Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2014 ForsætisráðuneytiðSigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra 2013-2016

Leiðréttingin í höfn

Í dag verða niðurstöður leiðréttingar á verðtryggðum húsnæðislánum kynntar og á morgun verða niðurstöðurnar birtar 69 þúsund heimilum á heimasíðu verkefnisins, leiðrétting.is. Þetta er gleðistund fyrir heimilin í landinu. Jafnframt er þetta gleðistund fyrir ríkisstjórnina sem setti bætta stöðu heimila í forgang í stefnuyfirlýsingu sinni. 

Af hverju leiðrétting?

Leiðréttingin færir verðtryggð lán heimilanna í þau stöðu sem þau hefðu verið í ef óvænt og mikil verðbólga hefði ekki sett skuldastöðu heimilanna í uppnám á árunum 2008 og 2009. Á þessum tíma var mikið ójafnvægi í íslenskum þjóðarbúskap. Gengi íslensku krónunnar hrapaði, verðbólga fór úr böndunum, eignaverð hrundi og samdráttur varð í landsframleiðslu. Verðbólga hefur áður farið úr böndunum á Íslandi og gengið fallið en það sem skilur forsendubrestinn frá öðrum verðbólgutímabilum eru þættir sem tengjast fylgifiskum fjármálakreppa, svo sem þróun launa, kaupmáttar og eignaverðs. 

Leiðréttingin er óhefðbundin aðgerð til að bæta hag heimila. En stjórnvöld og seðlabankar fjölmargra ríkja beittu sér fyrir óhefðbundnum og fordæmalausum aðgerðum í fjármálakreppunni til að draga úr hættu á langvarandi stöðnun. Gríðarleg inngrip seðlabanka leiddu til mikilla vaxtalækkana. Víða á Vesturlöndum hagnaðist yngra og skuldsettara fólk vegna lægri vaxta á húsnæðislánum en eldra fólk og fjármagnseigendur töpuðu vöxtum sem þeir hefðu ella fengið. 

Á Íslandi voru einstakar aðstæður til að takast á við bankahrunið og fjármálakreppuna. Lausnin lá í því að landið hafði að miklu leyti verið afskrifað efnahagslega. Það gafst því tækifæri til að nýta þá staðreynd til að leiðrétta stöðu landsins og heimilanna. Bent var á að íslenska ríkið ætti að kaupa kröfur á hina föllnu banka og færa ætti niður skuldir heimilanna í ljósi þess að verðmæti þeirra hefði þegar verið afskrifað að verulegu leyti. Hvorugt var gert og um tíma leit út fyrir að tækifærið til að koma til móts við heimili með verðtryggð fasteignalán hefði farið forgörðum. Með útsjónarsemi og mikilli vinnu fjölda fólks hefur nú tekist að snúa við stöðu sem virtist töpuð og ná bestu mögulegu niðurstöðu.

Leiðréttingin er réttlætismál. Ólík lánsform með ófyrirsjáanlegri áhættu eiga ekki að ákvarða örlög heimila. Sá stóri hópur sem var með hefðbundin verðtryggð lán en gat ekki nýtt sér 110% leiðina hefur legið óbættur hjá garði þar til nú.

Framkvæmdin

Þó hugmyndafræðin að baki leiðréttingunni sé einföld og réttlát er framkvæmdin hins vegar tæknilega flókin. Það kemur einkum til af því að mörg ár eru liðin frá því að heimilin urðu fyrir forsendubresti og einkahagir margra hafa tekið breytingum frá þeim tíma. Þrátt fyrir þetta hefur framkvæmdin gengið afar vel. Framkvæmdin er umfangsmikið samstarfsverkefni hins opinbera, lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja. Samvinna þessara aðila hefur verið til mikillar fyrirmyndar. 

Tökum höndum saman

Leiðréttingin tengist uppgjöri slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja. Verja skal hluta af fyrirsjáanlegu svigrúmi sem myndast við uppgjörið til að koma til móts við heimilin. Þar sem meira liggur á leiðréttingunni en uppgjöri slitabúa er bilið brúað með aðkomu ríkissjóðs. Svigrúmið er hins vegar þegar byrjað að myndast fyrir milligöngu ríkisins en slitabúin greiða nú tugi milljarða í skatta árlega. 

Leiðréttingin er einungis fyrsta aðgerð af mörgum sem ríkisstjórnin hyggst innleiða á kjörtímabilinu í því skyni að skapa heilbrigðara umhverfi bæði heimila og fjármálamarkaðar. Losun fjármagnshafta, afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum, uppbygging húsnæðiskerfisins og endurskipulagning Íbúðalánasjóðs eru mikilvægar vörður á þeirri leið. Þannig munu öll heimili, óháð fjölskyldugerð og láns- eða leiguformi, njóta góðs af breytingunum.

Öll þessi verkefni taka tíma og geta krafist þolinmæði, enda verða aðstæður að vera hagfelldar svo að ekki verði lögð veruleg fjárhagsleg áhætta á heimilin. Flest bendir til að hagstæðar aðstæður séu að skapast til þessara verka þó vissulega séu blikur á lofti, t.d. vegna óvissu um kjarasamninga. 

Tvíþætt aðgerð

Eins og kunnugt er eru skuldalækkunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar tvíþættar. Annars vegar aðgerðir til beinnar niðurfærslu á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána og hins vegar lækkun höfuðstóls með skattleysi séreignarlífeyrissparnaðar í þrjú ár. Þessar aðgerðir falla mjög vel saman. Heimili sem nýtur hámarksleiðréttingar getur lækkað höfuðstól láns síns um meira en sex milljónir króna á þremur árum. Til dæmis getur heimili með meðallán tekið um aldamótin lækkað höfuðstól lánsins um 20% nýti það sér hámarks skattfrelsi séreignarlífeyrissparnaðar. Bein lækkun höfuðstóls í leiðréttingunni er að meðaltali um 1,3 milljónir króna. 

Heimilin í landinu eru hornsteinn okkar samfélags. Með því að skila fjármagni til heimila sem urðu fyrir ófyrirséðu tjóni mun þessi umfangsmikla leiðrétting ekki aðeins bæta stöðu tugþúsunda heimila með beinum hætti heldur einnig koma samfélaginu öllu til góða.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta