Forsætisráðherra heldur opnunarávarp í Hringborði norðurslóða
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra flutti í dag opnunarerindi í Hringborði norðurslóða, Arctic Circle, sem haldið er í Hörpu um helgina, en um 1.400 þátttakendur frá um 40 löndum sækja ráðstefnuna.
Í erindi sínu ræddi forsætisráðherra meðal annars þær öru breytingar sem eiga sér stað á norðurslóðum og mikilvægi heildstæðrar nálgunar til að nýta tækifærin og takast á við þær áskoranir sem í þeim felast. Greindi ráðherra meðal annars frá starfi ráðherranefndar um málefni norðurslóða, sem sett var á fót á síðasta ári og ætlað er að tryggja samræmda og heildstæða hagsmunagæslu Íslands á æðstu stigum stjórnsýslunnar. Þá áréttaði ráðherra mikilvægi samvinnu ríkja og annarra hagsmunaaðila í málefnum norðurslóða, meðal annars innan Norðurskautsráðsins. Einnig ræddi ráðherra um mikilvægi samvinnu hins opinbera og einkageirans um ábyrga og sjálfbæra nýtingu auðlinda á svæðinu, og að réttindi íbúa á norðurslóðum verði ávallt í heiðri höfð. Sagði forsætisráðherra Ísland ábyrgan samstarfsaðila í málefnum norðurslóða, meðal annars á sviði öryggismála, auðlinda- og orkunýtingar og vísinda.
Forsætisráðherra á jafnframt tvíhliða fundi með ráðamönnum sem einnig taka þátt í Hringborði norðurslóða, þ.á.m. með Sam Tan Chin Siong, ráðherra frá Singapore og Lisu Murkowski, öldungardeildarþingmanni frá Alaskafylki í Bandaríkjunum.