Ræða forsætisráðherra í almennum stjórnmálaumræðum á Alþingi 30. maí 2016
Virðulegi forseti. Ágætu landsmenn.
Nú er vor í lofti og landsmenn horfa af bjartsýni til komandi sumars. Við sem sitjum á Alþingi höfum það markmið að bæta lífskjör þjóðarinnar á sama tíma og við gætum þess að fara ekki of geyst, forðast kollsteypur og ónýta þar með þann árangur sem kann að hafa náðst. Hugmyndir okkar um það hvernig kjör þjóðarinnar verða bætt eru ólíkar um margt, allar miða þær að því sama en að sjálfsögðu er það þjóðin sem ræður hvaða hugmyndir eða hvaða stefna er sett í öndvegi á hverjum tíma.
Það er hægt að mæla árangur og stöðu með ýmsum hætti. Ein leiðin er að beita efnahagslegum viðmiðum. Á föstudaginn mátti sjá á forsíðu vefs Hagstofu Íslands sex fréttir sem settar höfðu verið á vefinn þrjá daga þar á undan. Það er athyglisvert að staldra við þær. Sú fyrsta er um launavísitöluna sem hefur hækkað um 13,4% undanfarna 12 mánuði. Önnur er um vinnumarkaðinn þar sem fram kemur að árstíðaleiðrétt atvinnuleysi hafi verið 3,7% í apríl, það minnsta í Evrópu. Þriðja fréttin er af landsframleiðslu sem talið er að muni aukast um 4,3% á þessu ári, ein sú hæsta meðal samanburðarþjóða. Fjórða fréttin er af vísitölu neysluverðs, þ.e. verðbólgu. Þar kemur fram að undanfarna 12 mánuði hafi hún hækkað um 1,7%. Nýskráning hlutafélaga kemur þar næst en undanfarna 12 mánuði hefur nýskráningum einkahlutafélaga fjölgað um 16% í samanburði við 12 mánuði þar á undan. Sjötta og síðasta fréttin er af fjölda gistinátta en þeim fjölgaði um tæplega 30% í apríl frá apríl fyrra árs.
Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur nú setið að völdum í þrjú ár. Það er áhugavert að sjá hvað hefur gerst á þeim tíma. Fyrst ber að nefna stærsta kosningamálið sem ríkisstjórnin lagði af stað með, en það var að létta undir með þeim sem skulduðu verðtryggð húsnæðislán og höfðu tekið á sig harðan skell í efnahagshruninu.
Skuldir heimila landsins voru um síðustu áramót áætlaðar 177% af ráðstöfunartekjum, álíka hlutfall og um síðustu aldamót. Skuldir heimilanna lækkuðu að raunvirði um tæplega 5% á árinu 2015. Lækkun skuldahlutfallsins má rekja til aukinnar landsframleiðslu en einnig umtalsverðrar lækkunar á nafnvirði skulda sem að stærstum hluta stafar af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til lækkunar á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána. Á sama tíma og skuldir almennings hafa lækkað hefur kaupmáttur aukist um fjórðung á þessum þremur árum og hefur aldrei mælst meiri. Staða ríkissjóðs hefur stórlega batnað, ekki síst vegna vel heppnaðrar áætlunar stjórnvalda um afnám hafta og hvernig tekið var á þrotabúum hinna föllnu banka. Verðbólga er innan vikmarka Seðlabanka Íslands og atvinnuleysi er hverfandi. Já, það veldur hver á heldur.
Góðir landsmenn. Þingstörf hafa gengið vel á Alþingi undanfarnar vikur og mörg þjóðþrifamál fengið framgang. Lykilfrumvörp um nýja framtíðarskipan húsnæðismála hafa verið unnin í góðu samstarfi stjórnar og stjórnarandstöðu og verða væntanlega að lögum á næstu dögum. Vil ég þar sérstaklega nefna frumvarp um almennar íbúðir þar sem stjórnvöld hafa tekið höndum saman með aðilum vinnumarkaðarins og sveitarfélögunum um að tryggja tekjulægstu heimilunum öruggt húsaskjól í nýju félagslegu leiguíbúðakerfi.
Ný mál hafa einnig komið til og má þar einna helst nefna frumvarp um heildarskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem kynnt var í fyrri viku sem styður enn frekar við framtíðarsýn okkar um að draga úr skuldum heimilanna. Með nýju styrkjafyrirkomulagi eygja námsmenn möguleika á að ljúka prófgráðum sínum án íþyngjandi námsskulda.
En til að geta staðið við frumvörp af þessu tagi þarf stjórn ríkisfjármála að vera með þeim hætti að þjóðin hafi efni á þeim. Til þess að ríkisfjármálin séu í lagi þarf að sýna festu og stöðugleika. Sú festa og sá stöðugleiki hefur einkennt undanfarin þrjú ár sem núverandi flokkar hafa setið í ríkisstjórn.
Á fyrri hluta kjörtímabilsins einhenti ríkisstjórnin sér í að ná utan um ríkisútgjöldin og leggja með því móti grundvöll að því sem nú er að gerast. Þá var lagður grunnur að því sem þjóðin er nú að uppskera. Til þess þurfti þor og áræðni en umfram allt trú á að örlög okkar sjálfra væru í okkar eigin höndum.
Nú geta menn að sjálfsögðu deilt um það hversu mikinn hluta af hagfelldu ástandi núna er ríkisstjórninni að þakka. Það væri nokkuð drambsöm afstaða að þakka ríkisstjórninni allt sem gerst hefur og orðið til góðs en á sama tíma og menn kenna henni um það sem ekki er í lagi er sjálfsagt að þeir hinir sömu viðurkenni hennar góðu verk, í það minnsta að einhverju leyti.
Það er þó Alþingi sem setur lögin sem unnið er eftir. Oftar en ekki eru alþingismenn sammála um þau mál sem til framfara horfa fyrir land og þjóð. Þessu til staðfestingar má nefna að á yfirstandandi löggjafarþingi hafa samkvæmt upplýsingum á vef Alþingis 55 lög verið samþykkt. Þau hafa samtals verið samþykkt með 2.199 atkvæðum. Atkvæði á móti eru einungis 40, þar af eru 25 nei-atkvæði í einu og sama málinu. Hlutfallið er 1,8 nei á móti hverjum 100 jáum. Þetta hlýtur að teljast til marks um að samstaða og skynsemi ráði oftar ríkjum í sölum Alþingis en ætla mætti af umræðunni.
Góðir landsmenn. Ýmislegt hefur verið okkur hagfellt á undanförnum missirum. Mörg skilyrði, bæði ytri og innri, eru hagstæð og gefur það góð fyrirheit um framtíðina.
Þegar sitjandi ríkisstjórn var mynduð var greint frá því að klára þyrfti ákveðin mál sem langt voru komin. Stærsta einstaka málið sem hangið hefur yfir hausamótum okkar er losun hafta. Nú hillir undir að hægt verði að aflétta þeim eftir þeirri áætlun sem ákveðið var að vinna eftir og kynnt var í júní í fyrra. Gangi áætlanir eftir verða höftin horfin áður en árið er úti.
Hefði verið tekin sú ákvörðun að ganga til kosninga í vor hefði afnám hafta getað tafist um allt að tvö ár. Ég tel að flestir sanngjarnir menn sjái að slíkt var einfaldlega ekki í boði. Átta ár innan fjármagnshafta eru átta árum of mörg í nútímasamfélagi.
Annað mál langar mig að nefna en það snýr að fjármögnun fasteignakaupa einstaklinga. Unnið verður að því í sumar að klára það og leggja fram þegar þing kemur aftur saman. Nái það fram að ganga yrði um að ræða eitt stærsta framfaraskref í fjármögnun íbúðarhúsnæðis sem tekið hefur verið.
Virðulegi forseti. Þótt einu máli ljúki, vonandi farsællega, taka önnur við. Vinnu stjórnvalda lýkur aldrei. Stjórnmálamenn verða að gera betur í dag en í gær og að því mun þessi ríkisstjórn vinna hér eftir sem hingað til. Verkefnin fram undan eru að tryggja velferð allra og styrkja innviði allra málaflokka um land allt. Dómur kjósenda um verk ríkisstjórnarinnar verður kveðinn upp innan tíðar. Því var heitið þegar stjórnin tók við að gengið yrði til kosninga þegar ákveðnum málum væri lokið. Ekkert hefur breyst í þeim efnum.
Góðir landsmenn. Það spáir góðu í dag og næstu daga. Með slíku veðri og óvanalega góðum efnahagshorfum er ekki hægt annað en að ganga glaður mót sumri. — Takk fyrir áheyrnina.