Hoppa yfir valmynd
12. febrúar 2015 ForsætisráðuneytiðSigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra 2013-2016

Ræða forsætisráðherra á Viðskiptaþingi 2015

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ávarpaði Viðskiptaþing
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ávarpaði Viðskiptaþing

Ensk þýðing
Talað orð gildir

Ágætu gestir Viðskiptaþings.
Það er vel við hæfi hjá Viðskiptaráði að taka opinbera geirann til umræðu á þessum vettvangi. Opinber þjónusta stendur undir 20 prósentum framleiðslu í hagkerfinu og hátt að þriðjungi starfa.  

Þótt hlutdeild hins opinbera í umsvifum samfélagsins hafi vaxið, aukast enn kröfur samfélagsins til ríkisins og sveitarfélaga, t.d. vegna tækniframfara, nýrra staðla, nýrra þarfa, aukinnar neytendaverndar og aukins eftirlits. 

Lýðfræðilegir þættir munu einnig setja aukinn þrýsting á opinber útgjöld á næstu áratugum, svo sem vegna fjölgunar aldraðra. 

Auknar kröfur birtast ekki hvað síst í heilbrigðisþjónustu og eftirspurn vex hratt með hærra hlutfalli eldri borgara, tækninýjungum og nýjum lyfjum. Góð heilbrigðisþjónusta er gríðarlega mikilvæg. Hún eykur lífsgæði og bætir búsetuskilyrði á Íslandi. 

En allt er þetta dýrt. Kostnaðurinn við að anna aukinni eftirspurn eftir þjónustunni vex því mun hraðar en verðmætasköpunin sem þarf að standa undir kostnaði við þjónustuna. 

Fámennið á Íslandi skapar einnig áskorun fyrir hið opinbera, bæði vegna þeirrar nauðsynjar að halda uppi innviðum og þjónustu í strjálbýlu landi en ekki hvað síst vegna þess mikla fasta kostnaðar sem er samfara því að viðhalda nútíma velferðarsamfélagi með auknum kröfum um þjónustu og aukinni stöðlun, regluverki og eftirliti. 

Stjórnmálaflokkar á Íslandi eru að mörgu leyti sammála um ríkisútgjöld, þótt annað mætti oft ætla af hamaganginum í stjórnmálaumræðunni. Vissulega er áherslumunur á milli hægri- og vinstrimanna varðandi útgjöld ríkisins en hann er ekki jafnmikill og ætla mætti af umræðum á Alþingi og manna á meðal. 

Það sést t.d. á því að átök milli flokka í fjárlagaumræðu snúast oft um fjárhæðir sem samsvara 1–2% af heildarumfangi fjárlaga. (Það er ekki meira.)

Það hafa ætíð verið sterkir kraftar sem þrýsta á um aukin opinber útgjöld. Þeir kraftar hafa yfirleitt haft betur í viðureigninni við þá fáu sem taka að sér að verja ríkissjóð. 

Það sést ekki hvað síst á því að rekstrarkostnaður ríkisins á hvern einstakling, án ýmiss konar velferðartilfærslna, hefur hækkað 11-falt frá lýðveldisstofnun til dagsins í dag, úr minna en 150.000 krónum í tæpar 1.600 þúsund krónur á verðlagi ársins 2014. 

Ef einungis er tekinn síðari helmingur lýðveldistímans þá hefur rekstrarkostnaður á hvern Íslending hækkað um 50% umfram aukningu landsframleiðslu, en hún er mælikvarði á þá verðmætasköpun sem þarf til að standa undir rekstrarkostnaði ríkissjóðs. 

Ríkisútgjöld drógust óhjákvæmilega saman fyrst eftir fjármálahrun en hafa aukist síðan. Þau hafa sjaldan verið hærri en árið 2014 og verða enn hærri árið 2015. 

En sama ár og ríkisútgjöld jukust þetta mikið í fjárlögum kváðu við óvenju mikil og stöðug angistaróp um niðurskurð. 

Hversu langt er hægt að halda áfram á þessari braut? Það kemur að þolmörkum. Forgangsröðun í rekstri hins opinbera verður sífellt mikilvægari. Margt í ríkisrekstrinum hefur tekist vel og skilvirkni aukist. Það eru því kraftar aukins aðhalds sem toga á móti útgjaldakraftinum. 

Ríkisstjórninni er mjög umhugað um aðhald í ríkisrekstrinum og ábyrga fjármálastjórn. Gamlir kunningjar sem við höfum ekki alltaf verið sátt við, lánshæfisfyrirtæki og alþjóðastofnanir, hafa lokið lofsorði á ríkisfjármálastefnuna á síðustu mánuðum. 

Það sem mestu máli skiptir er þó að trúverðug stefna í ríkisfjármálum er farin að skila sér í hagstæðari lánakjörum ríkissjóðs. Það þýðir að auðveldara verður fyrir ríkið að standa undir velferð í samfélaginu. 

Vinna við tillögur hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar er í fullum gangi og meirihluti tillagna hópsins kominn til framkvæmda, í þinglegri meðferð eða undirbúningur langt kominn í viðkomandi ráðuneyti. 

Tillögur hagræðingarhópsins voru meðal annars settar fram með þessum hætti til að auka samfélagslegt aðhald gagnvart framkvæmdinni og í því sambandi fagna ég fundi sem Viðskiptaráð hélt um tillögurnar í haust. 

Tillögurnar snúa margar að því að sameina stofnanir og gera breytingar á þeim þjónustukerfum sem ríkið rekur. Opinbera kerfið verður að geta aðlagað stjórnsýslu og þjónustu ríkisins að tækniframförum og breyttum aðstæðum í samfélaginu. Við þurfum meiri nýsköpun í starfi hins opinbera og á því sviði getur ríkið lært margt af fyrirtækjum í samkeppni.

Annað forgangsmál ríkisstjórnarinnar er einföldun regluverks og nú þegar er skipulega og gaumgæfilega farið yfir lagafrumvörp áður en þau eru afgreidd í ríkisstjórn og vakin athygli á því ef þau fela í sér nýjar kvaðir fyrir atvinnulífið. Einnig er nú lagt sérstaklega mat á nauðsyn lagasetningar með þetta í huga og gefin hefur verið út handbók um einföldun regluverks og henni komið á framfæri við ráðuneyti og stofnanir. 

Stefna er í mótun um að umbreyta leyfum í tilkynningarskyldu þar sem það á við til að auðvelda nýja atvinnustarfsemi og verið er að þróa vefgátt þar sem fyrirtæki geta átt í rafrænum samskiptum við stjórnvöld varðandi leyfi eða tilkynningar. 

Þá má nefna að vel hefur tekist til með tilraunaverkefnið um einföldun regluverks í ferðaþjónustu og með frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra um opinber fjármál sem nú liggur fyrir Alþingi verða tekin stór skref í að breyta því hvernig ríkið nálgast meðferð almannafjár.

Þá höfum við endurvakið ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur sem í sitja fulltrúar Samtaka atvinnulífsins, ASÍ, Viðskiptaráðs og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Loks hefur verið settur á fót vinnuhópur um eftirlitsstofnanir sem hefur verið að skoða þær sérstaklega með hagræði, samræmi og skilvirkni eftirlits að leiðarljósi.

Við Íslendingar gerum miklar kröfur til magns og gæða opinberrar þjónustu. En á sama tíma er ljóst að ekki verður lengra gengið í útgjöldum miðað við þá verðmætasköpun sem er í landinu. Skatttekjur eru heldur ekki ótæmandi auðlind, eins og nærri má geta. 

Ríkið hefur ekki verið leiðandi í launaþróun að undanförnu. 

Því hefur verið haldið fram að kjarasamningar ríkisins hafi raskað jafnvægi á vinnumarkaði og að hækkanir á launum ríkisstarfsmanna hafi verið úr takti við aðra launaþróun. 

Því fer fjarri. Tölulegar upplýsingar um launaþróun styðja ekki slíkar fullyrðingar. 

Laun ríkisstarfsmanna hækkuðu lítillega meira en laun á almennum vinnumarkaði á tólf mánaða tímabili fram til loka október síðastliðins, eða 6,8% á móti 5,9%. 

Laun ríkisstarfsmanna hafa hins vegar hækkað minna en laun á almennum vinnumarkaði ef litið er til síðustu tíu ára. 

Launaskrið á almennum vinnumarkaði hefur mikil áhrif á þróunina. Þegar ríkið semur með sama hætti og gert er á almennum vinnumarkaði tekur við launaskrið á almenna markaðnum sem leiðir til þess að laun ríkisstarfsmanna dragast aftur úr. 

Ríkið semur einungis við um 12% vinnumarkaðarins. 

Ríkið samdi við tæp 90% starfsmanna ríkisins með líkum hætti og almenni vinnumarkaðurinn hafði áður gert. 

Samningar við lækna og framhaldsskólakennara, sem samtals eru um 10% starfsmanna ríkisins og 1,5% af vinnumarkaði í heild, skera sig úr.

Í þessum samningum voru gerðar verulegar breytingar á vinnufyrirkomulagi og launauppbyggingu þessara stétta. Þessir samningar eru einnig til mun lengri tíma, eða tæpra þriggja ára. 

Almenni markaðurinn hefur einnig gert slíka samninga með svipuðum kostnaðarhækkunum, til dæmis við flugmenn. 

Það er einfaldlega ekki hægt að bera skammtímasamning til eins árs með þrjú prósent hækkun og öðrum þremur prósentum í launaskriði saman við lengri samning með verulegum breytingum á vinnufyrirkomulagi. 

Samningar við lækna geta því ekki gefið fordæmi fyrir þá samninga sem framundan eru á vinnumarkaði. Af nýlegri skoðanakönnun Samtaka atvinnulífsins að dæma virðist ríkja nokkuð góður skilningur á því í samfélaginu. 

Kaupmáttur launa hefur aukist um 5,3% síðastliðna tólf mánuði. Þetta er gríðarlegur árangur. Það er ekki hægt að halda öðru fram. 

Launahækkun um 6,6% nýtist næstum að öllu leyti í kaupmátt þegar verðbólgan er undir einu prósenti. Stóran þátt í þessum árangri eiga stöðugleikasamningar sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu á síðasta ári. 

Þetta hefur leitt til þess að kaupmáttur launa hefur aldrei verið hærri en í nóvember síðastliðnum. Aldrei. Ekki einu sinni rétt fyrir hrun. Lægri skattaálögur á heimili og leiðrétting fasteignaskulda hafa svo enn frekar aukið kaupmátt heimilanna. 

Því er stundum haldið fram að Íslendingar séu betri í að takast á við mótlæti en velgengni. Hvað sem mönnum finnst um þá kenningu virðist ljóst að tilefni sé til að velta því fyrir sér hvað veldur því óþoli gagnvart stöðugleikanum sem víða kemur fram?  

Fyrir því kunna að vera margar ástæður en ég ætla að velta þremur þeirra upp hér. 

Í fyrsta lagi höfðu þrengingar undanfarinnar ára mikil áhrif á lífskjör og væntingar fólks og heimilin þurftu að draga saman seglin. Nú eru bjartari tímar og væntingar hafa aukist hratt.

Með öðrum orðum, nú þegar er að nást verulegur árangur í efnahagsmálum óttast menn að missa af hlutdeild sinni í afrakstrinum. 

Í öðru lagi er kergja í forystumönnum launþegahreyfinga vegna launahækkana þeirra stétta sem fyrr eru nefndar og gerðu langtímasamning með meiri launahækkunum. 

Menn spyrja hvort almennir launamenn eigi að halda uppi stöðugleika á meðan aðrir ferðast sem laumufarþegar á fyrsta farrými þjóðarskútunnar? 

Í þriðja lagi er það sannfæring margra að misskipting verðmæta og tekna fari stigvaxandi.

Byrjum á laumufarþegunum. Ég hef skilning á þessu sjónarmiði og fregnir af ofurlaunum og kaupaukum þeirra best settu hjálpa á engan hátt, -nema síður sé. Breytinga kann að vera þörf á umgjörð vinnumarkaðarins til að taka á þessum vanda. Það reynist illmögulegt að endurnýja þá hátt í 300 kjarasamninga sem þarf að gera í hverri lotu þannig að þeir samrýmist efnahagslegum stöðugleika. 

Litlir, og meðalstórir hópar, sem ákveða að fara aðra leið en mótuð hefur verið með tilliti til efnahagslegs stöðugleika eru oft í þeirri aðstöðu að geta knúið viðsemjendur sína til verulegra frávika frá markaðri launastefnu. 

Sterk aðstaða þessara hópa brýtur niður samstöðu í þjóðfélaginu um skynsamlega niðurstöðu kjarasamninga. 

Aðilar vinnumarkaðarins gera sér vel grein fyrir þessum veikleika. Það er mikilvægt að þeir taki af skarið og sníði þá agnúa af umgjörðinni, sem þeir telja versta. Að öðrum kosti er ólíklegt að við náum þeirri festu í umgjörð vinnumarkaðar sem nauðsynleg er. Afleiðingin gæti orðið sú að umgjörðin sem verið hefur um kjarasamninga á Íslandi líði undir lok.

Misskipting gæða er heimsvandamál. Samkvæmt nýlegri skýrslu Oxfam eru eignir 80 ríkustu manna heims jafnmiklar og eignir þess helmings mannkyns sem á minnst. Á aðeins fjórum árum hefur þessi tala lækkað úr 388 mönnum í áðurnefnda 80. Þetta er óheillavænleg þróun.

Á Íslandi hefur þessu hins vegar verið öfugt farið. Efnahagslegt jafnræði er óvíða meira en hér á landi. 

Ójöfnuður tekna er hér einna minnstur í heiminum. Það sýnir allur alþjóðlegur samanburður. Tekjur þeirra tekjuhæstu eru minni hluti þjóðarkökunnar en víðast hvar annars staðar og sem betur fer dró áfram úr misskiptingu hér á meðan hún jókst annars staðar. 

Fátækt er líka minni á Íslandi en í flestum öðrum löndum. Það er mikilvægt að hafa þetta hugfast því þessi staða gerir okkur kleift að gera enn betur.

Við eigum að stefna að því að bæta samfélag okkar enn meira með markvissum aðgerðum til lengri tíma. Við höfum vonandi lært það af reynslunni að sígandi lukka er best. 

Við bætum ekki hag fólksins með því að draga tennurnar úr frumkvöðlum og atvinnurekendum því atvinnulíf og félagsleg velferð haldast í hendur. 

Öflugt atvinnulíf sem byggir á raunverulegri verðmætasköpun er undirstaða þeirrar velferðar sem við viljum að allir landsmenn búi við.  

Ljóst má vera að mikilvægt er að ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins leggi sig fram um að eiga sem best samskipti um þessi mikilvægu hagsmunamál samfélagsins alls. 

Þar þarf þó að liggja fyrir að stefnan í efnahagsmálum þjóðarinnar er mótuð hjá lýðræðislega kjörinni ríkisstjórn. Lýðræði er jú, eins og Winston Churchill benti á, versta stjórnarfarið fyrir utan öll hin. 

Það færi því ekki betur á því að stefna stjórnvalda væri mótuð af þeim sem ekki hafa til þess umboð almennings. Ríkisstjórn mótar stefnu eftir að hafa fengið ráðleggingar og ábendingar frá ýmsum aðilum, þar á meðal aðilum vinnumarkaðarins, hverra ráð hafa mikið vægi við stefnumótun stjórnvalda enda gegna þeir stóru hlutverki í efnahagslífinu með mótun launastefnu fyrir almennan vinnumarkað. 

Ég legg áherslu á að dyr ríkisstjórnarinnar standa opnar þegar að því kemur að ræða hugmyndir. Ég hvet aðila vinnumarkaðarins til að taka þátt í virku samtali við ríkisstjórnina þar sem færi gefst til að skiptast á skoðunum, leggja línur og veita upplýsingar. 

Það er áhyggjuefni þegar stór aðili á vinnumarkaði hafnar ítrekað slíkum samskiptum, því það er mikilvægt, ekki síst við þær aðstæður sem nú ríkja, að slíkt virkt samtal sé til staðar.

Ég kalla eftir því að slíkt samtal eigi sér stað þrátt fyrir að menn geti greint á um ýmis mál.
Það er aðila vinnumarkaðarins að semja um kaup og kjör á grunni þeirra efnahagslegu skilyrða sem til staðar eru á hverjum tíma. 

Forsætisráðherra á ekki að semja um kaup og kjör. En hann getur haft skoðanir á kjarasamningum, líkt og aðilar vinnumarkaðarins hika ekki við að hafa skoðanir á stjórnvaldsaðgerðum. 

Um nokkurt skeið hef ég talað fyrir því að menn líti í auknum mæli til krónutöluhækkana. Ég geri mér grein fyrir að krónutöluhækkanir hafa haft tilhneigingu til að rata upp allan launastigann í formi prósenta. Það er þó ekkert náttúrulögmál. Ef litið er til síðustu átta ára þá hafa krónutöluhækkanir leitt til þess að lægstu launin hafa hækkað hlutfallslega meira en meðallaunin. Það er mikilvægt að halda áfram á þeirri braut og gera enn betur. 

Það þarf líka að draga úr neikvæðum hvötum og jaðaráhrifum sem búa til fátæktargildrur. Þegar jaðaráhrif skatta og bóta valda því að fólk lendir í þeirri stöðu að auka ráðstöfunartekjur sínar sáralítið þótt kaupið hækki þá dregur það mjög úr hvata vinnuveitandans til að hækka laun starfsmannsins og hvata starfsmannsins til að vinna meira eða auka framleiðni. 

Á þessu er aðeins hægt að taka í samvinnu ríkisvaldsins, launþegahreyfinga og vinnuveitenda. 

Loks biðla ég til þeirra sem hér eru í salnum, sem og annarra sem að munu þurfa að koma, að taka ekki þátt í höfrungahlaupinu í þeim kjaraviðræðum sem framundan eru heldur horfa til heildarhagsmuna þjóðfélagsins.

Aðalatriðið er að við þurfum aukna verðmætasköpun til að standa undir bættum kjörum og aukinni velferð. Stjórnvöld hafa í samstarfi við atvinnulífið ákveðið að stórauka framlög til rannsókna og nýsköpunar um leið og leitast er við að bæta rekstrarumhverfi slíkra fyrirtækja á Íslandi. 

Nú er stefnt að því að framlög til nýsköpunar, rannsókna og þróunar sem hlutfall af landsframleiðslu verði með því sem hæst gerist í heiminum innan fárra ára. 

Mikil umræða hefur verið að undanförnu um nýsköpun og þau vaxtatækifæri sem nýjum fyrirtækjum eru búin. 

Slík umræða er órækt merki um að við búum í lifandi þjóðfélagi þar sem ríkir aukinn vilji til að skapa, vilji til að spreyta sig á nýjum hlutum og vilji til að hagnast, til ávinnings fyrir frumkvöðlana sjálfa og samfélagið í heild. 

Í umræðu um nýsköpun og hvernig megi örva og hvetja áfram nýsköpun hér á landi leitar umræðan oftast fljótlega í umræðu um að fjármagn vanti og um leið að ríkissjóður leggi ekki nóg af mörkum. Það stendur allt til bóta eins og ég nefndi áðan. 

Auðvitað þarf fjármagn til nýsköpunar en fleira þarf að koma til ekki síst viljinn til að takast á við það erfiði sem því fylgir að vinna nýrri hugmynd, nýju fyrirtæki, brautargengi. 

Getur verið að okkur, hér á landi, hafi stundum sést yfir þann mikilvæga þátt sem hugarfarið er? Hvernig er hugarfarið gagnvart frumkvöðlum sem reyna sig en hrasa á leiðinni? Eða gagnvart þeim sem tekst að byggja eitthvað upp og hagnast jafnvel á því? 

Ég sá það haft eftir stofnanda eins þekktasta frumkvöðlafyrirtækis landsins  að sú staðreynd að hann hafi verið búinn að reyna sig áður við verk sem ekki hafi gengið upp hafi verið sem þröskuldur fyrir hann við öflun fjármagns til stofnunar fyrirtækisins hér á landi en aftur á móti virkað mjög jákvætt á viðmælendur hjá áhættufjármagnsfyrirtækjum í Silicon Valley. 

Hugarfar í umhverfinu og jákvæð afstaða til frumkvöðla skiptir gríðarlegu máli, bæði gagnvart þeim sem sem reyna þó ekki gangi allt upp eins og vonast var eftir og gagnvart þeim sem ná árangri. 

Það má vel ætlast til þess að almenningur, launþegar þar á meðal, standi með atvinnulífinu enda er árangur þess forsenda velferðar. En það er þá líka eðlileg krafa að atvinnulífið sýni samfélagslega ábyrgð og standi með almenningi. Hagsmunirnir haldast í hendur. 

Það skiptir líka máli að atvinnurekendur taki þátt í að ýta undir þá jákvæðni í garð atvinnulífs og þann sóknarhug sem er forsenda framfara. 

Í umhverfi þar sem allir efnahagslegir mælikvarðar eru jákvæðari en þeir hafa verið um mjög langt skeið hjálpar það ekki atvinnulífinu, og þar með ekki almenningi, að einblína á hið neikvæða á sama tíma og fréttir berast af methagnaði og arðgreiðslum.

Víkjum þá að stöðu okkar í samfélagi þjóðanna. 

Alþjóðaviðskipti eru mikilvæg fyrir lítið, opið hagkerfi eins og hið íslenska. Við þurfum aðgang að mörkuðum, fríverslunarsamninga, fjárfestingarsamninga og tvísköttunarsamninga og almennt uppbyggileg viðskiptasambönd við önnur ríki. 

Þessu getum við náð fram okkur til hagsbóta og höfum raunar gert í mjög ríkum mæli. 

Fá ríki eða ríkjasambönd njóta jafn þéttriðins fríverslunarnets og Ísland. Ríkin eru að nálgast 70 þar sem viðskiptahindrunum af ýmsu tagi hefur verið rutt úr vegi.

Lega okkar, náttúruauðlindir og uppbygging hagkerfisins gerir það hins vegar ekki eftirsóknarvert fyrir okkur að ganga í Evrópusambandið. 

Þessu hefur meirihluti Íslendinga lengi verið sammála. Það liggur einfaldlega ljóst fyrir hvað felst í því að ganga í Evrópusambandið. 

Skiptir þá engu hvort ná megi í samningum um hægari aðlögun að stofnanakerfi og regluverki sambandsins; kerfi og regluverki sem síðan kann að taka veigamiklum breytingum þegar við höfum bitið á agnið. 

Staða Evrópusambandsins sjálfs er veik og það er hrjáð af innanmeinum. 

Staða þess í samfélagi þjóðanna er að veikjast vegna hraðari uppbyggingar í öðrum heimsálfum.  

Á um það bil einni öld hefur samanlögð landsframleiðsla stærstu ríkja núverandi Evrópusambands, Þýskalands, Bretlands og Frakklands, farið úr því að vera rúm 20% af framleiðslu heimsins niður í um 8%. 

Ekkert bendir til annars en að áframhald verði á þessari þróun. 

Upptaka evru hér á landi myndi leysa úr læðingi ný vandamál í stað þeirra gömlu. 

Íslenska hagkerfið er örsmátt og opið fyrir utanaðkomandi sveiflum. 

Við getum síður búist við langvarandi efnahagslegum stöðugleika en flestar aðrar þjóðir. 

Við mætum ekki þessum vanda með því að gefa frá okkur möguleikann á að stjórna eigin peningamálum enda myndi það leiða til þess að sveiflur á vinnumarkaði tækju við af  gengissveiflum. 

Ekkert af þessu breytir því að Ísland er Evrópuland og á og mun eiga góð samskipti og viðskipti við ríki Evrópusambandsins.

Í umræðu um viðskipti við önnur ríki er rétt að nefna þó aðeins mikilvægi heimamarkaðarins og tollamál. 

Landbúnaður er innlend framleiðsla á sama hátt og innlendur iðnaður og verslun. 

Þar verða atvinnurekendur líka að sýna samfélagslega ábyrgð og sjá mikilvægi þess að standa vörð um innlenda framleiðslu rétt eins og verslunarmenn vilja standa vörð um innlenda verslun.  

Innan við 10% af landbúnaðarframleiðslu heimsins er seld yfir landamæri. 90% eru framleidd fyrir innanlandsmarkað. 

Á Íslandi eru aðeins um 50% neyslunnar innlend framleiðsla. 

Í stað þess að eyða kröftum í að lækka þetta hlutfall í 45% væri skynsamlegt fyrir atvinnulífið að taka þátt í að nýta þau tækifæri sem íslensk matvælaframleiðsla stendur frammi fyrir. 

Ríkisstjórnin hefur verið reiðubúin til að semja um lækkun tolla en slíkt þarf að gerast í samningum við önnur ríki. 

Ekkert land gefur eftir stöðu sína án þess að fá eitthvað á móti. Með því væri hagsmunum íslensks almennings varpað fyrir róða. 

Það má líka minna á hversu fráleitt er að tala um að hér sé rekin einhvers konar einangrunarstefna í þessum málum. 

Evrópusambandið leggur til dæmis tolla á um það bil tvöfalt fleiri vörutegundir en Ísland, og þar eru enn greiddir styrkir til að flytja út vörur sem ekki er þörf fyrir á heimamarkaði. 

Á Íslandi hefur slíkt ekki verið gert í um 20 ár. 

Staða okkar í samfélagi þjóðanna litast vissulega af fjármagnshöftunum. Þau voru ill nauðsyn á sínum tíma en við þurfum að minna okkur reglulega á skaðsemi þeirra. 

Fjármagnshöftum verður þó ekki kennt um allt sem illa fer og heimsvæðing viðskipta og fjárfestinga getur ávallt orðið til þess að við, eins og aðrar þjóðir, sjáum á eftir öflugum fyrirtækjum úr landi. 

Bretland og Sviss hafa til dæmis haft mikið aðdráttarafl fyrir fyrirtæki, ekki hvað síst nýsköpunarfyrirtæki frá evrulöndunum. 

Um leið sjáum við talsverðan áhuga erlendra fjárfesta á Íslandi þessa dagana, nú síðast með fréttum af væntanlegri komu Costco verslanakeðjunnar. 

Þrýstingur á að losa um höftin kemur ekki frá heimilunum því fæst þeirra finna fyrir þeim  með beinum hætti í daglegu lífi. 

Og þegar fjármagnshöft hafa verið við lýði í þetta langan tíma er hættan sú að okkur fari að líða vel í því skjóli sem þau veita. 

Í kringum höftin verður til iðnaður fólks, hverra hæfileikar væru betur nýttir í virðisaukandi starfsemi, verð á mörkuðum bjagast og höftin rýra samkeppnishæfni þjóðarinnar. 

Góðu fréttirnar eru að losun haftanna er í góðum farvegi. 

Þar er að sjálfsögðu nauðsynlegt að líta til margra samverkandi þátta, en allir sem hér sitja þekkja að það er nauðsynlegt skilyrði fyrir afnámi haftanna að skuldaskilum föllnu banka ljúki með þeim hætti að þau ógni ekki efnahagslegum stöðugleika. 

Af því verður enginn afsláttur gefinn. 

Slitabúin sjálf hafa ekki lagt fram neinar raunhæfar leiðir til lausnar vandanum. Þess í stað reka kröfuhafar öfluga hagsmunagæslu með fjölda íslenskra lögfræðinga, almannatengla og ýmsa aðra á launaskrá, og reyna að setja þrýsting á stjórnvöld með margvíslegum spuna. 

Það má þó vel halda því fram að með neyðarlögunum, endurreisn bankanna hafi verið langt seilst í að gæta hagsmuna kröfuhafanna og að innan haftakerfisins hafi svo verið búið um þá í bómull og þeir fóðraðir vel. 

Og það þótt jafnvel hefði verið tilefni til að sekta fyrirtækin eins og gert hefur verið með ýmsum hætti víða erlendis. 

Ég árétta því hér að ríkisstjórnin mun í öllum aðgerðum til losunar fjármagnshafta hafa hagsmuni þjóðarinnar, heimila og fyrirtækja að leiðarljósi. 

Íslenskur almenningur hefur þegar tekið á sig miklar byrðar. Á þær má ekki bæta. 

Fjármagnshöftum verður því aðeins aflétt á þann hátt að það sé efnahagslega forsvaranlegt. Afnám fjármagnshafta er stærsta hagsmunamál þjóðarinnar. 

Það er nauðsynlegt að í því máli standi stjórnvöld, þingheimur, fyrirtæki, aðilar vinnumarkaðarins og almenningur í landinu þétt saman og standi vörð um sameiginlega hagsmuni sína.

Góðir gestir. 
Það er mikilvægt að við tökum höndum saman og forðumst að tala eins og allt sé ómögulegt á Íslandi. 

Við búum við góðar aðstæður auk þess sem við stöndum frammi fyrir sögulegum tækifærum. Við eigum að fagna skynsamlegum ábendingum um það sem betur má fara en leiða hjá okkur úrtöluraddir og niðurrifsstarfsemi. Við þurfum að átta okkur á því að glasið er miklu nær því að vera fullt en tómt. 

Sá sem ekki hefur trú á sjálfum sé nær ekki árangri og það sama má segja um samfélögin sem einstaklingarnir mynda. 

Þjóð verður að trúa á sjálfa sig og að hægt sé að gera hlutina öðruvísi og betur. Þar má horfa til orða  þýska skáldsins Goethe sem sagði: „Hið mikilvæga í lífinu er að eiga sér háleit markmið, ásamt hæfni og þolgæði til að ná þeim.“

Við Íslendingar getum leyft okkur að hafa háleit markmið en við þurfum að virkja hæfni okkar og temja okkur það þolgæði sem þarf til að ná þeim. 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta