Þjóðaröryggisráð – ný viðhorf í utanríkismálum
Ávarp Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra á fundi Varðbergs, Norræna Húsinu 9. febrúar 2017.
Talað orð gildir
Fundarstjóri, fundargestir.
Ég þakka fyrir að vera boðið að vera hér með ykkur í dag. Það er ánægjulegt að koma hér í dag til að ræða við ykkur um þjóðaröryggisráðsmál, þar sem segja má að við stöndum nú á ákveðnum tímamótum.
Í fyrsta í sögu lýðveldisins er til staðar þjóðaröryggisstefna og þjóðaröryggisráð. Við erum í fyrsta skipti með tæki í höndunum þar sem horft er með heildstæðum hætti á öryggismál og þær margbreytilegu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Þá eru uppi áhugaverðir tímar í alþjóðamálum, vissulega að einhverju leyti óvissutímar – sem fela í sér bæði tækifæri og áskoranir.
Á sama tíma og við fjöllum um nýtt þjóðaröryggisráð er gott að tæpa á öryggis- og varnarmálum, hvað Ísland snertir og umgjörðina sem við búum við – og þannig ætla ég að byggja upp mína innkomu hér í dag.
Ég mun fyrst stikla á hinni stóru mynd öryggis- og varnarumhverfis okkar Íslendinga, sem leiðir mig að umfjöllun um þjóðaröryggisstefnu og þjóðaröryggisráði. Að endingu mun ég tæpa á stöðu mála beggja vegna Atlantshafsins.
Ágætu fundargestir.
Ekki þarf að fjölyrða um það hér að landfræðileg lega Íslands er lykilþáttur þegar öryggis- og varnarmál á Norður-Atlantshafi eru til umfjöllunar. Sem betur fer erum við Íslendingar svo heppin að búa í heimshluta þar sem ríkir stöðugleiki, öryggi og friður. Þessi staða er langt því frá sjálfgefin. Við þurfum að halda vöku okkar og gera ráðstafanir til að tryggja framhald verði á slíkri stöðu.
Í stjórnarsáttmála hinnar rétt tæplega mánaðar gömlu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, er lögð áhersla á grunnstoðir utanríkisstefnu Íslands: sem eru samstarf vestrænna ríkja, evrópskt og norrænt samstarf, aðild að Sameinuðu þjóðunum og NATO, varnarsamningurinn og friðar‐ og öryggissamstarf, samanber nýsamþykkta þjóðaröryggisstefnu.
Ein af frumskyldum stjórnvalda er að tryggja öryggi og varnir lands og þjóðar – að tryggja þjóðaröryggi. Með þjóðaröryggi er átt við öryggi fyrir ógnum sem kunna að valda borgurum, stjórnkerfi og grunnvirkjum samfélagsins stórfelldum skaða, hvort sem um er að ræða innri eða ytri ógnir, af mannavöldum eða vegna náttúruhamfara.
Eyþjóðin Ísland sem hvorki hefur burði né vilja til að ráða yfir her - tryggir öryggi sitt og varnir með virkri samvinnu við önnur ríki og innan alþjóðastofnana.
Íslandi er afar mikilvægt að eiga traust samstarf við helstu bandamenn okkar um öryggi og varnir landsins. Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og varnarsamningurinn við Bandaríkin frá árinu 1951 eru þannig með mikilvægustu stoðunum í öryggis- og varnarviðbúnaði Íslands, nú sem aldrei fyrr.
Brotthvarf varnarliðsins árið 2006 og þar með aukin ábyrgð íslenskra stjórnvalda á öryggis- og varnarmálum kallaði eðlilega á virkari þátttöku og hagsmunagæslu á vettvangi NATO, vegna sértækra hagsmunamála Íslands, m.a. vegna loftrýmiseftirlits, öryggis hafsvæða, varnaræfinga, mannvirkjamála og vaxandi vægis norðurslóða.
Samvinna Íslands og Bandaríkjanna á sviði varnar- og öryggismála hefur styrkst á umliðnum árum, meðal annars í ljósi versnandi horfa í öryggisumhverfi Evrópu og aukinna umsvifa á norðanverðu Atlantshafi. Þannig hafa Bandaríkin, frá árinu 2008, annast loftrýmisgæslu á Íslandi á vegum Atlantshafsbandalagsins einu sinni á ári og undanfarin rúm tvö ár hafa bandarískar kafbátaleitarvélar haft hér tímabundna viðveru.
Við leggjum áherslu á gegnsæi og þess vegna var ákveðið árið 2016 að formfesta það samstarf, sem hefur verið að þróast undanfarin ár og er stigsbreyting á samstarfi þjóðanna. Þannig var gerð sameiginleg yfirlýsing ríkjanna í júní 2016, sem er viðbót við samkomulag sem undirritað var við bandarísk stjórnvöld haustið 2006 við brottför, og rúmast innan tvíhliða varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá árinu 1951.
Yfirlýsingin felur meðal annars í sér áframhaldandi stuðning Bandaríkjanna við loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins hér á landi og tímabundna viðveru kafbátarleitarvéla, náið samráð um öryggis- og varnarmál, viðhald og rekstur varnarmannvirkja, upplýsingaskipti og hagnýtt samstarf, meðal annars á sviði æfinga, leitar og björgunar og neyðaraðstoðar.
Ágætu fundargestir.
Þróunin í Úkraínu og uppgangur hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við Ríki Íslams vakti evrópska ráðamenn til vitundar um þörfina á því að gefa öryggismálum álfunnar betri gaum. Við þurfum að standa föst á grundvallargildum um virðingu fyrir alþjóðalögum og réttarríkinu, lýðræðisþróun, málfrelsi og mannréttindum.
Í Úkraínu var landamærum landsins breytt með vopnavaldi, alþjóðalög voru þverbrotin og samningar sniðgengnir. Það kemur því fæstum á óvart að þessir atburðir marka vatnaskil í samskiptum Evrópuríkja og Rússlands. Fyrir Ísland snýst málið fyrst og síðast um að alþjóðalög séu virt og að aflsmunur ráði ekki för í samskiptum ríkja.
Þannig hefur Atlantshafsbandalagið styrkt varnir sínar og viðveru í Evrópu eins og áréttað var á leiðtogafundi bandalagsins í júlí á síðasta ári. Eru það einkum varnir og viðvera í austanverðri Evrópu af ástæðum sem ég tæpti á hér framar og eru okkur öllum kunnar, en bandalagið horfir sömuleiðis í auknum mæli til Norður Atlantshafsins. Reglubundin loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins á Íslandi er liður í þeirri þróun. Þá vegur einnig þungt uppgangur og aðgerðir öfgamanna sem hefur og ýtt undir öldu alþjóðlegra hryðjuverka.
Hryðjuverkaógnin hefur undanfarin misseri verið viðvarandi hjá nágrannaþjóðum okkar, hvort sem litið er til Norðurlandanna eða meginlands Evrópu og kemur ekki síst fram í nýrri skýrslu Ríkislögreglustjóra frá því í lok janúar sl. og fjallar um mat á hættu á hryðjuverkum á Íslandi. Niðurstaða Ríkislögreglustjóra er óbreytt frá fyrra mati frá árinu 2015 þegar hættustig var hækkað um eitt stig: hættustig á Íslandi er metið í meðallagi – sem þýðir á mannamáli að almennt er talið að ekki sé hægt að útiloka hættu á hryðjuverkum vegna ástands innanlands eða í heimsmálum.
Þá er rétt að nefna mikilvægi norðurslóða, sem hefur aukist á síðastliðnum árum og má búast við að sú þróun halda áfram. Norðurslóðir eru víðfeðmt svæði í vistfræðilegum, efnahagslegum, pólitískum og öryggistengdum skilningi og því ber að skoða málefni svæðisins frá víðu sjónarhorni.
Opnun áður lokaðra hafsvæða hefur leitt til aukinnar umferðar og um leið umgengni manna á svæðinu. Fjölgun skipaferða á norðurslóðum, bæði kaupskipa og skemmtiferðaskipa, sem og umferð í tengslum við olíu- og gasvinnslu og vinnslu annarra jarðefna kallar á árvekni íslenskra stjórnvalda gagnvart nýjum öryggisáskorunum.
Þá hefur ógnum er snúa að netöryggi, tölvutengdum glæpum vaxið fiskur um hrygg á undanförnum árum – en þetta eru ógnir sem virða hvorki landamæri né landfræðilegar hindranir, þær herja á innviði samfélagsins og geta valdið ómældum skaða.
Í breyttum heimi og breyttri heimsmynd er nauðsynlegt að við Íslendingar hugum að því að hafa umgjörðina um okkar eigið þjóðaröryggi – öryggi borgaranna og varnir landsins – á föstum grunni.
Ágætu fundargestir.
Stofnun þjóðaröryggisráðs á sér nokkurn aðdraganda. Þrjár ríkisstjórnir hafa komið að þeirri vinnu með góðri leiðsögn þingsins á hverjum tíma. Með samþykkt laga um þjóðaröryggisráð nr 98/2016 er tryggt að til staðar er ráð sem tryggir virka framfylgd þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland eins og hún er á hverjum tíma, að stefnan sé endurskoðuð reglulega og að viðeigandi samráð stjórnsýsluaðila innbyrðis og við Alþingi eigi sér farveg og fari reglulega fram.
Með stofnun þjóðaröryggisráðs er stigið skref í þá átt að styrkja samhæfingu og, sé þjóðaröryggi ógnað, að tryggja samræmd viðbrögð hlutaðeigandi viðbragðsaðila.
Ég get nefnt nokkrar vörður á leiðinni við gerð stefnunnar og stofnunar ráðsins:
- Áhættumatsskýrslu skilað árið 2009
- þingmannanefnd skipuð 2011 skilaði tillögum að þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland í ársbyrjun 2014
- í apríl 2016 samþykkir Alþingi þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, á grundvelli tillagna frá fyrrnefndri þingmannanefnd
- í september 2016 samþykkir Alþingi lög um stofnun þjóðaröryggisráð.
Breið pólitísk samstaða var um gerð stefnunnar og stofnun ráðsins, sem er mikilvægt þegar um slíkt grundvallarmál er að ræða.
Engin ákvæði er að finna í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands um landvarnir eða þjóðaröryggi. Þjóðaröryggisstefnan byggist á og tekur mið af stöðu Íslands sem sjálfstæðs ríkis, tví- og marghliða samningum við önnur ríki á sviði öryggis- og varnarmála, þátttöku Íslands í alþjóðlegum stofnunum á þessu sviði, sem og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum Íslands.
Stefnan tekur til hnattrænna, samfélagslegra og hernaðarlegra áhættuþátta og felst í virkri utanríkisstefnu, almannaöryggi og varnarsamstarfi við önnur ríki. Hún kveður á um að þjóðaröryggi Íslands skuli hvíla áfram á þeim styrku stoðum sem hafa tryggt öryggi- og varnir Íslands nærfellt alla lýðveldissöguna, aðildinni að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningnum við Bandaríkin.
Öryggishagsmunir Íslands á norðurslóðum er undirstrikaðir sérstaklega, bæði er lítur að alþjóðasamvinnu og innlendum viðbúnaði.
Um aðildina að Atlantshafsbandalaginu segir að hún verði áfram lykilstoð í vörnum Íslands og meginvettvangur vestrænnar samvinnu sem Ísland tekur þátt í á borgaralegum forsendum til að efla eigið öryggi og annarra bandalagsríkja.
Og um varnarsamninginn segir að hann tryggi áfram varnir Íslands og áfram verði unnið að þróun samstarfsins á grundvelli hans þar sem tekið verði mið af hernaðarlegum ógnum, sem og öðrum áhættuþáttum þar sem gagnkvæmir varnar- og öryggishagsmunir eru ríkir.
Enn fremur leggur stefnan áherslu á að efla og þróa enn frekar norræna samvinnu og annað grannríkjasamstarf sem lítur að svæðisbundnum hagsmunum og þátttöku í alþjóðasamstarfi á því sviði.
Um varnarviðbúnað segir að tryggja þurfi að í landinu séu til staðar varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir og til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar okkar.
Stefnan taki ekki eingöngu til varnarstefnu, heldur einnig til almannaöryggis og virkrar utanríkisstefnu, og er skýrt kveðið á um að stefna stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum, sem mótuð er af almannavarna- og öryggismálaráði, sé hluti af þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.
Netöryggismálum eru gerð skil þar sem segir að stuðla beri að auknu netöryggi með áframhaldandi uppbyggingu á getu Íslands og í samstarfi við önnur ríki.
Um virka utanríkisstefnu segir að tryggja beri víðtæka öryggishagsmuni Íslands með virku alþjóðasamstarfi á grundvelli alþjóðalaga og með friðsamlega lausn deilumála, afvopnun, virðingu fyrir mannréttindum og réttarríkinu, jafnrétti kynjanna og baráttu gegn ójöfnuði, hungri og fátækt að leiðarljósi.
Þjóðaröryggisráði er meðal annars ætlað að hafa eftirlit með framkvæmd þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem Alþingi samþykkti í apríl 2016 og vera samráðsvettvangur um þjóðaröryggismál. Ráðinu er ætlað að meta ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum og fjalla um önnur málefni sem varða þjóðaröryggi. Þá gera lögin ráð fyrir því að þjóðaröryggisráð, í samvinnu við háskólasamfélagið, hugveitur og fjölmiðla, beiti sér fyrir opinni og lýðræðislegri umræðu um þjóðaröryggismál.
Ráðið skal á ári hverju upplýsa Alþingi um framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar og upplýsa utanríkismálanefnd þingsins um hver þau mál sem líkleg eru til að hafa áhrif á þjóðaröryggisstefnuna og framkvæmd hennar. Þá skal ráðið stuðla að endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar eigi sjaldnar en á 5 ára fresti.
Til viðbótar vil ég nefna að samvinna þjóðaröryggisráðs og almannavarna og öryggismálaráðs er afskaplega mikilvæg, þar sem störf þessara ráða skarast í mörgum tilvikum. Því er sú skylda lögð á þjóðaröryggisráð að eiga samráð við almannavarna- og öryggismálaráð. Góðu fréttirnar eru þær að það ætti að auðvelda samvinnu þessara tveggja ráða að þau eru að hluta til skipuð sömu fulltrúum! Nauðsynlegt er að tryggja samræmi og samhæfingu milli þessara tveggja ráða.
Fullskipað þjóðaröryggisráð telur 11 aðila. Forsætisráðherra er formaður ráðsins og stýrir fundum þess. Þá eiga sæti utanríkisráðherra, innanríkisráðherra og ráðuneytisstjórar ráðuneytanna þriggja. Enn fremur eiga fast sæti í ráðinu tveir þingmenn, annar úr þingflokki sem skipar meirihluta á þingi en hinn úr þingflokki minnihluta. Þá sitja í ráðinu forstjóri Landhelgisgæslunnar, Ríkislögreglustjóri og fulltrúi Landsbjargar. Einnig getur þjóðaröryggisráðið kallað til aðila til tímabundinnar setu í ráðinu vegna einstakra mála.
Unnið er að því í forsætisráðuneytinu að hægt verði að kalla þjóðaröryggisráð saman sem fyrst. Óska þarf tilnefninga til setu í ráðinu að hluta: einn frá minnihluta Alþingis, einn frá meiri hluta á Alþingi, svo og einn frá Landsbjörg. Tilnefninga hefur þegar verið óskað og vona ég að þær berist sem fyrst.
Þegar allar tilnefningarnar hafa borist og aðilar skipaðir á grundvelli þeirra, verður þjóðaröryggisráð kallað saman.
Ég tel rétt að formfesta umgjörð og starfshætti ráðsins, auk þess sem lögin kveða á um að forsætisráðherra tilnefni ritara þjóðaröryggisráðs. Í forsætisráðuneytinu er þannig í vinnslu skrif reglugerðar sem kveður á um starfshætti ráðsins og um störf ritara þess.
Þá stefni ég að því að tilnefna ritara þjóðaröryggisráðs á fyrsta fundi ráðsins.
Verkefni þjóðaröryggisráðs eru viðamikil – bind ég miklar vonir við störf þess. Alveg klárt að verkefnum þess undir minni forystu verður sinnt af ábyrgð og festu.
Gróft á litið má segja að innanríkisráðuneyti og undirstofnanir og utanríkisráðuneyti muni, í krafti reynslu og þekkingar þar innandyra, gegna lykilhlutverki í framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar. Verkefnin eru fjölmörg og ég sé fyrir mér í tengslum við hlutverk þjóðaröryggisráðs þá felast tækifæri til að skerpa boðleiðir, skilgreina verkaskiptingu enn betur og gera samstarf enn skilvirkara – sem er mjög til bóta fyrir alla framkvæmd.
Ágætu fundargestir.
Það er mikil gerjun í alþjóðastjórnmálum og alþjóðamálum almennt um þessar mundir.
Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu (Brexit) og sigur Donalds Trumps í forsetakosningum Bandaríkjunum var á skjön við marga álitsgjafa og margar skoðanakannanir. Um það er ekki deilt.
Sumir hafa haldið því fram að atburðir á borð við Brexit og kjör Trumps í embætti forseta Bandaríkjanna marki einhvers konar frávik frá norminu. Við því myndi ég segja þetta: hvoru tveggja er hins vegar lýðræðisleg niðurstaða kjósenda.
Þá velta margir eðlilega fyrir sér ástæðum þess að Bretar ákváðu í þjóðaratkvæðagreiðslu á sl. ári að segja sig úr Evrópusambandinu. Því hefur verið haldið fram að Evrópusambandið hafi horfið um of frá upprunalegum markmiðum – umbreyst í ólýðræðislegt skriffinnskubákn, með of miklum samruna og of litlum sveigjanleika – og hafi ekki tekið nægjanlegt tillit til þarfa einstakra aðildarríkja.
Bretum, sem eiga að miklu leyti heiðurinn af lýðræðishugsjóninni, var nóg boðið og þeir ákváðu að taka sjálfstjórnina aftur í eigin hendur. Ég held að það sé nokkuð til í þessari lýsingu. Augu margra hafa upp á síðkastið beinst að Bandaríkjunum og fyrstu vikum Donalds Trumps forseta Bandaríkjanna í embætti.
Það virðist sem Trump hafi í kosningabaráttunni vestanhafs, tekist að höfða til vinnandi fólks í Bandaríkjunum, sem margir hverjir voru óánægðir með stefnu þáverandi valdhafa í Washington í tilteknum málum, auk þess sem talsvert hefur verið alið á óvissu og ótta, bæði um efnahagsleg kjör, en einnig stöðu Bandaríkjanna og samkeppni við önnur lönd.
Það er talsverð áskorun sem bíður Trumps forseta að standa við kosningaloforð sín – en að sama skapi er óhætt að segja að hann hafi látið verkin tala frá degi eitt í embætti til samræmis við loforð sín.
Ég hef látið hafa eftir mér að nýr forseti sé á margan hátt óvenjulegur forseti. Hann kemur úr annarri átt, á ekki langan stjórnmálaferil að baki – ég er ekki sammála honum í öllum málum, en tel hins vegar of snemmt að fella stóra dóma yfir forsetatíð hans.
Það skiptir máli hvernig samskipti Íslands og Bandaríkjanna þróast. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að samskipti þessara tveggja vinaþjóða haldi áfram að blómstra á sem flestum sviðum. Að því munum við vinna áfram.
Samskipti Íslands og Bandaríkjanna byggja á traustum grunni, eru víðtæk og skiptir þar afar miklu samstarf ríkjanna á sviði varnar- og öryggismála. Mikilvægt er fyrir báðar þjóðir að viðhalda varnarskuldbindingum ríkjanna. Það hefur valdið áhyggjum meðal bandalagsríkja hvernig Trump Bandaríkjaforseti hefur talað um NATO og sameiginlega varnarskuldbindingu bandalagsins – en ég get ekki séð að tilefni sé til að ætla að breyting verði á grundvallarstefnu Bandaríkjanna til NATO. Trump Bandaríkjaforseti og Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO áttu samtal fyrir stuttu og stefnir í að leiðtogar NATO ríkja fundi í maí nk.
Ágætu fundargestir.
Theresa May forsætisráðherra Bretlands kynnti þann 17. janúar sl. áætlun ríkisstjórnar Bretlands um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, í formi tólf markmiða, í komandi samningaviðræðum, sem má segja að myndi rammann um væntanlegar viðræður um útgöngu Bretlands úr ESB. Bretland sækist eftir nýjum samningi á jafnréttisgrundvelli – á milli sjálfstæðs alþjóðlegs Bretlands við vini og samherja í ESB, eins og sagði í ræðu hennar.
Áréttað er að Bretland verður ekki aðili að ESB að hluta, ekki verði gengið inni í fyrirkomulag/samninga sem þegar eru fyrir hendi - ekki verði slegið af varðandi útgönguna, hún verði alger.
Ræðan var afdráttarlaus. Bretland er ekki að segja sig frá Evrópu – Bretland er á leið úr ESB og verkefnið er að ná góðum samningi fyrir Bretland í þeirri vegferð. Í síðastliðinni viku lagði svo ríkisstjórn Bretlands fram svokallaða Hvítbók sem skýrir enn frekar fyrrnefnd tólf meginmarkmið.
Hið raunverulega útgönguferli hefst eftir virkjun 50. gr. Lissabon-sáttmálans – sem verður virkjuð í síðasta lagi fyrir lok marsmánaðar næstkomandi. Ræða May var algerlega í anda þess sem hún hafði áður sagt – Bretar verði í forystu frjálsra viðskipta á heimsvísu.
Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi Bretlands sem markaðs fyrir íslenskar vörur, en um 11 prósent útflutnings fer á Bretlandsmarkað – og þegar kemur að sjávarafurðum er hlutfallið heldur hærra eða um 18 prósent heildarverðmætis sjávarafurða, um 48 milljarðar íslenskra króna.
Það gefur augaleið að það er forgangsmál okkar í þeim samningum sem framundan eru við Breta að tryggja áfram markaðsaðgengi fyrir og vörur og þjónustu frá Íslandi inn á Bretlandsmarkað.
Strax og niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar lá fyrir um útgöngu Bretlands úr ESB, voru gerðar ráðstafanir af okkar hálfu. Meðal annars stofnaði fyrrverandi utanríkisráðherra svokallað Brexit-teymi sem heldur utan um okkar vinnu í þessu máli.
Ágætu fundarmenn.
Ég hef eytt drjúgum tíma í að ræða við ykkur meðal annars um umgjörð öryggis og varnarmála á Íslandi tengt uppsetningu þjóðaröryggisráðs.
Þannig er að stundum stöndum við andspænis hraðri og stundum ófyrirsjáanlegri þróun eða aðstæðum og þurfum þá að vera í stakk búin að geta brugðist hratt við með skipulögðum hætti.
Frumskylda stjórnvalda er að búa svo um hnútana að öryggi og varnir Íslands séu tryggðar og viðbúnaður taki mið af hugsanlegum ógnum. Ég hef tæpt hér á þeirri mikilvægu vinnu, sem við höfum innt af hendi að undanförnu og unnið er að til að tryggja að svo sé. Samþykkt laga um stofnun þjóðaröryggisráð er sannarlega mikilvægur áfangi.
Það er einnig skylda lýðræðisríkja að fylkja liði um þau grundvallargildi sem skilgreina okkur sem þjóð. Þetta er þungamiðja okkar utanríkisstefnu sem við framfylgjum meðal annars með þátttöku í vestrænni samvinnu og með því að styðja öflug Atlantshafstengsl.
Þjóðaröryggi Íslands mun hvíla áfram á þeim styrku stoðum sem hafa tryggt öryggi og varnir Íslands nærfellt alla lýðveldissöguna, aðildinni að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningnum við Bandaríkin.
Takk fyrir.