndar ákvarðanir í virkjunarmálum án tillits til verndarsjónarmiða ættu nú að heyra sögunni til. Náttúran fær nú að njóta vafans og margar náttúruperlur Íslands settar í verndarflokk í þessari lotu.
Stuðlar að aukinni sátt
Rammaáætlunin felur í sér skynsamlega og faglega aðferð við að ákveða hvaða svæði óhætt sé að virkja. Hún er þannig verkfæri í höndum okkar. Allt byggist á þeirri hugsun að það sem virkjað er í dag verður ekki verndað síðar. Í öðru lagi fá komandi kynslóðir tækifæri til að taka sínar ákvarðanir um náttúruna í krafti sjálfbærrar stefnu nútímans. Þriðji hornsteinn rammaáætlunarinnar er svo vitanlega sá að ef upplýsingar og rannsóknir skortir er hægt að setja umdeilda valkosti í biðflokk þar til öllum skilyrðum um faglegar rannsóknir og mat liggja fyrir.
Athyglisvert er að deilurnar um rammaáætlun á Alþingi stóðu aðeins um 6 kosti af alls 67 í öllum þremur flokkunum; verndarflokki, biðflokki og orkunýtingarflokki. Þeir rötuðu í biðflokkinn meðal annars af þeirri ástæðu að margar rökstuddar efasemdir bárust þegar einstaklingum, hagsmunafélögum og fyrirtækjum gafst kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ekki er við því að búast að allir verði á eitt sáttir um niðurstöðuna þegar yfir lýkur frekar en oft áður þegar umhverfisáhrif hafa verið metin og niðurstaða fæst. En við erum komin skrefinu lengra en áður við að meta kostina á faglegan hátt og stíga varlega til jarðar þegar náttúran á í hlut. Norðmenn hafa verið okkur fyrirmynd í þessu efni og reynsla þeirra er góð.
Það er einnig skynsamlegt að bíða átekta og hafa rammaáætlunina í heiðri meðan allt að 100 megavött af raforku eru óseld miðað við núverandi framleiðslugetu orkufyrirtækjanna. Einnig má líta til þess að þau hafa næg verkefni að minnsta kosti næstu 5 til 6 árin.
Stór áfangi á langri leið
Samþykkt rammaáætlunarinnar er mér sérstakt ánægjuefni, enda hef ég lengi fylgst með tilurð hennar. Þegar „Fagra Ísland“, umhverfisstefna Samfylkingarinnar, var samþykkt árið 2006 höfðu drög að henni verið í mótun allt frá ráðherratíð Össurar Skarphéðinssonar sem umhverfisráðherra á fyrri hluta tíunda áratugar síðustu aldar. Ferlinu var svo haldið til streitu í stjórnartíð Samfylkingarinnar eftir alþingiskosningarnar 2007.
Leikreglur rammaáætlunarinnar, sem sprottið hafa upp af erfiðum pólitískum deilum um vernd og orkunýtingu landsvæða, verða nú leiðarljós okkar allra. Ég segi allra þótt 21 þingmaður Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafi verið andvígir þeim 36 þingmönnum sem studdu rammaáætlunina. Enda væri það mikið glámskyggni að kasta á glæ þeirri miklu vinnu sem lagt hefur grundvöllinn að henni og þar með stuðlað að andrúmslofti sáttar og samvinnu um vernd og orkunýtingu landsvæða. Þótt í átökum síðustu missera hafi ekki allir á stjórnarheimilinu verið á eitt sáttir um kosti í atvinnu- og virkjunarmálum hefur meginsjónarmiðum stefnuyfirlýsingar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna verið framfylgt.
Ábyrgð og breytt hagkerfi
„Umhverfisvernd sem hefur sjálfbæra þróun samfélags og efnahags að leiðarljósi er sá grunnur sem ný atvinnu- og auðlindastefna stjórnarinnar byggir á. Þannig eru tekin mikilvæg skref í átt til hins nýja græna hagkerfis sem skilar jöfnum vexti, og tryggir að ekki sé gengið á höfuðstól auðlindanna,“ segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
Þessi stefna hefur svo verið undirstrikuð með fjárstuðningi við nýjar lausnir, aukin framlög til rannsókna- og tæknisjóða og fjárstuðningi sem ætlað er að örva grænar lausnir í atvinnulífinu og hraða þróuninni í átt til hagsældar á grunni aukinnar fjölbreytni.
Það gefur því auga leið að samþykkt rammaáætlunar er eitt af mikilvægustu málunum sem núverandi ríkisstjórn hefur hrundið í framkvæmd. Ég óska landsmönnum til hamingju með það stóra skef inn í framtíðina sem rammaáætlunin markar.
(Birt í DV 16. janúar 2013)