Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2014 ForsætisráðuneytiðSigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra 2013-2016

Rafbílavæðing á Íslandi

Formaður Verkfræðingafélags Íslands‚ ágætu ráðstefnugestir.
Ég vil byrja á því að fagna framtaki rafmagnsverkfræðingadeildar Verkfræðingafélags Íslands að efna til þessarar áhugaverðu ráðstefnu um rafbíla, en engum dylst að þeir eru nú að verða vænlegur valkostur fyrir okkur Íslendinga í samgöngum, bæði tæknilega og rekstrarlega. Í forsætisráðuneytinu höfum við lagt drög að fundi um sama efni í janúar á næsta ári. Þetta er því mál sem okkur er hugleikið og mér þykir sérstaklega ánægjulegt að hafa verið boðið að ávarpa ráðstefnuna sem vonandi lyftir umræðunni.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að bíllinn veitir okkur mikið frelsi, og á hundrað árum hefur hann orðið helsta samgöngutæki heimsins og átt veigamikinn þátt í sókn til aukinnar velmegunar. Hér á Íslandi hefur bíllinn gengt lykilhlutverki við að halda landinu í byggð og tengja líf og störf landsmanna saman.

Þessu mikilvæga hlutverki fyrir íslenska – sem og alþjóðlega hagþróun – er langt í frá lokið, en um leið er nauðsynlegt að bíllinn lagi sig, nú sem fyrr, að nýjum veruleika.

Svo ánægjulega vill til að Ísland er í lykilstöðu sem land sem getur framleitt nægt grænt eldsneyti fyrir bílaflota framtíðarinnar. Núverandi ríkisstjórn hefur frá upphafi lýst áhuga á að efla vistvænar samgöngur, eins og birtist í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, þar sem áréttuð er sú sérstaða Íslendinga að hafa aðgengi að endurnýjanlegum auðlindum sem gerir okkur um leið fært að vera í fararbroddi í umhverfismálum. 

Íslensk stjórnvöld hafa haft slíka breytingu í samgöngumálum að markmiði um nokkurt skeið en nú sjáum við hylla undir að þetta sé mögulegt – að raunhæft sé að ná þessu innan ekki allt of langs tíma sökum þess hve tækninni fleytir hratt fram. Staðreyndin er sú að rafbílar eru að verða raunhæfur kostur og verða það enn frekar í framtíðinni. Það sama má segja um leiðir til að knýja skip og önnur tæki sem hafa til þessa notast við jarðefnaeldsneyti. Allt þetta gefur Íslandi mjög mikla möguleika á að verða fyrsta land í heimi sem eingöngu nýtir endurnýjanlega orkugjafa.

Í ljósi þessa er sérlega ánægjulegt fyrir mig að fá að ávarpa þessa ráðstefnu um rafbílavæðingu á Íslandi. Við sjáum að slíkum bílum er nú farið að fjölga á götunum. Óhætt er að fullyrða að rafbíllinn henti íslenskum orkubúskap einstaklega vel og því bíðum við í ofvæni eftir frekari framþróun rafbíla.

Flestir af stóru bílaframleiðendum heimsins hafa hafið framleiðslu á rafbílum eða kynnt áform um slíkt og verður áhugavert að hlusta á fulltrúa íslensku bílaumboðanna kynna þessa bíla og tækni þeirra hér á eftir. Flest bílaumboðin bjóða í dag rafbíla og úrvalið verður stöðugt meira. 

Þegar kemur að rafbílavæðingu er mikilvægast að viðkomandi land framleiði rafmagn á vistvænan hátt eins og Ísland, já og reyndar Noregur líka. Áhugavert verður að hlusta á erindi Mariku frá Noregi um rafbílavæðingu þar í landi og hvað við getum lært af Norðmönnum því rafbílanotkun þeirra er veruleg og framtak þeirra til eftirbreytni. „Velkomin til Íslands Marika.“ „We look forward to listen to you talk about the environmental, economic and practical aspects of electric vehicles in Norway and what we can learn from your experience.“

Hafa verður þó í huga að það er ekki vandalaust að móta framhaldið þannig að úr verði sem mestur ávinningur fyrir land og þjóð um leið og unnið er með þá  tækniþróun sem á sér stað. Stjórnvöld á Íslandi stefna að orkuskiptum í samgöngum og stefna meðal annars að því, til lengri tíma litið, að skipta alfarið út hefðbundnu jarðefnaeldsneyti (bensín/dísel) yfir í aðra orkugjafa fyrir bíla og önnur ökutæki – orkugjafa sem eru endurnýjanlegir og upprunnir á Íslandi. Orkuskipti eru kostnaðarsöm, kalla á miklar fjárfestingar í innviðum og eru mikið átak fyrir hvert þjóðfélag að fara í gegnum. Í því ferli er hægt að gera mörg mistök. Þó að flestir framleiðendur telji að í óskilgreindri framtíð verði rafbíllinn ofaná þá er ljóst að sú vegferð verður ekki einföld. Við Íslendingar njótum þess að rafmagn er fáanlegt um allt land með hagkvæmu dreifikerfi sem er til staðar, en byggja þarf upp hraðhleðslu þegar staðlar og ökutæki eru tilbúin. Það er verkefni sem bíður.

En nú má spyrja hvað stjórnvöld geti gert til að hraða þessari þróun, ýta jarðefnaeldsneytinu út og í skiptum fyrir aðra endurnýjanlega orku – orku sem við eigum svo mikið af sjálf? Jú, það er ekki hvað síst með efnahagslegum hvötum og það er mikilvægt að sjá fyrir sér hve langt er hægt að ganga í þeim efnum. 

Á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna – sem ég sótti fyrr í haust – var  eitt af megin umræðuefnunum hversu langt sé hægt að ganga í því efni. Það virðist vera almennur stuðningur við að taka upp sérstaka skatta vegna notkunar á mengandi eldsneyti. Þar hefur Ísland þegar gengið hvað lengst. Nú er slíkt fyrirkomulag einnig til umræðu í öðrum löndum og stefnir í að það myndist meiri samstaða um, að dýrara verði að nota jarðefnaeldsneyti en verið hefur. Á umræddum loftslagsfundi og í aðdraganda hans voru fjöldamörg ríki, þar með talið Ísland, sem undirrituðu yfirlýsingu um að setja verðmiða á kolefni („Putting Price on Carbon“).

Að sama skapi er mikilvægt að hagkvæmni endurnýjanlegra orkugjafa verði aukið fyrir neytendur. Til þessa hefur verið erfitt að ákvarða framhaldið hvað vistvæna bíla varðar þar sem undanþága frá lögum um virðisaukaskatt hefur verið tímabundin. 

Fyrir stuttu var undanþágan framlengd um eitt ár, enda áhyggjur uppi um að verð á rafbílum og öðrum vistvænum kostum hækkaði ella um áramótin, og margir urðu til að lýsa því yfir að rafbílavæðingin myndi líða undir lok ef verðhækkunin yrði of mikil. Við þessu var brugðist af stjórnvöldum en við þurfum að horfa lengra. Íslendingar hafa skuldbundið sig, sem aðilar að alþjóðlegum samningum, um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og að nýta sem best endurnýjanlegar og vistvænar orkulindir okkar, líkt og vatnsorku og jarðhita. Við Íslendingar höfum haft sem markmið að ná 10% hlutdeild endurnýjanlegrar orku í samgöngum árið 2020.

Margvíslegur árangur hefur náðst. Fleiri rafbílar og aðrar tegundir sem nýta endurnýjanlega orku, íblöndun í hefðbundið bensín, innlend framleiðsla lífeldsneytis er sprotavettvangur sem er í sókn og margt fleira mætti nefna. En betur má ef duga skal. 

Nú blasir við að tímabært er að huga enn frekar að stefnumótun um rafbílavæðingu hérlendis með tilheyrandi aðgerðaráætlunum allra hagsmunaaðila. Stjórnvöld þurfa og vilja móta sér slíka stefnu til lengri tíma. Á þessu stigi rafbílavæðingar eru ívilnanir eins og afnám vörugjalda og niðurfelling virðisaukaskatts forsenda þess að einhver sala sé á rafbílum sem talandi er um. Ef þær verða felldar niður er fyrirsjáanlegt að rafbílasala geti hreinlega stöðvast. Hæpið er að fyrirtæki sem starfar á viðskiptalegum forsendum fari að  leggja í uppbyggingu innviða eins og hraðhleðslustöðva eða þjónustu til að mæta þörfum vegna rafbílavæðingar ef mikil óvissa leikur á um hvort ívilnanir standi.

Það þarf ívilnanir til á meðan framleiðsla rafbíla er að komast á það stig að þeir verði samkeppnishæfir við bensínbíla. Ennþá er hlutdeild rafbíla í íslenska bílaflotanum lág - mér er tjáð að ætla megi að þeir verði um 300 talsins um næstu áramót. Til að tryggja fulla virkni ívilnana er ljóst að það þarf að festa þær til lengri tíma. Fyrir því er fullur vilji í ríkisstjórninni. 

Ágætu ráðstefnugestir. 
Eins og formaður Verkfræðingafélags Íslands nefndi við setningu ráðstefnunnar þá hefur rafmagnsverkfræðingadeild félagsins stofnað ,,starfshóp um rafbíla” og býður ríkisstjórninni að leggja fram tillögu að stefnumótun um rafbílavæðingu hérlendis með tilheyrandi aðgerðaráætlunum og greinargerðum allra hagsmunaaðila svo að stjórnvöld og sveitarfélög geti mótað sér slíka stefnu um rafbílavæðingu til lengri tíma. 

Ég efast ekki um að slík stefnumótun verði unnin í nánu samstarfi við alla þá hagsmunaaðila sem að málinu koma. Eitt af því sem er merkilegt við tilboð rafmagnsverkfræðinga er að þeir bjóðast til að vinna tillögurnar án nokkurrar greiðslu og á aðeins 45 dögum. Þetta er mjög gott tilboð og ríkisstjórnin hefur ákveðið að taka því, án þó nokkurra skuldbindinga um framhaldið. Ég býð spenntur eftir að sjá hvað kemur út úr slíkri vinnu. 

Það verður áhugavert að hlusta á fyrirlestrana hér á eftir um hvað við þurfum að gera til að hraða rafbílavæðingu og vel skipaður umræðupanell ýmissa hagsmunaaðila um rafbílavæðingu mun án efa koma með áhugaverðar og gagnlegar tillögur um stefnumótun í rafbílavæðingu Íslands í lok ráðstefnunnar.

Góðir áheyrendur.
Ísland er í lykilstöðu sem land sem getur framleitt nægt grænt eldsneyti fyrir bílaflota framtíðarinnar. Það eina sem við þurfum að gera er að taka fyrrgreind raunhæf skref við innleiðingu hans.

Því segjum við: Íslenskt á tankinn, já takk!

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta