Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2016 ForsætisráðuneytiðSigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra 2013-2016

Ræða forsætisráðherra á Viðskiptaþingi 2016

Ræða forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, á Viðskiptaþingi, 11. febrúar 2016

 Talað orð gildir

I.

Ágætu gestir Viðskiptaþings.

„Héraðsmót eða heimsleikar“ er yfirskrift þingsins að þessu sinni og er sjónum sérstaklega beint að innlenda þjónustugeiranum.

Sá hluti atvinnulífsins sem kallaður er innlendi geirinn er yfirleitt ekki eins mikið í sviðsljósinu og alþjóðageirinn og auðlindageirinn, hvað þá opinberi geirinn sem Viðskiptaráð gerði góð skil á þingi sínu í fyrra.

Innlendi geirinn er hins vegar sá stærsti, mælt í framleiðslu og vinnuafli, og mikilvægi þessa víðfeðma geira er augljóst.

Hann nær til alls staðbundins rekstrar sem þjónustar innlendan markað og er í raun gangverk lífsins í landinu.

Tækifærin í innlenda geiranum liggja í því að gera hlutina betur með minni tilkostnaði og stuðla með því að betri lífskjörum.

Atvinnurekendum og stjórnmálamönnum hefur lengi verið tíðrætt um að einn helsti veikleiki íslensks atvinnulífs sé of lítil framleiðni.

Hér á landi hefur náðst samkeppnishæf framleiðni í alþjóðlegum samkeppnisgreinum eins og sjávarútvegi og orkufrekum iðnaði en talsvert skortir á að framleiðni sé næg í innlenda geiranum.

Hún er að jafnaði um 20 prósentum lægri en meðaltalið í Danmörku, Svíþjóð og Noregi.

Á þessum mun kunna að vera ýmsar skýringar – fyrirtæki njóta síður stærðarhagkvæmni á litlum markaði, lega landsins getur veitt vernd gegn erlendri samkeppni og neytendaaðhald kann að vera takmarkað.

En við verðum að gera betur ef við ætlum okkur að tryggja framtíðarkynslóðum góð lífskjör.

Í skýrslu Viðskiptaráðs sem liggur fyrir þinginu eru margar áhugaverðar tillögur sem gætu aukið framleiðni. 

Á Íslandi er samkeppni og hagræðingu stundum stillt upp sem andstæðum.

Hagræðing náist ekki hér vegna þess að fyrirtæki á markaði séu of mörg á litlum markaði.

Í sumum tilvikum er sjálfsagt eitthvað til í því.

Aukin einokun eða fákeppni er þó varla lausnin.

Ein leið til aukinnar hagræðingar, án þess að fórna samkeppni, gæti falist í því að greina skýrar á milli innviða og þjónustu;

heimila keppinautum samstarf við rekstur dýrra innviða sem hafa takmörkuð áhrif á val neytenda og njóta stærðarhagkvæmninnar en slaka í engu á kröfum um samkeppni í þjónustu þar sem stærðarhagkvæmni er lítil.

Með þessu væri hægt að skapa verðmæti.

II.

Aukin verðmætasköpun er forsenda aukinnar velferðar og fyrir skuldsett ríki, en það eru flest ríki heims, er aukin verðmætasköpun forsenda aukinna opinberra útgjalda, -samneyslu ef menn vilja nota jákvæðara orð sem þýðir þó í raun það sama.

Þeir sem vilja auka samneysluna vilja auka opinber útgjöld.

Til að standa undir útgjöldum þarf tekjur og til að standa undir auknum tekjum þarf hvað? ...aukna verðmætasköpun.

Þetta virðist einfalt og ætti eiginlega að segja sig sjálft, en það gerir það ekki og allra síst nú um stundir.

Það bendir nefnilega ýmislegt til þess að við lifum á áhugaverðum tímum.

Eftir að brotalamir alþjóðlega fjármálakerfisins komu í ljós, sem og margra ríkja eða ríkjasambanda á sama tíma og aðgangur að upplýsingum, réttum og röngum, jókst til mikilla muna hefur orðið áhugaverð þróun í stjórnmálum víða./p>

Stjórnmálahreyfingum, stjórnmálamönnum og hugmyndafræði af jöðrunum hefur vaxið fiskur um hrygg.

Þetta er kallað ýmsum nöfnum, sósíalistar, kommúnistar, þjóðernissinnar og anarkistar.

Allir segjast þeir boða eitthvað nýtt í andstöðu við kerfið, gamla spillta kerfið.

En þegar betur er að gáð er þetta allt endurvinnsla gamalla hugmynda sem hafa verið margreyndar og alltaf endað illa.

Annað sem einkennir þessar hugmyndir, stjórnmálamenn og -öfl sem nú njóta aukins stuðnings er að þau boða einfaldar lausnir, einfaldar en vanhugsaðar.

Einfaldar lausnir geta verið bestar, jafnvel nauðsynlegar, þar sem þær eiga við.

Önnur viðfangsefni kalla á flóknari lausnir en lausnir verða alltaf að vera úthugsaðar og rökréttar.

Og sem slíkar verða þær að þola rökræðu.

Margt af því sem nú fær mesta athygli og minnsta gagnrýni gerir það ekki  og er, því í raun ekki lausnir heldur frekar markmið án lausna.

Hvort sem litið er til leiðandi forsetaframbjóðenda í Bandaríkjunum, eða nýrra vinsælla flokka á meginlandi Evrópu, alls staðar eru boðuð aukin útgjöld með auknum skuldum án tillits til verðmætasköpunar.

Það þarf ekki að útskýra hvernig dæmið á að ganga upp, það nægir að hafa boðskapinn nógu einfaldan og setja hann fram í nógu jákvæðum frösum.

Og víða er það svo að því minna innihald sem er í boðskapnum þeim mun minni er gagnrýnin á hann.

Við getum líka litið okkur nær.

Hér kynnir stjórnmálahreyfing sem nýtur mikils stuðnings tillögu um að ríkið greiði öllum landsmönnum mánaðarlega laun, ja, a.m.k. 300.000 krónur skilst mér, fyrir það eitt að vera Íslendingur. -Óháð stöðu og öðrum tekjum.

Ég hef ekki orðið var við að neinn hafi haft fyrir því að reikna út að það myndi fela í sér útgjöld upp á um 100 milljarða á mánuði.

Það er álíka mikið og árlegur kostnaður við almannatryggingakerfið, lífeyrinn og örorkubæturnar sem hafa verið að hækka þótt margir telji ekki nóg að gert.

Við þær aðstæður kemur fram tillaga um að ríkið greiði öllum landsmönnum föst mánaðarlaun, líka hæstlaunaða fólki landsins.

Ég ætla að láta vera að velta því fyrir mér hvaða áhrif þetta hefði á framleiðni í samfélaginu eða verðlag eða þeirri augljósu staðreynd að þetta kæmi verst út fyrir þá sem verst stóðu fyrir.

Ég læt nægja að benda á að árlegur kostnaður næmi um 1.200 milljörðum króna á ári eða hátt í tvöföldum tekjum ríkisins og þá á eftir að reka heilbrigðiskerfið, skólana og allt hitt.

Kröfurnar um aukin útgjöld án tekna eru ótal margar.

Þegar menn eru krafðir svara er helst bent á að hækka megi skatta.

Það eru nefnilega furðumargir sem halda að skattlagning búi til verðmæti og taka því jafnvel illa þegar minnt er á nauðsynlegt samhengi verðmætasköpunar og velferðar.

Ef bent er á að mikilvægt sé að bæta kjör eldri borgara og öryrkja eða bæta heilbrigðiskerfið og þess vegna þurfi að framleiða meiri verðmæti eru viðkomandi sakaðir um að vera á móti eldri borgurum og öryrkjum og andsnúnir betra heilbrigðiskerfi.

Þeir sem benda á að við þurfum að greiða niður ríkisskuldir til að geta styrkt velferðarkerfið til lengri tíma eru sakaðir um að hola velferðarkerfið að innan, jafnvel þótt á sama tíma sé verið að stórauka framlög til velferðarmála, ólíkt því sem áður var.

Það er til marks um galskapinn að ef menn vara við því að farnar séu galnar leiðir til að ná góðum markmiðum eru þeir umsvifalaust sakaðir um að vera á móti markmiðinu.

Hvers vegna rek ég þetta hér?

Jú, það er til að benda á að því fer fjarri að í stjórnmálum sé almenn samstaða um samspil verðmætasköpunar og velferðar og það er síður en svo sjálfgefið að sú hraða jákvæða efnahagslega þróun sem átt hefur sér stað að undanförnu haldi áfram ef menn gleyma þessu samhengi.

Útópískar kenningar sem lögðust að mestu í dvala eftir að landamæraverðir í Berlín misstu vinnuna láta nú á sér kræla á ný.

Hrakfarir kapítalíska kerfisins sem varð of gráðugt (og er víðast hvar enn) geta hæglega leitt til bakslags sem sveiflast fyrirstöðulaust framhjá skynsemishyggju.

Það er áhyggjuefni að sjá að samkvæmt könnunum telur miklu stærri hluti Íslendinga, en nágrannaþjóðanna, að fyrirtæki hafi neikvæð áhrif á samfélagið. Í Danmörku fara hins vegar saman velmegun og jákvætt viðhorf til atvinnulífs

Eins og ég nefndi áðan hafa sumar íslenskar atvinnugreinar náð miklum árangri við að auka framleiðni, meira að segja greinar sem skortir framleiðni annars staðar, til að mynda orkufrekur iðnaður og sjávarútvegur. Enda eru þessar greinar, sem hafa náð svona miklum árangri í verðmætasköpun, þrátt fyrir erfiðar aðstæður, vinsælustu atvinnugreinar á Íslandi. –

Eða hvað, nei það vantar líklega eitthvað upp á það. 

Það er ekki gott ef þær greinar sem ná árangri eru litnar hornauga.

Í Noregi nýtur sjávarútvegur stuðnings bæði stjórnmálamanna og almennings, en þar greiða skattgreiðendur sem nemur um tuttugu þúsund krónum með hverju lönduðu tonni.

Fyrir nokkrum árum gagnrýndi ég sum samtök úr atvinnulífinu fyrir skort á stuðningi við samfélagið en það er líka mikilvægt að samfélagið styðji atvinnulífið og þá verðmætasköpun sem þar á sér stað, þó ekki væri nema sjálfs sín vegna.

Þess vegna er mikilvægt að stjórnmálamenn og atvinnurekendur geri betur í því að draga fram þetta samband framleiðni og velmegunar.

Takist það ekki er hætta á að hinar gömlu hugmyndir um útópíska samfélagsgerð sæki enn í sig veðrið og það mun á endanum valda öllum skaða.

En þá er líka mikilvægt að atvinnulífsmegin gleymi menn sér ekki í eigin útópíu eins og hugmyndum um að algjört frelsi markaðarins skili öllum mestum ávinningi.

Ég hvet því atvinnulífið til að gera meira af því að draga fram mikilvægi verðmætasköpunar og að sjálfsögðu að huga ávallt að samfélagslegri ábyrgð sinni.

-Draga úr átökum innbyrðis milli atvinnugreina, til dæmis hætta að eyða kröftum í að atast í bændum eða ímynda sér að það geti verið skynsamlegt að gera Ísland að losunarstað fyrir umframframleiðslu á heimsmarkaði á meðan önnur ríki viðhalda tollum gagnvart okkur.

Samfélagið heldur atvinnulífinu gangandi og öfugt.

Þess vegna vil ég færa því fólki þakkir sem leggur það á sig að standa í atvinnurekstri en jafnframt biðla til þess um að það vinni með okkur að því að láta skynsemishyggjuna sem hefur gefið svo góða raun að undanförnu virka áfram.

Þrátt fyrir að flest hin stóru, afmörkuðu verkefni sem ríkisstjórnin boðaði þegar hún tók við hafi þegar verið kláruð bíða okkar enn stór og mikilvæg úrlausnarefni.

Okkur mun ganga betur að leysa þau ef atvinnulífinu gengur vel og spilar með.

Þess vegna munum við áfram leggja áherslu á að bæta aðstæður atvinnulífsins og hvetjum um leið atvinnurekendur til að sýna að frjáls samkeppni virki við að auka framleiðni og að skattalækkanir skili sér í lægra vöruverði.

Við munum vinna áfram saman að einföldun regluverks en um leið fallast vonandi flestir á að betra, einfaldara og skýrara regluverk eigi í senn að gera atvinnurekendum auðveldara að starfa og tryggja að ávinningurinn af vel skipulögðu samfélagi dreifist á sanngjarnan hátt til landsmanna. 

Við þurfum í sameiningu að endurskipuleggja fjármálakerfið, taka söguleg framfaraskref í húsnæðismálum og halda áfram hinni hröðu uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og velferðarkerfisins, m.a. svo að hægt sé að tryggja lífeyrisþegum sæmandi kjör á sama tíma og stórir aldurshópar komast á lífeyrisaldur.

Ríkisstjórnin glímir nú við gerð fjármálaáætlunar til næstu fimm ára. Staða ríkisfjármála er vissulega betri en áður vegna stöðugleikaframlaga sem minnka skuldir, bæta vaxtakjör og  minnka vaxtakostnað.

En áskoranir eru engu að síður miklar, ekki síst vegna þarfar á innviðafjárfestingum. Fjárfesting hins opinbera hefur dregist verulega saman frá hruni og þörfin fyrir þjóðhagslega hagkvæmar fjárfestingar hefur hlaðist upp.

Þessi misserin er mest rætt um bankamál, húsnæðismál og heilbrigðismál. Á öllum þessum sviðum er verið að undirbúa miklar og góðar endurbætur.

Ríkisstjórnin hefur aukið fjármagn á föstu verði til heilbrigðismála í öllum fjárlögum sem hún hefur staðið að.

Við munum halda áfram að forgangsraða í þágu heilbrigðisþjónustunnar nú þegar tekist hefur að minnka skuldir ríkissjóðs og lækka vaxtakostnað.

Í yfirlýsingu sem stjórnvöld gerðu við lækna í tengslum við gerð kjarasamninga þeirra fyrir ári síðan sagði að haldið yrði fast við þá stefnu sem mörkuð var í fjárlögum og kveður á um aukið fjármagn til heilbrigðismála.

Þá sagði að ljóst væri að áskorunum heilbrigðisþjónustunnar yrði ekki mætt með auknu fjármagni eingöngu.

Kappkosta yrði að hámarka nýtingu fjármagnsins, m.a. með framleiðnisamanburði og hvatningu til skilvirkni og aukinna gæða þjónustunnar.

Framleiðni skiptir ekki bara máli þar sem ríkið aflar tekna heldur líka þar sem það nýtir tekjurnar.

Að þessu er unnið.

Verkefnisstjórn um bætta heilbrigðisþjónustu hefur verið að störfum undir forystu Björns Zöega, sem nýverið tók að sér að leiða sjúkrahús í Svíþjóð.

Húsnæðismálin eru í góðum farvegi.

Fjögur frumvörp um húsnæðismál, sem unnin voru í góðri sátt við aðila vinnumarkaðarins, eru í þinglegri meðferð

Af umsögnum hagsmunaðila og ummælum þingmanna að dæma er góður stuðningur við málin á Alþingi þó flestir telji einhverra breytinga þörf.

Frumvörpin eru ekki síst fram komin vegna bágrar stöðu margra leigjenda og erfiðleika tekjulágs fólks við að koma sér þaki yfir höfuðið.

Frumvörpin munu leysa úr brýnni þörf.

Þau auðvelda fólki val í húsnæðismálum en breyta ekki þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að leggja beri áherslu á séreignarstefnuna.

Séreignarstefnan á sér djúpar rætur í þjóðarsálinni þótt fleiri en áður kjósi sér önnur húsnæðisform.

Afar jákvætt er að sjá fréttir um að hlutur fyrstu íbúðakaupenda sem hlutfall af öllum íbúðakaupendum fer stækkandi.

Ríkisstjórnin styður séreignarstefnuna með ýmsum hætti, svo sem vaxtabótum og greiðslu séreignarsparnaðar inn á höfuðstól sem er hluti Leiðréttingarinnar.

Verið er að skoða frekari leiðir til að aðstoða ungt fólk við að koma sér upp fyrsta húsnæði.

Önnur þingmál sem varða húsnæðismarkaðinn eru í vinnslu í samræmi við skýrslu verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála.

Þá er einnig unnið að verðtryggingarmálunum í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar.

Allt stefnir því í að miklar breytingar verði á húsnæðismarkaði á þessu kjörtímabili.

Húsnæðismálin eru nátengd fjármálakerfinu og stöðu bankanna. Það er því mikilvægt að ljúka við vegvísi fyrir framtíðarskipan íslensks fjármálamarkaðar.

Skipuleggja á fjármálamarkað þannig að hann geti þjónustað íslenska raunhagkerfið á ábyrgan og farsælan máta og það er tilhlökkunarefni að ræða þau mál nánar á næstu misserum.

Þótt gömul hugmyndafræði láti á sér kræla í stjórnmálaumræðunni og það eitt að Ameríkanar ætli að setja pening í að lappa upp á gamalt flugskýli á Keflavíkurflugvelli kveiki kaldastríðsnostalgíu hjá sumum, þá erum við með hugann við áframhaldandi framfarir til framtíðar.

Við vonumst eftir góðu samstarfi við þá vinnu sem framundan er.

Góðir gestir. Það líður að aldarafmæli Viðskiptaráðs sem haldið verður hátíðlegt á næsta ári.

Viðskiptaráðið er hresst og sprækt, ber aldurinn vel og hefur aldrei skipt um kennitölu.

Það hefur svo sannarlega sett svip á þjóðmálaumræðuna síðastliðin hundrað ár og haft áhrif.

Annar síungur og hress aldargamall unglingur, sem hefur ekki síður mótað þjóðfélagsumræðuna síðastliðin hundrað ár, er Framsóknarflokkurinn.

Það hefur nú ekki alltaf verið samhljómur á milli Viðskiptaráðs og Framsóknarflokksins í gegnum tíðina en saman hafa þeir þó tekið þátt í móta gott samfélag, þó áherslur séu ólíkar. 

Framsóknarmenn hafa stundum gagnrýnt Viðskiptaráðið og öfugt þótt það séu atvinnurekendur í Framsókn og framsóknarmenn í viðskiptaráði.

Það eru alltaf tímamót þegar nýr formaður tekur við Viðskiptaráði og kannski stærri tímamót nú en oft áður þegar kona tekur við formennsku í fyrsta sinn.

Hreggviður hefur verið öflugur talsmaður Viðskiptaráðs og færi ég honum bestu þakkir fyrir samstarfið.

Hann var einn helsti hvatamaðurinn fyrir því að ráðgjafafyrirtækið McKinsey skrifaði áhugaverða skýrslu um hagvaxtarmöguleika Íslendinga árið 2012.

Í framhaldi af því var Samráðsvettvangi um aukna hagsæld komið á laggirnar en Hreggviður á einmitt sæti í honum

Það er gaman að geta sagt frá því að á síðasta fundi Samráðsvettvangsins nú í janúar var samþykkt að fara í úttekt á íslenska skattkerfinu og koma með tillögur um hvernig mætti bæta skilvirkni þess.

Þessi úttekt verður tilbúin í vor.

Varaformaður Samráðsvettvangsins er einmitt Katrín Olga, nýr formaður Viðskiptaráðs.

Hún hefur staðið sig með mikilli prýði í því hlutverki og mun án nokkurs vafa standa sig vel í því að tala fyrir aukinni verðmætasköpun sem formaður Viðskiptaráðs.

Ég hlakka til að starfa með henni. Til hamingju Katrín Olga og til hamingju Viðskiptaráð.

Þakka ykkur fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta