Sóknaráætlanir landshluta - Ábyrgð og völd til landshluta
Markmiðið með sóknaráætlunum landshluta er að færa aukin völd og aukna ábyrgð til landshlutanna við forgangsröðun og skiptingu almannafjár til verkefna á sviði byggða- og samfélagsþróunar. Tilgangurinn er að ná fram betri nýtingu fjármuna og færa ákvarðanatöku nær heimamönnum sem þekkja best til aðstæðna. Landshlutarnir átta skila allir sóknaráætlunum um miðjan febrúar. Stofnað hefur verið til samráðsvettvangs á hverju svæði þar sem saman koma fulltrúar sveitarstjórna og hagsmunaaðila, undir forystu stjórnar landshlutasamtaka sveitarfélaga. Þarna er vettvangur til að móta framtíðarsýn og stefnu og forgangsraða markmiðum og verkefnum.
Í fyrstu verða verkefni á víðu sviði atvinnumála og nýsköpunar, markaðsmála og mennta- og menningarmála fjármögnuð í gegnum sóknaráætlun. Í kjölfarið er gert ráð fyrir að aðrir þættir byggðamála s.s. velferðarmál og þróun innviða, falli undir sama verklag.
Sóknaráætlanir landshluta er sameiginlegt þróunarverkefni ráðuneyta og sveitarfélaga og byggir á samvinnu. Ráðuneytin skipa öll fulltrúa í hóp sem myndar stýrinet af hálfu Stjórnarráðsins. Samband íslenskra sveitarfélaga á aðild að stýrinetinu. Á milli þess og landshlutasamtaka sveitarfélaga er samskiptaás sem sóknaráætlanirnar og samskiptin fylgja. Með þessum hætti er tryggð góð samvinna stjórnsýslustiganna tveggja. Þetta verklag er nýsköpun í íslenskri stjórnsýslu og vinnur Stjórnarráðið sem ein heild með einn málaflokk, byggðamál.
Ný aðferð við skiptingu fjár
Í dag renna um 5,7 milljarðar króna milli ríkis og sveitarfélaga samkvæmt 192 samningum. Að mestu er þetta fé í formi styrkja og samninga til einstakra verkefna.
Það er skýr vilji stjórnvalda að reyna nýtt verklag til þess að einfalda þessi samskipti og í því skyni hefur ríkisstjórnin samþykkt að setja 400 milljónir króna í sóknaráætlanaverkefni árið 2013 sem skiptast á milli landshlutanna átta eftir gagnsæjum viðmiðum. Hugmyndin er svo að færa hluta þess fjár sem bundið er samningunum 192 í þennan nýja farveg.
Árið 2013 er reynsluár þar sem hverjum landshluta er falið að ákveða, á grundvelli sóknaráætlana, hvernig 400 milljónum króna verður varið. Því er það formið sjálft frekar en fjármagnið sem þarf að standast prófið þetta árið. Fjárupphæðin er þó engu að síður mikilvæg, en með því gefst gott tækifæri til að reyna verklagið.
Til lengri tíma litið er markmiðið að fjármunir sem Alþingi ráðstafar af fjárlögum til verkefna í einstökum landshlutum á sviði atvinnumála og byggða- og samfélagsþróunar byggi á svæðisbundnum áherslum og markmiðum sem koma fram í sóknaráætlunum landshlutans. Þá er framtíðarsýnin sú að sóknaráætlanir verði hafðar til hliðsjónar þegar kemur að stefnumótun og áætlanagerð ríkisins og hafi gagnvirk áhrif á fjárlagagerð.
Ögrandi viðfangsefni
Til að ná settu markmiði, að færa aukin völd og aukna ábyrgð til heimamanna í hverjum landshluta, þarf að koma til breytt verklag stefnumótunar og áætlanagerðar, bæði í landshlutunum sjálfum og innan Stjórnarráðsins. Við sjáum nú þegar talsverðan árangur hvað þetta varðar með skipan stýrinets Stjórnarráðsins og samráðsvettvanga í hverjum landshluta. Við sjáum einnig bætta og markvissari nýtingu fjármuna með aukinni aðkomu og bættu samráði heimamanna.
Sóknaráætlanir landshluta fara vel af stað en það er ljóst að verkefnið er ögrandi bæði fyrir ríki og sveitarfélög og reynir á samvinnu innan landshlutanna og milli þeirra og ríkisins. Það er mín trú að ef vel tekst til með sóknaráætlanir og þetta nýja skipulag hafi verið stigið eitt stærsta skref sem stigið hefur verið í byggðamálum síðustu áratugi.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra