Lýðheilsa – Heilsa í allar stefnur
Ágætu fundargestir.
Það er mér sérstök ánægja að ávarpa ykkur hér í dag, 16. desember. Á þessum degi stenst ég ekki freistinguna að minnast merkra tímamóta í stjórnmálasögu Íslendinga fyrir 98 árum.
Á þessum tíma stóð fyrri heimstyrjöldin sem hæst með mikilli truflun á verslun og viðskiptum við útlönd, konur höfðu fengið kosningarétt árið áður og kosningaaldur var lækkaður úr 30 árum í 25 ár.
Í nóvember þetta ár höfðu átta þingmenn komið saman og ákveðið að stofan nýjan þingflokk – Framsóknarflokkinn – en hann var stofnaður á þessum degi fyrir 98 árum.
Í dag, 16. desember, verða aftur mikil tíðindi með þessari ráðstefnu um bætta lýðheilsu Íslendinga. Hér munu sérfræðingar frá Norðurlöndunum kynna okkur starf sitt og stefnu. Það er mikilvægt fyrir okkur að geta með þessum hætti lært af vinaþjóðum okkar og þar með stytt okkur leiðina að bættri lýðheilsu allra landsmanna.
Góð heilsa er eitt af því mikilvægasta í lífi hvers manns – og þekking á heilsu og því hvernig hægt er að bæta heilsu hefur fleygt fram. Stjórnvöldum ber að mínu mati að skapa aðstæður til að auðvelda fólki að efla heilsu sína. Þess vegna var skipuð sérstök ráðherranefnd um lýðheilsu í mars síðastliðnum.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að lýðheilsa og forvarnastarf verði meðal forgangsverkefna okkar. Þar kemur einnig fram að ríkisstjórnin hefur mikinn vilja til að auka almenn lífsgæði landsmanna með því að efla starf á sviði forvarna og lýðheilsu og draga þannig úr beinum og óbeinum kostnaði fyrir samfélagið allt til framtíðar.
Allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar geta komið að borði ráðherranefndar um lýðheilsu, þó fast sæti eigi auk mín, heilbrigðisráðherra, félags- og húsnæðismálaráðherra og menntamálaráðherra.
Jafnframt var sérstakri þriggja manna verkefnisstjórn komið á fót og einnig stofnaður opinn samráðshópur – lýðheilsunefnd sem skipuð er fulltrúum fjölmargra félaga og félagasamtaka sem hafa lengi unnið gott starf á sviði heilsufarsmála. Meginhlutverkið er að vinna drög að heildstæðri lýðheilsustefnu og aðgerðaáætlun og skal því verki vera lokið eigi síðar en við árslok 2015.
Það er fagnaðarefni að verkefnisstjórnin og lýðheilsunefndin hafa þegar lagt fram drög að umfangsmiklum tillögum því mikilvægt er að geta sem fyrst hafið aðgerðir til bættrar lýðheilsu.
Við vitum að uppeldi og fyrirmyndir skipta miklu máli um hvernig við mótumst sem einstaklingar og að áhrif forráðamanna skipta þar miklu. Þó vitum við líka að áhrif frá vinahópnum, fjölmiðlum og öðrum skipa einnig stóran sess.
Það skiptir því miklu máli að virkja sem flesta til þátttöku.
Að undanförnu hefur orðið vart við aukinn áhuga hjá sveitarfélögum víðs vegar um landið á að gerast Heilsueflandi samfélög, þar sem reynt er að fá allt samfélagið til að vinna að sama marki; leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, vinnustaði og heimili.
Nokkur sveitarfélög hafa þegar hafið slíka vinnu og æskilegt væri að fleiri sveitarfélög færu í slíka vinnu.
Það væri einnig æskilegt að efla enn frekar allt það þakkarverða æskulýðs- og forvarnastarf sem frjáls félagasamtök vinna hér á landi og hafa lengi unnið.
Það verður seint ofmetið hversu miklu máli heilbrigður lífstíll skiptir bæði fyrir einstaklingana og samfélagið.
Við verðum öll að átta okkur á því að þrátt fyrir annasöm störf verðum við að gefa okkur tíma til að huga að heilsunni. Við þurfum öll að setja hreyfingu á dagskrá okkar um leið og við hugum að mataræðinu.
Ég er sjálfur að reyna að taka mig á í því efni. Það tók dálítinn tíma að venja sig á reglubundna hreyfingu en eftir að það tókst vill maður síst af öllu missa það úr dagskránni. Og þegar tekst að venja sig á hollari mat langar mann ekki lengur í óhollustuna.
Ágætu fundarmenn. Eins ég nefndi hér fyrr, hlakka ég til að fræðast um hvar við Íslendingar stöndum í samanburði þjóða og læra af reynslu annarra. Það er vonandi að þessi ráðstefna hér í dag verði upphafið að stórstígum framförum í átt til bættrar lýðheilsu þjóðarinnar.
Gangi okkur vel!