Stefnuræða forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, á 148. löggjafarþingi, 14. desember 2017
Talað orð gildir
I.
Virðulegur forseti. Góðir landsmenn.
Við höfum lifað óvenjulega pólitíska tíma undanfarin ár og þessi árstími er óvenjulegur til að eiga umræður um stefnuræðu forsætisráðherra. Og vissulega er þessi ríkisstjórn þriggja ólíkra flokka óvenjuleg að því leyti að þeir hafa aldrei starfað saman áður allir þrír að stjórn landsmálanna. Hún snýst um ákveðin lykilverkefni sem við öll metum svo mikilvæg fyrir fólkið í landinu að við teljum það forsendu fyrir svo breiðu samstarfi. Um leið endurspeglar stjórnin niðurstöður tvennra síðustu alþingiskosninga sem haldnar voru með skömmu millibili og skiluðu ekki afgerandi meirihluta til hægri eða vinstri.
Sagt hefur verið að það sé auðvelt að dæma stjórnmálamenn út frá hugsjónum þeirra en mikilvægari dómur sé sá sem falli um þær málamiðlanir sem þeir gera. Málamiðlanir eru ekki í eðli sínu góðar eða slæmar. Og stundum þarf að fórna minni hagsmunum fyrir meiri en niðurstaðan þarf hins vegar að vera samfélaginu sem heild til heilla. Markmið þessarar ríkisstjórnar er fyrst og fremst að koma til móts við ákall almennings um að sú hagsæld sem hér hefur verið á undanförnum árum skili sér í ríkari mæli til samfélagsins, fyrst og fremst til uppbyggingar heilbrigðis- og menntakerfis, en einnig hinna efnislegu innviða. Þess sem við öll sem búum í þessu landi eigum saman.
Sáttmáli ríkisstjórnarinnar fjallar um leiðir til að ná fram félagslegum, efnahagslegum og pólitískum stöðugleika sem tryggir góð lífskjör til framtíðar fyrir venjulegt fólk. Hann ber vitni ágætri stöðu efnahagsmála en jafnframt miklum viðfangsefnum sem blasa við í uppbyggingu samfélagsinnviða og þeirri félagslegu sátt sem þjóðin hefur kallað eftir. Megináherslur ríkisstjórnarinnar eru sterkt samfélag, þróttmikið efnahagslíf, umhverfi og loftslag, nýsköpun og rannsóknir, jöfn tækifæri, lýðræði og gagnsæi og alþjóðamál.
II.
Viðfangsefni þessarar ríkisstjórnar snúast þó ekki aðeins um lykilverkefnin sem ég nefndi hér. Verkefni þeirra flokka sem hana skipa, sem og annarra flokka á Alþingi, hlýtur að vera að byggja upp traust á stjórnmálum og Alþingi. Nú er senn áratugur liðinn frá hruni, og efnahagur landsins hefur vænkast en traust almennings á stjórnmálum og stofnunum samfélagsins er enn umtalsvert minna en fyrir áratug. Sem er alvarleg staða fyrir lýðræðið á Íslandi.
Ábyrgð stjórnarmeirihlutans er hér mikil, ekki aðeins á að breyta umræðunni heldur einnig á að tryggja gagnsæi og traust. Þess vegna munum við leggja áherslu á að læra af reynslu undanfarinna ára og líta til alþjóðlegra viðmiða við endurskoðun siðareglna og reglna um hagsmunaskráningu. Gott talsamband stjórnvalda og fjölmiðla er sömuleiðis lykilþáttur í þessu verkefni. Þá er mikilvægt að við reynum að skapa samstöðu um ferli til að leiða til lykta heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar sem hefur verið eitt stærsta pólitíska þrætuepli undanfarinna ára.
Gleymum því ekki að latneska orðið minister þýðir þjónn en ekki herra eins og innlend hefð er fyrir að láta okkur sem skipum ríkisstjórn heita. En traust á stjórnmálum og Alþingi er ekki einungis á ábyrgð meirihlutans heldur okkar allra, þingmanna á Alþingi Íslendinga.
III.
Góðir landsmenn. Ríkisstjórnin ætlar að gera betur í loftslagsmálum en Parísarsamkomulagið gerir ráð fyrir og stefna að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040. Það er frumskylda okkar að leggja mikinn metnað í stærsta viðfangsefni mannkyns. Kveðið er á um fjöldamörg verkefni og úrbætur tengdar umhverfis- og loftslagsmálum í sáttmálanum og strax verður ráðist í að skipa loftslagsráð samkvæmt samþykkt Alþingis sem mun gegna lykilhlutverki við að smíða vegvísi fyrir samfélagið inn í kolefnishlutlausa framtíð.
Loftslagsmálin krefjast samstarfs stjórnvalda, atvinnulífs og almennings. Grundvallaratriði er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá öllum geirum samfélagsins en að auki að nýta endurheimt vistkerfa, þ.m.t. votlendis og skóga, til kolefnisbindingar, og nýta tæknina til að styðja við þessi markmið.
Mótun langtímaorkustefnu er annar lykilþáttur í loftslagsmálum en tengist líka náttúruvernd þar sem miklu skiptir við orkunýtingu framtíðar að stjórnvöld hafi sýn á það hvernig eigi að nýta orkuna. Ný ríkisstjórn leggur áherslu á miðhálendisþjóðgarð og friðlýsingar þeirra svæða sem þegar hefur verið skipað í verndarflokk rammaáætlunar. Við erum á leið inn í nýja tíma í umhverfis- og náttúruverndarmálum þar sem ótrúlegar breytingar hafa orðið til góðs í viðhorfum manna á undanförnum áratug.
IV. Góðir landsmenn.
Gerður Kristný orti svo um kinnhestinn sem Gunnar rak Hallgerði:
Þögnin svo römm
að hún umlukti
allar sem á eftir komu
Þær sem reyndu að
rjúfa hana
fundu vangann
loga af skömm
Bylting kvenna á samfélagsmiðlum undanfarin misseri rýfur aldalanga þögn. Þar erum við hvergi nærri komin á endastöð. Langtímaverkefnið snýst um að breyta viðteknum skoðunum sem viðhaldið hafa lakari stöðu kvenna um aldir. Eitt kjörtímabil mun einungis vera eitt örstutt spor í þeirri vegferð.
Bráðaverkefnið verður aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota þar sem styrktir verða innviðir réttarvörslukerfisins og jafnframt verður lagaumhverfi kynferðisbrota rýnt með það að markmiði að styrkja stöðu kærenda. Lögð verður áhersla á fræðslu og forvarnir og bættar aðstæður til að styðja brotaþola um land allt innan heilbrigðiskerfisins.
En jafnrétti snýst um margt fleira. Sáttmáli ríkisstjórnarinnar leggur ríka áherslu á jöfn tækifæri – Ísland á að vera land tækifæranna fyrir alla. Það kallar á margvíslegar aðgerðir sem lúta að því að berjast gegn launamun kynjanna, gera betur í málefnum hinsegin fólks, tryggja samfélagslega þátttöku allra og að efnahagur, búseta, aldur eða fötlun hindri fólk ekki að nýta þau tækifæri sem íslenskt samfélag hefur upp á að bjóða.
Síðast en ekki síst snýst jafnrétti um jöfn tækifæri ólíkra stétta. Þar verður ekki hjá því komist að endurskoða samfélagskerfið. Margir hafa bent á að langt sé á milli þeirra flokka sem skipa ríkisstjórnina í þeim efnum, ekki síst þegar kemur að jöfnunarhlutverki skattkerfisins. En þær skattabreytingar sem lagðar eru til í upphafi kjörtímabils miða að því að gera skattkerfið réttlátara óháð uppruna tekna. Áhersla ríkisstjórnarinnar á að byggja upp samfélagslega innviði þjónar því markmiði að jafna kjör og aðstæður þeirra sem hér búa. Þá ætlar ríkisstjórnin einnig að taka málefni tekjulægstu hópanna föstum tökum, gera úttekt á stöðu þeirra og vinna að því að bæta hana, ekki síst þeirra barna sem búa við fátækt. Fátækt á einfaldlega ekki að vera til staðar í jafn ríku samfélagi og við eigum hér saman.
V.
Góðir landsmenn. Kjarninn í sterku samfélagi eru hinir samfélagslegu innviðir:
- heilbrigðisþjónusta, velferðarþjónusta, löggæsla og húsnæðismál sem veita öryggi og skjól,
- menntun, vísindi, menning, skapandi greinar og íþróttir sem auðga andann og byggja okkur upp og
- samgöngur, fjarskipti og byggðamál sem styrkja stoðir blómlegra byggða.
Á öllum þessum sviðum mun ríkisstjórnin kappkosta að skila betra búi en hún tók við.
Heilbrigðismál eru þjóðinni sérstaklega hugleikin. Það er eðlileg krafa að íslenska heilbrigðiskerfið standist samanburð við það sem besta sem gerist í heiminum. Allir landsmenn eiga að fá notið góðrar þjónustu, óháð efnahag og búsetu. Ríkisstjórnin mun leggja áhersla á að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga, bæta geðheilbrigðisþjónustu og forvarnir og byggja upp hjúkrunarrými. Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er lögð sérstök áhersla á heilbrigðisþjónustu en nánari uppbygging hennar á kjörtímabilinu mun koma fram í fjármálaáætlun sem lögð verður fyrir Alþingi í lok mars á næsta ári.
Í menntamálum verður ráðist í stórsókn. Sem dæmi um aðgerðir á kjörtímabilinu þá munu fjárframlög til háskóla ná meðaltali OECD-ríkjanna árið 2020 og stefnt verður á að þau nái meðaltali Norðurlanda fyrir árið 2025. Iðnnám, verk- og starfsnám verður eflt og rekstur framhaldsskólanna styrktur í takt við það sem þeim var lofað í fjármálaáætlun þar síðustu ríkisstjórnar. Aðgerðaáætlun um máltækni verður fjármögnuð þannig að íslenska verði gjaldgeng í stafrænum heimi en þar erum við í kapphlaupi við tímann enda hafa tækniframfarir verið hraðar.
VI.
Efnahagslegur styrkur hlýtur ávallt að fara saman við félagslegan stöðugleika, velsæld og lífsgæði. Ábyrg stjórn efnahagsmála er þannig lykilþáttur í að tryggja sjálfbært samfélag þar sem efnahagslíf, samfélagsþróun og umhverfismál eru í jafnvægi en það jafnvægi hefur oft verið vandfundið hér á landi. Þó að fólkið í landinu hafi á undanförnum misserum notið aukins kaupmáttar, sterkara gengis og lágrar verðbólgu þá finna útflutningsfyrirtæki fyrir lakari samkeppnisstöðu vegna launakostnaðar og gengisþróunar. Mikilvægt er til lengri tíma að treysta undirstöður í ríkisfjármálum, meðal annars með stofnun Þjóðarsjóðs um arðinn af orkuauðlindum.
Þróttmikið efnahagslíf byggist á fjölbreyttu atvinnulífi þar sem áhersla er lögð á aukna þekkingu og verðmætasköpun og sjálfbæra þróun. Undirstöðurnar þurfa að vera traustar; sjálfbær sjávarútvegur og ferðaþjónusta, umhverfisvænn landbúnaður, traust og heilbrigt fjármálakerfi og öflugt rannsókna- og nýsköpunarstarf. Þróttmikið efnahagslíf er nauðsynlegt til að samfélagið geti búið sig undir að mæta þeim áskorunum og nýta þau tækifæri sem felast í sífellt örari tæknibreytingum en í framtíðinni mun velmegun á Íslandi þurfa að grundvallast á hugviti, sköpun og þekkingu.
Ég hef nú á fyrstu dögum mínum sem forsætisráðherra hitt forystumenn heildarsamtaka á vinnumarkaði en farsælt samstarf stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins er forsenda þess að byggja hér upp félagslegan og efnahagslegan stöðugleika. Komandi kjarasamningar munu ráða miklu um efnahagslega þróun komandi missera og ára en þar leggja stjórnvöld áherslu á að til að tryggja megi efnahagslegan stöðugleika sé um leið mikilvægt að treysta hinar félagslegu stoðir og vinna með sem flestum að ábyrgum vinnumarkaði. Meðal annars þarf að endurskoða húsnæðisstuðning hins opinbera, stefna að því að lengja fæðingarorlof og hækka greiðslur og miða að því að lækka lægra þrep tekjuskatts einstaklinga.
Ég legg áherslu á að unnið verði hratt að því í samstarfi við heildarsamtök örorkulífeyrisþega að endurskoða þann hluta almannatryggingakerfisins sem lýtur að þeim til að tryggja mannsæmandi kjör og hvetja til samfélagsþátttöku öryrkja. Frítekjumark vegna atvinnutekna aldraðra verður hækkað strax á næsta ári sem var ein af lykilkröfum aldraðra fyrir kosningar og dregið úr kostnaði aldraðra og örorkulífeyrisþega við tannlækningar strax á næsta ári.
VII.
Í alþjóðamálum eru blikur á lofti. Það var dapurlegt að sjá forseta Bandaríkjanna lýsa því yfir að Bandaríkin teldu Jerúsalem nú höfuðborg Ísraels sem mun gera það enn erfiðara að koma á friði á þessu svæði. Íslensk stjórnvöld munu áfram tala fyrir friðsamlegum lausnum í deilu Palestínumanna og Ísraela. Þar erum við sammála nágrannaþjóðum okkar. Við Íslendingar eigum að gera hvað við getum til að láta gott af okkur leiða á alþjóðavettvangi sem herlaus þjóð og málflytjendur friðsamlegra lausna. Ríkisstjórnin ætlar að gera betur í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og móttöku flóttamanna sem hvort tveggja skiptir máli í hinu stóra samhengi.
VIII.
Góðir landsmenn. Þó að ég hafi í kvöld einbeitt mér að því sem má gera betur í samfélagi okkar er margt sem gengur okkur í haginn. Í augum alþjóðasamfélagsins erum við fyrirmyndarþjóðfélag að ýmsu leyti. Og við eigum að gleðjast yfir því sem vel gengur. Hugur þjóðarinnar verður í Rússlandi næsta sumar þegar íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu etur kappi við önnur bestu lið heims en aldrei hefur fámennari þjóð átt lið á HM karla í knattspyrnu. Og hver veit nema kvennalandsliðinu takist slíkt hið sama á HM í Frakklandi 2019.
Hver hefði átt von á því fyrir tíu árum? Ef það er eitthvað sem ég hef lært á þeim áratug sem ég hef setið hér á Alþingi þá er það að maður veit sjaldnast hvað gerist næst. Oft höfum við Íslendingar orðið fyrir óvæntum búsifjum sem við höfum jafnan unnið okkur upp úr. Hitt veit ég að ef framtíðarsýnin er skýr og allir leggjast á eitt eru meiri möguleikar en minni á að ná góðum árangri. Ég el þá von í brjósti að í lok þessa kjörtímabils höfum við með verkum okkar allra aukið traust á stofnunum samfélagsins, ekki síst Alþingi Íslendinga, og þar mun skipta mestu að við náum að vinna betur saman að farsæld fjöldans.
Við Íslendingar munum fagna 100 ára fullveldi á næsta ári og þeim stórkostlegu framförum sem Íslendingar hafa náð á aðeins einni öld. Það er ótrúlegt að kynna sér sögu fullveldisins þegar hugsað er til þess að hún hefur ekki varað lengur en einn mannsaldur. Einn okkar landsmanna sem hefur lifað allan fullveldistímann, Stefán Þorleifsson, 101 árs, var sá sem ók fyrstur í gegnum Norðfjarðargöngin þegar þau voru vígð fyrir skömmu. Við það tækifæri sagði Stefán meðal annars: „Að hugsa um framtíðina, það eiga allir að gera. Það er skylda hvers manns. Að reyna að skilja þannig við þjóðfélagið að það sé gott fyrir þá sem taka við.“ Höfum þessi orð í huga, nú þegar við hefjum störf okkar á nýju kjörtímabili.
Góðar stundir og gleðileg jól.