Áramótaávarp forsætisráðherra 2016
Því verður vart í mót mælt að árið hefur verið viðburðarríkt. Við kusum okkur forseta og einnig nýtt þing; enginn ætti að velkjast í vafa um að lýðræðið í okkar landi lifir góðu lífi. Og ekki aðeins það. Við erum einnig svo heppin að búa við traustar lýðræðislegar leikreglur sem tryggja drengilega keppni og almenna viðurkenningu á úrslitunum þótt þau séu ekki alltaf öllum að skapi. Það hefur einnig komið í ljós að leikreglurnar hafa tryggt stöðugleika og samfellu þrátt fyrir að enn hafi ekki verið mynduð ríkisstjórn eftir kosningarnar í október.
Ég hef ekki orðið þess var að þjóðfélagið hökti af þeim sökum. Það er athyglivert að sjá, hvernig Alþingi hefur starfað við þessar aðstæður. Og ég held að það megi fullyrða að því hafi tekist ágætlega upp í þeim verkefnum sem fyrir því lágu þegar það kom að nýju saman í byrjun desember. Samtalið hefur orðið öðruvísi en annars, þegar hefðbundin átök stjórnar og stjórnarandstöðu einkenndu umræðu um fjárlög og önnur mál við þinglok.
Höfum samt í huga að lýðræðinu er ekki best þjónað með samheldni og samstöðu um alla skapaða hluti. Og í reynd alls ekki. Skoðanaskipti og mismunandi áherslur eru nauðsyn hverju samfélagi til að ná fram bestri niðurstöðu. Svo ekki verður við ríkisstjórnarleysi unað til langframa. Það eru stór mál sem verður að takast á við til að tryggja hér hagsæld á komandi árum. Sú vinna verður að fara fram á vettvangi framkvæmdarvaldsins, undir pólitískri leiðsögn ráðherra.
Árið reyndist okkur hagfellt til sjávar og sveita. Það er í raun sama hvert litið er. Við búum til meiri verðmæti en áður úr náttúruauðlindum og mannauði. Nýir sprotar spretta á hugverkasviðinu, mikil verðmæti verða til úr fiski og áli og áður óþekktar tekjur koma frá ferðaþjónustunni.
Við höfum nú búið við viðskiptaafgang í 8 ár samfleytt – sem er met. En frá því að lýðveldið var stofnað höfum við Íslendingar yfirleitt verið með viðskiptahalla. Við höfum einnig borið gæfu til þess að nýta góðærið til þess að greiða upp erlendar skuldir þjóðarinnar og safna digrum gjaldeyriseignum. Nú í haust gerðist það í fyrsta sinn frá lokum seinna stríðs að erlendar eignir landsmanna reyndust meiri en skuldir okkar erlendis. Þetta eru svo sannarlega tímamót í hagsögu Íslands.
En þessi nýja forsjálni er ekki aðeins bundin við ríkissjóð. Á undanförnum árum hafa bæði heimilin og fyrirtækin greitt upp og lækkað skuldir og þannig búið í haginn fyrir framtíðina.
Það er svo að á uppgangstímum er sérstakrar aðgæslu þörf. Það þarf sterk bein til þess að þola góða daga segir gamalt máltæki. Okkur hefur því miður sjaldan auðnast að nýta uppgangstíma til að safna til mögru áranna. Oft höfum við farið fram úr okkur þegar hlutirnir hafa gengið okkur í haginn með of mikilli eyðslu sem síðan hefur leitt til þenslu og verðbólgu. Þessi hætta er einnig til staðar nú. Við þurfum ávallt að taka mið af fortíðinni þegar metnar eru þær áskoranir sem bíða okkar. Þau sem ekki þekkja söguna eru dæmd til þess að endurtaka hana er haft eftir heimspekingnum Santayana.
Eitt af þeim verkefnum sem bíða okkar er endurskoðun á peningastefnunni. Vextir eru of háir á Íslandi. Seðlabankinn hefur haldið þeim of háum hvort sem er í kreppu eða uppgangi. Það þarf að skoða peningastefnuna heildstætt og hvort hún þarfnist endurskoðunar eða hvort núverandi kerfi sé best til þess fallið að viðhalda lágri verðbólgu og stöðugleika. Ég er þeirrar skoðunar að stöðugt gengi krónunnar skipti mestu máli til þess að viðhalda langtíma stöðugleika í efnahagslífinu. Og í mínum huga er of mikil gengishækkun álíka skaðleg og gengislækkun.
Hér höfum við fordæmi til þess að læra af. Á árununum 2004-2008 voru vextir hækkaðir fram úr hófi sem dró að erlent skammtímafjármagn og þrýsti gengi krónunnar upp fyrir öll þolanleg og skynsamleg mörk. Vaxtastefna þessara ára hefndi sín með gríðarlegu gengisfalli sem olli heimilum landsins miklum búsifjum sem óþarft er að fjölyrða um. Ég óttast því miður að sagan gæti að einhverju leyti endurtekið sig þar sem gengi krónunnar hefur hækkað um tugi prósenta á aðeins nokkrum árum og stefnir nú hraðbyri á sömu slóðir og fyrir 2008.
Hættan við slíka hávaxtastefnu er sú að það verði ávallt of eða van á gjaldeyrismarkaði – annað hvort sé of miklu fjármagni veitt inn í landið, eða flutt frá því. Gengi krónunnar verði þar af leiðandi annað tveggja; alltof hátt eða alltof lágt. Það er alveg skýrt í mínum huga að við getum aldrei tryggt langtíma atvinnuuppbyggingu ef samkeppnishæfni útflutningsgreina rokkar til um tugi prósenta á milli ára.
Við þurfum að leita nýrra lausna í peningamálum og nýrrar samstillingar í hagstjórn þar sem ekki er ofuráhersla á vexti líkt og verið hefur hin síðari ár heldur verði hugað að mörgum þáttum samtímis. Ég gæti nefnt þætti líkt og aðhald í ríkisfjármálum, sjóðasöfnun hins opinbera og einnig ýmislegt annað sem hefur verið tengt við hugtakið þjóðhagsvarúð þar sem meðal annars er hugað að útlánum fjármálastofnana. Það er gríðarlega mikilvægt að við grípum í taumanna strax og komum í veg fyrir frekari gengisstyrkingu sem mun gera íslenska framleiðslu ósamkeppnishæfa í útlöndum. Við þurfum lægri vexti en aukið aðhald í gegnum önnur hagstjórnartæki.
Góðir landsmenn
Íslenska þjóðin fór á aðeins nokkrum áratugum frá örbirgð til bjargálna og enn eru margir á lífi meðal okkar sem muna tímana tvenna. Ég hygg að þeir telji okkur nútímafólkið skorta heldur fátt. En nýjir tímar færa okkur nýjar þarfir og háleitari markmið þegar þeim fyrri hefur verið náð. Allt hlýtur þetta að miða að því að gera líf okkar lengra, betra og innihaldsríkara.
Hér áður var drepið á hinar miklu efnahagslegu framfarir sem orðið hafa á undanförnum árum. En það eru að sjálfsögðu fleiri mælikvarðar sem segja til um hvort fólk hafi það raunverulega gott frá einum tíma til annars. Og það þýðir lítið fyrir okkur stjórnmálamenn að hamra á því að allir hafi það gott, ef upplifun margra er sú að svo sé ekki. Fyrir stjórnmálamenn er þetta þó hið endalausa verkefni; að tryggja að enginn heltist úr lestinni og batnandi tíð nái til allra. Það skiptir mig verulega miklu máli að við náum að halda jöfnuði í þjóðfélaginu og þessi ríkisstjórn sem ég er í forsvari fyrir hefur stigið mikilvæg skref í þá átt.
Möguleikarnir sem við höfum á Íslandi til að gera gott samfélag betra eru margir. Landið er stórt og ríkt af eftirsóttum auðlindum, íbúarnir fáir. En við getum ekki og megum ekki láta greipar sópa um gnægtarborð eins og enginn sé morgundagurinn. Sjálfbærni er sú krafa sem hvílir á okkur öllum og hafa ber í huga þegar við göngum um landið okkar eða miðin. Hér þarf að sýna aðgát og ekki ryðjast að ófyrirsynju yfir ósnortin svæði, þótt hafa megi af þeim arð til skamms tíma.
Okkar mesti auður er þó vel menntuð og heilbrigð þjóð. Að honum þarf að huga sérstaklega. Framtíð okkar er unga fólkið, velferð þess og umhverfi. Alþjóðleg samkeppni er um þennan auð. Fyrir ungt fólk í dag er heimurinn einn, fjarlægðir stuttar, möguleikarnir fleiri á að vinna hvar sem er í heiminum. Og unga fólkið mun ekki mikla það fyrir sér að setjast að þar sem því hentar. Það er enginn skuldbundinn til þess að lifa á Íslandi um alla framtíð, þótt viðkomandi hafi fæðst hér og alist upp.
Við sjáum líka að margir vilja koma til Íslands og vinna. Allt það góða fólk er okkur nauðsyn til þess að takast á við og nýta okkur þær aðstæður sem eru í efnahagslífinu. Margt af því vinnur störf sem við kærum okkur ekki um, teljum kannski of léttvæg eða ómerkileg. En ég hygg að flestir myndu verða varir við það með áþreifanlegum hætti ef þeir fjölmörgu útlendingar sem hér starfa myndu hverfa til síns heima. Það sama á við um erlenda sérfræðinga sem hingað koma og vilja koma hingað. Við þurfum að taka vel á móti fólki, en samtímis gera þá kröfu að eðlileg aðlögun eigi sér stað. Allir sem hingað vilja koma til að gera gott þjóðfélag betra, eiga að vera velkomnir.
Ágætu landsmenn
Sum gæði eru ómetanleg, þótt þau kosti í sjálfu sér ekki neitt og verða í raun ekki keypt. Eitt þeirra er tungumálið okkar; íslenskan. Okkur er falin varðveisla þess og það er ekki sama hvernig við göngum um það. Ég velti stundum fyrir mér hvort nú sé svo komið að raunveruleg hætta sé á að íslenskan muni í fyrirsjáanlegri framtíð láta svo á sjá, að henni verði ekki bjargað? Sagt hefur verið að raunveruleg hætta sé á því að íslenska verði ekki til eftir 100 ár. Var það í tilefni af skýrslu um stafræna stöðu íslenskunar sem kom út árið 2012.
Það hljómar kannski eins og bölmóður að telja að tungumálsins bíði þau örlög að hverfa og verða viðfangsefni fræðimanna. En þegar fræðimenn tala á þann veg að raunveruleg hætta sé á að málið okkar deyi út, er rétt að leggja við hlustir. Nefnt hefur verið að það þurfi um einn milljarð króna á næstu tíu árum til að þróa samvinnu tungumáls og stafrænnar tækni. Að öðrum kosti bíði íslenskunnar hnignun í tæknisamfélaginu. Þótt vissulega megi segja að einn milljarður sé há upphæð, þá hygg ég að hún sé lág þegar haft er í huga hvað í húfi er. Í þessum efnum verður að kosta því til, sem til þarf. Okkur, sem hér búum, er falið að gæta landsins gæða, tungumálið er meðal þeirra gæða. Okkur er tamt að tala um að skila landinu okkar í ekki lakara ástandi til afkomenda, en við tókum við því. Það sama á við um tungumálið. Höfum hugfast að það er sameiginleg tunga sem tengir okkur órofa böndum. Tungan gerir okkur að þjóð, hvar sem við erum niður komin í veröldinni.
En þótt stjórnvöldum sé falið hlutverk við gæslu tungunnar, þarf meira að koma til. Þar er hlutverk foreldra og forráðamanna barna stærst. Það er ekki sanngjarnt að krefjast þess að hið opinbera sjái að öllu leyti um máluppeldi barna. Það verður að vera samvinnuverkefni þeirra sem þetta land byggja.
Önnur gæði eru umhverfið. Á árinu sem er að líða gaf Ísland fyrirheit um sinn hlut innan Parísarsamningsins í loftslagsmálum. Íslensk stjórnvöld ásamt yfir 160 öðrum ríkjum undirrituðu Parísarsamninginn um aðgerðir í loftslagsmálum. Samningurinn, sem var fullgiltur á Alþingi á haustdögum, markar tímamót og gefur von.
Það má ekki dyljast neinum að það verður töluvert átak að ná þeim metnaðarfullu markmiðum sem sett hafa verið, en þeim verður ekki náð nema allir leggi sitt af mörkum. Verkefnin í Sóknaráætlun loftslagsmála miða að því að virkja sem flesta og finna skynsamlegar lausnir. Það hefur orðið vitundarvakning í þjóðfélaginu og ég skynja að okkur hefur orðið ágengt. Ísland á að vera í hópi ríkja sem eru fremst í flokki í loftslagsmálum, hvort sem það er í notkun endurnýjanlegrar orku og loftslagsvænum lausnum heima fyrir, eða í alþjóðlegri samvinnu.
Kæru landsmenn
Nú er nýtt ár að ganga í garð. Sumt af því sem verður á vegi okkar á nýju ári, verður kunnuglegt, annað verður nýlunda. Það er ekki ástæða til að hafa áhyggjur, en verum skynsöm og hjálpumst að við að gera tilveru allra sem besta. Það er gott að búa á Íslandi og það á að vera sameiginlegt markmið okkar allra að sjá til þess að svo verði um alla framtíð.
Ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs.